Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldveiðistofninum á árinu 2001

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu.




Nr. 111

Í dag var í London undirritað samkomulag milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2002.

Samkvæmt samkomulaginu verður leyfilegur heildarafli viðkomandi aðila á næsta ári 850.000 tonn sem er sami heildarafli og á þessu ári. Eins og í ár skiptist aflinn þannig að í hlut Íslands koma 132.080 tonn, í hlut ESB 71.260 tonn, í hlut Færeyja 46.420 tonn, í hlut Noregs 484.500 tonn og í hlut Rússlands koma 115.740 tonn.

Reglur um aðgang aðila að lögsögu hvers annars til veiða úr síldarstofninum eru óbreyttar frá því sem verið hefur. Íslensk skip mega áfram veiða allan sinn hlut í lögsögu Færeyja og færeysk skip allan sinn hlut í lögsögu Íslands. Eins og í ár mega íslensk skip veiða sinn hlut við Jan Mayen, en norsk skip mega veiða 94.200 tonn í íslensku lögsögunni. Íslensk skip mega veiða 5.900 tonn í norsku efnahagslögsögunni.

Við ákvörðun leyfilegs heildarafla er nú í fyrsta skipti byggt á þeirri nýtingarstefnu sem aðilar samþykktu fyrir tveimur árum að fylgt skyldi við stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Heildaraflinn er jafnframt í samræmi við tillögu ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum