Hoppa yfir valmynd
15. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þórdís Kolbrún undirritaði viljayfirlýsingu um stofnsetningu rannsóknar, vinnslu- og afurðarmiðstöðvar þangs í Stykkishólmi

Jóhannes Þorleiksson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Jakob Björgvin Jakobsson ásamt Jean-Paul Deveau.  - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag viljayfirlýsingu Stykkishólmsbæjar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Veitna og Acadian Seaplants um samstarf um sjálfbæra atvinnu- og innviðauppbyggingu í Stykkishólmi í tengslum við fyrirhugaða nýtingu þangs í Breiðafirði. Með viljayfirlýsingunni er stoðum rennt undir rannsóknir og vinnslu þangs í Stykkishólmi og verður unnið að því að nýta fyrirliggjandi tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar á grunni sjálfbærrar nýtingar auðlinda.

 

„Þetta samkomulag er enn eitt dæmið um þau fjölbreyttu tækifæri sem er verið að sækja víða um land um þessar mundir. Hér er nýsköpun í forgrunni og þar liggja tækifærin. Oft í tengslum við auðlindanýtingu eins og í þessu tilfelli. Púslin eru að raðast rétt upp á mörgum stöðum núna og þetta er mjög ánægjulegt dæmi um það,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Bæjarstjórn Stykkishólms hefur átt í formlegum viðræðum við kanadíska félagið, Acadian Seaplants Limited um vinnslu þangs í Stykkishólmi frá árinu 2019. Acadian Seaplants hyggst stofna íslenskt dótturfyrirtæki til þess að þróa alhliða miðstöð þörungavinnslu í suðurhluta Breiðafjarðar með aðsetur í Stykkishólmi. Lögð verður áhersla á vísindalega nálgun við nýtingu auðlindarinnar með það að markmiði að fullnýta hráefnið með sem minnstum áhrifum á umhverfið samhliða sem mestum svæðisbundnum efnahagslegum ávinningi. Undir samkomulagið undirrita ráðherra, Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, JP Deveau, forstjóri Acadian Seaplants Limited og Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður hjá Veitum.

 

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar:

„Við fögnum þessum áfanga þar sem allir hagaðilar eru sammála um mikilvægi þess að vinna saman að því að nýta fyrirliggjandi tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar í Stykkishólmi á grunni sjálfbærrar nýtingar auðlinda og styðja verkefnið á grunni þess sem fram kemur í viljayfirlýsingunni. Í þessu verkefni liggja gríðarlega mörg tækifæri fyrir Stykkishólm, svæðið og samfélagið í heild sinni. Hér er um að ræða enn einn liðinn í allri þeirri jákvæðu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Stykkishólmi undanfarin ár. Efnahagslegur og samfélagslegur ábati af fyrirhugaðri starfsemi er augljós, bæði fyrir svæðið og íslenskt samfélag, sem og framtíðar vaxtarmöguleikar og nýsköpun í kringum sjálfbæra auðlindanýtingu Breiðafjarðar. Acadian Seaplants hefur alla burði og þekkingu til að koma á fót og styðja við rannsóknir á efnisinnihaldi þangs með virðisaukandi framleiðslu og nýsköpun að leiðarljósi. Í slíku samstarfi gætu falist enn frekari tækifæri fyrir uppbyggingu virðisaukandi framleiðslu sjávarfangs úr Breiðafirði.“

 

Jean-Paul Deveau, forseti og framkvæmdastjóri Acadian Seaplants Limited: 
„Við hjá Acadian Seaplants erum stolt af því að hefja samstarf við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Stykkishólmsbæ og Veitur. Nálgun okkar á sjálfbæra nýtingu á sjávarplöntum, til að framleiða afurðir sem nýttar eru um allan heim, byggist á rannsóknum okkar og vísindum. Við teljum að aðferðir okkar geti eflt stöðu Íslands á heimsvísu hvað varðar nýtingu á sjávarplöntum. Þetta verkefni mun leiða af sér  sterkari innviði um nýtingu jarðvarma í Stykkishólmi og mun auk þess hafa mikla þýðingu fyrir fyrirtæki okkar og aðra framtíðar atvinnustarfsemi á Snæfellsnesi. 
Við hlökkum til samstarfsins og þökkum stuðning Stykkishólmsbæjar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.“

 

Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður hjá Veitum: 

„Við fögnum því að geta stutt við sveitarfélög á veitusvæði Veitna. Það á ekki síst við þegar um er að ræða verkefni sem felast í sjálfbærri nýtingu auðlinda og nýsköpun. Það rímar afskaplega vel við stefnuáherslur fyrirtækisins sem m.a. leggja áherslu á að veitukerfin séu rekin með umhverfissjónarmið og þarfir samfélaga að leiðarljósi. Við hlökkum til að vinna með þessum öflugu samstarfsaðilum og þróa áfram þetta viðskiptatækifæri.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira