Hoppa yfir valmynd
19. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Námskeið fyrir rannsakendur flugslysa

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur fengið bandaríska fyrirtækið Southern California Safety Institute til að standa fyrir námskeiði í flugslysarannsóknum í Reykjavík í byrjun næsta árs. Námskeiðið er ætlað fulltrúum flugrekenda sem þurfa að koma við sögu ef flugslys verður og verður bæði bóklegt og verklegt. Þetta er í fjórða sinn sem RNF gengst fyrir námskeiði af þessum toga.

Rannsóknir flugslysa og flugatvika fara fram eftir ákveðnu skipulagi og eru á forræði sérhæfðra og óháðra rannsóknarnefnda á því sviði. Rannsóknarnefnd flugslysa á Íslandi starfar eins og aðrar slíkar nefndir í samræmi við íslensk lög svo og reglur sem Ísland er aðili að í gegnum Alþjóða flugmálastofnunina.

Þorkell Ágústsson, forstöðumaður RNF, segir að við rannsóknir á slysum og flugatvikum þurfi rannsakendur og nefndin að eiga ákveðið samstarf við málsaðila. Því sé mikilvægt að flugöryggisfulltrúar flugrekenda og aðrir sem koma við sögu ef slys verður, svo sem björgunaraðilar og yfirvöld, viti hvaða skyldur hvíli á þeim. Þær snúa meðal annars að því að veita upplýsingar um varðveislu gagna og stuðning við rannsóknarnefndina. Stundum óski rannsóknarnefndin einnig eftir því að fulltrúar málsaðila taki þátt í vettvangsrannsókn. Af þessum sökum hafi RNF lagt sig eftir að standa fyrir námskeiðum fyrir þennan hóp og hafi fyrri námskeið sýnt að þörfin er fyrir hendi og gagnlegt sé að veita hagnýta innsýn í vinnubrögð og allan feril við rannsóknir. Ennfremur segir Þorkell að mikilvægt sé fyrir flugrekendur og þeirra flugöryggisfulltrúa að þeir átti sig á tilgangi og framkvæmd rannsókna þannig að flugrekendur séu meðvitaðir um rétt sinn gagnvart rannsóknum og alvarlegra flugatvika.

Námskeiðið stendur í tvær vikur og hefst 22. janúar. Auk bóklegra tíma þar sem farið er yfir alla þætti rannsóknar gefst þátttakendum kostur á að rannsaka flugvélaflak, taka myndir á vettvangi og skrifa í framhaldi af því skýrslu um athuganir sínar. Að námskeiðinu loknu eiga þátttakendur að búa yfir víðtækri og hagnýtri þekkingu á hvernig slysarannsókn á að fara fram og eiga að geta staðið fyrir innri rannsókn á vinnustað sínum ef nauðsyn ber til.

Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu er að finna á vef RNF.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum