Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Ræða iðnaðar- og viðskiptaráðherra á fjórðu ráðherrastefnu WTO

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 113


Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra leiðir sendinefnd Íslands á fjórðu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem væntanlega lýkur þriðjudaginn 13. nóvember n.k. Markmiðið er að ýtt verði úr vör viðtækri viðræðulotu um frekara frelsi í heimsviðskiptum. Ísland hefur skipað sér í hóp ríkja sem lagt hafa áherslu á víðtækar viðræður á þessu sviði.
Ráðherra tók í dag til máls á aðalfundi ráðstefnunnar og ítrekaði þar áherslu Íslands um mikilvægi afnáms ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Hún sagði að slíkir ríkisstyrkir hefðu víðtæk og skaðleg áhrif bæði á alþjóðaviðskipti og umhverfið. Að sama skapi væri afnám þeirra mikilvægt fyrir þróunarríkin.
Þrátt fyrir stuðning margra aðildarríkja er enn hörð andstaða við tillöguna frá nokkrum ríkjum, en tillagan er í drögum að samningstexta ráðstefnunnar.
Einnig fjallaði ráðherrann um umhverfismál, landbúnaðarmál og mikilvægi þess að þróunarríkjunum verði tryggður aðgangur að ódýrum lyfjum þegar neyðarástand skapast, m.a. vegna alnæmis.
Í máli ráðherrans um landbúnaðarmál áréttaði hún að Ísland styddi langtímamarkmið um aðlögun landbúnaðar að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi í samræmi við landbúnaðarsamning WTO, en lagði jafnframt áherslu á að tekið verði tillit til þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis. Vék ráðherrann sérstaklega að byggðasjónarmiðum, umhverfismálum og fæðuöryggi í því sambandi.
Ræða ráðherra fylgir fréttatilkynningunni.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. nóvember 2001.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum