Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um nýtt greiðslukerfi vegna heilbrigðisþjónustu

Í læknisskoðun
Í læknisskoðun

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um sjúkratryggingar sem kveður á um nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. Meginmarkmiðið er að hlífa þeim sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum kostnaði og jafna greiðslubyrði sjúkratryggðra.

Samkvæmt frumvarpinu verður tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks fari aldrei yfir tiltekið hámark og sett verður þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreiningar.

Helstu markmið:

  • Að skapa einfaldara, gegnsærra og skiljanlegra greiðsluþátttökukerfi.
  • Að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum.
  • Að draga úr útgjöldum barnafjölskyldna.
  • Að styrkja hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu.

Helstu efnisþættir:

Hámark á mánaðarleg og árleg útgjöld fólks vegna heilbrigðisþjónustu

  • Almennur notandi mun í nýju kerfi greiða að hámarki 95.200 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu en þó aldrei meira en 33.600 kr. á mánuði.
  • Öryrkjar, aldraðir og börn munu greiða að hámarki 63.500 kr. á ári og aldrei meira en 22.400 kr. á mánuði.
  • Við innleiðingu á nýju kerfi munu greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu mánuðina á undan reiknast til afsláttar. Almennur notandi með fullan afslátt mun þá greiða að hámarki 67.200 kr. á ári (í stað 95.200 kr.) en börn, aldraðir og öryrkjar með að hámarki 44.800 kr. á ári (í stað 63.500 kr.).

Komugjöld í heilsugæslu verða ýmist óbreytt eða lægri en nú er

  • Almenn komugjöld verða áfram 1.200 kr.
  • Komugjöld fólks á aldrinum 67 – 69 ára lækka úr 960 kr. og verða 600 kr. líkt og hjá þeim sem eru 70 ára og eldri.
  • Börn yngri en 18 ára greiða ekki komugjöld frekar en verið hefur.

Gjaldfrjáls þjónusta

  • Fæðingarþjónusta, mæðravernd og innlögn á sjúkrahús verður sem fyrr gjaldfrjáls.

Greiðslur fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga

  • Greiðslur almennra notenda fyrir þjónustu hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum verða í samræmi við gjaldskrá þeirra og án greiðsluþátttöku sjúkratrygginga hafi viðkomandi ekki áunnið sér rétt til afsláttar í nýju kerfi (sjá umfjöllun að ofan um mánaðarleg og árleg hámörk útgjalda).
  • Öryrkjar og aldraðir sem ekki hafa áunnið sér rétt til afsláttar í nýju kerfi munu greiða sem nemur 2/3 hlutum af gjaldi almennra notenda. Sama máli gegnir um þjónustu við börn, nema þau sæki þjónustuna samkvæmt tilvísun frá heilsugæslu.
  • Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga við börn ef þjónustan er veitt samkvæmt tilvísun frá heilsugæslu.

Staða barnafólks í nýju kerfi

  • Líkt og áður verða ekki innheimt komugjöld fyrir börn í heilsugæslunni. Það er aftur á móti nýmæli að sjúkratryggingar munu greiða að fullu fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga við börn að 18 ára aldri leiti þau þangað á grundvelli tilvísunar frá heilsugæslunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum