Hoppa yfir valmynd
26. september 2013 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2013

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Ríkisútvarpinu ohf.

Ráðning í starf. Hæfnismat. Málskostnaður.

Ríkisútvarpið ohf. sagði kæranda upp starfi sem hljóðtæknimanni í ágúst 2012. Kærandi, sem er kona, hafði fengið launalaust leyfi hjá kærða. Hún bar fram kæru við kærunefnd jafnréttismála vegna þriggja brota er hún taldi Ríkisútvarpið ohf. hafa framið gegn lögum nr. 10/2008. Kærandi taldi að brot hefði átt sér stað með því að ráða hana ekki í afleysingastarf hljóðtæknimanns á fréttastofu í apríl 2012 eða í starf tveggja sumarafleysingamanna hjá dagskrá útvarps í júní 2012 og með því gert henni kleift að hefja störf að nýju fyrr en áætlað hafði verið. Einnig taldi kærandi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að segja henni upp störfum í lok ágúst 2012 en hún taldi sig vera að minnsta kosti jafnhæfa og þrír karlmenn sem sinntu sama starfi hljóðmanna hjá kærða. Kærunefnd taldi að kæran væri nægilega snemma fram komin hvað varðaði öll þrjú kæruefnin. Var niðurstaða nefndarinnar að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í þrjú fyrrgreind störf þar sem kærandi hefði verið hæfari en þeir þrír starfsmenn er ráðnir voru. Nefndin taldi einnig að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 við uppsögn kæranda úr starfi hljóðtæknimanns þar sem hún hefði að minnsta kosti verið jafnhæf þeim þremur karlmönnum er gegndu sömu störfum hjá fréttastofu og þar sem konur voru í miklum minnihluta starfsmanna í starfsgreininni.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. september 2013 er tekið fyrir mál nr. 3/2013 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri og póstlagðri 28. febrúar 2013, kærði A, þrjár ákvarðanir Ríkisútvarpsins ohf. Í fyrsta lagi uppsögn kæranda sem tæknimanns hjá kærða, dags. 29. ágúst 2012. Í öðru lagi ákvörðun kærða um að ráða karla í tvö sumarstörf hjá dagskrá útvarps í júní 2012. Í þriðja lagi ákvörðun kærða um að ráða karl í afleysingastarf á fréttastofu í apríl 2012. Kærandi telur að með uppsögninni og ráðningunum hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 7. mars 2013. Kærði óskaði eftir fresti til að skila greinargerð og var hann veittur. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 12. apríl 2013, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. apríl 2013.
 4. Þann 30. apríl 2013 barst kærunefndinni ódagsett bréf kæranda með athugasemdum við greinargerð kærða og var það kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 2. maí 2013. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 17. maí 2013, og voru þær sendar kæranda með bréfi, dagsettu 27. maí 2013. Athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni með bréfi, dagsettu 10. júní 2013. Kærunefndin óskaði eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kærða með bréfi, dagsettu 3. júlí 2013. Umbeðin gögn bárust með bréfi kærða, dagsettu 9. júlí 2013, og voru þau send kæranda með bréfi, dagsettu 15. júlí 2013. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR
 5. Kærandi, sem er kona, starfaði sem hljóðtæknimaður hjá kærða frá árinu 2007. Með bréfi, dagsettu 3. maí 2011, óskað kærandi eftir launalausu leyfi frá störfum hjá kærða vegna náms eiginmanns hennar erlendis. Með bréfi, dagsettu 16. maí 2011, var samþykkt að veita henni leyfi frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Með tölvupósti til yfirmanns kæranda þann 6. febrúar 2012 upplýsti kærandi að hún kæmi aftur til Íslands í lok maí og innti eftir því hvort hún gæti hafið störf á ný um það leyti eða sinnt sumarafleysingum. Ekki liggur fyrir að framangreindum pósti hafi verið svarað. Þá hafði hún samband við deildarstjóra hljóðdeildar Rásar 2 með tölvupósti þann 16. maí 2012 vegna sumarafleysinga. Í svari til kæranda sama dag kom fram að deildarstjóra sýndist hann þurfa á henni að halda og myndi hafa samband. Kæranda var þó hvorki boðið starf í afleysingum á fréttastofu né sumarstarf hjá dagskrá útvarps.
 6. Með bréfi frá kærða, dagsettu 29. ágúst 2012, var kæranda sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara sem telja skyldi frá og með mánaðamótum ágúst og september 2012. Kærandi kom því ekki til starfa aftur eftir hið launalausa leyfi. Með bréfi kærða til kæranda, dagsettu 3. september 2012, var uppsögnin rökstudd á þann veg að kærði væri að leitast við að hagræða í starfi. Tekið var fram að uppsögnin ætti ekki rætur að rekja til frammistöðu kæranda eða að öðru leyti til þess hvernig hún hefði rækt starfið.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 7. Kærandi heldur því fram að kærði hafi með framangreindri uppsögn og ráðningum brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem er að finna ákvæði um almennt bann við mismunun á grundvelli kyns og sérstakt bann við mismunun í starfi og við ráðningu á sama grundvelli, sbr. t.d. Hrd. 1993:2230 og Hrd. 1996:3760. Kærandi vísar til þess að henni hafi verið sagt upp þrátt fyrir að hún væri ein fjögurra til fimm kvenna af 35 tæknimönnum er starfa hjá kærða og þrátt fyrir að hún hefði meiri menntun en flestir starfsmenn á sama sviði auk verulegrar starfsreynslu. Að mati kæranda felst sú regla í ákvæðum jafnréttislaga að konu verði ekki sagt upp störfum með lögmætum hætti sé hún ein fárra kvenna á starfssviðinu og sé að minnsta kosti jafnt að því komin að halda starfinu og karlmenn á sama sviði. Kærandi gerir kröfu um að kærði greiði allan málskostnað hennar fyrir kærunefndinni, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.
 8. Að sögn kæranda lauk hún prófi í Business Management með ágætiseinkunn frá Five Towns College í New York árið 2003. Í náminu lagði hún áherslu á hljóðupptöku. Hún kveður skólann njóta alþjóðlegrar viðurkenningar á þessu sviði. Að námi loknu hafi kærandi starfað við margvísleg störf tengd hljóðupptökum og tæknistjórn í Bandaríkjunum. Þegar hún hafi flust til Íslands árið 2004 hafi hún annast hljóðeftirvinnslu, hljóðhönnun og hljóðblöndun á leikhljóðum fyrir sjónvarpsþættina Latabæ um rúmlega tveggja ára skeið. Að öðru leyti vísar kærandi í ferilskrá.
 9. Í byrjun árs 2007 hóf kærandi störf hjá kærða. Á sex ára starfsferli hennar kveðst hún meðal annars hafa annast hljóðvinnslu í fréttum útvarps og sjónvarps sem og í annarri dagskrárgerð á borð við Kastljós, Silfur Egils, Útsvar, Gettu betur, Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, íþróttaviðburði og fleira. Auk þess hafi hún borið ábyrgð á hljóði í beinum útsendingum sjónvarps og útvarps sem skipti hundruðum talsins. Á árunum 2008-2010 hafi hún annast fréttir tengdar hruni íslensku bankanna og fjöldamótmælum í því sambandi, svo og tengdar eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010. Með vísan til þessa telur kærandi ljóst að henni hafi, vegna faglegar hæfni hennar og getu til að starfa við krefjandi aðstæður undir miklu álagi, verið treyst til að vinna við margar af þeim mikilvægustu fréttaumfjöllunum sem kærði hafi haft með höndum. Frá upphafi starfa hjá kærða hafi hún hvarvetna fengið góða umsögn yfirmanna og samstarfsmanna.
 10. Kærandi kveður að samkvæmt tilkynningu til kærða um töku fæðingarorlofs hafi kærandi átt að hefja vinnu eftir fæðingarorlof þann 1. júní 2010. Á þeim tíma hafi þó engar ráðstafanir verið gerðar svo hún gæti hafið störf. Hún hafi því verið mánuði lengur í fæðingarorlofi. Þegar hún kom til starfa þann 1. júlí 2010 höfðu verið gerðar breytingar á starfi hennar og hafi hún ekki verið vaktastarfsmaður líkt og þrír karlkyns samstarfsmenn hennar sem störfuðu sem tæknimenn. Þá hafði vaktatöflu fréttadeildar verið breytt þannig að kærandi var sett á svokallaðar flexvaktir án hennar vitundar sem hafi leitt til verulegrar lækkunar á heildarmánaðarlaunum hennar. Kærandi hafi gert athugasemdir við breytinguna og leitað til Bandalags háskólamanna sem hafi boðað til sáttafundar. Deildarstjórinn, er var yfirmaður kæranda, hafi fullyrt að hún hefði samþykkt umrædda breytingu og hafi málinu ekki verið fylgt frekar eftir í ljósi þess að orð stæði gegn orði.
 11. Kærandi kveður að eftir framangreind atvik hafi viðmót deildarstjóra versnað til muna í hennar garð. Í desember 2010 hafi deildarstjóri sent rafrænt jóladagatal á alla starfsmenn tæknideildar. Dagatalið hafi verið tvískipt, einn reitur fyrir karla og annar fyrir konur, fyrir hvern dag fram að jólum. Þegar smellt hafi verið á kassana merkta konum hafi birst hlutir sem þær hafi átt að langa í, til að mynda saumavélar, straubretti og þvottavél. Þegar smellt hafi verið á kassana merkta körlum hafi hins vegar birst naktar konur í klámfengnum stellingum, annað hvort einar síns liðs eða í ástarleikjum við aðrar konur. Kæranda hafi verið misboðið og því leitað til mannauðsstjóra. Að sögn kæranda hafi mannauðsstjóra brugðið en ekkert viljað aðhafast frekar.
 12. Kærandi kveður að vorið 2011 hafi sambýlismaður hennar hlotið inngöngu í framhaldsnám erlendis. Af því tilefni hafi hún óskað eftir launalausu leyfi í eitt ár. Fallist hafi verið á það og henni veitt ársleyfi frá og með 1. september 2011. Kærandi bendir á að í því hafi falist að henni hafi verið lofað starfi þegar hún kæmi til baka en tekið hafi verið fram að starfið yrði ekki bundið við fréttastofuna.
 13. Í febrúar 2012 sendi kærandi deildarstjóra tölvupóst og tjáði áhuga sinn á því að koma fyrr til starfa, til að mynda í sumarafleysingar. Hún kveður að tölvupóstinum hafi ekki verið svarað. Í maí 2012 hafi hún aftur haft samband og fengið þær upplýsingar að nú þegar hafi verið gengið frá sumarafleysingum. Að sögn samstarfsmanna hennar hafi þó verið gengið frá ráðningu í afleysingar eftir að hún hafði samband við deildarstjóra.
 14. Kærandi kveðst hafa frétt að sumarstarfsmenn vantaði hjá dagskrá útvarps og sótt um starf með tölvupósti þann 16. maí 2012. Þegar hins vegar ganga hafi átt frá ráðningu hennar hafi mannauðsstjóri kærða upplýst að kærandi væri í leyfi til 1. september 2012 og því lokað á ráðninguna. Þegar nær hafi dregið hausti kveðst kærandi hafa sent deildarstjóra tölvupóst en ekki fengið svar. Þann 22. ágúst 2012 hafi hún síðan farið á skrifstofu kærða og deildarstjóri þá fullvissað hana um að hún gæti hafið störf að nýju. Kærandi kveður að deildarstjóri hafi síðan óskað fundar með henni vegna vaktatöflu. Sá fundur hafi verið haldinn 29. ágúst 2012 en mannauðsstjóri hafi einnig setið fundinn. Á fundinum hafi henni verið sagt upp störfum fyrirvaralaust. Rökin fyrir uppsögninni hafi verið þau að ekki væri staða fyrir hana lengur. Vaktatöflunni hafi verið breytt þegar hún hafi farið í leyfi og enginn verið ráðinn í hennar stað. Með bréfi, dagsettu 31. ágúst 2012, óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir uppsögninni og var hann látinn í té með bréfi, dagsettu 3. september 2012.
 15. Kærandi óskaði jafnframt eftir gögnum um uppsögn hennar og feril sem starfsmanns hjá kærða. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um persónuupplýsingar sem kærði hefði um hana. Gögnin voru afhent með bréfi mannauðsstjóra kærða, dagsettu 19. september 2012.
 16. Kærandi heldur því fram að ákvörðun kærða um að segja henni upp störfum sé innan sex mánaða kærufrests, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008. Ákvörðun þar um hafi verið tilkynnt henni þann 29. ágúst 2012 en rökstuðningur um ákvörðunina sendur með bréfi, dagsettu 3. september 2012. Kærandi hafi ekki fengið vitneskju um brot kærða við ráðningu í tvö sumarstörf hjá dagskrá útvarps og afleysingastarf á fréttastofu fyrr en nokkru eftir að þau hafi átt sér stað og þá fyrir milligöngu fyrrverandi samstarfsmanna. Í ljósi þessa telur kærandi að kærufrestur vegna ákvarðana um ráðningarnar hafi byrjað að líða þegar hún hafi fyrst fengið staðfest eftir frekari heimildum í október 2012 að gengið hefði verið framhjá henni við ráðningu í umrædd störf. Þegar brot kærða við ráðningarnar hafi átt sér stað hafi kærandi talið að hún kæmi til fullra starfa í september 2012 og því ekki tilefni til að afla frekari upplýsingar um ráðningarnar. Því sé þröng og ósveigjanleg túlkun ákvæðis laganna um kærufrest í andstöðu við markmið laganna.
 17. Kærandi telur að kærði hafi brotið almenna reglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008 um bann við mismunun á grundvelli kyns og hina sérstöku reglu 1. mgr. 26. gr. laganna um bann við mismunun í starfi og við ráðningu. Kærandi telur að hafa verði í huga hvernig dómstólar hafi skýrt reglur jafnréttislaga með hliðsjón af meginreglum laganna í samfelldri dómaframkvæmd sem eigi rætur að rekja til dóms Hæstaréttar í Hrd. 1993:2230. Kærandi vísar enn fremur til Hrd. 1996:3760, Hrd. 1998:3599 og Hrd. 2006:4891. Kærandi telur að sjónarmið um skýringu jafnréttislaga í framangreindum dómum eigi að öllu leyti við þegar teknar séu ákvarðanir um uppsagnir vegna hagræðingar. Samkvæmt reglum jafnréttislaga beri því við uppsagnir starfsmanna að hlífa konu við uppsögn ef hún sé að minnsta kosti jafnt að því komin að halda starfinu að því er varðar menntun og annað sem máli skipti og karlmaður sem starfi á sama sviði, ef á starfssviðinu séu fáar konur. Væri sambærileg regla ekki talin gilda við uppsagnir og um ráðningar væri í raun vegið að þeim grundvallarsjónarmiðum sem lýst hafi verið í dómum Hæstaréttar um þýðingu laganna. Slík niðurstaða þýddi að konur á starfssviðum þar sem fáar konur væru fyrir, nytu aðeins verndar laganna við ráðningu en stæðu varnarlausar gagnvart uppsögn, sem sé í eðli sínu mun harkalegri og óvægnari meingerð gegn réttindum þeirra.
 18. Kærandi bendir á að samkvæmt ákvörðun kærða um að veita henni launalaust leyfi til eins árs hafi starf hennar ekki verið bundið við ákveðna deild. Við mat á hæfni hennar í samanburði við aðra starfsmenn í tengslum við uppsögn hennar verði því að taka mið af tæknimönnum kærða almennt. Þeir tæknimenn kærða sem starfi sérstaklega sem hljóðtæknimenn séu nú einungis þrír. Þeir hafi allir lengri starfsaldur en kærandi en hún hafi þó meiri menntun en tveir þeirra. Auk þess hafi kærandi átt auðveldara með að tileinka sér nýjan tæknibúnað og vinni því verkefni hraðar. Um stöðu hljóðmanna almennt hjá kærða segir kærandi að þar starfi enn nokkur fjöldi einstaklinga sem hafi bæði minni menntun og starfsreynslu en kærandi. Þá hafi hún einnig meirapróf og geti því sjálf keyrt útsendingarbíla. Þyki það mikill kostur meðal tæknimanna hjá kærða.
 19. Í ljósi skyldna kærða samkvæmt jafnréttislögum teljist þau hagræðingarsjónarmið sem kærði hafi vísað til vegna uppsagnarinnar ekki málefnaleg ástæða í skilningi 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Kærandi telur að líta verði til beitingar dómstóla á réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins við uppsögn opinberra starfsmanna á grundvelli hagræðingarsjónarmiða, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli nr. 647/2007. Þrátt fyrir að réttmætisregla stjórnsýsluréttarins eigi ekki beint við um mál kæranda telur hún að reglan um að gætt skuli málefnalegra sjónarmiða við uppsögn feli í sér sambærilegt mat við uppsögn starfsmanna á almennum vinnumarkaði með hliðsjón af reglum jafnréttislaga. Af þessu leiði að uppsögn á grundvelli verkefnaskorts verði að byggjast á hlutlægum og trúverðugum gögnum um að verkefnum hafi í reynd fækkað. Enn fremur verði að gera kröfu um að uppsögnin styðjist við málefnaleg og einstaklingsbundin rök tengd starfsmönnum sem í hlut eigi. Geti fleiri en einn starfsmaður gegnt ákveðnu starfi eða verkefni verði að leggja á það sjálfstætt mat hvers vegna beri að segja einum upp en ekki öðrum. Í ljósi jafnréttislaga yrði það mat að styðjast við hlutlæg og málefnaleg sjónarmið um hæfni að teknu tilliti til forgangsreglu laganna. Í ljósi svara kærða, við beiðnum kæranda, um að fá afhent gögn sem kærði hafi um hana og þar sem engin gögn komi fram verði að leggja til grundvallar að engin slík gögn séu fyrir hendi. Af því leiði að kærði hafi ekki gert neitt mat á hæfni kæranda í samanburði við aðra starfsmenn áður en henni hafi verið sagt upp störfum.
 20. Varðandi hæfni kæranda í samanburði við aðra sem til greina hafi komið við ráðningu í störf tæknimanna á Rás 2 og sumarafleysingamanna hafi kærandi ekki haft aðgang að gögnum um umsækjendur. Kærandi gerir kröfu um að kærunefnd jafnréttismála beiti heimildum sínum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. jafnréttislaga til að krefja kærða um öll gögn sem lúti að ráðningunum, auk ákvarðana kærða um uppsögn kæranda.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA
 21. Kærði vísar til þess að samkvæmt 6. gr. laga nr. 10/2008 skuli erindi til kærunefndar berast skriflega innan sex mánaða frá því að ætlað brot á lögunum hafi legið fyrir. Málsatvik vegna umræddra sumarstarfa hafi átt sér stað í maí 2012, meira en tíu mánuðum fyrr. Kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem styðji eða staðfesti þær fullyrðingar að gengið hafi verið fram hjá henni við ráðningu í sumarstörf og hún hafi fyrst fengið vitneskju um slíkt í október 2012. Uppsögn úr starfi hafi átt sér stað fyrir meira en sex mánuðum. Frestur hefjist við uppsögn sem hafi farið fram þann 29. ágúst 2012 og frestur til að senda inn erindi til kærunefndar hafi runnið út þann 28. febrúar 2013. Kæra til kærunefndar hafi borist nefndinni þann 4. mars 2013 og þá hafi kærufresturinn verið liðinn.
 22. Kærði telur rétt að benda á að um kærða gildi reglur almenna vinnumarkaðarins, ákvæði hlutafélagalaga og upplýsingalög, sbr. lög nr. 6/2007. Stjórnsýslulögin gildi ekki um starfsemi kærða og ákvæði 2. málsl. 2. mgr. jafnréttislaga [sic] um að upphafstími kærufrests hefjist þegar krafist sé rökstuðnings, gildi því ekki. Ekkert í málinu leiði til þess að afsakanlegt geti talist að kæran hafi ekki borist fyrr enda hafi legið fyrir allar upplýsingar og gögn sem lögð hafi verið fram af hálfu kæranda fyrir strax í september 2012. Sú ætlun kæranda að senda inn erindi vegna sumarstarfa og uppsagnar saman leggi óhjákvæmilega þá skyldu á kæranda að gera það við fyrsta tækifæri. Engar veigamiklar ástæður geti mælt með því að kæran verði tekin til meðferðar þegar fresturinn sé liðinn. Telji kærunefndin að þrátt fyrir þetta sé ástæða til að taka málið til meðferðar sé þess krafist að meðal annars vegna tómlætis kæranda verði málskostnaður felldur niður.
 23. Kærði rekur að kærandi hafi starfað sem hljóðtæknimaður hjá kærða frá 1. október 2007 í sameiginlegri hljóðdeild félagsins. Í október 2009 hafi hljóðdeild verið skipt upp í þrjár einingar, hluti starfsmanna deildarinnar hafi farið til fréttastofu, hluti til dagskrár útvarps og aðrir á sameiginlegt verkstæði. Um hafi verið að ræða miklar skipulagsbreytingar sem hafi beinst að því að gera fréttastofu sjálfbæra og sjálfstæða um sína tæknivinnu. Kærandi, ásamt fimm öðrum, hafi verið færð til fréttastofu. Upp úr áramótum 2010 hafi verið ráðist í mjög umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir sem hafi haft í för með sér uppsagnir fjölda starfsmanna. Þá hafi starfshlutfall verið minnkað hjá tveimur tæknimönnum, en störf þeirra tveggja hafi nær eingöngu verið bundin við þáttagerð. Þrír tæknimenn hafi því sinnt hljóðtæknistörfum á fréttastofu á þeim tíma en ekki hafi verið ráðin afleysing fyrir kæranda sem var í fæðingarorlofi. Kærandi hafi komið til baka úr fæðingarorlofi þann 14. júní 2010, sem hafi verið í samræmi við tilkynningu og beiðni hennar þar um, en gert hafi verið ráð fyrir henni í 50% starf í júní. Það sé því ekki rétt að hún hafi komið mánuði síðar úr fæðingarorlofi en gert hafi verið ráð fyrir. Ekki hafi hins vegar verið hægt að koma til móts við óskir hennar um að vinna 50% vaktir heldur hafi henni boðist að vinna helming vaktanna eða hálfan júní. Á meðan hún hafi verið í fæðingarorlofi hafi vöktum verið breytt í samræmi við mönnun deildarinnar. Hún hafi gengið inn í það vaktaplan eins og aðrir starfsmenn en deildin hafi áfram verið mönnuð þremur meðan einn starfsmaður hafi verið í sumarorlofi.
 24. Kærði kveður að þegar komið hafi verið fram á haust 2010 hafi vaktaplani aftur verið breytt í fjögurra manna vaktir og hafi þær verið með þeim hætti þar til kærandi hafi farið í launalaust leyfi ári síðar, eða í september 2011, vegna flutninga til útlanda. Henni hafi verið veitt leyfi með bréfi, dagsettu 1. maí 2011, af mannauðsstjóra kærða. Í bréfi til kærða um samþykkt launalausa leyfisins hafi ekki falist sérstök uppsagnarvernd þar til kærandi kæmi til baka. Þvert á móti hafi sérstaklega verið tekið fram að ekki væri hægt að tryggja að starfið sem hún hafi sinnt biði hennar að leyfinu loknu. Ljóst hafi verið að um kæranda hafi gilt sömu uppsagnarreglur og áður.
 25. Kærandi hafi verið í umbeðnu launalausu leyfi frá störfum frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Hafi starfsmaður áhuga á því að snúa fyrr til vinnu en launalausa leyfið tók mið af þurfi hann að óska eftir því við mannauðsstjóra sem taki afstöðu til óskarinnar eftir aðstæðum hverju sinni, en samþykki beggja þurfi til á sama hátt og við veitingu leyfisins. Engin slík beiðni hafi borist frá kæranda. Þau óformlegu samskipti og fyrirspurnir sem kærandi hafi átt við deildarstjóra fréttadeildar og deildarstjóra hljóðdeildar útvarps geti ekki talist beiðni um styttingu launalauss leyfis. Það sé í raun mjög óvenjuleg og fordæmalaus aðgerð að senda fyrirspurn um starf í annarri deild í umbeðnu leyfi hjá sama vinnuveitanda.
 26. Líkt og flest sumur fram til þessa hafi sumarstarfsmenn verið ráðnir til afleysinga hjá kærða. Um hafi verið að ræða tímabundin störf sem ekki hafi verið auglýst. Sumarfólk fari almennt ekki á vaktaskrá og því sé ekki tryggt fullt starf. Fyrir sumarfólk sé því í boði óregluleg tímavinna sem oft sé skipulögð með stuttum fyrirvara. Yfirleitt sé um að ræða fólk sem nýlega hafi lokið námi og sem sé mjög sveigjanlegt varðandi vinnutíma. Það sé að sækja sér reynslu og þekkingu og geti átt möguleika á afleysingavinnu, standi það sig vel. Undirbúningur ráðninga í sumarstörf hafi hafist í fréttadeild í mars 2012. Einn hljóðmaður hafi verið ráðinn í afleysingastarf á fréttastofu og hafi hann hafið störf þann 16. apríl 2012. Þegar kærandi hafi haft samband við yfirmann sinn í maí 2012 hafi sá hljóðmaður þegar hafið störf. Engin staða hafi verið laus fyrir kæranda á fréttastofu á þeim tíma enda starf deildarinnar skipulagt miðað við þá ákvörðun kæranda að vera í leyfi fram yfir sumarfrí.
 27. Kærði kveður að þegar kærandi hafi haft samband við nýráðinn yfirmann hljóðdeildar útvarps hafi hann snúið sér til mannauðsstjóra varðandi upplýsingar um kæranda en ráðningar starfsmanna fari í gegnum mannauðsstjóra. Þar hafi komið fram að umbeðnu launalausu leyfi kæranda hafi ekki verið lokið, hvorki hefði verið óskað eftir né samþykkt breyting á tímalengd þess og að hún ætti að koma til starfa síðar um haustið. Einnig hafi verið ljóst að ekki væri möguleiki á að bjóða kæranda upp á sambærilegt starfsumhverfi, kjör og vinnutíma sem hún hafi haft í föstu starfi á fréttastofu. Byggt á fyrri samskiptum hafi einnig verið talið útilokað að kærandi myndi sætta sig við starfsumhverfi sumarstarfsmanna.
 28. Kærði upplýsir að þess hafi verið krafist um árabil að kærði sýndi eins mikið aðhald í rekstri sínum og mögulegt væri og gripið hafi verið til ýmissa aðgerða í því sambandi. Unnið hafi verið að hagræðingaraðgerðum sumarið 2012 en nokkuð ljóst hafi verið að gerð yrði krafa til fréttastofu um enn frekari aðhaldsaðgerðir við upphaf næsta fjárhagsárs, sem byrjað hafi þann 1. september 2012. Þá hafi verið nauðsynlegt að yfirfara starfsemi og rekstur fréttadeildar þar sem kærandi hafi starfað, en hluti þeirra hagræðingaraðgerða séu skýrðar í tölvupósti fréttastjóra sem sé meðal gagna málsins. Ljóst hafi verið undir lok sumars að mögulegt væri að hagræða með því að fækka starfsfólki en veita samt sömu þjónustu. Í tengslum við þessar hagræðingaraðgerðir hafi sú erfiða ákvörðun verið tekin að einum hljóðmanni yrði sagt upp störfum, þ.e. kæranda, og einnig tveimur klippurum.
 29. Kærði bendir á að forgangur kvenna til starfa komi ekki til fyrr en eftir hæfnismat, sbr. dóm Hæstaréttar 1993:2230, en þar komi fram að konu skuli veita starf ef hún sé að minnsta kosti jafnt að því komin er varði menntun og annað sem máli skipti, og karlmaður er við hana keppi, ef á starfssviðinu séu fáar konur. Sömu rök eigi við um uppsagnir starfsmanna, en í slíkum tilvikum sé einnig hægt að meta persónulega samskiptahæfni starfsmanna.
 30. Kærði upplýsir að kærandi hafi ekki verið metin jafnhæf þeim öðrum starfsmönnum sem sinnt hafi sömu störfum. Hljóðtæknimenn í fréttadeild hafi samtals verið fjórir. Hæfni þeirra hafi verið borin saman og kærandi hafi verið sá sem ákveðið hafi verið að segja upp. Meðal annars hafi verið litið til starfsaldurs, menntunar, hæfni, frammistöðu, samskiptahæfileika auk annarra þátta og viðhorf til starfsins og samstarfshæfni hafi verið meðal þeirra. Hljóðtæknimenn á fréttastofu hafi verið fjórir, þrír karlmenn og ein kona, þ.e. kærandi. Fyrsti starfsmaðurinn hafi verið karlmaður með 29 ára starfsaldur, frá 1983. Hann sé rafeindavirki frá Iðnskólanum í Reykjavík. Næsti starfsmaður sé karlmaður með 24 ára starfsaldur frá 1988. Hann sé stúdent og hafi lokið fyrsta ári í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands. Þriðji starfsmaðurinn sé karlmaður með 12 ára starfsaldur frá 1996. Hann sé með BA-gráðu í Music production and engineering og MA-gráðu í Production techniques frá bandarískum háskóla. Fjórði starfsmaðurinn sé kærandi sem sé kona með fjögurra ára starfsaldur frá 2007. Hún hafi menntun í Business Management and audio recording frá Five Town College í Bandaríkjunum. Kærði tekur fram að öll hafi þau haft meirapróf. Kærandi hafi haft langstysta starfsaldurinn. Aðrir hljóðmenn fréttastofu hafi mun lengri starfsaldur og þar af leiðandi mun meiri reynslu. Kærandi hafi lokið námi sínu árið 2003 og starfstími hennar í heild frá námi hafi því ekki vegið upp á móti starfsreynslu hinna þriggja. Ekki sé gerð krafa um sérstaka menntun í starfinu en menntun og þekking á sviði rafeindavirkjunar hafi talist henta mjög vel í starfinu. Allir starfsmenn deildarinnar hafi því haft menntun sem nýst hafi í starfinu. Auk framangreinds hafi verið litið til samskiptahæfileika, viðhorfa til starfsins og annarra þátta sem snúi að frammistöðu. Sá þriðji sem nefndur sé hér að framan hafi til að mynda þótt mjög jákvæður til nýrra verka og sveigjanlegur og með vísan til þess að til hafi staðið að fækka í hópnum hafi þeir kostir þótt verðmætir í minni hóp. Tveir fyrstnefndu starfsmennirnir hafi þótt mjög hæfir, sérstaklega með vísan til þeirrar miklu reynslu sem þeir hafi haft. Samskiptahæfileikar kæranda hafi verið taldir lakastir við samanburð þeirra fjögurra.
 31. Kærði kveður hverja deild hjá kærða vera sérstaka rekstrareiningu. Alla jafna fari tæknimenn ekki á milli deilda nema slík tilfæring sé varanleg. Sú krafa kæranda að hún sé borin saman við alla tæknimenn kærða standist því ekki. Á þessum tíma hafi hagræðingaraðgerðir verið í gangi á fréttastofu og einnig í útvarpi. Hagræðingaraðgerðir útvarps hafi ekki verið af sama meiði og ekki skipulagðar af sömu aðilum og á fréttastofu. Þegar ákvörðun um hagræðingu í deildinni hafi legið fyrir hafi fyrirspurnum verið beint til annarra deilda kærða um hvort þar væru lausar stöður hljóðtæknimanna eða fyrirséð að það myndu losna slíkar stöður. Svar þeirra hafi verið neikvætt. Til að mynda hafi hljóðtæknimönnum hjá útvarpi einnig fækkað um einn frá því í september 2012. Því hafi verið ljóst að nauðsynlegt yrði að grípa til uppsagnar. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn jafnréttislögum við ráðstöfun sumarstarfa í maí 2012 og við ákvörðun um uppsögn kæranda í ágúst 2012. Allar ákvarðanir hafi verið teknar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA
 32. Kærandi tekur fram að vegna viðbragða kærða við kærunni séu athugasemdir hennar nokkuð umfangsmiklar þar sem kærði freisti þess að breyta efnislegum grundvelli málsins. Kærði tilgreini nú allt aðrar ástæður fyrir uppsögn kæranda en veittar hafi verið í rökstuðningi mannauðsstjóra kærða. Fullyrðingum kærða um að gerður hafi verið samanburður á hæfni kæranda og annarra starfsmanna og að samstarfshæfileikar hennar hafi verið taldir lakari í þeim samanburði verði ekki fundinn nokkur staður í þeim 15 skjölum sem kæranda hafi verið afhent um starfsferil hennar hjá kærða. Kærði hafi greinilega talið sér þann kost vænstan að reyna að varpa rýrð á störf kæranda og vega að henni persónulega með ósannindum um störf hennar, þvert á fyrri skriflegar yfirlýsingar um að ekkert væri við frammistöðu hennar að athuga. Kærandi telur því nauðsynlegt að víkja að nokkrum atriðum.
 33. Þau viðhorf sem fram komi um að fjögurra ára háskólamenntun konu sem varði beinlínis það starf sem hún starfi við að viðbættri átta ára starfsreynslu hennar á sviðinu megi sín lítils gagnvart lengri starfsaldri karlmanns sem njóti engrar sérmenntunar á sviðinu, feli enn fremur í sér atlögu að því viðurkennda sjónarmiði að leitast beri við að jafna hlut kvenna á starfssviði þar sem fáar konur séu fyrir. Væri viðurkennt að lengri starfsaldur njóti slíks yfirgnæfandi vægis við mat á hæfni myndi það veita því kyni sem sé fyrirferðamest á starfssviðinu fasta forgjöf og draga mjög úr raunhæfum möguleikum einstaklinga af öðru kyni til að ná frama á sviðinu. Væri fallist á slík viðhorf myndi það ótvírætt festa ákveðin störf í sessi sem karla- og kvennastörf andstætt ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008.
 34. Kærandi telur lýsingu kærða á inntaki 3. mgr. 6. gr. laganna ranga. Réttur til að bera mál undir nefndina og sá sveigjanleiki sem gengið sé út frá í ákvæðinu um útreikning frests endurspegli sérstakt eðli málanna sem lögin varði. Það lýsi sér meðal annars í því að brotin séu oft dulin til lengri tíma en brotlegur atvinnurekandi hafi fulla vitneskju um atvik sem brot hans felist í þótt honum kunni að vera ókunnugt um skyldur sínar gagnvart lögunum. Ákvæði 3. mgr. 6. gr. taki enn fremur tillit til þess að vegna aðstæðna starfsmanns sé oft ekki raunhæft fyrir hann að leita réttar síns nema að nokkrum tíma liðnum. Þau sjónarmið sem ákvæði 3. mgr. 6. gr. byggist á eigi einkar vel við um aðstæður ungrar konu eins og kæranda sem vilji ná árangri á starfsvettvangi sem sé nær eingöngu skipaður körlum. Hafa verði í huga að á þeim tíma er gengið hafi verið framhjá kæranda við ráðningu tæknimanna í sumarafleysingar hafi kærandi enn verið starfsmaður kærða. Hún hafi verið í góðri trú um að málefnaleg sjónarmið á borð við skipulagslegar þarfir stofnunarinnar hafi gert það að verkum að hugsanlega þyrfti að vera unnt að ráða og láta reyna á nýja einstaklinga sem gætu fengið viðeigandi þjálfun til að sinna störfum og kærði gæti kannað hvort hentuðu til frambúðar. Forsendur fyrir góðri trú kæranda hafi brostið algerlega þegar kærði hafði, um hálfu ári eftir að hún hafi óskað eftir að snúa fyrr til starfa, fyrirvaralaust sagt henni upp störfum. Kærandi telur ljóst að sú staðreynd að kærandi hafi látið kærða njóta vafans um að málefnalegar ástæður hafi ráðið ráðningu í tvö sumarstörf hjá dagskrá útvarps og í afleysingastarf á fréttastofu, geti ekki leitt til þess að hún sé þar með svipt réttinum til að bera þessar ákvarðanir undir kærunefnd jafnréttismála.
 35. Kærandi vekur enn fremur athygli á því að stöðu kærða sem aðila máls fyrir nefndinni verði ekki jafnað til stöðu hefðbundins einkaaðila á markaði. Helgist það af því að kærði sé opinbert hlutafélag að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og beri samkvæmt því ákveðnar skyldur umfram almenna einkaaðila. Af þessum sökum verði að telja að hvorki sé fyrirstaða í ákvæði 3. mgr. 6. gr. né öðrum ákvæðum laga nr. 10/2008 að kærunefndin taki til meðferðar erindi kæranda. Telji kærunefndin að kæran sé of seint fram komin og að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna, telur kærandi rétt að leitað verði umsagnar frá heildarsamtökum launafólks, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Kærandi vekur athygli á lokamálsl. 3. mgr. 6. gr. laganna þar sem fram komi að erindi teljist nægjanlega snemma fram komið hafi bréf sem hafi það að geyma hafi verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn. Erindi kæranda hafi verið sent í ábyrgðarbréfi til nefndarinnar og stimplað um viðtöku þann 28. febrúar 2013. Samkvæmt því leiki enginn vafi á því að erindið sé komið fram innan tímaviðmiða. Þá gæti þess misskilnings í bréfi kærða að frestur til að senda erindi vegna uppsagnar 29. ágúst 2012 hafi liðið 28. febrúar 2013 en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skuli dagur, sem fresturinn sé talinn frá, ekki með í frestinum.
 36. Kærandi telur að kærði hafi ekki fært fram nein málefnaleg rök fyrir hinum kærðu ákvörðunum. Kærandi telur kærða hafa lagt til grundvallar að réttmæt ástæða væri til að líta framhjá áhuga kæranda á því að gegna launuðum störfum við sumarafleysingar í stað þess að gegna áfram launalausu leyfi þar sem talið hafi verið að hún myndi ekki sætta sig við starfsumhverfi sumarstarfsmanna. Kærandi telur þetta koma illa heim og saman við fullyrðingu kærða að kærandi hafi verið of sein til að láta vita af áhuga sínum. Missagnir kærða eigi sér eðlilegar skýringar þegar litið sé til gagna málsins en kærandi hafi tjáð áhuga sinn á að koma fyrr til starfa hjá kærða með tölvupósti 6. febrúar 2012. Þá fullyrði kærði að sumarstarfsmaður hafi verið ráðinn til starfa sem hljóðmaður og hafi hafið störf þann 16. apríl 2012. Svör kærða og gögn málsins beri að öðru leyti ekki með sér að gerður hafi verið samanburður á hæfni þessa starfsmanns og kæranda. Verður að telja að kærði hafi þegar af þeirri ástæðu brotið gegn rétti kæranda samkvæmt IV. kafla laganna. Telji kærunefndin ástæðu til að leggja nánara mat á hæfni kæranda í samanburði við þann sem ráðinn hafi verið sé vakin athygli á því að kærði hafi ekki látið af hendi upplýsingar um menntun, reynslu og aðra eiginleika umrædds starfsmanns svo unnt verði að gera samanburð á kæranda og honum með tilliti til hæfni til að gegna starfinu. Af þeim sökum er þess farið á leit við kærunefndina að hún skori á kærða að leggja fram öll gögn um þann sem ráðinn hafi verið.
 37. Að því er varði ráðningu í sumarstörf hjá dagskrá útvarps telur kærandi ljóst af gögnum málsins að ekki hafi verið gerður samanburður á hæfni kæranda og þeirra sem ráðnir hafi verið. Hafi umræddir starfsmenn verið karlmenn verði að telja að kærði hafi þegar af þeirri ástæðu brotið gegn rétti kæranda samkvæmt IV. kafla laga nr. 10/2008 um bann við mismunun á grundvelli kyns. Telji kærunefndin ástæðu til að leggja nánara mat á hæfni kæranda í samanburði við þá sem ráðnir hafi verið óskar kærandi eftir því að kærunefndin skori á kærða að leggja fram öll gögn um þá sem ráðna hafi verið. Kærandi vekur athygli á því að eina ástæðan sem kærði tilgreini fyrir því að hún hafi ekki komið til greina í sumarstörf hjá dagskrá útvarps sé að hún hafi ekki óskað formlega eftir því við mannauðsstjóra að koma fyrr úr launalausu leyfi. Kærandi bendir á að hún hafi aldrei verið upplýst um að í gildi væri regla hjá kærða um að hún gæti ekki komið fyrr til starfa úr launalausu leyfi nema að fengnu sérstöku leyfi mannauðsstjóra. Reglu af þessu tagi sé enn fremur ekki að finna í samþykktum kærða. Í ljósi þessa hafi kærandi haft eðlilegar væntingar um að nægilegt væri að hafa samband við yfirmenn tæknisviðs fréttadeildar varðandi sumarafleysingarnar og yfirmenn hljóðdeildar útvarps til að grennslast fyrir um laus störf. Þeir hefðu átt að taka ákvörðun um ráðningar, eftir atvikum að höfðu samráði við mannauðsstjóra.
 38. Kærandi vekur athygli á því að í fylgigögnum með andsvörum kærða hafi ekki verið vikið að nauðsyn þess að hagræða sérstaklega varðandi hljóðvinnslu á fréttadeild. Gögn málsins beri því eindregið með sér að þær hagræðingarástæður sem kærði hafi vísað til sem undirrót uppsagnar kæranda lúti ekki að fréttadeildinni heldur allri starfsemi kærða. Kærandi telur að samanburður kærða á hæfni kæranda og annarra starfsmanna hafi átt að taka til allra tæknimanna, eða eftir atvikum hljóðtæknimanna, hjá kærða. Í gögnum málsins komi ekkert fram um slíkan samanburð. Þess sé því farið á leit við kærunefndina að hún slái því föstu að kærði hafi þegar af þessari ástæðu brotið gegn rétti kæranda samkvæmt IV. kafla laga nr. 10/2008.
 39. Yrði fallist á sjónarmið kærða um að samanburður eigi einungis að fara fram innan rekstrareiningar þeirrar er starfsmaður hafi starfað á, en ekki samkvæmt lýsingu á starfssviði starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi, hefði það enn fremur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir konur og karla sem starfi á starfssviði þar sem fáir séu fyrir af sama kyni. Slík niðurstaða hefði í för með sér að atvinnurekandi sem kysi að skeyta í engu um markmið laganna og þjóðfélagslegt mikilvægi þeirra, gæti hæglega sniðgengið lögin með því að skilgreina störf innan ákveðinnar einingar þar sem hann gæti sagt viðkomandi karli eða konu upp á grundvelli samanburðar við tvo til fjóra ágætlega hæfa starfsmenn, þrátt fyrir að sýnt væri að viðkomandi einstaklingur væri langtum hæfari, eða að minnsta kosti jafnhæfur og allir starfsmenn af öðru kyni sem ráðnir hefðu verið inn á sömu forsendum til atvinnurekanda og gegna nánast algerlega sambærilegum störfum.
 40. Kærandi bendir á að fullyrðing kærða um að samskiptahæfileikar hennar hafi þótt lakastir við samanburð hennar og þriggja karlkyns hljóðtæknimanna sé ekki í samræmi við rökstuðning fyrir uppsögn þar sem fram hafi komið að uppsögnin hafi ekki átt rætur að rekja til frammistöðu eða hvernig hún rækti starfið. Enn fremur sé ljóst að þegar uppsögn kæranda hafi verið ákveðin hafi engin gögn legið fyrir um mat kærða á hæfni hennar og samanburði á hæfni hennar við aðra starfsmenn. Kærandi telur að leggja verði til grundvallar að kærði hafi ekki gert samanburð á hæfni kæranda við aðra starfsmenn.
 41. Kærandi mótmælir síðbúnum lýsingum kærða varðandi hæfni kæranda í samanburði við aðra hljóðtæknimenn á fréttadeild. Óumdeilt sé að kærandi hafi töluvert meiri menntun en að minnsta kosti tveir þeirra hljóðtæknimanna sem áfram hafi starfað hjá kærða. Kærandi sé með B.P.S. gráðu frá Five Town College í New York, sem veitt sé að loknu fjögurra ára háskólanámi þar sem nemendur leggi meðal annars stund á hljóðfræði, upptökustjórn, eftirvinnslu hljóðs og myndar og flóknari hljóðblöndun. Þegar inntak námsins sé metið með tilliti til þeirra verkefna sem hljóðtæknimenn á fréttadeild þurfi að sinna, sé ljóst að kærandi standi tveimur þeirra langt um framar hvað menntun varði.
 42. Þótt starfsreynsla geti ein og sér talist málefnalegt sjónarmið við mat á hæfni einstaklings til að gegna ákveðnu starfi sé ótækt að karlkyns starfsmaður teljist í krafti starfsreynslu sinnar hæfari en kona sem hafi samanlagt níu ára starfsreynslu af hljóðtæknistörfum og fjögurra ára háskólanám á sama sviði umfram karlmanninn.
 43. Þegar um sé að ræða starfssvið þar sem fáar konur séu fyrir og stappi nærri því að hafa þróast í hefðbundin karlastörf í skilningi 1. mgr. 18. gr. laganna hafi karlar almennt séð umtalsvert meiri starfsreynslu en konur. Væri unnt að gera starfsreynslu að ráðandi sjónarmiði við uppsagnir sem og ráðningar með þeim hætti sem kærði geri í andsvörum sínum þannig að starfsreynsla karlmanna trompi einfaldlega þá menntun sem kona hafi myndi tvímælalaust halla á konur á þeim sviðum sem þær reyni að hasla sér völl á. Ofuráhersla á starfsreynslu geti því verið ígildi óbeinnar mismununar í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, með því að hún samsvari hlutlausu skilyrði, viðmiði eða ráðstöfun sem komi hlutfallslega verr við annað kynið og sé ekki viðeigandi, nauðsynleg eða réttlætanleg vegna hlutlægra þátta óháð kyni. Kærandi minnir á að sú skilgreining sem fram komi í umræddu ákvæði sé tilkomin vegna innleiðingar á tilskipun ráðsins 97/80/EB frá 15. desember 1997 um sönnunarbyrði í málum er varði mismunun vegna kynferðis og felld hafi verið inn í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/1999 frá 26. mars 1999 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn, en efnislega samsvarandi skilgreiningu á óbeinni mismunun sé að finna í 2. gr. tilskipunarinnar. Rétt sé að geta þess að Evrópudómstóllinn hafi við skýringu á 2. gr. tilskipunarinnar lagt til grundvallar að starfsreynsla geti fallið undir skilyrði sem sé hlutlaust á yfirborðinu en feli engu að síður í sér óbeina mismunun. Sjónarmið Evrópudómstólsins um skýringu á hugtakinu óbein mismunun eigi einnig við í þessu máli. Í samræmi við þau sjónarmið sem rakin séu af hálfu Evrópudómstólsins um að meta verði þýðingu starfsreynslu sérstaklega í hverju tilviki verði ekki séð að unnt hafi verið að ljá starfsaldri jafnþungt vægi og kærði hafi gert við uppsögn kæranda. Í því sambandi sé bent á að kærandi hafi þegar haft sjö ára reynslu af hljóðvinnslu og þar af nærfellt fimm ára reynslu hjá kærða. Tekið skuli fram að áður hafi kærandi starfað að hljóðvinnslu fyrir Lazytown (Latabæ) við framleiðslu sjónvarpsefnis fyrir alþjóðamarkað þar sem afar ríkar kröfur hafi verið gerðar um vönduð vinnubrögð og unnið hafi verið með nýjasta tæknibúnað í hljóðvinnslugeiranum.
 44. Kærandi telur að síðbúnar fullyrðingar kærða um samskiptahæfileika kæranda í samanburði við aðra hljóðtæknimenn eigi að réttu lagi ekki að koma til skoðunar í málinu. Almennt megi fallast á að skortur á vilja eða hæfni til samstarfs geti í ákveðnum tilvikum komið til greina sem málefnalegt sjónarmið við mat á hæfni starfsmanns við uppsögn. Til þess að svo megi verða þurfi hins vegar ákveðin skilyrði að vera uppfyllt.
 45. Í fyrsta lagi þurfi samstarfsörðugleikarnir að hafa veruleg og neikvæð áhrif á hvernig verkefnum sé sinnt á viðkomandi vinnustað. Í öðru lagi verði að liggja fyrir með skýrum hætti að rekja megi samstarfsörðugleikana til þess starfsmanns sem um ræðir svo hann verði talinn bera höfuðábyrgðina á samstarfsörðugleikunum og ekki sé hægt að rekja vandann einnig til annarra starfsmanna á vinnustað. Í málinu liggi ekkert fyrir um hvernig þessi atriði hafi verið könnuð af hálfu kærða áður en tekin hafi verið ákvörðun um hverjum ætti að segja upp
 46. Kærandi tekur fram að kostnaður sinn af að hafa uppi kærumál þetta sé 600.000 kr. án vsk. Gerð sé krafa um að kærða verði gert að greiða kæranda allan málskostnað af meðferð málsins. Þá sé vísað til þess að kæran lúti að þremur ákvörðunum, þar á meðal þeirri sérlega afdrifaríku ákvörðun að segja kæranda upp störfum eftir tæplega sex ára starf. Þá sé jafnframt bent á að kærði hafi leitast við að breyta grundvelli málsins við málsmeðferð fyrir nefndinni sem hafi gert kröfu um töluvert meiri lögfræðiaðstoð fyrir hönd kæranda við að hafa uppi kæru þessa.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA
 47. Kærði fær ekki séð að sérstakar ástæður búi að baki þeim drætti sem varð á kæru til nefndarinnar vegna ágreiningsmálsins. Tilvísun kæranda til sögusagna um meint brot gegn henni í október 2012 hafi hvorki verið studdar gögnum né virðist þess eðlis að réttlæti drátt umfram sex mánuði. Af þeim sökum eigi að vísa málinu frá nefndinni.
 48. Í 20. gr. jafnréttislaga segi að starf sem laust sé til umsóknar skuli standa opið jafnt konum og körlum. Kærði ítrekar að sumarstörfin hafi verið tímabundin störf sem ekki hafi verið auglýst laus til umsóknar. Störfin falli því ekki undir þann ramma sem jafnréttislögin setji. Þeim aðilum hafi verið boðin sumarstörf sem ákveðið hafi verið að gefa tækifæri til að öðlast starfsreynslu. Gert hafi verið ráð fyrir að störf þeirra yrðu metin vegna mögulegra afleysingastarfa yrðu slík störf laus síðar. Kærandi hafi ekki fallið í þann hóp enda með gildan ráðningarsamning við kærða. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga varðandi ráðningar í sumarstörf 2012. Kærandi hafi verið í umbeðnu launalausu leyfi og gert hafi verið ráð fyrir þeirri fjarveru í skipulagi starfseminnar. Í gildi hafi verið ráðningarsamningur um störf í fréttadeild með viðauka um tólf mánaða launalaust leyfi. Báðir aðilar hafi verið bundnir af þeim samningi og kærandi hafi hvorki haft sjálfkrafa rétt til að ganga inn í önnur störf félagsins á því tímabili né hafi kærði haft rétt til að kalla hana til starfa. Þegar kærandi hafi hringt í yfirmann sinn vegna fyrirspurnar um lausar stöður vorið 2012 í fréttadeild hafi þegar verið búið að ákveða afleysingar svo stytting leyfisins hafi ekki komið til greina. Þegar kærandi hafi síðar haft samband við yfirmann hljóðdeildar hafi því hvorki legið fyrir beiðni um styttingu launalausa leyfisins frá kæranda né ósk um tilfærslu milli deilda. Á innri vef félagsins séu skriflegar reglur sem settar séu um launalaus leyfi og þær hafi verið í gildi á starfstíma kæranda. Sá fyrirvari hafi verið settur í skriflega staðfestingu um launalaust leyfi að mögulega geti orðið breytingar á starfsemi deildarinnar á tímabili leyfisins og ekki tryggt að sama starf biði að því loknu. Með því hafi verið áréttað að með veitingu launalauss leyfis til starfsmanns felist ekki takmörkun á réttindum kærða til að gera rekstrarlegar breytingar sem kunni að hafa áhrif á starf, starfsskyldur eða stöðu starfsmannsins að öðru leyti en slík breyting geti einnig tekið til uppsagnar starfsmannsins.
 49. Kærandi hafi ekki verið talin jafnhæf samstarfsmönnum sínum sem sinnt hafi sömu störfum og því hafi kynjahlutföll ekki komið til álita. Forgangur kvenna til starfa komi ekki til skoðunar nema kona sé jafnhæf er varði menntun og annað sem máli skipti og karlmaður sem við hana keppi ef á starfssviðinu séu fáar konur. Við mat á hæfni sé litið til ýmissa þátta. Í málum sem varði uppsagnir verði mat á atriðum sem skipti máli með öðrum hætti en þegar um nýráðningar sé að ræða. Starfsaldur hafi að sjálfsögðu áhrif á matið enda gefi starfsaldur meðal annars sérhæfða þjálfun í starfinu sem ekki fáist með námi.
 50. Mat yfirmanns á persónulegu hæfi starfsmanna og nauðsyn þess að samvinna yrði með eins hnökralausum hætti og frekast væri unnt hafi skipt töluverðu máli þegar fækkað hafi verið í þeim hópi sem sinnti verkefnum fréttastofu. Yfirmaður hafi því orðið að velja hópinn þannig saman að hann yrði sem sterkastur þrátt fyrir fækkun og þar með hafi hann einnig litið til samstarfsvilja, viðhorfa til starfsins og annarra atriða sem skipt hafi máli. Reynsla kærða sýni að færustu hljóðtæknimennirnir séu þeir sem hafi mesta reynslu. Þeir hljóðtæknimenn fréttastofu sem starfað hafi lengst, 24 og 29 ár hjá kærða og forvera þess, hafi báðir menntun eða þekkingu á sviði rafmagnsfræða. Þegar starf hljóðtæknimanns hafi verið auglýst laust til umsóknar áður fyrr hafi alla jafna verið óskað eftir rafeindavirkja eða einstaklingi með sambærilega þekkingu/menntun. Þeir hljóðtæknimenn hafi þá uppfyllt þær sérkröfur sem gerðar hafi verið á sínum tíma. Sá hljóðtæknimaður sem starfað hafi frá 1996 hafi auk starfsaldurs einnig meiri menntun en kærandi. Allir hafi þeir haft mjög mikla þjálfun og mikla reynslu af því að leysa vandamál á farsælan hátt auk þess að eiga mjög góð samskipti sín á milli og við aðra. Það mat hafi verið óháð þeirri staðreynd að þeir hafi verið og séu karlmenn. Kærandi hafi sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti en hafi ekki haft sömu reynslu og þjálfun og samstarfsmenn hennar. Hvergi í lögunum sé nefnt að líta skuli fram hjá starfsreynslu karlmanna svo kona geti haslað sér völl á kveðnu starfssviði. Slíkt mat yrði í hæsta máta ómálefnalegt.
 51. Varðandi erfiðleika í samskiptum við kæranda megi meðal annars vísa til endurkomu hennar úr fæðingarorlofi en hún hafi fullyrt að hún hafi þurft að seinka endurkomu þar sem ekki hafi verið gerðar ráðstafanir. Þetta sé ekki rétt. Þá hafi kærandi hvorki verið sett á svokallaðar flexvaktir né hafi hún orðið fyrir tekjuskerðingu þegar hún hafi komið til baka á þeim tíma sem hún hafi ákveðið. Hún hafi strax verið sett á sama vaktaplan og aðrir hljóðtæknimenn á fréttadeild. Yfirmaður kæranda hafni því að viðhorf hans til kæranda hafi breyst haustið 2010. Jóladagatal það er kærandi hafi vísað til hafi verið nokkuð útbreitt í samfélaginu fyrir jólin 2010 og átt að þykja fyndið en að mati margra hafi það verið ósmekklegt. Mannauðsstjóri hafi gert athugasemd við sendinguna í kjölfar kvörtunar kæranda.
 52. Krafa kæranda um að hæfni hennar sé borin saman við alla tæknimenn sé ekki raunhæf. Innan tæknimanna kærða falli einnig kvikmyndatökumenn, klipparar, starfsfólk í útsendingu og fleiri sem sinni störfum sem ekki hafi verið sambærileg við starf kæranda. Hljóðmenn starfi í þremur mismunandi deildum við mismunandi verkefni og lúti hver deild sérstakri stjórnun. Hagræðing í einni deild hafi ekki sjálfkrafa sömu áhrif í annarri deild hjá kærða og hljóðmenn einnar deildar gangi alla jafna ekki í störf hljóðmanna annarra deilda enda um aðra sérhæfingu og starfslýsingu að ræða.
 53. Kærði mótmælir þeirri staðhæfingu kæranda að hann geri tilraun til að breyta grundvelli málsins. Slíkt sé úr lausu lofti gripið. Ekki sé hægt að skilja fyrri greinargerð kæranda með öðrum hætti en svo að krafa hennar lúti að því að þegar segja þurfi upp konu vegna hagræðingaraðgerða eigi að fara fram mat á hæfni hennar í samanburði við aðra karlkyns starfsmenn sem sinni sömu störfum séu konur fáar á starfssviðinu. Kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna þeirrar kröfu um aðhald og hagræðingu sem gerð hafi verið til deildarinnar. Hægt hafi verið að skipuleggja vinnu hljóðmanna í fréttadeild með þeim hætti að þrír sinntu þeim verkefnum sem fjórir hafi gert áður og sama skipulag sé enn við lýði. Kærandi hafi komið lakast út úr hæfnismati sem legið hafi til grundvallar ákvörðun um hagræðingaraðgerðirnar í fréttadeild á þessum tíma. Að lokum sé ítrekað að kærði sé ekki stofnun og stjórnsýslulög gildi því ekki um starfsemi hans.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA
 54. Kærandi tekur fram að kærði hafi í bréfi sínu, dagsettu 17. maí 2013, fært fram nýja röksemd fyrir frávísun málsins er varði ráðningar í störf hljóðtæknimanns á Rás 2 og í sumarafleysingar. Kærði haldi því fram að tilvísanir kæranda til þess hvernig hún hafi frétt af brotum kærða hafi ekki verið studdar neinum gögnum. Hvað varði ákvörðun kærða um að segja kæranda upp störfum sé hafið yfir allan vafa að erindi vegna þess hafi borist nefndinni innan lögboðins frests samkvæmt 3. mgr. 6. gr.
 55. Kærandi vísi alfarið á bug þeim sjónarmiðum kærða að sumarstörfin sem um ræði falli utan þess ramma sem jafnréttislögin setji. Sjónarmið kærða séu ekki í nokkru samræmi við víðtækt gildissvið laga nr. 10/2008 og markmið þeirra að stuðla að jafnrétti á flestum sviðum samfélagsins. Sú staðreynd að kærandi hafi verið í launalausu leyfi þegar hún hafi sóst eftir að gegna sumarstarfi hjá dagskrá útvarps eða afleysingastarf á fréttastofu hafi ekki þýðingu við mat á framgöngu kærða gagnvart henni í ljósi laga nr. 10/2008. Fyrir liggi að kærandi hafi verið reiðubúin að taka að sér öll þessi störf og hafi ekki haft neinar vinnuréttarlegar skuldbindingar aðrar fram í september 2012. Vegna ummæla í bréfi kærða um að búið hafi verið að ákveða afleysingar þegar kærandi hafi haft samband símleiðis vegna fyrirspurnar um lausar afleysingastöður í fréttadeild í maí 2012 skuli ítrekað að kærandi hafi þegar gert sama yfirmanni kunnugt um áhuga sinn með tölvupósti, dagsettu 6. febrúar 2012, löngu áður en ráðið hafi verið í umrædd störf. Af þeim sökum sé vandséð hvaða þýðingu það geti haft fyrir úrlausn málsins að kærði hafi ráðið í afleysingar þegar kærandi hafi fylgt skriflegri umsókn sinni eftir símleiðis.
 56. Kærandi vísar til þess að þegar tekin sé afstaða til hæfni starfsmanna með tilliti til þess hverjum þeirra beri að halda áfram í starfi á tímum uppsagna geri lög nr. 10/2008 kröfu um að slíkt fari fram að loknu heildstæðu og forsvaranlegu mati, þar sem málefnaleg sjónarmið séu lögð til grundvallar að loknum samanburði á starfsmönnum. Kærandi telji sig hafa sýnt fram á að ekkert slíkt mat hafi farið fram áður en henni hafi verið sagt upp störfum. Fullyrðingar kærða í bréfum til nefndarinnar um að stofnunin hafi lagt mat á hæfni og frammistöðu kæranda í samanburði við aðra, komi illa heim og saman við skýringar mannauðsstjóra til kæranda, dagsettar 3. september 2012, um að uppsögn hennar ætti ekki rætur að rekja til frammistöðu hennar eða þess að öðru leyti hvernig hún rækti starf sitt. Að því er varði sönnunarbyrði sem leggja verði á kærða að þessu leyti verði ekki einungis að líta til ákvæða 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og tilskipunar 97/80/EB heldur einnig stöðu kærða sem opinbers hlutafélags og þar með hálf-opinberrar stofnunar. Minnt sé á að ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, hafi gilt um kærða þegar ákvörðun hafi verið tekin um að segja kæranda upp störfum, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 7/2006, um Ríkisútvarpið. Í því felist að Alþingi hafi lagt sérstakar skyldur á herðar kærða um hvernig það hagi skráningu upplýsinga um það sem gerist í starfi félagsins. Kærandi minnir í þessu sambandi á fyrirmæli 22. og 23. gr. laganna.
 57. Líkt og áður hafi komið fram telji kærandi að það viðmið sem kærði hafi lagt til grundvallar um starfsaldur, feli í sér óbeina mismunun í skilningi 2. tölul. 2. gr. laga nr. 10/2008, sbr. einnig b-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/54/EB frá 5. júlí 2006 um framkvæmd meginreglunnar um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna að því er varði atvinnu og störf. Síðastnefnda tilskipunin hafi verið tekin upp í XVII. viðauka EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 33/2008 frá 14. mars 2008, sem tekið hafi gildi 1. febrúar 2009. Kærunefndinni beri að kanna og staðreyna hvort fyrirliggjandi tölulegar upplýsingar bendi til þess að talsvert minna hlutfall kvenna en karla uppfylli þau skilyrði sem felist í ákveðnu viðmiði. Ef svo sé, þá sé um óbeina mismunun að ræða nema viðmiðið sé réttlætt með vísan til hlutlægra sjónarmiða sem tengist ekki mismunun vegna kyns. Vegna þessa verði að vekja athygli á því að eftir því sem kærandi komist næst séu yfir 50 karlmenn starfandi sem hljóðtæknimenn á Íslandi. Af starfandi hljóðtæknimönnum séu hins vegar aðeins fjórar konur, að kæranda meðtalinni. Af þeim sé aðeins ein sem hafi viðlíka langan starfsaldur sem hljóðtæknimaður og kærandi. Samkvæmt því sé ljóst að engin kona sem starfi sem hljóðtæknimaður á Íslandi búi yfir meiri en tíu ára starfsreynslu. Þetta þýði að ef heimilt væri að leggja jafnríka áherslu á starfsaldur hljóðtæknimanns og kærði hafi gert við uppsögn kæranda gætu atvinnurekendur hæglega slegið striki yfir þátttöku kvenna í þessari grein alfarið, án þess að lög nr. 10/2008 kæmu þeim þar að neinu haldi. Sú geti engan veginn verið raunin.
 58. Varðandi mat það er kærði kveðist hafa lagt á hæfni kæranda og annarra starfsmanna sem fyrst hafi birst í andsvörum kærða þann 12. apríl 2013, eða um sjö mánuðum eftir að kærði hafi veitt kæranda aðrar skýringar á uppsögninni, verði enn fremur að taka mið af 5. mgr. 24. gr. laganna. Þar sé beinlínis kveðið á um að við mat samkvæmt 4. mgr. 24. gr., sem lúti meðal annars að uppsögnum, skuli tekið mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa sé gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu. Þótt starfsreynsla hafi jafnan þýðingu við mat á hæfni fólks til að gegna ákveðnum störfum sé ljóst að sú ofuráhersla sem kærði leggi á langan starfsaldur geti aldrei samsvarað heildstæðu mati á hæfni starfsmanna. Þaðan af síður geti starfsaldur sem sjónarmið haft svo þungt vægi að það geri að engu það grundvallaratriði við mat á hæfni sem viðurkennd háskólamenntun í tilteknu fagi sé.
 59. Viðhorf kærða að þessu leyti sé áhyggjuefni, einkum þegar horft sé til þess að þegar stofnunin hafi síðast verið beðin um að gera opinberlega grein fyrir hagræðingaraðgerðum sínum hafi komið fram að 56% þeirra sem sagt hafi verið upp hafi verið konur en karlar 44%. Í þessu samhengi sé rétt að benda á að þegar horft sé til samsetningar starfsmanna sem nú vinni hjá kærða séu konur aðeins tæplega 39% starfsmanna, þ.e. 155 af 400, en karlar rúlega 61%, þ.e. 245 af 400. Þegar litið sé til þeirrar menntunar sem kærandi hafi umfram að minnsta kosti tvo hljóðtæknimenn á fréttadeild verði að leggja til grundvallar að samkvæmt heildstæðu mati hafi hún að minnsta kosti verið jafnt að því komin og þeir til að gegna starfi á fréttadeild að loknum hagræðingaraðgerðum.
 60. Kærandi telur rétt að vekja athygli á því að við meðferð málsins hafi kærða einungis tekist að vísa til eins tilviks sem stofnunin telji varpa neikvæðu ljósi á samskiptahæfni kæranda. Í því sambandi mótmæli kærði sérstaklega þeirri lýsingu sem fram komi í upphaflegu erindi kæranda um endurkomu hennar til starfa að loknu fæðingarorlofi.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA
 61. Kærði tekur fram hvað varðar uppsögn kæranda að ekki séu fyrir hendi skrifleg gögn um mat á samskiptahæfni hennar gagnvart samskiptahæfni annarra starfsmanna. Það mat hafi farið fram munnlega milli yfirmanns tæknimála og mannauðsstjóra eftir að framlagðra gagna hafi verið aflað.
 62. Eftir að kærunefnd hafði óskað eftir upplýsingum um ráðningu í sumarstörf hjá kærða upplýsti kærði að ráðið hafi verið í tvö sumarstörf hjá dagskrá útvarps og hafi ráðningartími verið frá 12. júní til 10. september 2012. Störf þessi hafi ekki verið auglýst og því hafi ekki verið um tiltekinn fjölda umsækjenda að ræða. Einstaklingar hafi lengi haft tækifæri til að senda inn almennar umsóknir á uppgefið tölvupóstfang á heimasíðu kærða ef stöður losni innan fyrirtækisins og þær umsóknir hafi verið skoðaðar. Störfin felist í útsendingu dagskrár og úrvinnslu og upptöku á útvarpsefni. Leitað hafi verið eftir fólki með áhuga á störfunum, til dæmis fólki í námi eða sem hefði nýlokið námi. Tveir karlar hafi sent inn almennar umsóknir og hafi þótt falla vel að ofangreindum markmiðum. Annar þeirra hafi nýlega lokið námi í rafeindavirkjun og raunfærnimati í hljóðtækni og hinn hafi lokið diplómanámi í hljóðvinnslu. Ráðið hafi verið í störfin í júní og starfsmennirnir hafið störf þann 12. júní. Ráðið hafi verið til óreglulegrar tímavinnu þar sem hægt hafi verið að kalla starfsmanninn til vinnu með stuttum fyrirvara. Ekki hafi verið ráðið í vaktavinnu. Þá hafi ekki verið tryggt að um fullt starf væri að ræða í hverjum mánuði og launin sem hafi verið í boði hafi verið nokkuð lægri en laun fastra starfsmanna. Krafan sem gerð hafi verið til sumarafleysingastarfsfólks hafi því verið töluverður sveigjanleiki í starfshlutfalli, vinnutíma og verkefnum. Sveigjanleika í þessum mæli hafi ekki verið krafist af föstum starfsmönnum en hagur sumarafleysingastarfsfólksins hafi verið að fá tækifæri á góðri og fjölbreyttri þjálfun og læra sem mest.
 63. Kærði upplýsir að afleysingastarfið á fréttastofu hafi ekki heldur verið auglýst og því ekki um tiltekinn fjölda umsækjenda að ræða. Litið hafi verið til innkominna almennra umsókna sem borist hafi á uppgefið netfang kærða. Leitað hafi verið eftir fólki sem langt hafi verið komið í námi eða hafi nýlega lokið námi á þessu sviði og hafi þurft að bæta við sig starfsreynslu. Helstu verkefni í starfinu hafi verið hljóðútsending og úrvinnsla frétta. Eins og sumarstörfin hjá dagskrá útvarps hafi verið um tímabundið starf að ræða þar sem sveigjanleiki í starfshlutfalli, vinnutíma og verkefnum hafi verið í fyrirrúmi. Ráðningarkjörin hafi verið sambærileg í flestum þeim sumarstörfum sem kærði hafi boðið upp á. Kærði bendir á að undirbúningur ráðningar í afleysingastarfið hafi hafist í mars 2012 og ráðning hafi farið fram í apríl. Ráðningin hafi átt sér stað óvenju snemma vegna veikindaleyfis eins hljóðmanns fréttastofu. Sá er hafi verið ráðinn til starfa hafi lokið BA-námi í hljóðvinnslu árið áður frá erlendum háskóla. Hann hafi hafið störf þann 16. apríl 2012. Hann hafi ekki gengið fastar vaktir þannig að hægt hafi verið að skipuleggja vinnu hans og verkefni með stuttum fyrirvara. Launin hafi verið samkvæmt kjarasamningi Rafniðnaðarsambands Íslands. Sú krafa um sveigjanleika sem gerð hafi verið til þessa starfsmanns hafi verið nauðsynleg í slíku afleysingastarfi og meiri en ríkari en gilti um fastráðna starfsmenn.

  NIÐURSTAÐA
 64. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 65. Kæra í máli þessu var póstlögð 28. febrúar 2013. Uppsögn kæranda átti sér stað á fundi þann 29. ágúst 2012. Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 er hún því nægilega snemma fram komin að því er tekur til uppsagnarinnar. Að sögn kæranda fékk hún nokkru eftir uppsögnina upplýsingar frá öðrum en kærða um þær tvær ráðningar sem einnig eru tilefni kærunnar en óumdeilt er að kæranda var hvorki sérstaklega kynnt ráðning í tvö sumarstörf hjá dagskrá útvarps né ráðning í afleysingastarf á fréttastofu hjá kærða. Kærunefnd fellst á það með kæranda að ekki hafi verið tilefni fyrir hana til að afla upplýsinga um þessar ráðningar fyrr en eftir að henni hafði verið sagt upp starfi sínu en viðbrögð kæranda við höfnun í önnur störf hjá kærða hljóta að hafa verið órjúfanlega tengd vitneskju hennar um uppsögnina. Gat því kærufrestur gagnvart ráðningunum ekki byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi við uppsögnina. Af þessum sökum er kæran einnig nægilega snemma fram komin að því er varðar ráðningu afleysingamanns á fréttastofu og við ráðningu í starf tveggja sumarstarfsmanna hjá dagskrá útvarps.
 66. Kærandi var í launalausu leyfi frá starfi sínu hjá kærða tímabilið 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Hún sendi yfirmanni sínum, deildarstjóra fréttadeildar, tölvupóst þann 6. febrúar 2012 og upplýsti að hún myndi væntanlega flytjast til landsins í maí eða júní og falaðist eftir því að koma fyrr til starfa en um hafði verið samið, svo sem í sumarafleysingar. Kærandi fékk ekki svar við tölvupóstinum en því hefur ekki verið mótmælt af hálfu kærða að pósturinn hafi borist viðtakanda. Verður því að leggja til grundvallar að yfirmaður kæranda hafi haft vitneskju um það þegar þann 6. febrúar að kærandi óskaði þess að koma til greina ef ráða þyrfti starfsmenn til að sinna afleysingarstörfum á umræddu tímabili.
 67. Fyrir liggur að undirbúningur ráðningar í afleysingastarf á fréttastofu hófst í mars 2012 og að 9. apríl var ráðið í það starf. Jafnframt hefur komið fram að ráðið hafi verið í tvö sumarstörf hjá dagskrá útvarps í júnímánuði 2012. Afleysingastarfsmaður á fréttastofu hóf störf 16. apríl og sumarstarfsmenn hjá dagskrá útvarps hófu störf 12. júní. Samkvæmt upplýsingum kærða var ekki auglýst eftir umsóknum í störfin heldur voru metnar umsóknir þeirra er höfðu sent inn almennar umsóknir til kærða án þess að þær næðu til tiltekinna starfa. Af hálfu kærða hefur verið upplýst að kærandi hafi ekki komið til álita í þessi störf sökum þess að hún hafi verið skráð í launalaust leyfi til 31. ágúst 2012. Hún hafi ekki sótt um það til mannauðsstjóra að snúa fyrr til vinnu en launalausa leyfið sagði til um og á því byggt að það sé óvanaleg og fordæmalaus aðferð að senda fyrirspurn um starf í annarri deild hjá eigin vinnuveitanda í umbeðnu leyfi.
 68. Sá er ráðinn var í afleysingastarf á fréttastofu var karlmaður er hafði lokið BA-prófi í hljóðvinnslu frá erlendum háskóla árið áður. Í sumarstörfin hjá dagskrá útvarps voru ráðnir tveir karlmenn og hafði annar þeirra nýlega lokið námi í rafeindavirkjun og raunfærnimati í hljóðtækni en hinn hafði nýlega lokið diplómanámi í hljóðvinnslu. Kærandi lauk B.P.S.-gráðu frá bandarískum háskóla í námi sem lýst er sem Business Management with concentration in Audio Recording Tehnology árið 2003 með áherslu á hljóðupptöku. Kærandi hafði starfað í að minnsta kosti tvö ár við hljóðeftirvinnslu, hljóðhönnun og hljóðblöndun hjá einkafyrirtæki hér á landi. Hún hafði starfað hjá kærða frá árinu 2007 svo sem að framan greinir.
 69. Kærði hefur ekki upplýst sérstaklega um hvort þeir þrír karlmenn er ráðnir voru í framangreind störf höfðu starfsreynslu sem nýtist í störfunum en fyrir liggur að kærandi hafi í það minnsta haft umtalsvert lengri starfsreynslu en þeir á sviði hljóðtækni. Ekki verður séð að karlmennirnir þrír hafi haft meiri menntun en kærandi. Telur kærunefnd því að kærandi hafi verið hæfari en karlarnir þrír annars vegar til að gegna starfi sumarstarfsmanna hjá dagskrá útvarps og hins vegar til að gegna starfi afleysingamanns á fréttastofu. Rök kærða að krefja mætti afleysingamenn um meiri sveigjanleika í vinnutíma og verkefnum en fastráðna starfsmenn geta ekki ráðið úrslitum í þessum efnum enda ekkert fyrirliggjandi um að kærandi hefði ekki verið tilbúin til að laga sig að þessari sérstöðu sem kærði telur vera á nefndum störfum. Þá eiga röksemdir kærða ekki rétt á sér um að kærandi hafi ekki beint ósk sinni um afleysingastörf til rétts aðila innan fyrirtækisins og um að afgreiða þyrfti með formlegum hætti beiðni um breytingu á samkomulagi um launalaust leyfi. Það hlýtur enda að standa atvinnurekanda næst að leiðbeina starfsmanni í þessu efni og veita atbeina sinn til þess að erindum sé beint í réttan farveg innan fyrirtækisins.
 70. Með vísan til framangreinds þykir kærði hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf afleysingamanns á fréttastofu í aprílmánuði 2012 og við ráðningu tveggja sumarstarfsmanna hjá dagskrá útvarps í júnímánuði 2012.
 71. Kærði hefur skýrt uppsögn kæranda úr starfi hljóðtæknimanns á fréttastofu með því að vegna skipulagsbreytinga hafi verið nauðsynlegt að segja upp einum starfsmanni. Þeir fjórir hljóðtæknimenn er hafi starfað á fréttastofunni hafi verið bornir saman, einkum með tilliti til starfsaldurs, menntunar, hæfni, frammistöðu og samskiptahæfileika. Hinir þrír samstarfsmenn kæranda voru allt karlmenn. Þeir höfðu allir lengri starfsaldur en kærandi. Starfsaldur þess er hafði starfað styst var 16 ár en sá er hafði starfað lengst hafði 29 ára starfsaldur. Kærandi hafði nærfellt tíu ára starfsreynslu að loknu háskólanámi.
 72. Kærandi lauk eins og áður segir B.P.S.-gráðu frá bandarískum háskóla árið 2003. Einn karlanna þriggja hafði lokið MA-gráðu í námi sem lýst er sem Production Techniques frá bandarískum háskóla, annar er rafeindavirki frá Iðnskólanum í Reykjavík og sá þriðji hefur lokið stúdentsprófi og einu ári í rafmagnsverkfræði í háskóla. Allir starfsmennirnir höfðu meirapróf og gátu því sjálfir keyrt útsendingarbíla. Menntun kæranda stendur því nærri því að vera jafngild menntun þess er hafði lokið MA-gráðu frá háskóla en menntun hennar, sem er umtalsvert meiri en hinna tveggja, vegur í það minnsta upp þann mun sem er á starfsreynslu þeirra.
 73. Meðal þeirra raka er kærði færir fyrir því að segja kæranda upp í stað einhvers hinna þriggja starfsmannanna er að sá starfsmaður sem hafði háskólapróf hafi tiltekna eiginleika varðandi samskiptahæfni. Kærði hefur ekki fært nein rök að því að samskiptahæfni kæranda hafi verið metin í samanburði við samskiptahæfni þessa starfsmanns eða í samanburði við alla karlana þrjá. Hið sama gildir um viðhorf til starfsins, ekkert liggur fyrir um að halli á kæranda í þessum efnum. Grundvallast sjónarmið kærða í þessum efnum ekki á haldbærum rökum til stuðnings þeirri ákvörðun að segja kæranda upp fremur en einhverjum karlanna.
 74. Þegar vegin eru saman menntun tæknimannanna fjögurra og starfsreynsla þeirra og að teknu tilliti til þess að kærði hefur upplýst að til starfs tæknimanns hafi ekki verið krafist tiltekinnar menntunar telur kærunefndin að kærandi hafi verið að minnsta kosti jafnhæf hinum þremur karlmönnum er störfuðu sem hljóðtæknimenn á fréttastofu. Að mati kærunefndar jafnréttismála ber við samanburð þennan að hafa í huga að eftir að umtalsverðum starfsaldri er náð, þegar starfsaldur er farinn að telja í áratugum, dregur úr vægi hvers einstaks starfsárs upp frá því við mat á starfsreynslu. Þess má vænta að við þær aðstæður hafi starfsmaður öðlast þá starfsreynslu, færni og þekkingu, sem vinna við starfið býður upp á og útheimtir enda hefur kærði staðfest að kærandi hafi sýnt fulla hæfni til starfans. Af þeim sökum er ekki hægt að slá því föstu að samstarfsmenn kæranda hafi verið betur til starfsins fallnir en hún sökum hærri starfsaldurs hjá kærða.
 75. Samkvæmt upplýsingum kærða störfuðu hljóðtæknimenn hjá fyrirtækinu í þremur deildum á þeim tíma sem hér um ræðir. Á verkstæði störfuðu fimm karlmenn sem unnu að hluta til sem hljóðmenn. Hjá dagskrá útvarps störfuðu 12 hljóðmenn, þar af tveir í hlutastarfi, 11 karlar og ein kona, en einum starfsmanni var sagt upp í septembermánuði árið 2012. Eins og áður greinir voru samstarfsmenn kæranda á fréttastofu allt karlar. Við þær aðstæður að í starfsgreininni störfuðu hjá kærða nærri eingöngu karlmenn og þegar tekið er tillit til þess að kærandi var að minnsta kosti jafnhæf til starfsins og samstarfsmenn hennar bar kærða, í samræmi við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, að leitast við að komast hjá því að nauðsynleg fækkun stöðugilda kæmi niður á hljóðtæknimanni sem er kona. Hefði verið eðlilegt að kærði gerði að minnsta kosti tilraun til að meta heildstætt með tilliti til starfa í öðrum deildum fyrirtækisins hvort unnt var að ná fram þessu markmiði. Í þessu samhengi verður sérstaklega að halda til haga að þegar kærandi fékk samþykki fyrir launalausu leyfi var það með þeim skilmála af hálfu kærða að hún gæti ekki gengið að sama starfi vísu að leyfi loknu. Þegar það er haft í huga sýnist nokkuð einboðið að það hefði átt að horfa á þarfir fyrirtækisins í heild og meta hvort hagræða mætti með flutningi milli deilda enda á svipuðum tíma verið að ráða í afleysingastarf á fréttastofu. Hvað varðar ummæli kærða um sérhæfingu hljóðtæknimanna innan tiltekinna deilda kærða hefur það nokkurt vægi að fram til október 2009 var ein sameiginleg hljóðdeild fyrir allt fyrirtækið. Kærði leit með öllu framhjá þessu við uppsögn kæranda og gerði enga tilraun til slíks heildstæðs mats. Telur kærunefnd þegar allt framangreint er virt að kærði hafi við uppsögn kæranda úr starfi hljóðtæknimanns hjá fréttastofu brotið gegn 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 76. Með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 telur kærunefnd rétt að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi og þykir hann hæfilega metinn 300.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ríkisútvarpið ohf. braut gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í starf afleysingamanns á fréttastofu í apríl 2012 og við ráðningu í starf tveggja sumarstarfsmanna hjá dagskrá útvarps í júní 2012.

Ríkisútvarpið ohf. braut gegn lögum nr. 10/2008 við uppsögn kærða úr starfi hljóðtæknimanns á fréttastofu 28. ágúst 2012.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira