Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2017

Nr. 52/2017 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 52/2017

 

Lögmæti aðalfundar. Kostnaðarskipting; málskostnaður.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

     Með bréfi, dags. 28. júní 2017, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélag B 84–86 og húsfélagsdeildar B 84, hér eftir nefnd gagnaðilar.

     Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994.

     Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 31. ágúst 2017, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 11. september 2017 og athugasemdir gagnaðila, dags. 29. september 2017, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 22. nóvember 2017.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

     Álitsbeiðandi er eigandi einnar íbúðar af 20 í B 84–86. Ágreiningur er um lögmæti aðalfundar og greiðsluskyldu álitsbeiðanda vegna framkvæmda sem stjórn gagnaðila lét framkvæma og hvernig skipta beri milli eigenda málskostnaði vegna dómsmáls.

 

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda meðal annars vera:

 

Að viðurkennt verði að aðalfundur 2017 sé ólögmætur.

 

Að álitsbeiðanda sé ekki skylt að taka þátt í kostnaði vegna þakviðgerða sem fram fóru vorið 2017.

 

Að málskostnaði, sem gagnaðilar hafi verið dæmdir til að greiða, eigi að skipta jafnt á milli eigenda allra í húsinu.

 

     Í álitsbeiðni kemur fram að til aðalfundar 2017 hafi verið boðað með of stuttum fyrirvara og án þess að tilgreina dagskrá fundarins.

     Íbúðareigandi, sem gagnaðilar voru dæmdir til að greiða málskostnað fyrir þar sem fallist var á frávísunarkröfu hans fyrir dómi, hafi neitað að taka þátt í kostnaði vegna dæmds málskostnaðar þar sem stefnandi hafi í raun verið húsfélagsdeildin að B 84. Staðreyndin sé aftur á móti sú að húsfélagið B 84–86 hafi höfðað mál gegn þeim sem ekki hafi staðið skil á greiðslu vegna gluggaskipta.

 

     Vorið 2017 hafi gagnaðilar tekið tilboði í þakviðgerðir. Ekkert hafi verið minnst á tilboðið í fundarboði og það hafi ekki verið rætt til hlítar eða kosið um það á aðalfundi. Því telji álitsbeiðandi að ekki liggi fyrir lögmæt ákvörðun um þakviðgerðir. Þar sem kostnaður við þakviðgerðir hafi verið langt umfram heimild sem stjórnarmönnum hafi verið veitt á aðalfundi 2016 beri stjórnarmenn sjálfir kostnað vegna framkvæmdanna. Þar sem skyggni hafi reynst stórhættulegt hafi stjórnarmenn húsfélagsdeildarinnar að B 84 ákveðið að láta brjóta það niður og endursteypa en sú ákvörðun sé í andstöðu við reglu fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, um að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á húsfundum.

 

            Í greinargerð gagnaðila er gerð krafa um að málinu sé vísað frá á þeim grunni að málatilbúnaður álitsbeiðanda sé svo óskýr og vanreifaður að nánast sé ómögulegt að svara honum og verjast. Segir um skiptingu málskostnaðar að kostnaðurinn hafi verið gerður upp og því óljóst hver ágreiningurinn sé. Hvað þakviðgerðir varðar hafi verið boðað til fundar með lögmætum hætti og framkvæmdin samþykkt með atkvæði allra fundarmanna sem var meirihluta eigenda hússins. Engum andmælum hafi verið hreyft fyrr við fundarboði eða lögmæti fundarins. Þá hafi stjórn gagnaðila sinnt frumskýrslu sinni samkvæmt fjöleignarhúsalögum er hún hafi tryggt fullnægjandi viðhald á ytra byrði fasteignarinnar.

 

           Í athugasemdum álitsbeiðanda eru nýjar kröfur settar fram og fyrri sjónarmið ítrekuð.

 

Í athugasemdum gagnaðila er nýjum kröfum hafnað og fyrri sjónarmið ítrekuð.

 

III. Forsendur             

Ákvæði 1. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, kveður á um að greini eigendur fjöleignarhúsa á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögunum geti þeir leitað til kærunefndar húsamála og óskað eftir álitsgerð um ágreiningsefnið. Í álitsbeiðni er að finna margar lögspurningar sem ekki fellur undir verksvið kærunefndar að veita álitsbeiðanda svör við. Þá segir í 2. mgr. að erindi til nefndarinnar skuli vera skriflegt og í því skuli skilmerkilega greina hvert sé ágreiningsefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni. Tekur kærunefnd undir með gagnaðila að málatilbúnaður álitsbeiðanda sé alls ekki eins skýr og skyldi og erfitt að átta sig á kröfum hennar og rökstuðningi hverrar kröfu fyrir sig. Telur kærunefnd sumar kröfurnar ekki tækar til efnismeðferðar en gefur álit sitt hvað varðar neðangreindar kröfur.

 

     Álitsbeiðandi heldur því fram að aðalfundur 2017 hafi verið ólögmætur þar sem til hans hafi verið boðað með of stuttum fyrirvara og dagskrár ekki getið í fundarboði. Ekki kemur þó fram hvenær til hans hafi verið boðað eða hver fyrirvarinn í raun var. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðið á fundinum sjálfum og gagnaðilar segja að boðað hafi verið í samræmi við reglur fjöleignarhúsalaga. Telur kærunefnd að álitsbeiðandi hafi ekki sýnt fram á að aðalfundur 2017 hafi verið ólögmætur.

 

     Álitsbeiðandi krefst viðurkenningar á að henni sé ekki skylt að taka þátt í kostnaði vegna þakviðgerðar sem fram hafi farið vorið 2017 og samþykktar voru á fundi 9. september 2016. Álitsbeiðandi hefur ekki fært fram rök eða gögn fyrir því að hún losni undan greiðsluskyldu og kröfu hennar því hafnað.

 

     Álitsbeiðandi krefst viðurkenningar á að málskostnaði, sem gagnaðilar voru dæmdir til greiðslu á, skuli skipt jafnt á milli eigenda hússins. Gagnaðilar segja ekki ágreining um skiptingu málskostnaðar og að hann hafi þegar verið greiddur. Málskostnaður sem gagnaðilar eru dæmdir til greiðslu á er sameiginlegur kostnaður, sbr. 43. gr. fjöleignarhúsalaga, en reglur um skiptingu hans er að finna í 45. gr. laganna. Málskostnaði skal skv. A lið skipt á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta í sameign.

 

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að málskostnaði sem gagnaðilar voru dæmdir til að greiða, skuli skipta eftir hlutfallstölum eigenda í sameign.

Öðrum kröfum álitsbeiðanda er ýmist hafnað eða vísað frá.

 

 

 

Reykjavík, 29. nóvember 2017

 

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum