Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Búist við 2,3 milljónum farþega um Keflavíkurflugvöll næsta ár

Isavia bauð nýverið nokkrum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins sem sinna einkum flugmálum að heimsækja fyrirtækið og fræðast um starfsemina. Forráðamenn Isavia kynntu fyrirtækið sem hefur það megin hlutverk að annast flugumferðarþjónustu á íslenska flugstjórnarsvæðinu og reka flugvelli landsins.

Starfsmenn innanríkisráðuneytisins í heimsókn hjá Isavia.
Starfsmenn innanríkisráðuneytisins í heimsókn hjá Isavia.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, og fleiri forráðamenn félagsins tóku á móti hópnum á skrifstofu félagsins í flugturninum við Reykjavíkurflugvöll og fóru yfir helstu þætti í starfsemi Isavia. Starfsmenn eru alls liðlega 600 á 13 stöðum á landinu, langflestir í Keflavík og Reykjavík. Þar fyrir utan eru starfsmenn dótturfélaganna tveggja, Fríhafnarinnar og Tern sem sér um gerð hugbúnaðar fyrir flugleiðsögu.

Starfsmenn innanríkisráðuneytisins í heimsókn hjá Isavia.Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík var heimsótt og fylgst með flugumferðarstjórum og fluggagnafræðingum að störfum og síðan var litast um á Reykjavíkurflugvelli áður en haldið var til Keflavíkur. Þar var farið um flugvallarsvæðið, slökkviliðið heimsótt og litið inní gömlu flugstöðina sem er farin að láta nokkuð á sjá. Að lokum var síðan komið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og meðal annars skoðuð töskuflokkunin.

Lufthansa umsvifamest

Íslenska flugstjórnarsvæðið er alls um 5,4 milljónir ferkílómetra og fljúga árlega kringum 100 þúsund flugvélar um svæðið alls um 140 milljón km vegalengd. Gert er ráð fyrir 3,9% aukningu flugumferðar yfir Norður-Atlantshafið á næsta ári. Um það bil fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshaf fer um íslenska flugstjórnarsvæðið sem hefur þá sérstöðu að vera sveigjanlegt hvað varðar flugleiðir og flughæðir sem skiptir miklu máli varðandi flugtíma og eldsneytisnotkun. Lufthansa er umsvifamest í flugi um íslenska flugstjórnarsvæðið þegar litið er til floginna kílómetra en alls flugu vélar félagsins um 13 milljónir km á liðnu ári. Icelandair fór hins vegar flestar flugferðirnar eða um 11 þúsund á árinu.

Alls fóru tæplega 1,9 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári og á fyrstu 10 mánuðum þessa árs hefur farþegum fjölgað um 19,3% miðað við sama tíma í fyrra. Á sumrin eru 20 flug á álagstímum en hliðin eru aðeins 14 og því eru 6 hlið tvínotuð. Á næsta ári stefnir í aukningu og áfram næstu ár og er talið að ráðast þurfi í umfangsmiklar fjárfestingar til að geta meðal annars bætt við flughlöðum og stækkað flugstöðvarbygginguna. Á meðan ekki verður unnt að ráðast í miklar framkvæmdir er leitað allra leiða til að nýta núverandi mannvirki og hagræða sem mest til að mæta aukningunni.

Starfsmenn innanríkisráðuneytisins í heimsókn hjá Isavia.Á næsta ári er gert ráð fyrir að tæplega 2,3 milljónir farþega fari um flugvöllinn. Forsendan er meðal annars sú aukning sem flugfélög hafa boðað auk þess sem ný flugfélög hafa boðað komu sína á nokkrum flugleiðum milli Keflavíkurflugvallar og Evrópu. Þannig hefur viðskiptaþróun sem heyrir undir fjármálasvið leitað leiða til að auka fjölda farþega til Íslands meðal annars yfir vetrarmánuðina. Einnig er í þróun hvatakerfi fyrir flugfélög sem miðast við nýja áfangastaði og aukningu farþega.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira