Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2022 Innviðaráðuneytið

Hundraðasta rampinum fagnað á Eyrarbakka

Við athöfnina undirrituðu Haraldur Þorleifsson hvatamaður verkefnisins og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, samning um stuðning ríkisins við verkefnið. - myndMynd/Sigurjón Ragnar

Hundraðasti rampurinn í verkefninu Römpum upp Ísland var opnaður með viðhöfn við Sjómannasafnið á Eyrarbakka í dag en markmiðið er að setja upp þúsund rampa á næstu fjórum árum á landinu öllu. Aron Freyr Jónsson klippti á borðann og vígði rampinn við Sjómannasafnið á Eyrarbakka. Börn á leikskólanum Strandheimum og íbúar á Sólvöllum voru sérstakir gestir við athöfnina og sungu leikskólabörnin fyrir gesti.

Við athöfnina undirrituðu Haraldur Þorleifsson hvatamaður verkefnisins og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, samning um stuðning ríkisins við verkefnið. Sigurður Ingi og Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, fluttu ávörp að viðstöddu heimafólki á Eyrarbakka og öðrum góðum gestum. 

„Römpum upp Ísland er eitt þeirra verkefna sem er sérstaklega mikilvægt og gaman að geta tekið þátt í. Haraldur Þorleifsson hefur sýnt einstakt fordæmi þegar kemur að samfélagsábyrgð og leiðir verkefnið af miklum krafti. Römpum upp Ísland opnar ekki aðeins augu fólks fyrir þeim hindrunum sem mæta fötluðu fólki heldur ryður þeim úr vegi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Aukið aðgengi að verslun og þjónustu

Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu. Stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur. Rampar eru settir upp í góðu samstarfi eigenda bygginga og skipulagsyfirvalda í hverju sveitarfélagi. 

Rampar hafa verið settir upp víða um land allt frá því að fyrsti rampurinn í þessu átaki var opnaður í Hveragerði í maí. Meðal sveitarfélaga sem hafa nú þegar fengið rampa eru Reykjanesbær, Borgarbyggð, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Akranes, Kirkjubæjarklaustur og Höfn í Hornafirði. Í fyrra voru 100 rampar settir upp í verkefninu Römpum upp Reykjavík.

Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno er hvatamaður verkefnisins. Styrktaraðilar verkefnisins Römpum upp Ísland á landsvísu eru Ueno, innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, BM Vallá, Davíð Helgason, Össur, InfoCapital, Brandenburg, Efla, Aton.JL, Deloitte, LEX, Gæðaendurskoðun ehf., ÖBÍ og Sjálfsbjörg. Sveitarfélög leggja færa ennfremur mikilvægt framlag á hverjum stað.

  • Aron Freyr Jónsson klippti á borðann og vígði rampinn við Sjómannasafnið á Eyrarbakka. - mynd
  • Fjölmenni var við opnun hundraðasta rampsins í verkefninu Römpum upp Ísland við Sjómannasafnið á Eyrarbakka í dag. - mynd
  • Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, var meðal þeirra sem fluttu ávörp að viðstöddu heimafólki á Eyrarbakka og öðrum góðum gestum. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum