Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vegur um Hófaskarð og nýr Raufarhafnarvegur opnaðir

Vegurinn um Hófaskarð og Raufarhafnarvegur voru formlega opnaðir laugardaginn 6. nóvember. Þar með eru Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn tengd heilsársvegi með bundnu slitlagi og byggðirnar komnar í gott vegasamband við Hringveginn.

Hófaskarðs- og Raufarhafnarleiðir opnaðar.
Hófaskarðs- og Raufarhafnarleiðir opnaðar.

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, klippti á borða ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra og með þeim voru þrír fyrrverandi samgönguráðherrar, þeir Halldór Blöndal, Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon, Jón Rögnvaldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri.

Lagðir voru samtals 53,3 km langir stofnvegir, 38,9 km yfir Hólaheiði og Hófaskarð og 14,4 km löng tenging milli Raufarhafnar og Hófaskarðsleiðar. Er þetta lengsti vegarkafli með bundnu slitlagi sem tekin er í notkun í einu á Íslandi.

Fjöldi heimamanna var við áningarstaðinn í Hófaskarði þar sem opnunarathöfnin fór fram í hríð og strekkingi. Að því loknu var boðið til samsætis á Raufarhöfn.

Í máli vegamálastjóra kom fram ánægja með vel unnið verk og mikilvægi þess fyrir byggðarlögin og íbúa þeirra. Hann sagði að verkefnum af þessari stærðargráðu færi fækkandi, sérstaklega næstu ár í núverandi ástandi, en einnig vegna þess að mörgum stórum verkum væri lokið.

Hófaskarðs- og Raufarhafnarleiðir opnaðar.

Samgönguráðherra sem að undanförnu hefur vígt fjögur stór verkefni í vegagerð, Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, Lyngdalsheiðarveg og nú Hófaskarðsleið/Raufarhafnarveg, sagði að hann hefði öðlast nýja sýn á samgöngumál. Vegabætur fyrir íbúa viðkomandi svæða væru mikilvægar og ótrúleg sú gleði og bjartsýni sem lesa mætti úr orðum og fasi sveitarstjórnarfólks og íbúa.

Við framkvæmdina breytast vegalengdir milli þéttbýlisstaða á Norðausturlandi. Vegalengdin milli Kópaskers og Þórshafnar styttist um 46 km samanborið við veginn um Melrakkasléttu og 24 km miðað við leiðina um Öxarfjarðarheiði. Vegalengdin milli Húsavíkur og Þórshafnar styttist um 53 km samanborið við veginn um Sléttu en lengist um 15 km miðað við leiðina um Öxarfjarðarheiði sem aðeins hefur verið sumarvegur. Vegalengdin milli Raufarhafnar og Kópaskers styttist um 13 km en lengist um 4 km milli Raufarhafnar og Þórshafnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira