Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2000 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp til laga um sjúklingatryggingu - flutningsræða

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra:

Flutt á 125. löggjafarþingi
7. apríl 2000

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um sjúklingatryggingu, en frv. gerir ráð fyrir að sjúklingar verði tryggðir með sérstakri sjúklingatryggingu ef þeir verða fyrir heilsutjóni í tengslum við læknismeðferð eða aðra heilbrigðisþjónustu.

Sjúklingatrygging felur í sér víðtækari rétt sjúklings til bóta en hann á eftir almennum skaðabótareglum og núgildandi reglum samkvæmt lögum um almannatryggingar. Slíkar sjúklingatryggingar hafa verið teknar upp annars staðar á Norðurlöndum og hafa gefið góða raun. Hér á landi hefur frá árinu 1989 verið vísir að sjúklingatryggingu í slysatryggingakafla almannatryggingalaganna. Var um að ræða bráðabirgðaúrræði þangað til ný lög um sjúklingatryggingu yrðu samþykkt.

Með frv. þessu er stefnt að því að gera íslenskar reglur um sjúklingatryggingu í aðalatriðum svipaðar öðrum norrænum reglum. Á þann hátt er verið að auka bótarétt sjúklinga sem bíða heilsutjón vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð.

Frv. til laga um sjúklingatryggingu var lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi, en náði ekki fram að ganga. Það frv. sem nú er lagt fram byggir á því frv.

Fjölmargir aðilar hafa fengið frv. til umsagnar og voru umsagnirnar mjög jákvæðar og gagnlegar. Á meðal þeirra sem fengu frv. til umsagnar voru stóru sjúkrahúsin í Reykjavík, Landssamband sjúkrahúsa, landlæknir, Neytendasamtökin, Tryggingastofnun ríkisins, Lögmannafélag Íslands, Samband íslenskra tryggingafélaga, dóms- og kirkjumrn. og Örykjabandalagið. Umsagnaraðilar fögnuðu því að sett yrðu lög um sérstaka sjúklingatryggingu.

Sjúklingur sem verður fyrir heilsutjóni af völdum læknismeðferðar eða í tengslum við hana á yfirleitt ekki rétt á bótum eftir almennum skaðabótareglum nema hann geti sannað að tjónið verði rakið til sakar annars manns. Sjúklingur getur orðið fyrir heilsutjóni af ýmiss konar skakkaföllum í tengslum við læknismeðferð, rannsókn eða slíkt án þess að skilyrði bótaréttar eftir almennum skaðabótareglum séu fyrir hendi. Oft er sök augljóslega ekki orsök tjóns en í öðrum tilvikum benda líkur til sakar þótt ekki takist að sanna að svo sé. Ýmis dæmi eru um að varanleg örorka hljótist af meðferð sjúklinga, einkum á sjúkrahúsum þar sem stærri aðgerðir eru gerðar. Í sumum tilvikum hefur örorka mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir sjúklinginn.

Skaðabótaregur veita samkvæmt þessu ekki nærri alltaf bótarétt vegna heilsutjóns sem hlýst af læknisaðgerð eða annarri meðferð innan heilbrigðiskerfisins.

Frv. gerir ráð fyrir að fjárhæð bóta fari eftir skaðabótalögum. Bætur skulu greiddar ef virt tjón nemur 50 þús. kr. eða hærri fjárhæð, hámark bótafjárhæðar vegna hvers einstaks tjónatilviks skal þó vera 5 millj. kr. Rétt er að benda á að hér er um að ræða bætur sem greiddar eru án tillits til sakar. Réttur sem sjúklingur kann að eiga vegna mistaka eða vanrækslu skerðist ekki, þannig að sjúklingur sem verður fyrir tjóni sem nemur hærri fjárhæð en 5 millj. kr. og er bótaskylt samkvæmt almennum skaðabótareglum getur eftir sem áður gert kröfu um það sem á kann að vanta og fer þá um hana samkvæmt almennum reglum.

Eins og áður sagði er tilgangurinn með frv. að tryggja sjúklingi sem verður fyrir heilsutjóni vegna læknismeðferðar víðtækari rétt til bóta en hann á eftir almennum skaðabótareglum og núgildandi reglum um almannatryggingar. Einnig er verið að gera honum auðveldara að ná rétti sínum.

Helstu rök fyrir sjúklingatryggingu er að sönnunarvandkvæði í þessum málaflokki eru oft meiri en á öðrum sviðum, bæði vegna læknisfræðilegra álitamála og vegna þess að oft eru ekki aðrir til frásagnar en þeir sem eiga hendur sínar að verja þegar sjúklingur heldur því fram að mistök hafi orðið. Einnig er kostnaður við rekstur skaðabótamála oft mikill, einkum þegar mikill vafi leikur á um sönnun gáleysis eða orsakatengsla.

Það eru einnig rök fyrir sjúklingatryggingu að æskilegt er að sem víðtækust vitneskja fáist um það sem betur má fara í heilbrigðiskerfinu. Slík vitneskja er nauðsynleg ef gera á úrbætur. Skaðabótamál eru fallin til að skapa tortryggni og geta spillt eðlilegu og nauðsynlegu sambandi sjúklings og þess sem þjónustuna veitir. Dómsmál eru því ekki til þess fallin að auðvelda öflun almennra upplýsinga um það sem miður fer. Bótaréttur úr sjúklingatryggingu er hins vegar ekki háður því að unnt sé að sýna fram á persónulega ábyrgð læknis eða annars starfsmanns.

Að lokum ætti víðtækur bótaréttur að draga úr neikvæðum afleiðingum hjá sjúklingi vegna afdrifaríkra fylgikvilla eða óvenjulegra eftirkasta læknismeðferðar. Frv. nær til allrar heilbrigðisþjónustunnar og þeir sem eiga rétt á bótum eru sjúklingar sem verða hér á landi fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða á annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hefur hlotið löggildingu heilbr.- og trmrh.

Einnig nær sjúklingatrygging til sjúklinga sem svokölluð siglinganefnd Tryggingastofnunar ríkisins heimilar að senda til læknismeðferðar á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun erlendis í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að veita læknismeðferð hér á landi.

Menn sem gangast undir læknisfræðilega tilraun sem ekki er liður í sjúkdómsgreiningu eða meðferð á sjúkdómi þess er í hlut á eiga sama rétt og sjúklingar samkvæmt frv. nema annars sé getið sérstaklega. Sama á við um þá sem gefa vef, líffæri, blóð eða annan líkamsvökva.

Samkvæmt frv. skal greiða bætur vegna allra tjóna sem rakin verða til þess að eitthvað fer úrskeiðis hjá lækni eða öðrum starfsmanni eða til bilunar eða galla í tæki. Við mat á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni er ekki notaður mælikvarði hinnar almennu sakarreglu skaðabótaréttar, heldur er miðað við hvað gerst hefði ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og hægt var. Þá skal greiða bætur vegna allra tjóna sem ljóst er að komast hefði mátt hjá með því að beita annarri aðferð eða annarri tækni sem völ var á. Bætur greiðast þrátt fyrir að tjón hafi verið óhjákvæmilegt og þó því aðeins að tjón sé meira en sanngjarnt er að sjúklingur beri. Sjúklingatrygging tekur ekki til tjóns sem einvörðungu verður rakið til eiginleika lyfs. Slíkt tjón fellur undir lög um skaðsemisábyrgð.

Í frv. er lagt til að allir sem veita heilbrigðisþjónustu innan stofnunar sem utan beri bótaábyrgð. Þegar um sjúklinga, sem brýn nauðsyn er að vista á heilbrigðisstofnun erlendis, er að ræða ber Tryggingastofnun ríkisins bótaábyrgð. Þó eru dregnar frá bætur sem kunna að vera greiddar í hinu erlenda ríki vegna tjónsins.

Gert er ráð fyrir að bótaskyldir aðilar kaupi sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélagi, heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum sem ríkið á eða er eignaraðili að og Tryggingastofnun ríkisins er þá heimilt að bera bótaábyrgð á eigin áhættu.

Gert er ráð fyrir að kröfur um bætur vegna tjóns á öðrum en þeim sem bera bótaábyrgð í eigin áhættu verði beint að vátryggingafélagi. Kröfu um bætur vegna tjóns hjá þeim sem bera bótaábyrgðina í eigin áhættu verður hins vegar beint að Tryggingastofnun ríkisins.

Í frv. er gert ráð fyrir að ákvæði almannatryggingalaga um sjúklingatryggingu falli brott. Þó er gert ráð fyrir að þeir sem eru með bætur frá Tryggingastofnun ríkisins haldi þeim bótum sem þeir hafa áunnið sér, t.d. örorkubótum sem greiddar eru mánaðarlega, þar til einstaklingur hefur náð ellilífeyrisaldri. Enn fremur er gert ráð fyrir að kröfur eða tilkynningar fyrir gildistöku laganna verði afgreiddar samkvæmt almannatryggingalögum.

Virðulegi forseti. Ef frv. til laga um sjúklingatryggingu verður að lögum er það geysilega mikið framfaraspor í heilbrigðisþjónustunni. Það er mikil réttarbót fyrir sjúkling að geta leitað eftir bótum vegna heilsutjóns á einfaldan og skilvirkan hátt. Það er einnig ávinningur fyrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar að sjúklingatryggingu verði komið á, þar sem ekki er verið að leita að sök við mat á því hvort sjúklingur eigi rétt á bótum eða ekki. Ég tel að sjúklingatryggingin muni leiða til aukinna gæða í heilbrigðisþjónustu.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr. að þessari umræðu lokinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum