Hoppa yfir valmynd
12. mars 2008 Dómsmálaráðuneytið

Ráðherrafundur Schengen-ríkjanna: Sjálfvirkni við landamæravörslu rædd

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra sat í dag, 12. mars, ráðherrafund Schengen-ríkjanna í Brdo í Slóveníu.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra sat í dag, 12. mars, ráðherrafund Schengen-ríkjanna í Brdo í Slóveníu. Fundurinn snerist um landamæravörslu á ytri landamærum Schengen-ríkjanna, þróun hennar og ný úrræði.

Á fundinum voru kynntar hugmyndir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að auka notkun tölvutækni og sjálfvirkni við landamæravörslu. Vegabréf og vegabréfsáritanir með lífkennum gera kleift að taka upp nýjar aðferðir við skráningu á ferðum yfir landamæri, auk þess sem varsla rafrænna lífkenna eins og fingrafara tryggir öruggara eftirlit með dvöl þeirra, sem koma inn á Schengen-svæðið.

Portúgalar hafa þegar hafið notkun sjálfvirkra hliða við landamæravörslu þegar evrópskir borgarar sem hafa vegabréf með lífkennum eiga í hlut og er reynslan af þeim mjög góð.

Ráðherrarnir ræddu einnig störf landamærastofnunar Evrópu, FRONTEX, og töldu reynslu af starfi hennar, síðan hún kom til sögunnar árið 2005, mjög góða og að þróa ætti starf hennar áfram. 

Rædd voru áform um að efla eftirlit á Miðjarðarhafi og sunnanverðu Atlantshafi til að sporna gegn ólöglegum innflytjendum og smygli á fólki og fíkniefnum. Talið var nauðsynlegt að hvert einstakt ríki efldi þetta eftirlit en einnig ætti að tengja streymi upplýsinga og greiningu undir handarjaðri FRONTEX.

Á fundinn kom Michael Chertoff, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, og ræddi samstarf Bandaríkjanna og Evrópu á sviði landamæragæslu og baráttunnar gegn glæpum og hryðjuverkum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum