Hoppa yfir valmynd
16. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 460/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 460/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 20. ágúst 2019 og var umsóknin samþykkt 13. nóvember 2019. Þann 10. maí 2021 bárust Vinnumálastofnun þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá B. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs þess efnis að kærandi hefði ekki líkamlega burði til að starfa við slík störf. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2021, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar frá og með 3. júní 2021 á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sökum þess að hann hefði ekki upplýst stofnunina um skerta vinnufærni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. september 2021. Með bréfi, dags. 6. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 17. september 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi reynt að hafa samband við B en honum hafi ekki verið svarað. Kæranda finnist fáranlegt að hann missi bótarétt vegna veikinda sem hann hafi reynt að tilkynna þegar hann hafi átt að mæta í viðtal hjá fyrirtækinu. Kæranda finnist eðlilegt að hann hafi ekki mætt slappur í viðtal í miðjum heimsfaraldri vegna Covid-19. Að mati kæranda sé fáránlegt að hann hafi þurft að láta Vinnumálastofnun vita af skertri starfsgetu þar sem hann hafi verið að leita eftir sölustarfi en ekki garðyrkjustarfi þegar hann hafi lagt inn umsókn vegna atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 20. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur hans væri 100%. Þann 10. maí 2021 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B við viðhald á húsnæði fyrirtækisins. Í skýringum atvinnurekanda komi fram að kærandi hafi ekki mætt í boðað viðtal. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2021, hafi kæranda verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að frekari athugasemdum vegna höfnunar á umræddu starfi. Sama dag hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá kæranda þar sem hann hafi komið á framfæri ástæðum þess að hann hefði hafnað starfi hjá B. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi aldrei hafnað neinu atvinnuviðtali. Kærandi kveðist hafa fengið gubbupest og sagst hafa reynt að hringja til að láta vita en honum hafi ekki verið svarað. Auk þess segi kærandi að hann hafi enga líkamlega burði til að starfa við almenn gróðurstörf vegna brjóskloss í baki. Einnig hafi kærandi haldið að um grín væri að ræða þar sem fyrirtækið hafi hringt á laugardagsmorgni þann 1. maí sem sé lögbundinn frídagur, úr síma sem skráður hafi verið á C. Þrátt fyrir það hafi kærandi ætlað að mæta mánudaginn 3. maí en hafi orðið veikur. Kærandi hafi reynt að hringja og láta fyrirtækið vita en honum hafi ekki verið svarað í því símanúmeri.

Þann 3. júní 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar frá og með 3. júní 2021. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði áður sætt biðtíma á grundvelli 1. mgr. 59. laga nr. 54/2006 þann 14. ágúst 2019. Því hafi verið um að ræða niðurfellingu bótaréttar í þriðja sinn. Það valdi ítrekunaráhrifum fyrri ákvörðunar samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sá sem hafi áður sætt viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé gerð grein fyrir almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Virk atvinnuleit launamanns sé eitt af þeim skilyrðum sem atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að geta talist tryggður samkvæmt lögunum, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laganna. í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006.

Þá sé í lögum um atvinnuleysistryggingar lögð rík áhersla á upplýsingaskyldu atvinnuleitenda gagnvart stofnuninni. Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskylduna og í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Upplýsingaskylda atvinnuleitenda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknar þeirra um atvinnuleysisbætur. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað séu umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar um persónulega hagi og vinnufærni. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Kæranda beri að tilkynna til stofnunarinnar um allar breytingar sem verði á högum hans, þar með talið veikindi. Upplýsingar um tilkynningarskyldu atvinnuleitenda sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt í boðað viðtal hjá atvinnurekanda. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sé hann með skerta starfsgetu og því ófær um að vinna umrætt starf. Kærandi kveðist ekki hafa neina líkamlega burði til að starfa við almenn gróðurstörf vegna brjóskloss í baki. Af upplýsingum kæranda megi ráða að um sé að ræða viðvarandi skerta vinnufærni hans sem honum hafi borið að upplýsa stofnunina um þá þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni og óskað eftir að stofnunin miðlaði honum í störf í samræmi við umsókn sína eða eftir atvikum hafi kæranda borið að tilkynna stofnuninni þegar breytingar hafi orðið á vinnufærni hans. Þvert á skýringar kæranda hafi hann tilgreint í umsókn sinni að hann væri fær til flestra almennra starfa og tilgreint óskastörfin „bifreiðasali, afgreiðslumaður í smærri verslun og verslunarstjóri/aðstoðarverslunarstjóri“.

Rík skylda hvíli á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi brugðist þeirri skyldu sinni með því að hafa ekki, á því tímabili þegar hann hafi verið skráður í atvinnuleit hjá stofnuninni, veitt nauðsynlegar upplýsingar um hagi sína og vinnufærni. Það hafi leitt til þess að hann hafi hafnað starfi sem stofnunin hafi mátt telja, með hliðsjón af upplýsingum kæranda, hann hæfan til að gegna.

Það sé afstaða Vinnumálastofnunar, í ljósi skýrra ummæla kæranda, að hann sé ekki fær til flestra almennra starfa og hafi látið hjá líða að veita stofnuninni réttar og nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína sem nauðsynlegar hafi verið stofnuninni. Með vísan til framangreinds sé það mat stofnunarinnar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laganna, enda hafi hann látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar vegna umsóknar sinnar, sbr. ákvæði 14. gr. laganna.

Kærandi hafi áður sætt biðtíma á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 þann 14. ágúst 2018 og þar á undan á grundvelli 58. gr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 þann 30. október 2019. Því sé nú um að ræða niðurfellingu bótaréttar í þriðja sinn. Það valdi ítrekunaráhrifum fyrri ákvörðunar samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sá sem hafi áður sætt viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. skal hinn tryggði upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun tilgreindi kærandi í umsókn um atvinnuleysisbætur að hann væri fær til flestra almennra starfa og að hann myndi vilja starfa sem bifreiðasali, afgreiðslumaður í smærri verslun eða verslunarstjóri/aðstoðarverslunarstjóri. Eftir að kærandi hafnaði starfi hjá B veitti hann skýringar á því að hann hefði ekki líkamlega burði til að inna umrætt starf af hendi sökum brjóskloss.

Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur sæki um greiðslur bóta með rafrænni umsókn sé þeim kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar um persónulega hagi og vinnufærni. Umsækjendur þurfi í lok umsóknarferlis að staðfesta að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi sín og skyldur.

Í tölvupósti Vinnumálastofnunar,  23. ágúst 2019, var kæranda bent á að upplýsa þyrfti um allar breytingar sem yrðu á högum hans, þar með talið veikindi. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldur sínar, að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um skerta vinnufærni sína.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann greindi ekki frá skertri vinnufærni sinni. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006.

Í 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segir að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57.-59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir, enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili samkvæmt 29. gr. Í 4. mgr. 61. gr. laganna segir að endurtaki atvik sig sem lýst sé í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Samkvæmt gögnum málsins hófst bótatímabil kæranda 26. febrúar 2018. Á því bótatímabili hefur kærandi tvisvar sætt viðurlögum, annars vegar í ágúst 2018 á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 65/2006 og hins vegar í október 2019 á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laga nr. 54/2006, kom nú til ítrekunaráhrifa samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laganna og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna, þ.e. eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum