Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 171/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 171/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030039

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik og málsmeðferð

    Með úrskurði kærunefndar dags. 11. október 2019, nr. 476/2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Hinn 21. október 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 542/2019, dags. 12. nóvember 2019, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar hinn 29. nóvember 2019. Þeirri beiðni kæranda var hafnað af kærunefnd þann 19. desember 2019 með úrskurði nr. 600/2019. Kærandi óskaði að nýju eftir endurupptöku á máli sínu þann 20. desember 2019. Með úrskurði nr. 20/2020 frá 13. janúar samþykkti kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og gerði Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

    Með úrskurði nr. 322/2020, dags. 8. október 2020, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2020, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Hinn 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 373/2020, dags. 29. október 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku ásamt fylgigögnum hinn 14. desember 2020. Hinn 14. janúar 2021 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 9/2021. Hinn 14. september 2021 barst kærunefnd að nýju beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgigögnum. Hinn 27. október 2021 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 524/2021. Hinn 17. janúar 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku í þriðja sinn. Hinn 10. febrúar 2022 var þeirri beiðni hafnað með úrskurði nr. 83/2022. Hinn 22. mars 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku í fjórða sinn ásamt fylgigögnum.

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hún telur að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Krafa kæranda er jafnframt reist á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að í úrskurði kærunefndar nr. 83/2022, dags 10. febrúar 2022, hafi kröfu hennar um endurupptöku verið hafnað þar sem ný heilsufarsgögn hefðu þurft að liggja fyrir, þ.e. vottorð sérfræðings sem legði mat á heilsufarsvandamál hennar eins og þau horfi við núna. Kærandi vísar til þess að nú liggi fyrir komunóta frá kvensjúkdómalækni þar sem óskað sé eftir að kærandi undirgangist aðgerð vegna heilsufarsvandamála sinna en þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar úrskurður kærunefndar í endurupptökumáli hennar frá 10. febrúar 2022 var kveðinn upp. Kærandi vísar til þess að heilsufari hennar hafi hrakað verulega og ólíklegt sé að hún geti sótt sér þá heilbrigðisþjónustu sem hún hafi þörf fyrir í heimaríki. Í ljósi framangreinds telur kærandi að framlögð gögn feli í sér ný atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun var tekin í málinu á fyrri stigum. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt upplýsingum frá ritara Landspítalans liggi fyrir beiðni um lyfjagjöf fyrir hana. Kærunefnd útlendingamála beri því að endurupptaka málið og kanna til hlítar framlögð gögn og hvaða áhrif þau kunni að hafa á niðurstöðu þess. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi séu og hvernig þessar nýju upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 8. október 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að henni bæri að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Meðfylgjandi endurupptökubeiðni kæranda er göngudeildarnóta frá bráðamóttöku kvenna, dags. 26. nóvember 2021. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi leitað þangað vegna þrýstingsóþæginda í kvið. Rætt hafi verið við kæranda um legnám en hún hafi ekki tekið það í mál þar sem það vegi þungt í hennar menningu að eignast börn. Kæranda hafi því verið boðið að undirgangast annars konar aðgerð, svokallaða […] sem hugsanlega geti minnkað […] […] í leginu og létt á þrýstingseinkennum.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi hefði greinst með fyrirferð í legi sem greint hafi verið sem […]. Það er mat kærunefndar að framangreind heilsufarsgögn hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um heilsufar kæranda og sé aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hennar hjá nefndinni. Ekki verður af framlögðum gögnum ráðið að vöðvahnúturinn sé illkynja eða að heilsu kæranda hafi hrakað verulega vegna þess að hann hafi stækkað frá fyrri skoðun. Í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020, kemur fram að kæranda standi til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki en samkvæmt gögnum sé aðgengi að heilbrigðisþjónustu í þéttbýli talsvert betra en á strjálbýlli svæðum. Kærunefnd telur að þrátt fyrir framangreind heilsufarsgögn, sem bendi til þess að kærandi geti notið góðs af aðgerð sem kunni að draga úr þrýstingseinkennum og minnkað […], geti þau ekki talist vera nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið.

Í greinargerð kæranda kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá ritara Landspítalans liggi fyrir beiðni um lyfjagjöf fyrir kæranda. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 28. mars 2022, var kæranda leiðbeint um framlagningu frekari heilsufarsgagna í máli sínu, einkum í ljósi þess að framlögð gögn voru nokkurra mánaða gömul og báru með sér að til stæði að kærandi myndi hljóta frekari meðferð hér á landi vegna kvilla sinna. Í svari frá talsmanni kæranda, dags. 30. mars 2022, kemur fram að ekki væri fyrirhugað að leggja fram frekari gögn um heilsufar kæranda. Kærandi hefur því ekki lagt fram gögn því til stuðnings að hún sé í meðferð hér á landi sem ekki sé forsvaranlegt að rjúfa eða að líkamleg heilsa kæranda hafi versnað verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn nr. 322/2020. Þá bera skýrslur sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kæranda með sér að hún geti fengið þá meðferð sem hún sé í þörf fyrir þar í landi, m.a. gengist undir aðgerð vegna framangreindra […].

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 8. október 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                      Sindri M. Stephensen

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum