Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 191/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 5. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 191/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020028

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Hinn 15. ágúst 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 18. ágúst 2022.

Hinn 12. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 47/2023, dags. 25. janúar 2023 var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað. Hinn 11. febrúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda að nýju, ásamt fylgiskjali.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til úrskurðar kærunefndar nr. 47/2023 vegna fyrri beiðni hans um endurupptöku en nefndin hafi metið það svo að hann hafi tafið málsmeðferðina. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið tilkynningu frá stoðdeild um fyrirætlanir þeirra um að heimsækja hann. Hvorki hafi tilkynningar eða bréf verið skilin eftir í búsetuúrræði kæranda né hafi hann fengið tilkynningar með pósti. Þá vísar kærandi til þess að farsími hans hafi verið bilaður síðan í ágúst á síðasta ári en fjárhagsstaða hans komi í veg fyrir að hann geti keypt sér nýjan, sem útskýri hvers vegna stoðdeild hafi ekki getað náð í hann símleiðis. Kærandi vísar til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um það að hann mætti ekki fara úr búsetuúrræði sínu á tilteknum tímum. Þá hafi engin sönnun verið færð fram þess efnis að hann hafi yfirgefið búsetuúrræði sitt viljandi til að forðast stoðdeild. Hvað varðar tilteknar dagsetningar í svari stoðdeildar tekur kærandi fram að hann hafi verið með kærustu sinni á þessum dögum. Hefur kærandi lagt fram skriflega yfirlýsingu frá henni þar sem hún staðfesti framangreint. Þá hafi kærandi greint herbergisfélaga sínum frá því að hann væri farinn til kærustu sinnar í umrædd skipti ef einhver myndi spyrja eftir honum. Herbergisfélagi kæranda hafi líklega gleymt þessu eða slæm enskukunnátta hans komið í veg fyrir að hann hafi getað komið þessum skilaboðum áleiðis til stoðdeildar. Þá gerir kærandi athugasemd við staðhæfingu stoðdeildar um að hann hafi ekki verið heima 22. september 2022. Kærandi hafi verið í búsetuúrræði sínu umræddan dag en hann hafi ekki vitað að stoðdeild væri þar að leita að honum. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi mætt upp á Ásbrú til að láta að fylla á innkaupakort sitt þrjár vikur í röð í október á síðasta ári. Kærandi telur að með því sé ljóst að hann hafi ekki reynt að fara í felur. Þá vísar kærandi til þess að þar sem hann eigi ekki síma þurfi hann að fá lánaðan síma hjá vinum. Kærandi telur að hann hafi ekki sætt réttlátri málsmeðferð hjá stjórnvöldum. Kærandi vísar til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um synjun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærandi byggir á því að honum hafi ekki verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar skriflega. Þá vísar kærandi til þess að andleg heilsa hans hafi verið slæm auk þess sem hann hafi orðið fyrir líkamlegum skaða á meðan á fangelsisvist stóð í heimaríki. Kærandi glími við þunglyndi, ótta, streitu, áföll, lágan blóðþrýsting og þyngdartap. Kærandi telur að hann hafi fylgt þeim reglum sem ætlast var af honum og hann hafi aldrei reynt að forðast fundi með stoðdeild. Kærandi sé ekki neyddur til að vera í búsetuúrræði sínu öllum stundum en hann hafi reynt að lifa eins eðlilegu lífi og hægt sé í þeim erfiðu aðstæðum sem hann búi við.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 25. janúar 2023. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Því hafi skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki verið uppfyllt. Því féllst kærunefnd ekki á að atvik hefðu breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann ætti rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hann hafi dvalið hjá kærustu sinni í þau skipti sem stoðdeild kom í búsetuúrræði hans til að ræða við hann um flutning til Grikklands. Hvorki hafi tilkynningar eða bréf verið skilin eftir í búsetuúrræði kæranda né hafi hann fengið tilkynningar með pósti. Þá vísar kærandi til þess að farsími hans hafi verið bilaður síðan í ágúst á síðasta ári. Jafnframt heldur kærandi því fram að hann hafi verið í búsetuúrræði sínu 22. september 2022 þegar stoðdeild heimsótti hann.

Í málinu liggja fyrir þjónustupappírar á móðurmáli kæranda sem hann skrifaði undir við upphaf málsmeðferðar sinnar hjá Útlendingastofnun. Þar kemur m.a. fram að kjósi umsækjendur að dvelja í öðru húsnæði en því sem þeim sé útvegað eða boðið, skuli slíkt tilkynnt til Útlendingastofnunar. Þá beri umsækjendum að veita skriflegar upplýsingar um dvalarstað, símanúmer og/eða tölvupóstfang. Jafnframt er þar að finna leiðbeiningar þess efnis að yfirgefi umsækjendur útvegað búsetuúrræði án þess að tilkynna það og veita skriflegar upplýsingar kunni það að hafa í för með sér að litið sé svo á að viðkomandi hafi látið sig hverfa. Með úrskurði kærunefndar nr. 298/2022, dags. 15. ágúst 2022, var það niðurstaða kærunefndar að mál kæranda yrði ekki tekið til efnismeðferðar og var honum birt niðurstaðan 18. ágúst 2022. Það er mat kærunefndar að kæranda hafi mátt vera ljóst að flutningur til Grikklands væri yfirvofandi og að á honum hafi hvílt skylda að láta Útlendingastofnun vita um nýjan dvalarstað og hvernig hægt væri að ná í hann með öðru móti væri farsími hans bilaður. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi verið í búsetuúrræði sínu umræddan dag líkt og hann heldur fram.

Ljóst er að kærandi var ekki heima í þau skipti sem stoðdeild kom í búsetuúrræði kæranda á tveggja vikna tímabili í þeim tilgangi að ræða við kæranda um flutning hans úr landi til Grikklands. Með því að láta Útlendingastofnun ekki vita um breyttan dvalarstað eða láta vita hvernig hægt væri að ná í hann telur kærunefnd að kærandi hafi komið í veg fyrir flutning sinn úr landi og tafið málsmeðferðina. Með háttsemi sinni gerði kærandi framkvæmd endanlegrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi ómögulega innan tilgreindra tímamarka.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum