Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna um gæði og árangur í heilbrigðisþjónustu

Setningarræða Ingibjargar Pálmadóttur,
heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
Ráðstefna um gæði og árangur í heilbrigðisþjónustu,


Ágætu ráðstefnugestir, veriði velkomnir.
Það er óhætt að segja að við lifum einhverjar mestu breytingar, sem orðið hafa á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisvísindum í sögu þjóðarinnar og sumir myndu segja í sögu þjóðanna. Fagfólk býr yfir meiri tæknilegri kunnáttu en áður og stóraukin fjárframlög til vísinda, ekki hvað síst heilbrigðisvísinda, hafa skilað okkur mikilli þekkingu.

Flest bendir til þess að Íslendingar hafi aldrei haft á að skipa jafn mörgum og hæfum heilbrigðisstarfsmönnum og sennilega hefur sú fullyrðing, að við rekum hér heilbrigðisþjónustu á heimsvísu, aldrei verið jafn sönn og rétt og nú. Svo ör er þróunin á vísindasviðinu að orðatiltækið: Við stöndum nú á tímamótum, hefur jafnvel glatað merkingu sinni.

Þrátt fyrir þessar öru breytingar er sumt sem ekki breytist. Gæði og árangur ræðst af miklu leyti af trúmennskunni sem starfsmenn leggja í starf sitt, við erum enn að veita þjónustu og við erum til fyrir sjúklinginn og ekki öfugt. Þetta breytist ekki þótt byltingarkenndar framfarir verði í meðferð og heilbrigðistækni. Og af því ég minnist á heilbrigðistækni og vísindi þá er það afskaplega mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna og íslenskan vísindaheim, að hér skuli hafa risið upp öflug fyrirtæki á þessu sviði. Ég nefni til dæmis Íslenska erfðagreiningu og Urði, Verðandi og Skuld, Flögu, Stoð, Delta og Össur. Ég undirstrika að ég nefni þessi fyrirtæki aðeins sem dæmi. Starfsemi fyrirtækja á þessu sviði þýðir að við tökum virkan þátt í alþjóðlegri þekkingarbyltingu og við skulum í þessu sambandi ekki gleyma því, að þessi starfsemi byggist hérlendis á þeirri reynslu, sem orðin er til í íslensku heilbrigðisþjónustunni. Sá reynslu og þekkingarbrunnur er ein af forsendunum fyrir því að við getum lagt okkar af mörkum til þróunarstarfs af sama og stundum meiri krafti en fjölmennari þjóðir.

Ný fyrirtæki af því tagi sem ég nefni hér munu stuðla að stórstígum framförum í þróun lyfja og lækningaaðferða á næstu árum. Atvinnustarfsemin, vísindarannsóknir og menntun samþættast í þessum fyrirtækjum og munu stuðla að betri þjónustu og meiri árangri í heilbrigðisþjónustunni. En við megum aldrei gleyma því að þótt framfarir séu miklar þá er sumt sem breytist ekki eins og ég gat um áðan, eða breytist hægt, og við megum ekki tapa okkur í framtíðardraumum. Við megum ekki láta tækni-eða vísindahyggjuna villa okkur sýn. Við verðum líka að huga að siðferðilegum málum og reyna að leggja gæði og árangur á mælistiku siðfræðinnar. Það er ekki endilega víst að það sem við getum tæknilega, sé það sem æskilegast er fyrir einstaklingana. Það er afar brýnt, ekki síst á sviði heilbrigðisþjónustunnar, að menn gefi þessum þáttum gaum.

Það liggur í tímanum, eins og sagt er, að allt sé leyfilegt sem er mögulegt. Hér verða menn að staldra við og hugsa. Vega hlutina og meta, og það er kannske einkum í þessu sambandi, sem menn mega ekki forðast það að spyrja einfaldra spurninga, eins og til dæmis: Mun þetta gagnast sjúklingunum? Hverra erinda erum við að ganga? Við verðum að líka hafa hugfast að það þarf að ríkja sátt um grundvallarhugsunina í heilbrigðiskerfinu, einkum og sér í lagi þau siðfræðilegu viðmið sem við störfum eftir. Það var einmitt þess vegna sem ég skipaði nefnd árið 1996 til að gera tillögur um það, hvernig væri unnt að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Þær vönduðu tillögur taka ekki aðeins til skipulags-eða fjármála, heldur líka siðfræðlegra þátta. Og það er einmitt þetta sem ég vil leggja áherslu á og hvetja til, að þið eflið umræðuna um forgangsröðun og siðfræðileg málefni tengd heilbrigðisþjónustunni því þar er ekki síst að leita mælikvarða á gæði og árangur á þessu sviði.

Forystumenn breska Verkamannaflokksins með Tony Blair í broddi fylkingar eru að velta því fyrir sér, hvort þeir eigi að fara að stjörnumerkja heilbrigðisstofnanir. Koma á fót nefnd manna, sem gæfi heilbrigðisstofnunum stjörnur líkt og gert er um hótel,- veitinga-, og skemmtistaði. Þessi hugmynd er annað hvort búin til á auglýsingastofu, sem áttar sig ekki á að samband sjúkra og heilbrigðisstarfsmanna er ekki eins og sambandið sem verður til þegar viðskiptavinur fer í fiskbúð að ná sér í soðið. Eða þá, að heilbrigðiskerfið breska er rjúkandi rúst eftir langa stjórnarsetu íhaldsmanna, nema Verkamannaflokknum hafi tekist að klúðra málum á stuttum valdatíma sínum. Ég nefni þetta af því að heilbrigðismálin eru alltaf rædd á pólitískum grunni. Það næst enginn árangur með svona stjörnubrellum, hvorki þar né hér.

Til að tryggja gæði og árangur í heilbrigðisþjónustu höfum við meðal annars sameinað stóru spítalana í Reykjavík. Við höfum sameinað tugi heilbrigðisstofnana úti um land og sett þær stjórnunarlega undir einn hatt – á Austurlandi, á Norðurlandi-eystra, á Vestfjörðum, á Suðurlandi og víðar. Hugmyndin er að veita sambærilega, og jafn góða þjónustu, eins víða og hægt er. Hugmyndin er líka með þessu að hugsa til lengri framtíðar því hvað sjáum við fyrir?

Hvað þýðir upplýsinga-og þekkingarbylting?
Hvað þýðir það þegar menn segja að heimurinn sé alltaf að minnka?
Í heilbrigðisþjónustunni þýðir það, að við erum í harðri samkeppni um fagfólk á alþjóðlegum markaði. Ef við getum ekki boðið faglega fullnægjandi umhverfi, ef við getum ekki boðið almenn kjör á borð við það sem er í boði annars staðar, þá missum við þetta fólk úr landi – svo einfalt er það. Það er þannig sem heimurinn er að minnka í heilbrigðisþjónustunni.

Liður í því að bjóða upp á faglega fullnægjandi umhverfi er sameining stóru spítalanna í Reykjavík. Okkur ber skylda til þess að reka hér eitt öflugt hátæknisjúkrahús, sem er í nánum tengslum við Háskóla Íslands. Þeir sem efast um sameininguna færðu fram þau rök að skortur á samkeppni myndi leiða til lakari þjónustu og óheppilegra kerfis. Jónas Magnússon, prófessor, var einmitt spurður um samkeppnina fyrir skemmstu og svaraði svona:

"Við höfum samkeppni og samanburð við útlönd. Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalinn eiga ekki að bera sig saman, slík eining á að bera sig saman við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi sem við gerum reyndar nú þegar eða John Hopkins í Bandaríkjunum. Við eigum að setja markið hátt, fólk ætlast til þess af okkur og við eigum að gera eins vel og aðrir, ef ekki betur. Ég bendi líka á að læknar bera sig saman innbyrðis og það ríkir faglegur metnaður innan hverrar deildar og menn eru stoltir af verkum sínum."

Þetta er kjarni málsins, þetta svarar spurningum efasemdarmannanna og skýrir af hverju okkur er nauðsynlegt að leggja vaxandi áherslu á gæði og árangur. Samanburðurinn við önnur lönd verður gerður á þessum grundvelli – það er á þessum velli sem samkeppni framtíðarinnar fer fram.

Ég hef alltaf verið sannfærð um, að þegar horft er til gæða, árangurs og hagsmuna sjúklingsins, þá hefði það verið fullkomlega óverjandi vegna hagsmuna sjúkra í bráð og lengd að fresta sameiningu spítalanna í Reykjavík, eða láta þá þróast hvorn með sínu sniði. Sameiningin er lykillinn að frekari verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustu hér á landi, hún gerir okkur kleift að miða okkur við og keppa við erlendar sjúkrastofnanir í gæðum og árangri og hún mun tryggja það sem ég veit að við viljum öll geta sagt, en það er að við rekum hér heilbrigðisþjónustu á heimsvísu.

Ágætu ráðstefnugestir.
Það sagði í leiðara dagblaðs ekki alls fyrir löngu, að einu raunverulegu rökin sem færð væru fram gegn einkarekstri sjúkrahúsa væru af siðferðilegum toga sprottin. Eða eins og sagði orðrétt: "Þar takast á sjónarmið um það, hvort fullkominn jöfnuður eigi að ríkja um aðgengi að heilbrigðisþjónustu eða hvort þeir sem vilja eiga að hafa rétt til þess að greiða fyrir þá þjónustu." Þetta er laukrétt athugasemd þess sem skrifar nákvæmlega þarna liggja hinar pólitísku átakalínur í heilbrigðismálunum.

Ég vil ekki að þeir sem hafa efni á því hafi sérstakt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Ég vil að stefnan verði áfram fullkominn jöfnuður, og ég veit að yfirgnæfandi meirihluti fólks er sömu skoðunar.

Að lokum þetta: Það er afar mikilvægt að ræða gæðamál og árangur í heilbrigðisþjónustunni eins og við gerum hér í dag, og þá er ég ekki fyrst og fremst að tala um okkur sem hér erum, heldur þá sem við veitum þjónustuna.

Gæðamál, eða gæðastjórnun, eru tæki, ekki takmark. Höfum það hugfast.

[Talað orð gildir]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira