Hoppa yfir valmynd
12. júní 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Heimagistingarvakt efld

Norden.org / Johannes Jansson - mynd

Á síðasta ríkisstjórnarfundi var samþykkt tillaga Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála um að fjármagni verði veitt í átaksverkefni til að efla eftirlit með heimagistingu og þannig jafna samkeppnisstöðu í gististarfsemi.

Hin svokallað 90 daga regla tók gildi í ársbyrjun 2017 en í henni felst að einstaklingum er heimilt að leigja út lögheimili sín eða eina aðra fasteign sem er í þeirra eigu til allt að 90 daga á hverju almanaksári án þess að lúta sömu reglum um leyfi og gjöld og gilda um atvinnurekstur. Átaksverkefnið mun stórefla heimagistingarvakt sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en hann sér um eftirlit með heimagistingu á öllu landinu. Er þetta gert til að tryggja rétt skattskil einstaklinga og að lögaðilar sem stunda gististarfsemi afli sér rekstrarleyfis og starfsemin fari þar með að þeim lögum sem um hana gilda. Kostnaður við þessa styrkingu eftirlits er talinn nema 64 millj. kr. en gera má ráð fyrir því að bætt skattskil og sektargreiðslur vegi þann kostnað upp.

Lagt er upp með að átaksverkefnið verði til eins árs og gera má ráð fyrir því að um leið og eftirlit með heimagistingu verður sýnilegra og virkara muni það hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum í heimagistingarvakt verði fjölgað úr þremur í ellefu og koma þeir til með að framkvæma vettvangsrannsóknir í kjölfar ábendinga frá almenningi eða á grundvelli upplýsinga sem koma fram í frumkvæðiseftirliti. Þá verða í hópnum tveir lögfræðingar sem munu halda utan um stjórnsýslumeðferð og ákvarðanir um stjórnvaldssektir. Þess má geta að frá því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók við málaflokki gististaða árið 2015 hefur umfang skammtímaleigu sjöfaldast.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir: „Deilihagkerfið fyrir gistingu hefur fengið ljómandi gott svigrúm með 90 daga reglunni. En framkvæmd hennar er ekki sem skyldi. Það er ósanngjarnt gagnvart löglegum rekstri að menn komist upp með að spila ekki eftir reglunum. Við verðum að tryggja að allt sé uppi á borðum. Samþykkt ríkisstjórnar á tillögu minni um átak í þessum efnum er fagnaðarefni. Niðurstaðan er árangur af góðu samráði og samtölum við sýslumann, ríkisskattstjóra, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar og ferðamálaráð. Þetta  samráð mun að sjálfsögðu halda áfram næstu vikur og mánuði á meðan að við náum enn betri tökum á þessum málum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum