Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 107/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 26. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 107/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110045

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa

í máli [...]

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. nóvember 2023, um að hafna honum um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda jafnframt gert að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Þó var tekið fram að endurkomubann kæranda yrði fellt niður yfirgæfi hann landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar. Ákvörðun í málinu var móttekin af kæranda samdægurs, 7. nóvember 2023. Af beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa má ráða að hann hafi ekki yfirgefið landið í samræmi við leiðbeiningar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ákvörðunarorðum framangreindrar ákvörðunar Útlendingastofnunar er greint frá kæruheimild, sbr. 7. gr. laga um útlendinga, og tekið fram að stjórnsýslukæra fresti ekki framkvæmd ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 103. gr. laganna en unnt væri að óska eftir frestun réttaráhrifa hjá kærunefnd útlendingamála, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa, og var sú beiðni áréttuð í greinargerð, dags. 21. nóvember 2023. 

I. Niðurstaða

Að meginreglu frestar stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvarðana sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga en æðra stjórnvaldi er þó heimilt að fresta áhrifum kærðra ákvarðana þar sem ástæður mæla með, sbr. 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Ákvæði 3. mgr. 29. gr. laganna kveður svo á um að 1. og 2. mgr. gildi ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að reglan þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefur ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Enn fremur er tekið fram að ákvæðið hafi mesta þýðingu varðandi ákvarðanir sem fela í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila, svo sem boð eða bann. Vegur þar þyngst þegar ákvörðun leiðir til röskunar á hagsmunum sem erfitt er að leiðrétta, jafnvel þótt æðra stjórnvald komist að þeirri niðurstöðu að kærð ákvörðun hafi verið ólögmæt og ógildanleg. 

Hin kærða ákvörðun grundvallast á stjórnsýslumáli sem hófst að frumkvæði aðila máls, þ.e. með umsókn um dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga um útlendinga ber kæranda að hafa dvalarleyfi, hafi hann hug á lengri dvöl en til 90 daga á grundvelli áritunarfrelsis, sbr. 1. mgr. 49. gr. sömu laga. Telur kærunefnd þann hluta málsins því mæla fyrir um óbreytta réttarstöðu kæranda enda hafði hann ekki dvalarleyfi í gildi þegar umsókn var lögð fram. Hin kærða ákvörðun mælir þó einnig fyrir um réttaráhrif sem eru kæranda íþyngjandi, þ.e. brottvísun og endurkomubann. 

Líkt og fram kemur í 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga, skal réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðun að meginreglu ekki frestað. Kærunefnd hefur yfirfarið gögn í málinu, hina kærðu ákvörðun og aðstæður kæranda. Í því samhengi lítur nefndin einkum til þess að þegar hefur verið tekin afstaða til dvalar kæranda á landinu, og honum veittar leiðbeiningar um að yfirgefa landið, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 301/2022, dags. 18. ágúst 2022, og nr. 35/2023, dags. 20. júní 2023. Telur kærunefnd kæranda ekki hafa verið í góðri trú um dvöl á landinu þegar umsókn hans um dvalarleyfi sem hér er til meðferðar var lögð fram. Dregur það úr líkum á því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Auk þess lítur kærunefnd til þess að hefði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verið hlítt af hálfu kæranda hefði sú staðreynd að hann væri farinn af landi brott ekki haft áhrif á eftirfylgni kærumáls hans auk þess sem kærandi hefði eftir atvikum getað lagt fram nýja dvalarleyfisumsókn. Verður því ekki fallist á röskun hagsmuna sem erfitt verður að leiðrétta.

Til viðbótar við framangreint lítur kærunefnd til 3. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga en mælt er fyrir um framkvæmd ákvarðana í 103. gr. laga um útlendinga, sem eru sérlög gagnvart hinum almennu stjórnsýslulögum. Löggjafinn hefur þannig mótað regluverk um frestun réttaráhrifa vegna ákvarðana á grundvelli laga um útlendinga. Af ákvæðinu má ráða að löggjafinn hafi gætt að frestun réttaráhrifa í málum sem varða fyrirliggjandi réttindi, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 57. gr., 6. mgr. 58. gr., 59. gr. og XI. kafla laga um útlendinga. Gagnstætt þessu skuli réttaráhrifum, sem ekki varða fyrirliggjandi réttindi, að meginreglu ekki frestað. Sú heimild sem kærunefnd hefur til frestunar réttaráhrifa er undanþága frá umræddri meginreglu og ber að túlka þröngt. 

Með beiðni um frestun réttaráhrifa leiddi kærandi í ljós þann vilja sinn að dveljast á landinu á meðan stjórnsýslukæra hans væri til meðferðar hjá kærunefnd. Lítur kærunefnd einnig til þess að kæranda var veittur 15 daga frestur til þess að komast hjá endurkomubanni, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Telur nefndin hæfilegt, m.a. með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, að veita kæranda 7 daga viðbótarfrest frá móttöku þessa úrskurðar, til þess að hlíta fyrirmælum hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu aðila er hafnað. 

 

The appellant’s request is refused. 

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður

  

 

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta