Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Skrifað undir samning um stækkun Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði í dag verksamning við byggingafélagið Berg hf. um viðbyggingu við húsnæði heilsugæslunnar á Siglufirði. Viðbyggingin sem mun rísa austan við núverandi húsnæði verður liðlega 1000 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við bygginguna verði um 270 milljónir króna en áætluð verklok eru um mitt sumar 2008. Þess má geta að núverandi sjúkrahús á Siglufirði var vígt árið 1966 og leysti þá af hólmi eldra hús sem tekið var í notkun 1928. Gamla húsið var rifið árið eftir vígslu nýja hússins, en nýbyggingin sem nú er verið að hefjast handa við mun að hluta til rísa þar sem gamla húsið stóð.

Á fyrstu hæð viðbyggingarinnar verða læknastofur, skoðunarstofur, sjúklingamóttaka, herbergi fyrir hjúkrunarfæðinga og læknaritun auk matsalar starfsfólks. Enn fremur inngangur, biðstofa, skiptistofa og móttaka, auk aðkomu fyrir sjúkrabíl. Á 2. hæð verða sjúkrastofur, geymslur, skrifstofur og salur undir fundi og fræðslu. Þá er gert ráð fyrir liðlega 65 fermetra þakbyggingu fyrir loftræstikerfi heilsugæslunnar.

Viðbyggingin er liður í heildarendurbótum og stækkun húsnæðis Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði sem staðið hefur yfir síðan árið 2002, en þá voru eldhús og vörulager endurnýjuð. Ári síðar hófst undirbúningur að endurbótum á 1. og 2. hæð suður- og vesturálmu og í nóvember 2006 var þeim að mestu lokið.

Stefnt er að því að snemma á næsta ári verði boðnar út framkvæmdir við að endurinnrétta það húsnæði sem losnar þegar starfsemi flyst yfir í nýja húsið en gert er ráð fyrir að framkvæmdum við endurbætur og stækkun á húsnæði heilsugæslunnar á Siglufirði verði að fullu lokið í árslok 2008.

Auk Helga Hafliðasonar arkitekts, eru hönnuðir framkvæmda; Almenna verkfræðistofan hf. sem sér um hönnun burðarvirkja, Lagnatækni ehf. sem hannaði vatns-, hita- og loftræstilagnir, Rafhönnun hf. sá um hönnun raflagna og Landslag ehf. sem annast lóðarhönnun.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með verkinu og mun Þorsteinn Jóhannesson verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Siglufjarðar sf. sjá um daglegt eftirlit.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum