Hoppa yfir valmynd
4. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra opnar Bergið Headspace með formlegum hætti

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Sigurþóra Bergsdóttir, annar stofnandi Bergsins Headspace og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við opnunina fyrr í dag. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnaði í dag Bergið Headspace ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Bergið Headspace er þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk undir 25 ára, en þar verður boðið upp á einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu. Úrræðið er stofnað af Sigurþóru Bergsdóttur og Dr. Sigrúnu Sigurðardóttir, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri með stuðningi fleiri aðila. Fyrirmyndir má finna í Ástralíu og Danmörku þar sem svipuð úrræði hafa gefið góða raun.

Markmið Bergsins Headspace er að auka og gera skilvirkari þjónustu við börn og ungmenni og reyna að tryggja að þau fái aðstoð sem fyrst. Ásmundur Einar segir mikilvægt að ungmenni geti fengið aðstoð sem sniðin er að þeim: „Það getur krafist mikils hugrekkis að leita sér hjálpar, ekki síst ef maður er ungur og að glíma við erfiðar aðstæður og tilfinningar. Það er því mikilvægt að færa hjálpina nær ungu fólki, bjóða hana fram á þeirra forsendum og án of mikilla skilyrða. Eins er mikilvægt að einfalda ferlið við að sækja sér aðstoð eins og kostur er. Það er von okkar að Bergið Headspace verði bjartur viti fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda.“

Fimm ráðherrar undir forgöngu Ásmunda Einars ákváðu fyrr á þessu ári að styðja við stofnun og rekstur Bergsins til tveggja ára. Þeir eru auk hans, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum