Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 15. - 21. febrúar 2003

Fréttapistill vikunnar
15. - 21. febrúar 2003



Heildarverðmæti seldra lyfja hefur aukist aukist um 164% á tíu árum

Árið 1993 var heildarverðmæti seldra lyfja 5.186 milljónir króna en nam 13.674 milljónum króna árið 2002. Aukningin nemur tæpum 164%. Þetta kemur fram í samantekt skrifstofu lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Upplýsingarnar miðast við lyfsölu á apóteksverði með virðisaukaskatti, á verðlagi hvers árs. Þegar einstakir lyfjaflokkar eru skoðaðir kemur meðal annars fram veruleg kostnaðaraukning vegna sýkingalyfja. Þar er kostnaðaraukningin mest milli áranna 2001 - 2002, þ.e. úr 934 milljónum króna í 1.259 milljónir króna, sem svarar tæpum 35%. Kostnaður vegna tauga- og geðlyfja hefur aukist jafnt og þétt á tímabilinu 1993 - 2002, var 1.053 milljónir króna árið 1993 en 3.811 milljónir króna árið 2002. Í samantekt skrifstofu lyfjamála er einnig sýndur fjöldi dagskammta í einstökum lyfjaflokkum á hverja 1000 íbúa á dag (DDD). Þá sést að fjöldi dagskammta tauga- og geðlyfja var um 140 árið 1993 en um 270 árið 2002.
Nánar... (Pdf.skjal)

Öll heilbrigðisþjónusta á Hornafirði í höndum heimamanna
Öll heilbrigðisþjónusta á Hornafirði verður í höndum heimamanna til ársloka 2006. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Albert Eymundsson, bæjarstjóri á Hornafirði undirrituðu í dag, 21. febrúar, víðtækt samkomulag um þetta. Hornafjörður hefur verið eitt svokallaðra reynslusveitarfélaga á þessu sviði frá árinu 1996. Að mati heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur reynsla af stjórn heimamanna á heilbrigðisþjónustunni verið góð og sömuleiðis hafa viðhorfskannanir sýnt ánægju íbúanna með þetta fyrirkomulag. Meginmarkmið nýja samningsins er að efla stjórn sveitarfélagsins á málaflokknum, laga stjórnsýsluna betur að staðbundnum aðstæðum, bæta þjónustu við íbúana og nýta betur fjármagn hins opinbera. Árlegt heildarframlag vegna heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu Hornafirði er um 272 milljónir króna. Samhliða undirritun samkomulags um heilbrigðisþjónustu á Höfn var gengið frá rammasamningi um byggingu annars áfanga hjúkrunarheimilis og þjónustubyggingar fyrir aldraða á Höfn.
Fréttatilkynning...

Lokaskýrsla nefndar um bætta ímynd ellinnar og þess að starfa með öldruðum
Nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árið 2000 til að vinna að bættri ímynd ellinnar og þess að starfa með öldruðum hefur skilað ráðherra lokaskýrslu sinni. Þar er gerð grein fyrir árangri af störfum nefndarinnar auk tillagna hennar til ráðherra um aðgerðir til að mæta vaxandi þörf fyrir mannafla í öldrunarþjónustu. Í inngangi að skýrslu nefndarinnar segir að ljóst sé að fyrir hvert nýtt hjúkrunarrými sem opnað verði í framtíðinni skapist a.m.k. eitt nýtt starf. Auk þess muni skapast fjölmörg ný störf við frekari uppbyggingu heimaþjónustu fyrir eldri borgara. Nefndin leggur áherslu á að stjórnvöld þurfi að tryggja námstækifæri fyrir þær fagstéttir sem þörf verður fyrir í öldrunarþjónustu í framtíðinni þannig að jafnvægi verði á framboði og eftirspurn.
Skýrslan... (Pdf-skjal)

Upplýsingaþjónusta fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í vikunni fyrirspurn á Alþingi frá Rannveigu Guðmundsdóttur, þar sem þingmaðurinn spurði m.a. um upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda við barna og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss (BUGL) og hvernig þjónustu væri háttað við foreldra barna og unglinga í vímuefnavanda. Í svari ráðherra kom fram að á BUGL væri aðstandendum sjúklinga veitt margs konar ráðgjafaþjónusta en ekki væru áform um að stofna þar upplýsingamiðstöð.
Nánar...

Fimm bjóða í heilsugæsluna í Salarhverfi
Fimm fyrirtæki bjóða í rekstur heilsugæslustöðvar í Salarhverfi í Kópavogi. Þeir eru Nýsir hf., Heilsuvaki, Frumafl hf., Heimilislæknastöðin ehf. og Liðsinni ehf. Um miðjan mars verða verðtilboðin í rekstur stöðvarinnar opnuð. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fól Ríkiskaupum að sjá um útboðið og var ákveðið að fram færi svokallað tveggja umslaga útboð. Það þýðir að fyrst eru opnuð umslög sem geyma lýsingu á fyrirhuguðum rekstri og hugmyndafræði í kringum hann og hins vegar verðþáttinn. Skipuð var matsnefnd sem undanfarið hefur unnið að yfirferð tilboðanna sem eru bæði ítarleg og efnismikil og því mikil vinna við að fara yfir þau. Um er að ræða rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar sem fyrirhugað er að opna um mitt ár. Reksturinn er boðinn út til 8 ára og lætur ráðuneytið væntanlegum verksala í té innréttað húsnæði. Sá sem reka mun heilsugæslustöðina mun síðan annast alla stjórnun og rekstur stöðvarinnar, kaupa alla lausamuni og standa straum af útgjöldum hennar. Hann mun líka sjá um að manna stöðina eins og nauðsynlegt er á hverjum tíma og standa straum af öllum útgjöldum hennar.

Endurhæfing vímuefnasjúklinga - Grettistak Tryggingastofnunar ríkisins og nokkurra sveitarfélaga
Tryggingastofnun ríkisins er í samstarfi við félagsþjónustu Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Akureyrar, Ólafsfjarðar og Reykjaness um endurhæfingu vímuefnasjúklinga. Samstarfsverkefnið er kallað Grettistak og er því lyft í þeim tilgangi að veita vímuefnasjúklingum endurhæfingu, halda þeim frá vímuefnum, og gera þessu fólki kleift að standa á eigin fótum til framtíðar. Endurhæfingin er veitt fólki sem lengi hefur verið á bótum frá félagsþjónustu sveitarfélaganna sem standa að verkefninu. Meðan á endurhæfingu stendur greiðir Tryggingastofnun ríkisins þessum einstaklingum endurhæfingarlífeyri. Unnar eru markvissar áætlanir með hverjum og einum, til dæmis um að stunda nám, sækja AA-fundi og mæta í viðtöl til ráðgjafa. Um er að ræða samning og standi fólk ekki við hann missir það rétt til þátttöku í verkefninu og greiðslur endurhæfingarlífeyris til viðkomandi falla niður. Nánar er sagt frá verkefninu á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
Nánar...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
21. febrúar 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum