Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Matarskortur aldrei meiri en nú í sunnanverðri Afríku

Ljósmynd frá WFP: Matteo Cosorich. - mynd

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hvetur þjóðir heims til þess að bregðast við útbreiddum matvælaskorti í sunnanverðri Afríku. Í sextán þjóðríkjum í þessum heimshluta búa 45 milljónir manna, einkum konur og börn, við alvarlegan matvælaskort, ýmist vegna þurrka, flóða eða annarra ytri aðstæðna. „Við höfum ekki fyrr orðið vitni að jafn miklum hungurvanda og þessum og því miður bendir allt til þess að ástandið eigi aðeins eftir að versna,“ segir Lola Castro svæðisfulltrúi WFP fyrir sunnanverða Afríku.

Á þessum tíma árs er svokallað „magurt“ tímabil í Afríku sunnan Sahara meðan beðið er eftir að uppskerutíminn hefjist eftir tvo til þrjá mánuði. Þetta er jafnframt sá tími sem ofsaveður valda oft miklu tjóni. Skemmst er að minnast tveggja fellibylja sem skullu á Mósambík um þetta leyti í fyrra með hrikalegum afleiðingum fyrir íbúa á hamfarasvæðunum, ekki aðeins í Mósambík, heldur líka í Simbabve og Malaví.

„Þær milljónir íbúa sem þurfa stuðning nú þegar eru í forgangi en það er ekki síður brýnt að byggja upp viðnámsþrótt fyrir enn fleiri sem búa við sífellt meiri ógn um fleiri og hættulegri ofsaveður,“ segir Lola. Hún bætir við að alþjóðasamfélagið þurfi að auka neyðarstuðning við þær milljónir sem eru við hungurmörk en einnig þurfi að huga að langtímastuðningi við uppbyggingu til þess að samfélög geti brugðist við síversnandi aðstæðum vegna loftslagsbreytinga.

Hitastig í þessum heimshluta hefur á síðustu árum hækkað tvöfalt á við það sem gerist jafnaðarlega. Í ljósi þess að matvælaframleiðsla kemur að mestu leyti frá sjálfsþurftarbændum sem reiða sig á sífellt óáreiðanlegri úrkomu – og aðeins eitt uppskerutímabil á ári - hefur Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna áætlanir um stuðning við 8,3 milljónir íbúa átta ríkja sem eru matarlitlar eða matarlausar. Þær þjóðir eru Simbabve, Sambía, Mósambík, Madagaskar, Namibía, Lesótó, Eswatini og Malaví.

Verst er ástandið í Simbabve þar sem helmingur þjóðarinnar býr við hungurmörk. Fimmtugur íbúa Sambíu og Lesótó eru í sömu stöðu.

Að mati WFP þarf 489 milljónir bandarískra dala til þess að bregðast við neyð fyrrnefndra íbúa en samtökin hafa aðeins tryggt sér innan við helming þess fjár. „Ef við fáum ekki nauðsynlegt fjármagn er okkur nauðugur sá kostur að aðstoða færri og minnka matarskammta,“ segir Lola Castro.

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) er ein lykilstofnana í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira