Hoppa yfir valmynd
3. október 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 58/2014 úrskurður 3. október 2014

Mannanafnanefnd-úrskurðir

 

 

               Mál nr. 58/2014                     

Eiginnafn:      Sveinnóli

 


 

Hinn 3. október 2014 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 58/2014 en erindið barst nefndinni 30. júní:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

(2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

(3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er meðal annars vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. (2) og (3) hér að ofan.

Það fer gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku ef nefnifallsmynd nafnsins, þ.e. Sveinn-, er notuð sem fyrri liður í öllum föllum (nf. Sveinnóli, ef. Sveinnóla). Nefnifallsmynd myndar aldrei fyrri lið samsetts orðs heldur er annaðhvort notuð í íslenskri orðmyndun stofnsamsetning, þar sem fyrri liður er stofn orðsins (sést oft í þolfalli) (t.d. steinhús, dagskrá, Sveinbjörg og Sveinlaugur) eða eignarfallssamsetning, þar sem fyrri liður er í eignarfalli (steinahrúga, dagsljós). Nafnmyndin Sveinnóli bryti því í bág við íslenskt málkerfi.

Ekki er hefð fyrir því að fyrri liður samsetts nafns fallbeygist, það gerir aðeins sá síðari. Ef báðir liðir orðsins eru beygðir: Sveinnóli, þf. Sveinóla, þgf. Svein(i)óla, ef. Sveinsóla þá verður að líta svo á að báðir liðir nafnsins séu sjálfstæð eiginnöfn sem beygjast í öllum föllum. Það er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Sveinn og Óli sem eitt orð, þ.e. Sveinnóli.

Rithátturinn Sveinnóli er því hvorki í samræmi við íslenskt málkerfi né almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996.

Til samanburðar vísast til úrskurðar mannanafnanefndar frá 27. júní 2005 í máli nr. 59/2005, vegna umsóknar um eiginnafnið Annalísa, og jafnframt til úrskurðar frá 4. febrúar 2010 í máli nr. 69/2009, vegna umsóknar um eiginnafnið Liljarós.

 

 

 

 

 Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Sveinnóli (kk.) er hafnað.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum