Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Hagsmunagæsla mannréttindamála í Miðausturlöndum

Utanríkisráðuneytið styrkir þrjár ungliðastöður hjá Sameinuðu þjóðunum. Mér var úthlutuð einni þeirra og hef búið í Líbanon frá því í nóvember 2021, þar sem ég vinn á Skrifstofu mannréttindafulltrúa SÞ (OHCHR) í Beirút. Skrifstofan opnaði árið 2002 og almennt kölluð ROMENA (stytting úr Regional Office for Middle East and North Africa). Hún sér um mannréttindamál í Alsír, Bahrain, Jórdan, Kúveit, Líbanon, Marokkó, Óman, Katar, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. 

ROMENA sér fyrst og fremst um að efla mannréttindi í þessum löndum þar sem skrifstofan sér um eftirlit og skýrslugerðir og býður stjórnvöldum tæknilega aðstoð varðandi mannréttindamál, tengdum lögum í löndunum. ROMENA heldur þar gangandi viðræðum á víðum grunni um mannréttindamál með skipulagðri starfsemi, sem beinist að stjórnvöldum og borgaralegu samfélagi.  ROMENA veitir líka einstaklingum aðstoð við að nálgast mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna, til dæmis “sérstakar málsmeðferðarreglur Mannréttindaráðs” (Special Procedures of the Human Rights Council) eða “einstaklingsbundnar kvartanir til samninganefnda SÞ” (Individual  Complaints to the Treaty Bodies), sem varðar átta af níu aðal mannréttindasáttmálunum.

Bakgrunnur minn er í lögfræði. Ég er fæddur og uppalinn á Íslandi en ég lauk bæði grunn- og mastersnámi í lögfræði og síðar alþjóðlegum mannréttindalögum í Bretlandi og er að ljúka doktorsnámi því tengdu. Einnig vann ég á lögfræðistofu í London í nokkur ár, áður en ég flutti til Beirút. Ég hafði lengi haft hug á að vinna fyrir SÞ og að feta þannig í fótspor afa míns, John Reedman. Hann var suðurafrískur hagfræðingur, fæddur og menntaður í Bretlandi en vann í marga áratugi fyrir Sameinuðu þjóðirnar, bæði sem ráðgjafi efnahagsmála og sérstakur fulltrúi aðalritara SÞ., aðallega varðandi málefni Palestínu. Sjálfur hafði ég ágæta þekkingu á sögulegum og pólitískum atburðum á svæðinu en hafði þó ekki áður búið í Miðausturlöndum. Starfið er krefjandi en hefur verið frábært tækifæri fyrir mig, sem Íslending, til þess að öðlast reynslu af Miðausturlöndum og byggja upp enn betri þekkingu af notagildi alþjóðlegra mannréttindalaga innan mannréttindakerfis Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir að vera staðsettur í Líbanon, er ég aðallega ábyrgur fyrir eftirliti  og hagsmunagæslu mannréttindamála sem snúa að málefnum, einstaklingum og tilvikum í Jórdaníu. Einnig tek ég við lengri rannsóknarverkefnum og skýrslugerðum sem varða öll löndin tíu innan umboðs skrifstofunnar. Þar hefur reynsla mín úr doktorsnáminu nýst vel.  

Höfuðborg Líbanon, Beirút, er mjög áhugaverð borg með afar mikla og langa menningarsögu enda eiga íbúar borgarinnar sér fjölbreyttan bakgrunn. Líbanon varð sjálfstætt ríki árið 1946, en var áður undir stjórn Frakka frá árinu 1922, samkvæmt ákvörðun Þjóðabandalagsins (League of Nations). 

Fyrir þann tíma var landið undir stjórn Ottómanaveldis, og enn áður Rómaveldis, en Föníkumenn áttu sér einnig upptök á þessu svæði. Beirút var lengi nefnd „París Miðausturlanda” vegna hinna einstöku og fallegu bygginga sem þar voru. Því miður skemmdust margar þessar byggingar í borgarastyrjöldunum sem hrjáðu landið á síðari áratugum 20. aldar.

Í dag einkennist borgin af sínum tignarlegu byggingum frá fyrri tímum, sem eru þó í mjög misgóðu ástandi, og nýbyggingum í nútímalegri mynd. Borgarastyrjaldirnar leiddu til breytinga á flóknu pólitísku samkomulagi milli stærstu trúarhópa landsins, sem nefnist al Mithaq al Watani, sem var samþykkt 1943 og lagði grunninn að stofnun líbanska ríkisins. Samkvæmt þeim samningi er þingsætum og áhrifastöðum í ríkisstjórninni alltaf haldið jöfnum milli fylgjenda mismunandi hópa af kristnu fólki landsins og fólki sem er íslams trúar. 

Staðan í landinu síðustu árin hefur verið þjóðinni mjög erfið þar sem við er að glíma gífurlegt efnahagshrun og skemmdir eftir miklar sprengingar við höfnina í Beirút 4. ágúst 2020. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist í Kýpur, sem er í meira en 240 km fjarlægð.  Þarna við hafnarsvæðið var gríðarlegt magn af ammoníumnítrat sem hafði verið geymt þar, án viðeigandi varúðarráðstafana. Sprengingin stórskemmdi austurhluta Beirút og þúsundir misstu heimili sín, særðust eða létu lífið. Skemmdirnar ýttu enn frekar undir efnahagskreppuna sem landið hefur verið að kljást við síðustu árin og hefur valdið óðaverðbólgu, leitt til mikils rafmagnsleysis og ýtt yfir 60% landsmanna í fátækt. Nauðsynleg þjónusta, t.d. heilsugæsla, hefur orðið óaðgengileg fyrir marga almenna borgara, sem ekki hafa efni á að sækja sér læknisþjónustu. Erfitt hefur þótt að semja við Alþjóðabankann og að gera nauðsynlegar efnahagsráðstafanir, sem gætu snúið við efnahagsástandi landsins. Hins vegar eru Líbanir almennt frekar vel menntuð þjóð og margir geta talað að minnsta kosti þrjú tungumál, arabísku, frönsku og ensku. Þjóðin hefur því margt til brunns að bera sem gæti nýst henni til þess að snúa við þessari erfiðu stöðu.

  • Benjamin Reedman - mynd
  • Gamalt stræti í Deir Al Amar - mynd
  • Mohammad Al-Amin moska  - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum