Hoppa yfir valmynd
19. júní 1998 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/1997

Álit kærunefndar jafnréttismála
nr. 9/1997

A o.fl.
gegn
Hampiðjunni hf.

-----------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 19. júní 1998 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 15. ágúst 1997 óskaði A fyrir sína hönd og sex annarra verkakvenna hjá kaðladeild Hampiðjunnar hf., eftir áliti kærunefndar jafnréttismála á því hvort kjör þeirra brytu gegn ákvæði 4. og 6. gr. jafnréttislaga. Konurnar eru ... Með bréfi dags. 20. ágúst s.á. gerðust þær B, C og D aðilar að kærunni.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram í málinu:
1. Erindi kærenda dags. 15. og 20. ágúst 1997 ásamt afriti af launaseðli A og karlkyns samstarfsmanns.
2. Greinargerð Hjartar Erlendssonar, framleiðslustjóra Hampiðjunnar hf., dags. 30. október 1997, ásamt yfirliti yfir launakjör starfsmanna kaðladeildar fyrirtækisins.
3. Bréf A f.h. kærenda dags. 25. nóvember 1997.
4. Umsögn Alþýðusambands Íslands, dags. 5. febrúar 1998, ásamt kjarasamningi milli Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands Íslands og Iðju, félags verksmiðjufólks frá 9. mars 1997 og leiðbeiningum um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna, samþykktar af Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna 29. janúar 1972.
5. Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands, dags. 18. febrúar 1998.
6. Greinargerð Atla Gíslasonar, hrl., lögmanns kæranda, dags. 12. maí 1998, ásamt afriti af uppsagnarbréfi A , dags. 12. febrúar 1996 og meðmæli verkstjóra Hampiðjunnar hf. dags. 19. ágúst 1997.
7. Bréf Hjartar Erlendssonar, framleiðslustjóra Hampiðjunnar hf., dags. 29. maí 1998, ásamt yfirlýsingu frá verkstjóra hjá Hampiðjunni hf. dags. 28. maí 1998.

Á fund kærunefndar jafnréttismála 19. mars 1998 mættu A, B, E og F ásamt Atla Gíslasyni, hrl. Fulltrúi kærða, Hjörtur Erlendsson, framleiðslustjóri, mætti á fund nefndarinnar 26. mars 1998.

Kærunefnd jafnréttismála kynnti sér aðstæður í kaðladeild Hampiðjunnar hf. 31. mars 1998 ásamt framangreindum fulltrúum málsaðila, auk Hrafnhildar Stefánsdóttur, lögfræðingi hjá Vinnuveitendasambandi Íslands.

MÁLAVEXTIR

Kærendur málsins starfa sem verkakonur í kaðladeild Hampiðjunnar hf. Í deildinni starfa níu verkakonur og átján verkakarlar. Ein þeirra, A, lét af störfum í ágúst 1997. Starfið í kaðladeild felst fyrst og fremst í vinnu við spunavélar þar sem tveir eða fleiri þræðir eru snúnir saman og við framleiðslu á sverari, fléttuðum og snúnum köðlum. Öll störfin fela í sér vinnu við framleiðsluvélar eða pökkun. Samkvæmt kjarasamningi fá starfsmenn þrenns konar aukagreiðslur ofan á grunnkaup, vaktaálag, sem er 20% fyrir tvískiptar vaktir, 30% fyrir kvöldvaktir og 40% fyrir næturvaktir, bónus vegna mætingar sem lækkar og hverfur við þriðja fjarvistardag og óhreinindaálag fyrir vinnu við tjörulitun.

Eftir að nýir kjarasamningar lágu fyrir í mars 1997, ákvað Hampiðjan hf. að endurraða starfsmönnum kaðladeildar til launa. Fyrirsvarsmenn Hampiðjunnar hf. telja skýra verkaskiptingu hafi legið fyrir milli starfsmanna og störfum hafi þá þegar verið skipt í almenn og sérhæfð störf. Engin breyting hafi orðið þar á. fiessi skipting hafi verið þekkt meðal starfsmanna. Undir almenn störf heyri starf við spunavélar, línuásetningu, vinna við svokallaða "tvistera" og við minni og meðalstórar "fléttivélar". Sérhæfð störf séu hins vegar störf við vefstól, stórar "fléttivélar", minni og stærri kaðlavélar, blývél og pökkun. Ákveðið hafi verið að greiða fyrir almenn störf í kaðladeild samkvæmt launaflokki 55 en fyrir sérhæfð störf samkvæmt launaflokki 65 til 75. Ágreiningur er með málsaðilum um það hversu skýr verkaskipting sé milli starfsmanna. fiá fullyrða kærendur að þeim hafi ekki verið kunnugt um að störfin í kaðladeild skiptust í almenn og sérhæfð störf.

Samkvæmt launayfirliti sem fyrirsvarsmenn Hampiðjunnar hf. hafa lagt fram, taka tíu starfsmenn laun sem sérhæfðir starfsmenn, allt karlar. Fjórtán starfsmenn taka laun sem almennir starfsmenn, fimm karlar og níu konur.

SJÓNARMIÐ KÆRENDA

Af hálfu kærenda er á því byggt að starfsmenn kaðladeildar vinni allir sambærileg störf. Í kjölfar kjarasamninganna í mars 1997 hafi atvinnurekandi einhliða endurraðað með skipulegum hætti starfsmönnum til launa og yfirborgað fyrir svonefnd sérhæfð störf. Flokkun starfa í svokölluð almenn og sérhæfð störf sé sögð byggjast á því við hvaða vélar starfmenn vinni. Því er mótmælt að mismunandi vélar gefi tilefni til að flokka störfin í almenn og sérhæfð störf. Minni vélar kalli ekki á minni athygli, nákvæmni eða verklagni. fiær vinni hraðar og meiri hætta sé á að þræðir flækist. Þá liggi fyrir að þeir sem sagðir eru vinna sérhæfð störf, starfi oft við vélar sem heyri til almennra starfa en haldi sínum yfirborgunum. Á hinn bóginn hafi konum sem vinna almenn störf, verið falin störf á vélum sem tilheyra sérhæfðum störfum án þess að fá sérstaklega greitt fyrir þá vinnu. Starfsmönnum hafi ekki verið kynnt þessi skipting starfanna og konurnar hafi ekki vitað að tiltekin störf væru hærra launuð. Vorið 1997 hafi þær uppgötvað að flestir karlanna hefðu fengið meiri launahækkun en þær. Einhverjar þeirra hafi sótt um að fá launahækkun en verið synjað. fiá er bent á að enginn munur sé á þjálfunartíma starfsmanna vegna almennra og sérhæfðra starfa. Nýir starfsmenn læri fyrst á minni vélar og taki sú þjálfun allt að fjórum dögum en þjálfun á stærri vélar taki um fimm daga. fiannig hafi ekki verið sýnt fram á að sérhæfðari störfin séu flóknari, mikilvægari eða verðmætari en almennu störfin.

Verði atvinnurekanda talið heimilt að flokka störf einhliða með þessum hætti, liggi fyrir að einungis körlum sé gefinn kostur á að starfa við hin svokölluðu sérhæfðu störf og taka laun í samræmi við það. Sérhæfðu störfin hafi hvorki verið auglýst laus til umsóknar með formlegum hætti né staðið konum til boða. Í bréfi Hampiðjunnar hf. dags. 30. október 1997 komi fram að við val á starfsmönnum í sérhæfð störf sé horft til dugnaðar, mætinga, verklags, lærdómsgetu, samstarfshæfileika og metnaðar. Sá starfsmaður sem hafi þessa hæfileika í ríkum mæli sé hækkaður hraðar í launaþrepum án tillits til starfsaldurs. Líkamsburðir séu ekki aðalatriði þar sem til staðar séu tæki til að lyfta þungum hlutum. Það sem mestu skipti í hinum sérhæfðu störfum sé verkskipulagning og athygli. Ekkert liggi fyrir um það að konurnar í almennu störfunum hafi ekki nefnda eiginleika. Með því að velja einvörðungu karla til sérhæfðra starfa, sé konunum mismunað og beri Hampiðjan hf. sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.


Í lok greinargerðar lögmanns kærenda dags. 12. maí 1998 segir jafnframt:

"Að lokum vil ég minna á markmið laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lögunum er ætlað að bæta stöðu kvenna. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt störf. Hampiðjan hefur þá lagaskyldu að vinna sérstaklega að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Skipting í sérhæfð og almenn störf og val starfsmanna þessara starfa gengur þvert gegn þeirri lagaskyldu. Hampiðjan hefur með því að ráða einvörðungu karlmenn til svonefndra sérhæfðra starfa mismunað starfsfólki. Staðreyndin er sú að konur hafa ekki átt kost á stöðuhækkun eða stöðubreytingu og þar með sambærilegum launum. Sérhæfðu störfin hafa einfaldlega ekki staðið starfskonum Hampiðjunnar í kaðladeild til boða. Þannig hafa nefnd lög verið þverbrotin. Tilgangi jafnréttislaga verður ekki náð ef fyrirtæki og stofnanir komast upp með slíka háttsemi."

SJÓNARMIÐ KÆRÐA

Af hálfu kærða er því mótmælt að starfsmenn kaðladeildar vinni allir sambærileg störf. Starfsmönnum sé skipt í tvo hópa eftir verkkunnáttu og ábyrgð. Framleiðsluferlinu megi skipta mjög gróflega í tvö framleiðsluþrep. Vinnuferlið sé einfalt í byrjun en verði flóknara eftir því sem nær dragi fullbúinni afurð. Á grundvelli þess sé störfunum skipt í almenn og sérhæfð störf og ráðist launakjör starfsmanna af því hvorum flokknum þeir tilheyri. Það sé almenn vitneskja innan deildarinnar að þeir starfsmenn sem vinni sérhæfð störf fái hærri laun. Það að starfsmenn sem gegna sérhæðum störfum, gangi í almenn störf þegar verkefnaskortur sé á þeirra verksviði, breyti engu um þessa skiptingu. Hjá slíku verði ekki komist þar sem verkefnastaða fyrirtækisins sé síbreytileg. Fyrir komi að ekki séu verkefni fyrir þær vélar sem krefjist sérhæfingar en stundum hafi þær ekki undan. Leiðin til launahækkana sé því að komast í sérhæfðu störfin.

Eftir að kjarasamningar lágu fyrir á fyrri hluta ársins 1997, hafi verið tekin ákvörðun um að endurraða starfsmönnum til launa. Ástæðan hafi verið sú að með nýjum kjarasamningi hafi dregið verulega saman með þeim sem unnu almenn störf og hinum sem unnu sérhæfð störf. Með endurröðuninni hafi því verið tekið sérstakt tillit til starfsmanna í sérhæfðum störfum. Engar breytingar hafi hins vegar verið gerðar á starfssviði starfsmannanna.

Launastefna fyrirtækisins sé sú að nýir starfsmenn séu að jafnaði ráðnir á tiltölulega lágum launataxta en laun endurskoðuð í ljósi þess hvernig starfsmaður stendur sig. Við mat á hæfni starfsmanna sé tillit tekið til dugnaðar, mætinga, verkvilja, verklagni, lærdómsgetu, samstarfshæfileika og metnaðar. Starfsmaður, sem hafi þessa eiginleika í ríkum mæli, hækki hraðar í launaþrepum og án tillits til ákvæða kjarasamnings um starfsaldurshækkanir. fiá sé röng sú fullyrðing kærenda að þjálfunartími fyrir almenn og sérhæfð störf sé svipaður. Einungis þeir starfsmenn sem standi sig vel á þeim vélum sem falli undir almenn störf, séu þjálfaðir til starfa á flóknari vélar.

Staðreynd sé að konur hafi hvorki sótt í sérhæfð störf hjá fyrirtækinu né valist til þeirra í sama mæli og karlar. Einungis karlar gegni nú sérhæfðum störfum en ein kona sé fjarverandi vegna veikinda. Ástæður þess að karlmenn hafi aðallega valist í hóp hinna sérhæfðu starfsmanna séu tengdar persónulegum eiginleikum en að sjálfsögðu ekki kynferði. fiá beri og að hafa í huga að fleiri karlar starfi hjá fyrirtækinu en konur og fleiri karlar sæki um laus störf.

Í bréfi kærða dags. 31. maí 1998 segir síðan:

"Það að konum hafi ekki staðið til boða að vinna sérhæð störf til jafns við karla er ekki rétt. Skortur hefur verið á fólki sem getur unnið þau störf í kaðladeildinni og hefur oftar en ekki verið farið skipulega yfir þá starfsmenn sem vinna almenn störf til að athuga hvort ekki sé möguleiki á að fela einhverjum flóknari störf. ... Það er því af óviðráðanlegum ástæðum að meirhluti sérhæfðra starfsmanna er karlmenn en alls ekki afstaða yfirmanna sem því ræður."

UMSAGNIR ASÍ OG VSÍ

Með bréfum dags. 9. janúar 1998 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir umsögnum Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, sbr. 1. mgr. 19. gr. jafnréttislaga.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands dags. 5. febrúar 1998 er vísað til þess að í kjarasamningi Iðju, sem eigi við í þessu máli, sé ekki gert ráð fyrir að störfum sé skipt upp í tvær deildir eða tvö þrep. Það hafi Hampiðjan hf. hins vegar gert og láti í veðri vaka að um hlutlægt og formlegt kerfi sé að ræða. Hér sé um dæmigert kjarasamningsefni að ræða. Bent er á að fyrirtækinu bæri skylda til að standa að gerð formlegs samkomulags ef um afkastahvetjandi, framleiðniaukandi eða premíukerfi væri að ræða. Hafi ætlun Hampiðjunnar hf. verið að smíða formlegt launakerfi sem tæki sérstakt tillit til hæfni og reynslu starfsfólks, hefði fyrirtækinu verið í lófa lagið að leita eftir viðræðum um slíkt í fyrirtækjaþætti kjarasamningsins. Það sé afstaða Alþýðusambandsins að ef eigi að skipta starfsfólki í hópa eftir hæfni og launa misjafnlega, verði slíkt kerfi að vera þekkt innan fyrirtækisins til þess að starfsmenn geti áttað sig á og hagað sér samkvæmt því. Þessu skilyrði virðist ekki fullnægt og telur Alþýðusambandið að í því felist brot á kjarasamningi og almennri jafnræðisreglu. Í umsögninni er sérstaklega tekið fram að furðu veki að einungis karlar komist í hóp hinna hæfari. Sú niðurstaða sé í engu samræmi við þá almenna reynslu sem sé af slíkri skiptingu á öðrum sviðum vinnumarkaðarins.

Í umsögn Vinnuveitendasambandsins dags. 18. febrúar 1998 er áhersla lögð á að í svari fyrirtækisins komi fram að í meginatriðum sé um tvo hópa starfsmanna að ræða og ráðist skiptingin af verkkunnáttu og ábyrgð. Almennir starfsmenn séu fjórtán, átta konur og sex karlar og enginn munur sé á launum þeirra. Framleiðsla á seinna framleiðslustigi sé flóknari, krefjist meiri þjálfunar og líkamlegrar áreynslu auk þess sem starfsmenn verði að geta sinnt vélum sem séu stærri og flóknari. Í þessum flokki séu einungis karlar en konur hafi ekki verið áhugasamar um að komast í þau störf. Í svari fyrirtækisins komi fram að á síðastliðnu ári hafi verið tekin ákvörðun um að endurraða starfsfólki í launaflokka með tilliti til starfssviðs starfsmanna. Konurnar sem vinni almenn störf, hafi verið komnar í hæsta launaflokk fyrir viðkomandi starf og því enga launahækkun fengið. Í umsögninni segir síðan:

"Af framansögðu og yfirliti um störf starfsmanna sem fylgir svari fyrirtækisins er ljóst að í meginatriðum er um tvenns konar störf að ræða með tilliti til verksviðs starfsmanna. Störf þessara tveggja hópa eru hvorki sambærileg né jafnverðmæt. Konurnar sem allar eru almennir starfsmenn geta því ekki borið sig saman við sérhæfðu starfsmennina. Að vinnuveitenda sé nauðsynlegt að nýta þá til almennra starfa við verkefnaskort breytir ekki þeirri niðurstöðu.

Bent skal á að enginn munur er á launum almennra starfsmanna, hvort heldur eru konur eða karlar. Þá ber að leggja áherslu á að sérhæfðu störfin hafa staðið opin fyrir konur jafnt sem karla.

Varðandi launabreytingar skal tekið fram að fyrirtækjum er nauðsynlegt að geta hagað launastefnu sinni með tilliti til þarfa sinna og markaðsaðstæðna á hverjum tíma. fiað á einnig við um ákvörðun launabils milli mismunandi starfshópa. Þörf getur verið á að hækka sérstaklega laun þeirra sem gegna flóknari og ábyrgðarmeiri störfum. Samkeppni er þar yfirleitt meiri. Fyrirtækið þarf bæði að geta haldið reyndum starfsmönnum og laðað að nýja.

Slíka hagsmuni ber að viðurkenna enda liggi þannig réttmætar ástæður til mismunandi launa starfsmanna án nokkurra tengsla við kyn þeirra eins og er í því tilviki sem hér um ræðir."

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti kvenna og karla og skal í því skyni sérstaklega bæta stöðu kvenna. Atvinnurekendur gegna afar mikilvægu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra, m.a. um launakjör starfsmanna.

Í 4. gr. jafnréttislaga segir að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns aðra þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.

Launamisrétti vegna kynferðis telst því vera til staðar ef störf eru jafn verðmæt og sambærileg, verði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem hafa ekkert með kynferði að gera.

Kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi benda sterklega til þess að konum séu að meðaltali greidd lægri laun en körlum fyrir sambærileg störf og að þær njóti síður yfirborgana. Samkvæmt fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar nr. 114 hækkuðu laun verkakarla í dagvinnu um 12,5% milli annars ársfjórðungs 1996 og 1997 en verkakvenna um 9,4% á sama tíma. Erfitt getur hins vegar verið að sýna fram á í einstökum tilvikum að kynferði ráði launamun milli konu og karls. Launamuninn má m.a. rekja til rótgróinna viðhorfa um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Er jafnréttislögum m.a. beint gegn slíkum viðhorfum.

Kærendur halda því fram að störfin í kaðladeild séu sambærileg og jafn verðmæt og því beri starfsmönnum sömu kjör óháð því við hvaða vélar eða á hvaða stigi framleiðsluferilsins þeir starfa. Er í því sambandi m.a. vísað til ákvæða kjarasamnings en í honum er ekki gerður greinarmunur á þeim störfum sem hér um ræðir. Kærði hafi hins vegar einhliða ákveðið að greina störfin í tvo flokka og láta kjör starfsmanna ráðast af því til hvors flokkins störf þeirra heyra.

Skriflegt mat á störfum í kaðladeild liggur ekki fyrir. Af hálfu kærða er því haldið fram að til grundvallar því hvort starf teljist almennt starf eða sérhæft sé horft til þeirra véla sem unnið er við. Tilteknar vélar krefjist meiri þjálfunar en aðrar þar sem þær séu flóknari og framleiðslutegundirnar fleiri. Starfsmenn við þær vélar verði að geta sinnt uppsetningu, stillingu við keyrslu, einfaldari lagfæringum og eftirliti með því að varan uppfylli staðla.

Kærunefnd jafnréttismála hefur kynnt sér aðstæður í kaðladeild Hampiðjunnar hf. Er það mat nefndarinnar eftir þá vettvangsathugun að störf við tilteknar framleiðsluvélar séu flóknari en störf við aðrar vélar og að mistök eða óhöpp séu fyrirtækinu dýrari því nær sem dregur lokum framleiðslunnar. Þá liggur fyrir að starfsmenn eru fyrst þjálfaðir á þær vélar sem teljast til fyrra stigs framleiðsluferilsins. Eftir það er metið hvort beri að þjálfa þá til starfa á vélum á síðara stigi framleiðsluferilsins. Ákvæði kjarasamninga koma ekki í veg fyrir að atvinnurekandi geti raðað störfum innbyrðis og yfirborgað fyrir tiltekin störf enda kveða kjarasamningar á um lágmarkskjör. Að öllu þessu virtu verður að telja að atvinnurekandi hafi sýnt fram á að störfin í kaðladeild séu ekki alfarið sambærileg og jafn verðmæt og að aðgreining þeirra byggist á hlutlægum sjónarmiðum sem mismuni ekki kynjum.

Forsenda þess að tilgangi jafnréttislaga verði náð, er að launa- og starfsmannastefna fyrirtækja sé skýr, gagnsæ og þekkt meðal starfsmanna. Einungis þannig er hægt að tryggja að konur og karlar njóti í reynd sömu kjara fyrir sambærileg störf og hafi sömu möguleika á vinnustað.

Einungis karlar gegna sérhæfðum störfum í kaðladeild en ein kona er í veikindaleyfi. Kærði hefur bent á að skortur sé á fólki í sérhæfð störf. Vegna þess fari reglulega fram mat á því hvort einhverjir starfsmanna uppfylli skilyrði til að fá flutning. Við það mat skipti máli dugnaður starfsmanns, mætingar, verkvilji, verklagni, lærdómsgeta, samstarfshæfileikar og metnaður. Konur hafi hins vegar hvorki sóst eftir þessum störfum í sama mæli og karlar né verið metnar hæfar til þeirra.

Ágreiningur er með aðilum um að hve miklu leyti skipting starfanna í almenn og sérhæfð störf var þekkt meðal starfsmanna. Sérhæfðu störfin voru ekki auglýst sérstaklega og starfsmenn virðast ekki hafa verið upplýstir um þessa skiptingu við ráðningu. Þá var þeim ekki kunnugt um að fram færi reglubundið mat á störfum þeirra, þeir upplýstir um á hverju það mat byggðist eða hvaða kröfur þeir þyrftu að uppfylla til að fá að gegna sérhæfðum störfum. Af gögnum málsins má sjá að einhverjar kvennanna sóttust eftir að fá launahækkun eða að komast í önnur störf en var synjað. Við það tækifæri voru þær ekki upplýstar um launakerfið eða þeim gerð grein fyrir í hverju atvinnurekandi taldi þær þurfa að bæta sig.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd jafnréttismála að kærendum máls þessa sé ekki mismunað í kjörum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. og 4. gr. jafnréttislaga. Kærunefnd telur hins vegar að Hampiðjunni hf. beri með skýrri og gagnsærri launa- og starfsmannastefnu sem sé þekkt meðal starfsmanna, að tryggja konum í reynd sömu möguleika og körlum til stöðuhækkana og stöðubreytinga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991. Kærunefnd jafnréttismála telur að það hafi Hampiðjan hf. ekki gert.

Þeim tilmælum er því beint til Hampiðjunnar hf. að tekin verði upp gagnsæ starfsmannastefna sem sé þekkt meðal starfsmanna.

Af gögnum málsins kemur fram að atvinnurekandi hefur undir meðferð málsins rætt við einstaka kærendur um þá ákvörðun að leita til kærunefndar. Þá var sérstaks vottorðs aflað frá einum starfsmanni þar sem hann skýrir tilurð meðmælabréfs sem hann ritaði um einn kæranda. Vegna þessa tekur kærunefnd fram að það er skýlaus réttur sérhvers starfsmanns að fá álit nefndarinnar á því hvort ákvæði jafnréttislaga séu hugsanlega brotin gagnvart honum. Brýnt er að atvinnurekendur virði þann rétt.

 

Sigurður Tómas Magnússon

Erla S. Árnadóttir

Gunnar Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira