Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 22. - 28. janúar

Fréttapistill vikunnar
22. - 28. febrúar 2003



Langtímastefnumótun staðfest fyrir Heilbrigðisstofnunina Ísafjarðarbæ

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ staðfestu síðdegis með undirskrift sinni stefnumótun Heilbrigðisstofnunarinnar til næstu þriggja ára. Stefnumótunin er í samræmi við samkomulag heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar um árangursstjórnun. Áætlunin er í samræmi við þau langtímamarkmið í heilbrigðismálum, sem fram koma í Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og gæðaáætlun Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
Stefnumótun Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar (pdf-skjal).

BUGL - Von á tillögum um úrbætur í næstu viku
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur farið þess á leit við Magnús Pétursson, forstjóra Landspítalans, að þegar í stað verði gengið úr skugga um hvort ekki sé unnt að fjölga innlagnarplássum og bæta þannig úr brýnni þörf skjólstæðinga BUGL (Barna- og unglingageðdeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss) sem þarfnast innlagnar. Von er á tillögum í málinu í næstu viku. Ráðherra svaraði fyrirspurn varðandi málið á Alþingi í vikunni. Í svari hans kom fram að innlögnum á BUGL hefur fjölgað um tugi prósenta á fáum árum en legur hafa styst.
Svar ráðherra...

Nýtt húsnæði heilsugæslunnar á Suðureyri
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, var í dag viðstaddur þegar tekið var í notkun nýtt húsnæði heilsugæslustöðvarinnar á Suðureyri við Súgandafjörð. Með ráðherra voru embættismenn ráðuneytisins og fulltrúar Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ. Heilsugæslustöðin á Suðureyri verður til húsa í 125 fm leiguhúsnæði sem talið er að þjóni starfseminni á fullnægjandi hátt, en Heilsugæslustöðin á Suðureyri var til húsa að Túngötu 2 á Suðureyri. Það hús var byggt um 1960 og var erfitt í viðhaldi og tók til sín mikla fjármuni og kallaði á mikið viðhald. Jón Kristjánsson lýsti mikilli ánægju með nýja húsnæðið í ávarpi sem hann flutti á Suðureyri við opnunina og sagði að með því væri staða heilsugæslunnar á Suðureyri tryggð. Hann fór nokkrum orðum um sögu heilsugæslunnar á staðnum og minntist sérstaklega á þátt Lovísu Ibsen, hjúkrunarfræðings, sem bjó lengi á Suðureyri en Súgfirðingar áttu því láni að fagna að njóta starfskrafta hennar í áratugi.

Uppbót á lífeyri vegna reksturs bifreiða
Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra hefur staðfest reglugerð um breytingu á reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til heyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Reglugerðarbreytingin felur tvenn í sér. Í fyrsta lagi geta þeir sem eiga rétt á uppbót á lífeyri vegna reksturs bifreiðar nú fengið uppbótina þótt þeir séu með bílinn á rekstrarleigu. Í öðru lagi eru numin úr gildi aldursákvæði sem voru í fyrri reglugerð.

Hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á Akureyri verður fjölgað um 60 á næstu misserum
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og bæjarstjórinn á Akureyri undirrituðu í vikunni samning um verulega fjölgun hjúkrunarrýma á Akureyri á næstu misserum með sérstökum rammasamningi um viðbyggingu við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 60 til ársins 2006. Fyrsta áfanga skal ljúka í árslok 2003 og skal byggingin öll vera tilbúin í ársbyrjun 2006. Samningurinn var undirritaður samhliða víðtæku samkomulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisin og bæjaryfirvalda á Akureyri sem felur í sér að bæjarfélagið tekur að sér að sjá um alla heilsugæslu og öldrunarþjónustu í héraði til ársloka 2006.





Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
28. febrúar 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum