Hoppa yfir valmynd
30. desember 1998 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3c/1998

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 3c/1998

 

Skipting akstursgreiðslna eftir kyni

innan Seðlabanka Íslands

-------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 30. desember 1998 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 12. febrúar 1998 óskaði þingflokkur jafnaðarmanna eftir því við Skrifstofu jafnréttismála að jafnréttisráð og eftir atvikum kærunefnd jafnréttismála tæki til skoðunar hvort þær upplýsingar sem fram hefðu komið í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi, sbr. þingskjal nr. 765, um greiðslur fyrir afnot af bifreiðum starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands, bentu til brota á jafnréttislögum nr. 28/1991. Jafnframt var óskað eftir því að kannað yrði hvernig kynin röðuðust í stöður innan bankakerfisins.

Með bréfi mótteknu 12. febrúar sl. barst Skrifstofu jafnréttismála erindi frá Sambandi íslenskra bankamanna þar sem óskað var eftir því að kannað yrði hvort kynjum væri mismunað hjá bönkunum þremur.

Á fundi 18. febrúar 1998 ákvað jafnréttisráð að senda erindin áfram til kærunefndar jafnréttismála. Kærunefnd fjallaði um þau 11. mars sl. og ákvað með vísan til 2. mgr. 19. gr. jafnréttislaga að kanna skiptingu akstursgreiðslna milli kynja í sambærilegum störfum hjá bönkunum þremur.

Með bréfi dags. 16. mars 1998 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands um:

Skipurit bankans þar sem fram kæmi fjöldi starfsmanna í hverjum flokki skipuritsins, sundurgreint eftir kyni.

Starfslýsingar þeirra starfa, sem tilheyri hverju starfsheiti sem fram kemur í skipuriti.

Reglur um ákvörðun akstursgreiðslna, þ.e. hvort og hvernig slíkar greiðslur séu inntar af hendi til einstakra starfsmanna. Sérstaklega var óskað upplýsinga um hvort til væru innan bankans skriflegar reglur um ákvörðun akstursgreiðslna.

Allar greiðslur vegna bifreiðakostnaðar starfsmanna á árunum 1996 og 1997, flokkaðar eftir störfum skv. skipuriti þar sem fram kæmi hlutur hvors kyns.

Seðlabankinn svaraði með bréfum dags. 4. maí og 10. júní. Í framhaldi af þeim óskaði kærunefnd með bréfi dags. 16. september sl. ítarlegra skýringa á þeim mun sem væri milli kynja annars vegar í hópi deildarstjóra og hins vegar í hópi sérfræðinga. Bankinn svaraði þessari fyrirspurn með bréfi dags. 29. september.

Í svari Seðlabankans kemur fram eftirfarandi skipting starfsmanna innan bankans eftir stöðum og kyni í árslok 1997:

TAFLA I. Skipting starfsmanna Seðlabanka Íslands eftir stöðum og kyni í árslok 1997

Stöðuheiti Konur  Konur Karlar Karlar Alls
  fjöldi hlutfall fjöldi hlutfall  
Bankastj. 0 0% 3,0 100% 3,0
Aðstbankastj. 0 0% 1,0 100% 1,0
Framkvstj. 0 0% 10,0 100% 10,0
Forstöðum. 0 0% 6,0 100% 6,0
Deildarstj. 5,0 13% 17,0 77% 22,0
Sérfræð. 7,7 29% 18,5 71% 26,2
Aðrir 41,0 64% 22,8 36% 63,8
Samtals 53,7   78,3   126,6

Í ofangreindri töflu kemur skýrt fram veruleg fylgni milli kyns og stöðu. Konur er ekki að finna meðal æðstu stjórnenda bankans en eftir því sem neðar dregur fjölgar þeim og þær eru t.d. 64% starfsmanna í flokknum "aðrir".

Í svari bankans við spurningum um bifreiðastyrki kemur fram að greiðslur þeirra séu bundnar við efstu flokka launastigans þar sem ákveðinn kílómetrafjöldi tilheyri hverjum launaflokki og ekki sé ætlast til að greitt sé sérstaklega vegna aksturs eða leigubíla á vinnutíma á höfuðborgarsvæðinu. Akstursgjald sé samkvæmt ákvörðun "endurskoðunarnefndar" á vegum SÍB og bankanna.

Bifreiðastyrkir 1997.

Heildargreiðslur til kvenna í Seðlabankanum árið 1997 voru 2.072.000 krónur, sem skiptust á milli 9,1 stöðugildis kvenna. Að meðaltali voru þessum konum því greiddar 227.692 krónur á árinu 1997. Heildargreiðslur til karla í Seðlabankanum árið 1997 voru 14.792.000 krónur, sem skiptust á milli 49,8 stöðugilda karla. Að meðaltali voru þessum körlum því greiddar 297.028 krónur á árinu 1997. Greiðslur til kvenna, sem fengu bifreiðastyrk, voru þannig að meðaltali 77% af greiðslum til karla, sem fengu greiddan bifreiðastyrk. Eins og síðar verður vikið að eru tölur þessar aðeins að litlu leyti samanburðarhæfar.

Af 77,2 stöðugildum karla í Seðlabankanum fengu 49,8 greidda bifreiðastyrki eða 65%. Af 53,3 stöðugildum kvenna í bankanum fengu 9,1 greidda bifreiðastyrki eða 17%, sem að miklu leyti skýrist af því, sem áður er fram komið, að karlar raðast í hærri stöður innan bankans en konur.

TAFLA II. Skipting bifreiðastyrkja 1997. Allir starfsmenn.

Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall meðalbifreiðastyrks kvenna af meðalbifreiðastyrk karla á árinu 1997 í einstökum flokkum. Útreikningur miðast við meðalgreiðslur til allra starfsmanna í neðangreindum flokkum bæði þeirra, sem fengu bifreiðastyrk á árinu 1997, og hinna, sem ekki fengu slíkar greiðslur.

Stöðuheiti Heildarfjöldi Heildarfjöldi Hlutfall 
  stöðugilda stöðugilda bifr.styrks
  kvenna karla kvenna af 
      bifr.styrk karla
Aðstoðarbankastjóri 0,0 1,0  
Framkvæmdastjóri 0,0 10,0  
Forstöðumaður 0,0 6,5  
Deildarstjóri 5,0 17,4 67%
Sérfræðingur 7,3 18,5 79%
Aðrir 41,0 23,8 0%
Samtals 53,3 77,2 20%

 

TAFLA III. Skipting bifreiðastyrkja 1997. Starfsmenn sem fengu bifreiðastyrk.

Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall meðalbifreiðastyrks kvenna af meðalbifreiðastyrk karla á árinu 1997 í einstökum flokkum. Taflan tekur eingöngu til þeirra sem fengu greiddan bifreiðastyrk á árinu 1997.

Stöðuheiti Heildarfjöldi Heildarfjöldi Hlutfall 
  stöðugilda stöðugilda bifr.styrks
  kvenna með karla með kvenna af 
  bifreiðastyrk bifreiðastyrk bifr.styrk karla
Aðstoðarbankastjóri 0,0 1,0  
Framkvæmdastjóri 0,0 9,0  
Forstöðumaður 0,0 6,5  
Deildarstjóri 3,7 17,4 89%
Sérfræðingur 5,4 13,4 79%
Aðrir 0,0 2,5  
Samtals 9,1 49,8 81%

 

Bifreiðastyrkir 1996.

Heildargreiðslur til kvenna í Seðlabankanum árið 1996 voru 1.472.000 krónur, sem skiptust á milli 6 stöðugilda kvenna. Að meðaltali voru þessum konum því greiddar 245.333 krónur á árinu 1996. Heildargreiðslur til karla í Seðlabankanum árið 1996 voru 19.599.000 krónur, sem skiptust á milli 52 stöðugilda karla. Að meðaltali voru þessum körlum því greiddar 376.903 krónur á árinu. Greiðslur til kvenna, sem fengu bifreiðastyrk, voru þannig að meðaltali 65% af greiðslum til karla sem fengu greiddan bifreiðastyrk. Eins og síðar verður vikið að eru tölur þessar aðeins að litlu leyti samanburðarhæfar.

Af 79,8 stöðugildum karla í Seðlabankanum fengu 52 greidda bifreiðastyrki eða 65%. Af 51,3 stöðugildum kvenna í bankanum fengu 6 greidda bifreiðastyrki eða 11%, sem að miklu leyti skýrist af því, sem áður er fram komið, að karlar raðast í hærri stöður innan bankans en konur.

TAFLA IV. Skipting bifreiðastyrkja 1996. Allir starfsmenn.

Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall meðalbifreiðastyrks kvenna af meðalbifreiðastyrk karla á árinu 1996 í einstökum flokkum. Útreikningur miðast við meðalgreiðslur til allra starfsmanna í neðangreindum flokkum, bæði þeirra sem fengu bifreiðastyrk á árinu 1996 og hinna, sem ekki fengu slíkar greiðslur.

Stöðuheiti Heildarfjöldi Heildarfjöldi Hlutfall 
  stöðugilda stöðugilda bifr.styrks
  kvenna karla kvenna af 
      bifr.styrk karla
Aðstoðarbankastjóri 0,0 1,0  
Framkvæmdastjóri 0,0 10,0  
Forstöðumaður 0,0 7,5  
Deildarstjóri 3,0 19,7 92%
Sérfræðingur 6,8 22,0 59%
Aðrir 41,5 23,8 0%
Samtals 51,3 84,0 12%

 

TAFLA V. Skipting bifreiðastyrkja 1996. Starfsmenn sem fengu bifreiðastyrk.

Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall meðalbifreiðastyrks kvenna af meðalbifreiðastyrk karla á árinu 1996 í einstökum flokkum. Taflan tekur eingöngu til þeirra sem fengu greiddan bifreiðastyrk á árinu 1996.

Stöðuheiti Heildarfjöldi Heildarfjöldi Hlutfall 
  stöðugilda stöðugilda bifr.styrks
  kvenna með karla með kvenna af 
  bifreiðastyrk bifreiðastyrk bifr.styrk karla
Aðstoðarbankastjóri 0,0 1,0  
Framkvæmdastjóri 0,0 9,0  
Forstöðumaður 0,0 7,5  
Deildarstjóri 3,0 19,7 92%
Sérfræðingur 3,0 12,8 79%
Aðrir 0,0 2,0  
Samtals 6,0 53,0 85%

Í ofangreindum töflum kemur fram að meðalbifreiðastyrkir til karla eru í öllum tilvikum hærri en til kvenna.

Í svari Seðlabankans kemur fram að engar skriflegar reglur séu til um greiðslu fastra bifreiðastyrkja heldur tilheyri ákveðinn kílómetrafjöldi efstu flokkum launastigans samkvæmt ákvörðun bankastjórnar og ráði kynferði starfsmanna þar engu um. Sá munur, sem sé á greiðslum til kynjanna, stafi af því að konur innan bankans hafi styttri starfsaldur en karlar. Meðalstarfsaldur karla í hópi sérfræðinga sé nú tæp 16 ár en kvenna um 10 ár. Á launaskrá, sem tekið hafi gildi 1. janúar 1998, hafi munur á heildargreiðslu bifreiðstyrks til karla og kvenna í sérfræðingsstöðum verið 5,9%.

 

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Við skoðun á hlutfalli kynjanna í stöðum innan Seðlabanka Íslands kemur fram skýr skipting. Æðstu stjórnendur bankans eru allir karlar. Þegar neðar dregur eykst hlutfall kvenna. Eins og málið er lagt fyrir hefur kærunefnd ekki forsendur til að meta hvort sá munur, sem almennt er á hlutfalli kynjanna í stöðum innan bankans, fari í bága við jafnréttislög. Í ljósi þess hversu sláandi munur á stöðu kynjanna er, telur nefndin engu að síður rétt að vekja athygli bankans sérstaklega á þeirri skyldu atvinnurekenda, að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Í 4. gr. jafnréttislaga segir m.a. að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Þar er kveðið á um að með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur sé með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti og sagt, að með kjörum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns aðra þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Framangreind ákvæði eru í samræmi við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Á grundvelli laga nr. 2/1993 er Ísland aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga ber að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggjast. Samkvæmt 69. gr. samningsins skulu aðildarríkin tryggja að konur og karlar hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu en með launum í þessum skilningi er átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa sinna. Framangreind ákvæði jafnréttislaga eru í meginatriðum hin sömu og kveðið er á um í 69. gr. EES-samningsins og XVIII. viðauka hans um jafnrétti kynjanna og vinnurétt.

Það er álit kærunefndar að ein grundvallarforsenda launajafnréttis sé að launakerfi séu gagnsæ. Í því felst að starfsmenn þurfa að vita hvað liggur til grundvallar launa-ákvörðunum eða hefur áhrif á kjör þeirra.

Í máli þessu er aðallega til skoðunar hvort munur á föstum bifreiðastyrkjum eftir kyni innan Seðlabanka Íslands teljist brjóta gegn ákvæðum jafnréttislaga. Fyrir liggur í málinu að meðalgreiðslur til karla eru hærri en til kvenna. Meginskýringin á því er að karlar eru að jafnaði í hærri stöðum innan bankans en konur. Hér er því að hluta til um afleiddan mismun að ræða. Það skýrir þó ekki mun á greiðslum til kynjanna í einstökum flokkum.

Bankinn hefur gefið þær skýringar að mismunandi greiðslur stafi fyrst og fremst af mismunandi starfsaldri kynjanna. Fjárhæð bifreiðastyrks sé bundin launaflokki- og þrepi hvers og eins starfsmanns og konur hafi að meðaltali þó nokkuð styttri starfsaldur hjá bankanum en karlar. Þessar skýringar þykja hafa stoð í gögnum málsins.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og skýringum bankans þykir munur á fjárhæð bifreiðastyrkja eftir kyni ekki brjóta í bága við jafnréttislög.

 

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira