Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2005 Innviðaráðuneytið

Málfundur um öryggismál sjómanna á Vestfjörðum

Í kvöld klukkan 19:00 verður haldinn málfundur um öryggismál sjófarenda í Guðmundarbúð á Ísafirði

Málfundir um öryggismál sjómanna verða haldnir víða um land í vetur. Fundaröðin hófst á Grundarfirði 2.nóvember síðastliðinn og nu er röðin komin að Ísafirði. Næstu fundir eru svo áætlaðir í Dalvík og Þórshöfn í desember, Hornafirði og í Vestmannaeyjum í janúar og Grindavík og Hafnarfirði í febrúar 2006.

Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig öryggi sjómanna varða eru hvattir til að mæta.

Dagskrá fundanna, sem taka um tvo og hálfan klukkutíma, er fjölbreytt. Meðal áhersluatriða er umfjöllun um árangur af langtímaáætlun um öryggi sjófaranda. Farið verður yfir stöðu verkefna og greint frá því sem áunnist hefur. Þá verða nýjungar í öryggisfræðslu sjómanna kynntar, sem og upplýsingakerfi fyrir sjófarendur. Talsmenn útgerðarmanna og sjómanna á heimaslóð fara yfir áherslur í öryggismálum sjómanna og Vaktstöð siglinga fer yfir björgun á sjó. Á fundinum í kvöld verður Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, fundarstjóri.

Fundirnir eru haldnir í tengslum við áætlun Samgönguráðuneytisins um öryggi sjófarenda og að þeim standa: Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeiganda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Ísland, Samgönguráðuneytið og Siglingastofnun sem fer með framkvæmd áætlunarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum