Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2019 Innviðaráðuneytið

Ungt fólk vill taka þátt í stefnumótun um samgöngumál

Hluti fyrirlesara á málþinginu Börn og samgöngur í pallborðsumræðum. - mynd

Málþing um börn og samgöngur var haldið mánudaginn 18. nóvember, á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samvinnu við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga. Málþingið fór fram í Sveinatungu á Garðatorgi og tóku þar bæði ungir sem aldnir til máls og ræddu stöðu barna í samgöngum í víðu samhengi. Það var samdóma álit fyrirlesara af yngri kynslóðinni að ungt fólk vildi taka virkan þátt í stefnumótun um samgöngumál og umferðaröryggi. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála og Þórunn Egilsdóttir formaður samgönguráðs settu þingið og en Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, stýrði fundinum. 

Fundurinn var öllum opinn og streymt í beinni útsendingu. Áhorfendum gafst, hvar sem þeir voru staddir, færi á að senda inn ábendingar og spurningar sem ræddar voru í pallborði í kjölfar fyrirlestra.

Markmiðið að koma skemmtilegum og góðum hugmyndum í framkvæmd
Karín Óla Eiríksdóttir, formaður ungmennaráðs Grindavíkur, sagði frá málþingi sem ungmennaráðið hélt á síðasta ári og fjallaði um öryggi í umferðinni. Þar héldu þau málstofur og fengu erindi frá hagaðilum og rýndu í mögulegar sviðsmyndir framtíðarinnar þegar kemur að ökutækjum og umferðaröryggi. Þátttakendur höfðu bæði gagn og gaman af og gerðu sér líka glaðan dag með skemmtikvöldi í Grindavík. Hún lagði mikla áherslu á að rödd unga fólksins og skoðanir fái hljómgrunn og séu teknar til greina þegar ákvarðanir varðandi leiðir í umferðarfræðslu séu skoðaðar.

Unga fólkið er meðvitað og vill taka þátt
Í tengslum við ráðstefnu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Slysavarnir 2019, var haldin vinnusmiðja undir stjórn Manpreet Darroch fyrir umsjónarmenn og félaga í unglingadeildum Landsbjargar. Þeir Atli Þór Jónsson og Fannar Freyr Atlason, 15 ára félagar í unglingadeildinni Árnýju, sögðu 
frá þátttöku sinni í vinnusmiðjunni sem fjallaði um slysavarnir og umferðarslys, sem væru helsti dauðaorsök ungs fólk á heimsvísu. Þeir sögðu frá mikilvægi þess að ungt fólk væri meðvitað og tæki þátt í því að bregðast við og finna lausnir. YOURS (Youth for Road Safety) hefur haldið vinnusmiðjur um alla heim, staðið fyrir herferðum og hefur gríðarlega miklu reynslu af því að leiða vinnu ungs fólks í umferðaröryggismálum. Landsbjörg leggur upp úr því að fulltrúar þeirra vinni áfram með jafningjafræðslu í heimabyggð. Fulltrúar Íslands stefna á að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um umferðaröryggi sem haldin verður í Stokkhólmi 19.-20. febrúar 2020.

Samstarf Samgöngustofu við sveitarfélög í landinu
Ólafur Hilmarsson, deildarstjóri yngsta stigs við Grunnskólann í Hveragerði, sagði frá samstarfi Samgöngustofu við Grunnskólinn í Hveragerði sem miðaði að því að efla umferðaröryggi grunnskólabarna í sveitarfélaginu. Umferðarfræðsla var efld í öllum árgöngum og var námsefni af vefnum umferð.is notað til grundvallar. Undir lok skólaársins var formlegt erindi sent til bæjaryfirvalda um úrbætur umhverfis skólann og víðar með aukið umferðaröryggi nemenda að leiðarljósi. Ólafur kynnti árangursríka leið til þess að virkja starfsfólk, nemendur, foreldra og bæjaryfirvöld á gagnlegan og skemmtilegan hátt í átt að bættu umferðaröryggi. 

Umferðaröryggi í sveitarfélögum
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, sagði frá reynslu sinni við undirbúning og framkvæmd umferðaröryggisáætlana bæði fyrir Grindavík og síðar Skútustaðahrepp. Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga miða að því að auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélaga og almennings. Í því felst að greina stöðuna, finna slysastaði, setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun. Þorsteinn miðlaði reynslu sinni við gerð slíkrar áætlunar þar sem leiðbeiningar um gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélög voru nýttar til grundvallar. Þorsteinn lýsti vinnuferlinu og fór yfir helstu áhersluatriði.

Erna Bára Hreinsdóttir, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, flutti erindið „Komiði með hætturnar!“ sem fjallaði um skipulag, þjóðvegi og börn. Sigrún Birna Sigurðardóttir, samgöngu- og umferðarsálfræðingur, fjallaði um hagnýtingu sálfræðilegrar þekkingar til að breyta ferðavenjum og Berglind Hallgrímsdóttir og Höskuldur Kröyer, samgönguverkfræðingar hjá Eflu og Trafkon fjölluðu um öryggi barna í Reykjavík.

 
  • Kristján Freyr Geirsson hjá lögreglunni á Suðurnesjum, Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum