Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2016 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Opið samráð um innri vörumarkað á Evrópska efnahagssvæðinu og ESB

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um markaðseftirlit á grundvelli reglugerðar ESB nr. 765/2008 og um aðgerðir til að efla fullnustu og eftirfylgni við reglugerðina innan Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. Samráðið stendur til 31. október 2016.

Markmið samráðsins er að fá fram sjónarmið hagsmunaaðila um hvort brot á þeim reglum sem gilda á innri markaðnum hvað varðar vörur sé raunverulegt vandamál og hverjar séu ástæður og afleiðingar slíkra brota. Þá er óskað eftir sjónarmiðum um það hvaða aðgerðir séu mögulegar til að taka á vandanum og hvort hagsmunaaðilar telji Evrópusambandið betur til þess fallið en aðildarríki þess að taka á vandamálinu. Niðurstöðurnar munu nýtast við mat á þeim árangri sem náðst hefur með ofangreindri reglugerð.

Á Evrópska efnahagssvæðinu er í gildi samræmd löggjöf um vörur sem tekur til flest allra iðnaðarafurða, svo sem véla, fjarskiptatækja, rafmagns- og rafeindavara, leikfanga o.fl. Markmiðið með þessum reglum er m.a. að vernda heilsu og öryggi borgaranna og bæta umhverfisvernd auk þess sem þeim er ætlað að auka samkeppnishæfni fyrirtækja innan sambandsins með því að koma í veg fyrir óréttmætar viðskiptahindranir. Til að tryggja frjálst vöruflæði á innri markaðnum með árangursríkum hætti er því nauðsynlegt að löggjöf sambandsins á þessu sviði sé beitt með samræmdum hætti í aðildarríkjunum.

Ráðuneytið hvetur alla sem telja sig hafa hagsmuna að gæta til að taka þátt í samráðinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira