Nr. 621/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 2. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 621/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23040039
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 13. apríl 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 21. desember 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 22. desember 2021, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Hinn 25. janúar 2022 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 23. febrúar 2022, kom fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi 13. maí 2020 og dvalarleyfi með gildistíma til 12. maí 2023. Útlendingastofnun ákvað 30. júní 2022 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Með úrskurði kærunefndar nr. 345/2022, dags. 7. september 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 21. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð. Með úrskurði kærunefndar nr. 77/2023, dags. 23. febrúar 2023, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar með vísan til einstaklingsbundinna aðstæðna hans, einkum þarfa hans á heilbrigðis- og félagsþjónustu. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 16. mars 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 31. mars 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 13. apríl 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 27. apríl 2023 ásamt fylgiskjali. Viðbótargögn bárust kærunefnd 9. október 2023.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna vopnaðs hóps sem hann kvaðst hafa orðið fyrir vegna þátttöku sinnar í íþróttastarfsemi landsins og þar sem hann væri súnní múslimi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var ekki veittur tiltekinn frestur til að yfirgefa landið heldur var skorað á hann að yfirgefa landið án tafar, sbr. 3. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur án tafar yrði endurkomubannið fellt niður.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til viðtals við hann hjá Útlendingastofnun 16. mars 2023. Þar hafi kærandi greint frá því að vera fæddur í Dhi Qar í Írak og alist upp í Hasseinia norður af Bagdad þar sem hann hafi búið þar til hann yfirgaf heimaríki sitt árið 2015. Kærandi sé súnní-múslimi og tilheyri minnihlutahópi í heimaríki sínu vegna þessa. Kærandi hafi glímt við krabbamein í [...] sem hann hafi þrívegis hlotið greiningu á, m.a. á Íslandi. Þá hafi hann undirgengist þrjár aðgerðir á Indlandi. Kærandi hafi sætt pyndingum árið 2015 með þeim afleiðingum að hann geti ekki labbað og notist við hjólastól. Auk þess hafi kærandi glímt við geðræn veikindi og mikla streitu vegna reynslu sinnar. Íslamska hersveitin Asai‘b Ahl al-Haq hafi staðið að pyndingunum sökum þess að kærandi hafi verið kosinn forseti íþróttasambands í Írak og að þáverandi forseti hafi verið leiðtogi hersins […] sem hefði stofnað Asai‘b Ahl al-Haq, auk þess sem kærandi hafi sigrað í vaxtarræktarkeppnum og að hann sé súnní-múslimi. Í kjölfar pyndinganna hafi kærandi dvalið í þrjú ár á Indlandi. Árið 2019 hafi kærandi snúið aftur til Írak þar sem hann hafi talið aðstæður sínar breyttar til hins betra og hafi hann opnað líkamsræktarstöð. Stöðin hafi verið sprengd upp 21. mars 2019. Kærandi hafi lagt fram kæru en um tíu mínútum síðar hafi honum borist líflátshótun símleiðis og hafi hann því ákveðið að yfirgefa Bagdad.
Í greinargerð sinni gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Stofnunin hafi t.a.m. ekki framkvæmt einstaklingsbundið mat með tilliti til þess að kærandi notist við hjólastól og hafi hún með því brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, og eftir atvikum réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi notist við hjólastól dagsdaglega sem móti félagslega stöðu hans og lífsskilyrði. Þrátt fyrir það hafi Útlendingastofnun ekki minnst einu orði á notkun kæranda á hjólastól. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi lagt frásögn kæranda um að hann hafi sætt pyndingum til grundvallar við úrlausn málsins en fjalli þó einungis um þær sem „árás“ eða „alvarleg líkamsárás“ í ákvörðun sinni. Telur kærandi fulla ástæðu til að ætla að árásirnar falli undir hugtakið pyndingar eða aðra ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Pyndingar séu hluti af hugtaksskilgreiningunni á ofsóknum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og einn kjarni matsins á 2. mgr. 37. gr. laganna. Í því samhengi vísar kærandi m.a. til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og frumvarps þess er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, þar sem 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar var breytt til samræmis við 3. gr. sáttmálans. Útlendingastofnun hafi ekki dregið í efa einstaka hluta úr frásögn kæranda um pyndingarnar og því verði að telja að atvikalýsingin öll um meðferð Asai‘b Ahl al-Haq frá sjónarhóli kæranda hafi legið til grundvallar við úrlausn málsins. Þá séu þær pyndingaraðferðir sem kærandi hafi lýst þekktar aðferðir í Írak. Vísar kærandi m.a. til skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og skýrslna alþjóðlegra mannréttindasamtaka þar sem fram komi að pyndingar séu á meðal alvarlegustu mannréttindabrota í Írak, m.a. gagnvart súnní-múslimum, og að þær séu framdar í skjóli refsileysis.
Auk framangreinds gerir kærandi athugasemd við fullyrðingu Útlendingastofnunar um að kærandi geti leitað til yfirvalda, þ. á m. írakskra öryggissveita. Stofnunin hafi ekki tekið inn í myndina að gerendur kæranda hafi verið meðlimir írakskrar öryggissveitar. Útlendingastofnun hafi vísað til skýrslu EUAA frá júní 2022 til stuðnings því að kærandi geti leitað til írakskra yfirvalda. Stofnunin hafi hins vegar litið framhjá því að í skýrslunni komi fram að vernd yfirvalda nái almennt einungis til sjíta-múslima og að súnní-múslímar njóti takmarkaðrar verndar. Þá komi fram í skýrslunni að ef ofsóknaraðili einstaklings sé hersveit sem sé hluti af PMF, sem er regnhlífarhugtak yfir ýmsar hersveitir, verði að líta svo á að vernd yfirvalda sé ekki í boði, enda sé viðkomandi hersveit talin vera fulltrúi ríkisvalds (e. State actor). Um sé að ræða alvarlega meðhöndlun á heimildum af hálfu Útlendingastofnunar sem breyti staðreyndum máls í villur í ákvörðun kæranda. Þá hafi Útlendingastofnun ekki fjallað um eða tekið afstöðu til frásagnar kæranda um að líkamsræktarstöð hans hafi verið sprengd upp, þrátt fyrir að frásögn hans sé studd gögnum. Telur kærandi það vera brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir sem varða einkum við a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, auk b- og d-lið sama ákvæðis. Kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sem þolandi pyndinga eða annarrar ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar auk frekari ofsókna, s.s. í ljósi þvingaðs mannhvarfs hans og frelsissviptingar, líflátshótana og stórtækra eignaspjalla. Þolendum slíkra brota verði að marka sérstaka aðild að þjóðfélagshópi, enda hafi líf kæranda markast af stöðunni og hann njóti ekki verndar stjórnvalda í Írak vegna þessa. Eins verði að marka kæranda aðild að sérstökum þjóðfélagshópi vegna afleiðinga þessarar meðferðar og annarra heilsufarsvandamála sinna, en hann þurfi að notast við hjólastól sem sé nægilegur grundvöllur að aðild að þjóðfélagshópi í skilningi d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, enda sé um að ræða ímynd sem hann fái ekki breytt og geti verið ástæða fyrir ótta á ofsóknum samkvæmt skýrslu EUAA frá 2022. Þá hafi kærandi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli trúarbragða, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann m.a. sætt pyndingum og eignaspjöllum sökum þess að vera súnní-múslimi. Völd kæranda og áhrif hans á sviði íþrótta í Írak séu ekki ákjósanleg þar sem hann sé súnní-múslimi. Heimildir sýni þá fram á að pyndingar og önnur ill meðferð og ofsóknir beinist að mestu að karlkyns súnní-múslimum. Ofsóknir þær sem kærandi hafi sætt hafi einkennst af trúarlegum ástæðum, enda standi hersveitin Asai‘b Ahl ah-Haq fyrir sjíta-múslima og beinist árásir þeirra iðulega að moskum eða bæjum þar sem skotmörkin séu aðeins súnní-múslímar. Kærandi hafi lagt fram ýmis gögn til að sýna fram á þær ofsóknir sem hann hafi mátt þola. Þá sé vilji og geta írakskra stjórnvalda til að veita honum vernd gegn ofsóknum ófullnægjandi.
Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hafi þegar lýst grófum pyndingum í sinn garð, þ.e. meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Frásögn hans fái stoð í framlögðum gögnum kæranda og heimildum um Írak og Asai‘b Ahl al-Haq. Kærandi sé þjóðþekktur og því sé auðveldara að bera kennsl á hann á almannafæri í Írak, þ. á m. af meðlimum Asai‘b Ahl al-Haq. Einnig notist kærandi við hjólastól sem takmarki möguleika hans verulega á að verja sig gegn hvers konar árásum eða mannréttindabrotum sem hann kunni að mæta í heimaríki. Einstaklingar sem búi við fötlun tilheyri þjóðfélagshóp sem mæti hindrunum í nauðsynlegri opinberri þjónustu og geti mætt umfangsmiklum félagslegum fordómum. Í því samhengi vísar kærandi til skýrslu EUAA frá 2022. Þá verði að horfa til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar en ákvarðanir hafi verið veittar um viðbótarvernd til umsækjenda frá Bagdad með vísan til tilviljunarkennds ofbeldis þar sem aðstæður geti verið með þeim hætti að ekki sé ávallt greint á milli borgaralegra og hernaðarlegra skotmarka. Þá sé kærandi súnní-múslimi og árásir sjíta-hersveita séu miðaðar að hverfum súnní-múslima, bæjum og moskum og verði því að horfa til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda í Bagdad.
Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til þess sem rakið sé í greinargerð kæranda um stöðu hans í Írak telji hann ljóst að hann hafi sýnt fram á alvarlegar almennar aðstæður. Þá sé fjárhagsstaða kæranda bág og búi hann við takmarkað tengslanet í heimaríki sínu. Kærandi hafi glímt við andlega erfiðleika í kjölfar missis fjölskyldumeðlima og alvarlegra félagslegra aðstæðna dætra sinna sem gangi ekki í skóla í landinu. Kærandi muni ekki geta framfleytt sér eða fjölskyldu sinni vegna heilsufarsvandamála og ofsókna í Írak. Staða kvenna í landinu sé bág og því geti kærandi ekki reitt sig á þær en hann hafi ríka þörf fyrir heilbrigðis- og félagsaðstoð.
Þá hafi kærandi ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum. Heimildir bendi til þess að heilbrigðiskerfið í Írak sé komið út fyrir þanþol sitt og að þeir sem glími við fötlun eða alvarlegri heilsufarsvandamál njóti takmarkaðrar þjónustu í landinu. Kærandi, sem notist við hjólastól og hafi verið greindur með [...], falli undir þann samfélagshóp sem myndi upplifa skerta þjónustu. Í þessu samhengi vísar kærandi til skýrslu EUAA frá 2022. Þar að auki sé andleg heilsa kæranda bág vegna fyrri áfalla. Samkvæmt heilsufarsgögnum kæranda kemur skurðaðgerð ekki til greina þar sem hún myndi leiða til algerrar lömunar í fótleggjum. Þrátt fyrir að ekki hafi verið talin þörf á sérhæfðara eftirliti með kæranda í júní 2022 hafi komið á daginn að staða hans hafi versnað í janúar 2023 þegar hann hafi fundist máttlaus á bílaplani. Kærandi hafi verið lagður inn á bráðamóttöku sama dag vegna dofa á vinstri hlið líkamans og hafi sjúkragögnum borið saman um að kærandi væri með bakverki, þvagtruflanir, kviðverki og máttminnkun, þ. á m. í tungu. Einkennin hafi verið nær óbreytt í febrúar 2023 en kærandi hafi þá ekki verið með sjón á vinstra auga og verið með svima. Hluti veikinda kæranda virðast enn óráðin og því sé mikil þörf á að kærandi hljóti ekki rof á læknismeðferð sinni hér á landi. Kærandi væri sérstaklega útsettur og varnarlaus gegn árásum, félagslegri mismunun og ófullnægjandi grunnþjónustu í heimaríki sínu, þ.m.t. aðgangi að heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Loks krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Kærandi telur skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vera uppfyllt í máli hans. Kærandi hafi framvísað grísku dvalarleyfisskírteini og grísku ferðaskilríki og því leiki ekki vafi á auðkenni kæranda. Kærandi telur jafnframt að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna. Verði komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki einhver af skilyrðum 2. mgr. ákvæðisins skuli að mati kæranda víkja frá þeim þar sem sérstaklega standi á, sbr. 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi sætt pyndingum af hálfu meðlima hersveitarinnar Asai‘b Ahl al-Haq. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ekki annað ráðið en að frásögn kæranda hafi verði lögð til grundvallar, enda trúverðugleiki hans ekki dreginn í efa í ákvörðuninni. Kom þar fram að ekki væri ástæða til að draga í efa að kærandi hafi orðið fyrir alvarlegri árás af hendi vopnaðs hóps og sætt hótunum frá þeim. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að írakskir borgarar gætu þó að öllu jöfnu leitað til lögreglu.
Kærunefnd gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Annars vegar var í ákvörðun stofnunarinnar ekki tekin sérstök afstaða til þeirra pyndinga sem kærandi kvaðst hafa sætt, þrátt fyrir að trúverðugleiki hans hafi ekki verið dreginn í efa, heldur vísaði stofnunin til pyndinganna sem alvarlegrar árásar. Ljóst er að ekki er hægt að leggja pyndingar að jöfnu við alvarlega árás, enda eru pyndingar athafnir sem í eðli sínu fela í sér alvarleg brot á ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum og teljast til ofsókna samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Bar Útlendingastofnun þ.a.l. að taka skýra afstöðu til frásagnar kæranda um pyndingar og meta þannig rétt hans til alþjóðlegrar verndar á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var auk þess ekki tekin afstaða til frásagnar kæranda um meinta ofsóknaraðila hans, þ.e. Asai‘b Ahl al-Haq, heldur lagði Útlendingastofnun eingöngu til grundvallar að hann hafi sætt árás af hálfu vopnaðs hóps. Samkvæmt heimildum sem kærunefnd hefur skoðað, t.d. skýrslu EUAA frá júní 2022, tilheyrir Asai‘b Ahl al-Haq svokölluðum PMF sveitum (Popular Mobilisation Forces) og falla þær opinberlega undir stjórn forsætisráðherra Íraks. Eru PMF sveitir, þ. á m. Asai‘b Ahl al-Haq, almennt taldar vera fulltrúar ríkisins. Gerir kærunefnd því athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar að kærandi geti leitað aðstoðar og verndar hjá írökskum yfirvöldum án þess að gera því frekari skil með tilliti til tengsla hersveitarinnar við yfirvöld og þess að kærandi sé súnní-múslimi og tilheyri þannig minnihlutahópi. Ber ákvörðun Útlendingastofnunar með sér að nægileg rannsókn hafi ekki farið fram á hersveitinni Asai‘b Ahl al-Haq og tengslum hennar við íröksk yfirvöld.
Þá lýsti kærandi því í viðtali hjá Útlendingastofnun að líkamsræktarstöð sem hann hefði átt í Írak hafi verið sprengd í loft upp og lagði hann m.a. fram skjöl sem hann kvað vera kæru hans til lögreglu og staðfestingu innanríkisráðuneytis Íraks á því að líkamsræktarstöðin hefði verið sprengd í loft upp með heimagerðri sprengju. Ekki var tekin afstaða til eða horft til þessa við mat á trúverðugleika frásagnar kæranda. Eru framangreindir þættir ákvörðunar Útlendingastofnunar ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 22. gr. stjórnsýslulaga.
Þá bera heilsufarsgögn með sér að kærandi notist allajafna við hjólastól vegna skertrar hreyfigetu sökum [...]. Ekki verður séð að Útlendingastofnun hafi horft til þess við mat á ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt skýrslu EUAA frá júní 2022 á handahófskennt ofbeldi sér stað í Bagdad, þó ekki á háu stigi, og því þurfi meira að koma til við mat á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda til að rökstuddar líkur verði taldar á því að viðkomandi muni eiga raunverulega hættu á að sæta alvarlegum skaða verði honum gert að fara aftur til Bagdad. Bar Útlendingastofnun að taka afstöðu til þess hvernig einstaklingsbundið mat kæranda, þ.e. skert hreyfigeta hans og hjólastólsnotkun, horfði við rétti hans til viðbótarverndar samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Bar stofnuninni jafnframt að horfa til þess við mat á félagslegum aðstæðum kæranda í heimaríki en henni láðist jafnframt að gera það. Þá verður ekki séð af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi haft samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til hliðsjónar við mat sitt á umsókn kæranda.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar ber framangreind málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum kæranda myndi hann snúa til aftur til Írak. Fór þannig ekki fram viðhlítandi mat á því hvort kærandi hafi sætt pyndingum, sbr. 37. gr. laga um útlendinga, möguleika hans á að njóta verndar yfirvalda gagnvart meintum ofsóknaraðilum, og hvort kærandi sé útsettari fyrir því að sæta alvarlegum skaða af völdum handahófskenndra árása og að búa við erfiðar félagslegar aðstæður vegna skertrar hreyfigetu. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er, með vísan til framangreinds, að mati kærunefndar enn fremur ekki í samræmi við reglur 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur framangreinda annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir