Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2005 Innviðaráðuneytið

Hver er staðan á öryggismálum sjómanna í dag?

Málfundir um öryggismál sjómanna verða haldnir víða um land í vetur. Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig öryggi sjómanna varða eru hvattir til að mæta.

Fundaröðin hófst á Grundarfirði 2. nóvember síðastliðinn. Næstu fundir eru áætlaðir á Ísafirði í nóvember, Dalvík og Þórshöfn í desember, Hornafirði og í Vestmannaeyjum í janúar og Grindavík og Hafnarfirði í febrúar 2006.

Fundirnir eru haldnir í tengslum við áætlun Samgönguráðuneytisins um öryggi sjófarenda.

Dagskrá fundanna, sem taka um tvo og hálfan klukkutíma, er fjölbreytt. Meðal áhersluatriða er umfjöllun um árangur af langtímaáætlun um öryggi sjófaranda. Farið verður yfir stöðu verkefna og greint frá því sem áunnist hefur. Þá verða nýjungar í öryggisfræðslu sjómanna kynntar, sem og upplýsingakerfi fyrir sjófarendur. Talsmenn útgerðarmanna og sjómanna á heimaslóð fara yfir áherslur í öryggismálum sjómanna og Vaktstöð siglinga fer yfir björgun á sjó.

Eins og áður sagði eru fundirnir haldnir í tengslum við áætlun um öryggi sjófarenda og að þeim standa: Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeiganda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Ísland, Samgönguráðuneytið og Siglingastofnun sem fer með framkvæmd áætlunarinnar.

Samgönguráðherra ávarpaði fundarmenn á Grundarfirði 2. nóvember síðastliðinn. Ræða ráðherra er eftirfarandi:

Ágætu fundarmenn.

Fyrst vil ég leyfa mér að þakka þeim sem unnið hafa að undirbúningi þessa fundar og þeim fjölmörgu sem leggja hönd að öryggismálum sjómanna.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að marka stefnu og móta samfélagið með löggjöf og margskonar framkvæmdum. Þegar ég tók við embætti samgönguráðherra, eftir kosningar 1999, var mér ljúft og skylt verandi fæddur og uppalinn í sjávarbyggðinni Ólafsvík, að leggja sérstaka áherslu á öryggismál sjómanna. Á þessum tíma stóð styr um gildistöku á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta í íslenskum skipum. Forverar mínir höfðu frestað því að setja reglugerðina og var það eitt fyrsta verk mitt að taka á því mikilvæga öryggismáli sjómanna. Áður en árinu 1999 lauk höfðu tekið gildi reglur um losunar- og sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta og í dag er gerð krafa um slíkan búnað fyrir öll skip sem gerð eru út í atvinnuskyni á Íslandi.

Það var einnig mín skoðun að löngu hafi verið tímabært að gera langtímaáætlun um öryggismál sjómanna og tryggja fjármuni. Hugmynd mín var að slík langtímaáætlun yrði unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og að hún væri afgreidd sem ályktun Alþingis með sérstakri þingsályktunartillögu til að gefa áætluninni aukið vægi.

Í byrjun árs 2000 ákvað ég að láta í ráðuneytinu hefja undirbúning við gerð langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda. Eftir nokkurn undirbúning ráðuneytisins var skipuð sérstök verkefnisstjórn til að halda utan um verkið. Hún var skipuð fulltrúum frá samtökum sjómanna og útgerðarmanna, frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Siglingastofnun og auk formanns frá samgönguráðuneyti.

Eftir nokkurn undirbúning á vettvangi samgönguráðuneytisins og siglingaráðs var framkvæmdin falin Siglingastofnun, sem vann með verkefnastjórninni að framkvæmd verksins. Stofnunin réð sérstakan starfsmann tímabundið til að sinna þessu verkefni. Verkefnið var kynnt á heimasíðu Siglingastofnunar og voru allir, sem láta sig öryggismál sjómanna varða, hvattir til að koma með hugmyndir til að bæta öryggi um borð í skipum. Einnig voru spurningalistar lagðir fyrir áhafnir skipa þar sem sjómönnum var gefin kostur á að koma fram með sín sjónarmið um það sem betur mætti fara í öryggismálum sjómanna. Svör bárust frá 120 starfandi sjómönnum og auk þess komu fram ýmsar aðrar skriflegar og munnlegar athugasemdir. Þegar athugasemdir höfðu verið teknar saman kom í ljós að taka þurfti til hendinni í þessum málaflokki. Sett var upp verkáætlun með áhersluatriðum sem að meginhluta voru byggð á tillögum og athugasemdum sjómanna sjálfra. Áhersluatriði langtímaáætlunarinnar tóku meðal annars á menntun sjómanna, stöðugleika skipa, átaksverkefnum, gerð fræðsluefnis og leiðbeininga, miðlun upplýsinga til sjómanna og rannsóknum á sviði öryggismála.

Í samgönguráðuneytinu var ákveðið að festa áætlunina í sessi og bera hana undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda. Í tillögunni, sem Alþingi samþykkti 19. maí 2001, ályktaði Alþingi um að á árunum 2001 til 2003 skyldi gert átak í öryggismálum sjófarenda. Markmið átaksins skyldi vera að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra sem og farþega á íslenskum skipum og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu. Stefnt skyldi að því að skilgreina hlutverk þeirra sem vinna að öryggismálum sjófarenda og að slysum til sjós fækkaði um að minnsta kosti þriðjung fram til ársins 2004 og að sama skapi drægi úr tjóni vegna sjóslysa.

Í dag eru öryggismál sjófarenda orðin hluti af samgönguáætlun, eins og umferðaröryggisáætlun, samkvæmt lögum um samgönguáætlun, sem áætlun um öryggi sjófarenda. Byggt verður áfram á þeim hugmyndum og áhersluatriðum sem lágu að baki langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda fyrir árin 2001 til 2003. Með samgönguáætlun hefur áætluninni verið tryggt fé til næstu ára þannig að áfram verður unnið kappsamlega að öryggismálum sjómanna á þessum vettvangi.

Önnur mál sem ég vil leyfa mér að nefna og af því sem ég hef lagt áherslu á í þágu öryggismála er í fyrsta lagi ný löggjöf og algjör endurskipulagning á starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa. Í öðru lagi fékk ég samþykkt á Alþingi löggjöf um vaktstöð siglinga. Með þeirri löggjöf var brotið blað þar sem með henni voru sköpuð skilyrði fyrir björgunar- og fjarskiptamiðstöð sem rekin er undir hatti Öryggis- og fjarskiptamiðstöðvarinnar í Skógarhlíð, Reykjavík. Ég tel að það hafi verið mikið heillaskref að setja upp vaktstöð siglinga og setja yfirstjórn björgunar- og vaktstöðvar undir einn hatt. Það var unnið í góðu samstarfi dómsmálaráðuneytisins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

En hvað hefur áunnist með þessum aðgerðum öllum og ekki síst langtímaáætlun? Eitt af megin markmiðum langtímaáætlunarinnar var að fækka slysum um þriðjung til ársins 2004.

Þetta er gott markmið, ekki síst í ljósi þess að mikill árangur hefur náðst á síðustu áratugum við að fækka slysum á sjó. En það þarf að hafa meira fyrir enn frekari árangri. Á árabilinu 1965-1984 fórust að meðaltali 17 sjómenn ár hvert. Síðastliðinn 20 ár hafa að meðaltali 5 sjómenn farist. Slysum, öðrum en banaslysum, hefur auk þess fækkað. Þannig sýna skráningar Tryggingastofnunar að slysum á sjómönnum hefur að meðaltali fækkað um 52% á síðustu 20 árum.

Ef við skoðum tölfræðina fyrir síðustu ár þá hafa dauðaslys um borð í íslenskum fiskiskipum verið eitt til tvö á ári frá árinu 1997 utan árið 2001en þá fórust sjö sjómenn og einn árið 2004. Skip, sem hafa farist frá árinu 1997, hafa verið á bilinu þrjú til tíu. Ekki hefur verið samhengi milli fiskiskipa sem hafa farist og dauðaslysa á fiskiskipum. Til dæmis fórust tíu fiskiskip árið 2000 en einn sjómaður lést það ár í dauðaslysi. Árið 2001 farast þrjú fiskiskip en sjö sjómenn í dauðaslysum það ár. Það er mjög erfitt að bera saman dauðaslys milli ára vegna þess að þau eru orðin, sem betur fer, tiltölulega fá. Einnig hefur sjómönnum hlutfallslega fækkað milli ára.

Tilkynningar um slys til Tryggingastofnunar hefur fækkað frá 361 árið 2000 í 309 árið 2004 eða um 15%. Tilkynnt slys til Tryggingastofnunar hefur farið hlutfallslega fækkandi frá árinu 1997. Þó ber að geta þess hér að samningar milli sjómanna og útvegsmanna geta haft áhrif á fjölgun tilkynntra slysa til Tryggingastofnunar hin síðari ár vegna ákvæða í samningum um örorkumat og veikindadaga.

Sem samgönguráðherra get ég verið ánægður með árangur langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda um leið og ég slæ þann varnagla að aldrei má slá slöku við í þessu efni. Ég er því mjög ánægður með að hafa tryggt áframhald á þessari vinnu sem áætlun um öryggi sjófarenda í samgönguáætlun. Við vitum að aldrei verður hægt að koma í veg fyrir slys en að setja sér það markmið að fækka þeim er verðugt og metnaðarfullt verkefni. Þessi fundur hér í kvöld er hluti þessa verkefnis.

Eins og ég gat um hér í upphafi þá vari mér það bæði ljúft og skylt að greiða eftir megni götu öryggismála sjómanna eftir að ég varð samgönguráðherra. Með langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda í samgönguáætlun 2005 til 2008 tel ég að markmiðum um bætt öryggi sjómanna og fækkun slysa um borð í skipum hafi orðið að veruleika. En þessu starfi er ekki lokið. Við verðum að halda áfram og árangur næst einungis með samstilltu átaki ykkar sjómanna og þeirra sem skipuleggja þjálfun og björgunaraðgerðir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum