Hoppa yfir valmynd
5. maí 2011 Innviðaráðuneytið

Ný nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins

Nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins tók nýlega til starfa. Innanríkisráðherra ákvað að skipa nefndina til að halda áfram vinnu sem hefur staðið yfir varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins og er áætlað að nefndin ljúki störfum í lok ársins.

Nefndinni hefur verið falið að fjalla einkum um framvindu og stöðu verkefna sem unnið hefur verið að í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga, að kanna frekari leiðir og aðgerðir til eflingar sveitarstjórnarstigsins svo sem með sameiningu eða aukinni samvinnu sveitarfélaga. Einnig að fjalla um margvíslegar leiðir og tilraunir til aukinnar þátttöku íbúa sem reyndar hafa verið hérlendis og erlendis og að skoða nýjungar í stjórnsýslu sveitarfélaga meðal annars með hliðsjón af svæðisbundinni samvinnu.

Þá er nefndinni ætlað að veita stuðning og hvatningu vegna þeirrar vinnu, sem nú stendur yfir hjá sveitarfélögum eða landshlutasamtökum og miðar að því að efla sveitarstjórnarstigið og lýðræðislega þátttöku. Skal hún eiga náið samráð við öll landshlutasamtök og einstök sveitarfélög eftir atvikum, sem og einstök ráðuneyti og í samræmi við markmið Ísland 20/20 áætlunarinnar er því beint til nefndarinnar að vinna náið með landshlutasamtökunum.

Formaður nefndarinnar er Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi. Aðrir í nefndinni eru: Gunnar Svavarsson, fyrrverandi alþingismaður, og Eva Sigurbjörnsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Árneshreppi, skipuð án tilnefningar, Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ og Guðrún María Valgeirsdóttir, sveitarstjóri í Skútustaðahreppi sem tilnefnd eru af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt mun starfa með nefndinni Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu.

Á myndinni eru nefndarmenn og fulltrúar ráðuneytisins, frá vinstri: Guðni Geir Einarsson, Hermann Sæmundsson, Eva Sigurbjörnsdóttir, Gunnar Svavarsson, Stefanía Traustadóttir, Gunnar Einarsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Ragnheiður Hergeirsdóttir, Guðrún María Valgeirsdóttir og Eiríkur Benónýsson.

Efling sveitarstjórnarstigsins - nýr starfshópur fundar 29. apríl

 

Hér að neðan eru tengingar á margs konar efni sem snertir verkefni nefndarinnar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum