Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2021 - Úrskurður

 

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Menntaskólanum við Sund

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli aldurs. Brot.

A kærði ráðningu í starf kennara við M. Hélt A því fram að honum hefði verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðninguna. Með vísan til þess að eldri umsækjendur sem nutu kjarasamningsbundins kennsluafsláttar voru útilokaðir frá því að koma til greina í starfið óháð hæfni þeirra að öðru leyti varð ekki betur séð en að M hefði mismunað umsækjendum í ráðningarferlinu á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018. Var talið að ekki hefðu verið færð málefnaleg rök fyrir þessari málsmeðferð sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018. Þá var talið að M hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hefði legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018. Var það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun M um ráðningu í umrætt starf hafi falið í sér mismunun gagnvart kæranda á grundvelli aldurs hans og þar með brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 24. nóvember 2021 er tekið fyrir mál nr. 7/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 25. mars 2021, kærði A ráðningu Menntaskólans við Sund í starf kennara í lýðræðisvitund og siðferði. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 19. maí 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 10. júní 2021 og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 11. júní 2021. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 2. júlí 2021, með athugasemdum við greinargerð kærða og voru athugasemdirnar sendar kærða til kynningar með bréfi kærunefndar sama dag. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 19. júlí 2021 og voru sendar kæranda til kynningar 26. júlí. Kærandi sendi kærunefndinni bréf 9. ágúst með viðbótarathugasemdum og voru þær sendar kærða sama dag.
  4. Þess ber að geta að í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru ákvæði um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála. Lögin voru felld úr gildi 6. janúar 2021 með lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Um málsmeðferð þessa máls fer því samkvæmt lögum nr. 151/2020. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögunum féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021.

     

    MÁLAVEXTIR

  5. Auglýst var eftir kennara í fullt í starf til að sinna kennslu hjá kærða í námsgreininni lýðræðisvitund og siðferði í júní 2020. Í auglýsingu kom m.a. fram að leitað væri að hæfum og góðum framhaldsskólakennara með góða fagmenntun, sem væri tilbúinn að starfa í framsæknum skóla með þriggja anna kerfi og áherslu á að byggja upp námskraft nemenda. Jafnframt kom fram að upplýsingar um menntun og starfsferil þyrftu að fylgja umsókn, sem og afrit af vottorðum um nám og kennsluréttindi.
  6. Alls bárust 21 umsókn um starfið en þar af voru 16 umsækjendur með réttindi til kennslu á framhaldsskólastigi, ellefu konur og fimm karlar. Ákveðið var að kalla fjóra umsækjendur í viðtal, þrjár konur og einn karl. Kærandi var ekki þar á meðal. Að loknum viðtölum var ákveðið að bjóða konu starfið sem hún þáði.
  7. Í rökstuðningi kærða fyrir ákvörðuninni, dags. 14. ágúst 2020, kom m.a. fram að skólann hafi vantað kennara til að kenna 8 hópum í námsgreininni lýðræðsvitund og siðferði. Kennari sem ekki nyti sérstaks afsláttar í vinnumati þyrfti að jafnaði að skila kennslu í 7,2 – 7,4 hópum á skólaári til að fylla í fullt starf en kennari sem nyti kennsluafsláttar vegna svonefndrar 60 ára reglu fyllti að jafnaði upp í kennsluskyldu sína með kennslu í 6 hópum á skólaárinu. Við ákvörðun um boð í starfsviðtöl hafi sérstaklega verið horft til umsókna, menntunarstigs og faggreinar, starfsréttinda, starfsreynslu og þess hvort umsækjandi myndi njóta sérstaks afsláttar af kennsluskyldu. Rökin fyrir síðast greinda atriðinu voru þau að þegar fyrir lá hversu margir hæfir umsækjendur hefðu sótt um starfið hefði verið tekin ákvörðun um að boða ekki í viðtal þá sem myndu njóta sérstaks kennsluafsláttar í vinnumati. Kennsluafslætti fylgdi allt að 17-19% viðbótarkostnaður fyrir skólann og einstaklingar sem nytu hans myndu ekki leysa kennsluþörf skólans án verulegs viðbótarkostnaðar þar sem 25% kennslumagnsins yrði að greiða í yfirvinnu ef viðkomandi á annað borð myndi vilja taka að sér þetta mikla kennslu. Að auki var tekið fram að meta þyrfti hvaða menntun myndi best hæfa námssamfélagi kærða þegar stór hópur hæfra umsækjenda sækti um kennslu í námsgrein sem ekki væri tiltekin sérstaklega í leyfisbréfum. Þá þyrfti að hafa í huga að skólanum bæri eins og öðrum skólum að leita allra leiða til að halda rekstri skólans innan heimilda. Meðalaldur kennara við skólann væri hár og vel yfir meðaltali framhaldsskóla í landinu. Afar brýnt væri að eðlileg endurnýjun yrði þannig að þeir sem tæku við gæti stuðlað að frekari framþróun til margra ára.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  8. Kærandi telur að sér hafi verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðningu í starf kennara í lýðræðisvitund og siðferði með ólögmætum og ómálefnalegum hætti. Hafi kærði þannig brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði enda komi skýrt fram í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni að kærandi hafi ekki komið til álita í starfið vegna aldurs en hann hafi orðið sextugur á árinu 2020. Hafi þannig verðið tekin ákvörðun um að útiloka fyrirfram þá sem myndu njóta sérstaks kennsluafsláttar í vinnumati þar sem slíkt hefði í för með sér verulegan viðbótarkostnað fyrir skólann.
  9. Telur kærandi að þessi aldurstengda mismunun sé réttlætt með því að stjórnendum skólans hafi borið að leita allra leiða til að draga úr rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Jafnframt sé vísað til þess að meðalaldur kennara við skólann sé hár og vel yfir meðaltali framhaldsskóla í landinu. Loks sé vísað til þess að endurnýjun sé nauðsynleg þannig að þeir sem taki við geti stuðlað að frekari framþróun til margra ára.
  10. Kærandi bendir á að af fjármunarökum kærða leiði að fólk sem hafi náð tilteknum aldri sé í grundvallaratriðum útilokað frá því að hljóta starf innan stofnunar á borð við framhaldsskóla og sé þar með ekki metið að verðleikum. Hafi hann því ekki notið sannmælis. Telur hann vandséð að slík fjármunarök standist með hliðsjón af þeim reglum sem gilda um ráðningar hjá hinu opinbera, allra síst þegar þau vegast á við stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna. Þá haldi ekki þau rök að líklegra sé að yngri starfsmaður vinni lengur. Bendir hann á að hann hafi átt tíu ár eftir á vinnumarkaði sem sé langur tími í nútímasamfélagi og því ómálefnalegt að líta einvörðungu til aldurs umsækjenda varðandi framþróun og stöðugleika eins og gert hafi verið. Verði að auki ekki betur séð en að brotið hafi verið gegn rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum með því að boða hann ekki í viðtal vegna meintra væntinga um sjónarmið hans í þessu sambandi.
  11. Kærandi telur að rök kærða haldi hvorki gagnvart lögum né alþjóðlegum mannréttindasamningum. Bendir kærði á 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.
  12. Kærandi bendir á að forsendu kærða, um 100% starf fyrir kennara sem ekki nýtur kennsluafsláttar, sé ekki getið í starfsauglýsingu heldur hafi þvert á móti verið óskað eftir kennara með góða fagmenntun og starfskjör sögð samkvæmt kjarasamningi. Bendir kærandi á það geti ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að ekkert komi fram í gögnum málsins á undirbúningsstigi um þessa forsendu. Kæranda sé gert ókleift, með eftiráskýringum, að sækja um starfið enda beinlínis óheimilt að semja um verri kjör en honum eru tryggð samkvæmt kjarasamningi.
  13. Kærandi telur að tilvísun kærða til þess að forstöðumanni hafi borið að hafa fjárhagslega skilvirkni að leiðarljósi við ráðninguna, sbr. ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga nr. 123/2015 um opinber fjármál, geti ekki trompað grundvallarmannréttindi einstaklinga þegar kemur að ráðningum á vegum hins opinbera. Stjórnendur kærða hafi ekki boðað kæranda í viðtal þrátt fyrir margþætta kennslureynslu og á öllum skólastigum til fjölda ára, tilskilin kennsluréttindi, grunngráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands, nám í þýskum háskóla, meistaragráðu í stjórnmálaheimspeki frá London School of Economics, doktorsnám við sama skóla og doktorsritgerð á lokastigi við Háskóla Íslands þar sem fjallað er um viðamikla rannsókn á íslenskri stjórnmálamenningu sem fjallar í meginatriðum um „lýðræðisvitund og siðferði“ og ýmislegt fleira. Öllum þessum hæfnisskilyrðum hafi verið kastað fyrir róða á grundvelli sjónarmiða sem hafi ekki einu sinni verið nefnd í auglýsingu á starfinu. Með þessu sé ekki einungis brotið gegn mannréttindum kæranda heldur einnig efnis- og formreglum stjórnsýsluréttar, t.d. jafnræðisreglunni ásamt leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu.
  14. Kærandi bendir á að í ljósi þeirrar meginreglu opinbers réttar að ráða beri hæfasta umsækjandann á grundvelli faglegra sjónarmiða geti kærða tæpast verið heimilt að útiloka hann frá hæfnismati á þeim forsendum að hann sé með of mikil réttindi sökum aldurs. Telur kærandi að samanburður á honum og þeirrar sem var ráðin muni leiða í ljós að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn. Að auki bendir kærandi á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 um sértækar aðgerðir og segir óumdeilt að í grunn- og framhaldsskólum hér á landi starfi umtalsvert fleiri konur en karlar.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  15. Kærði hafnar því að lög hafi verið brotin við ráðningu í starf kennara í lýðræðisvitund og siðferði. Hafi ákvarðanir kærða í ráðningarferlinu verið byggðar á rekstrarlegum forsendum í samræmi við lög nr. 123/2015 um opinber fjármál og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en rektor bar í samræmi við þessi lög að hafa fjárhagslega skilvirkni að leiðarljósi við ráðninguna. Á þeim forsendum hafi verið litið svo á að kennarar með skerta kennsluskyldu samkvæmt gildandi kjarasamningi kæmu einfaldlega ekki til greina í umrætt starf enda myndi slík ráðning í raun fela í sér íþyngjandi kostnað, þ.e. starfsmann í vel yfir 130% starfshlutfalli.
  16. Kærði tekur fram að þegar starf kennara í lýðræðisvitun og siðferði var auglýst sumarið 2020 hafi þegar verið búið að yfirfara kennsluskiptingu skólaársins 2020-2021. Fyrirfram hafi verið vitað að það kennslumagn sem vantaði upp á voru alls átta áfangar sem er u.þ.b. 100% starf fyrir kennara sem ekki nýtur kennsluafsláttar.
  17. Kærði bendir á að í rökstuðningi til kæranda hafi komið fram hvaða atriði höfðu áhrif á það hvort umsækjendur voru boðaðir í viðtal eða ekki. Horft hafi verið til umsóknar, menntunarstigs og faggreinar, starfsréttinda, reynslu og kennsluskyldu viðkomandi í fullu starfi. Í samræmi við það hafi verið ákveðið að boða fjóra einstaklinga í viðtal. Við ráðningu var litið til þess hvernig viðkomandi kom út í viðtali, hæfni til starfans og samsetningu menntunar. Sú sem var ráðin hafi haft langa háskólagöngu að baki og hafi verið með próf í lýðræðis og mannréttindafræðum auk kennsluréttinda og kennslureynslu.
  18. Kærði bendir á að auglýst hafi verið 100% starf til þess að gefa til kynna að sá sem yrði ráðinn mætti eiga von á fullu starfi. Hann hafi í einu og öllu farið eftir stjórnsýslulögum og viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti. Á sama tíma og auglýst var eftir kennara í lýðræðisvitund og siðferði hafi einnig verið auglýst eftir kennurum í stærðfræði og fleiri greinum. Sumarið 2020 hafi sex nýir kennarar verið ráðnir og þar af aðeins ein kona. Í stærðfræði voru ráðnir þrír karlmenn þar sem einn nýtur kennsluafsláttar. Þetta hafi verið gert vegna þess að það féll vel að kennsluskiptingu í stærðfræði og þeir voru taldir hæfastir til starfsins.
  19. Kærði tekur fram að hann búi við afar þrönga fjárhagsstöðu, ekki síst vegna aldurs og menntunarstigs kennara við skólann, og að mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgist með rekstri skólans en búið sé að skera niður allan rekstrarkostnað sem viðkemur öðru en kennslu.
  20. Kærði tekur fram að miklar breytingar, bæði kerfislegar og kennslufræðilegar, hafi orðið á starfsemi skólans undanfarin sex ár. Stjórnendur hafi reynt að ráða yngra fólk til starfa, með það að leiðarljósi að í skólanum starfi kennarar á öllum aldri, en oft hafi lítið svigrúm gefist til þess. Í dag séu aðeins örfáir kennarar sem eru undir fertugu.
  21. Kærði telur að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn. Við ráðningu hafi verið horft til heildarskipulags í skólastarfinu og hvernig umsækjendurnir pössuðu inn í starfsumhverfið.

     

    NIÐURSTAÐA

  22. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu í starf kennara hjá kærða með því að taka ákvörðun um að kærandi kæmi ekki til greina í starfið með vísan til aldurs hans.
  23. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, meðal annars hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t.við ráðningar.
  24. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi m.a. um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
  25. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um samskonar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu. Hér ber einnig að hafa í huga að að samkvæmt 12. gr. laga nr. 86/2018 telst mismunandi meðferð vegna aldurs ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Er frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs því heimilað að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
  26. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur. Takmarkast endurskoðun kærunefndar því af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  27. Í auglýsingu kom fram að laust væri til umsóknar fullt starf við kennslu í lýðræðisvitund næsta skólaár. Verið væri að leita að hæfum og góðum framhaldsskólakennara með góða fagmenntun sem væri tilbúinn að starfa í framsæknum skóla. Ráðningin væri frá 1. ágúst 2020 og starfskjör væru samkvæmt kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra og stofnanasamningi skólans og félagsmanna í KÍ. Ekki þyrfti að sækja um á sérstökum eyðublöðum en upplýsingar um menntun og starfsferil þyrftu að fylgja umsókn sem og afrit af vottorðum um nám og kennsluréttindi.
  28. Í rökstuðningi til kæranda vegna ráðningar í starfið kom fram að 21 hafi sótt um starfið en af þeim hafi 16 verið með réttindi til kennslu á framhaldsskólastigi. Fyrir hafi legið að þrír af þessum 16 myndu njóta kennsluafsláttar í vinnumati 2020-2021 og þar af einn á svokallaðri 60 ára reglu. Fjórir umsækjendur voru boðaðir í viðtal en við val á þeim var sérstaklega horft til umsókna, menntunarstigs og faggreinar, starfsréttinda, starfsreynslu og hvort viðkomandi umsækjandi myndi njóta sérstaks afsláttar af kennsluskyldu. Var tekin ákvörðun um að boða ekki þá umsækjendur í viðtal sem myndu njóta sérstaks kennsluafsláttar í vinnumati þar sem kennsluafslætti fylgir allt að 17-19% viðbótarkostnaður fyrir skólann. Einstaklingur sem þannig reiknaðist út í vinnumati myndi ekki leysa kennsluþörf skólans án þess að um verulegan viðbótarkostnað yrði að ræða þar sem 25% kennslumagnsins yrði að greiða í yfirvinnu ef viðkomandi á annað borð vildi taka að sér svo mikla kennslu.
  29. Kærði hefur lýst því að kennarar með skerta kennsluskyldu samkvæmt gildandi kjarasamningi hafi ekki komið til greina í starfið þar sem slík ráðning myndi fela í sér íþyngjandi kostnað fyrir kærða auk þess sem ekki sé heimilt að ráða starfsmann í yfir 130% starfshlutfall. Hefur kærði bent á að kennarar sem njóta kennsluafsláttar vegna svonefndarar 60 ára reglu fylltu að jafnaði kennsluskyldu sína með 6 hópum á skólaári í stað 7,2-7,4 en kærða hafi vantað kennara fyrir 8 hópa í þessari tilteknu námsgrein skólaárið 2020-2021. Ekki hafi komið til greina að ráða fleiri en einn kennara þar sem það hefði falið í sér auka útgjöld fyrir kærða.
  30. Fyrir liggur að kjarasamningsbundinn kennsluafsláttur er tengdur aldri umsækjenda. Þá liggur fyrir að kærði byggði val á umsækjendum í viðtöl á því hvort þeir nytu framangreinds kennsluafsláttar. Var þannig tekin ákvörðun um að boða þá umsækjendur ekki í viðtal sem myndu njóta kennsluafsláttar en í því fólst að tekin var ákvörðun um að þrír eldri umsækjendur, þ.m.t. kærandi sem var 60 ára, voru útilokaðir strax í upphafi frá því að koma til greina í starfið. Með vísan til þessa verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að mismunun á grundvelli aldurs hafi átt sér stað við málsmeðferðina, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  31. Kærði hefur ekki andmælt því að byggt hafi verið á aldri við ákvörðun um boð í viðtöl. Þvert á móti hefur hann lýst því að ákvörðun hafi verið tekin um að boða þá umsækjendur ekki í viðtal sem myndu njóta kjarasamningsbundins kennsluafsláttar í vinnumati. Samkvæmt því voru eldri umsækjendur, þ.m.t. kærandi sem var orðinn 60 ára, útilokaðir frá því að koma til greina í starfið óháð hæfni þeirra að öðru leyti. Verður því ekki betur séð en að kærði hafi mismunað umsækjendum í ráðningarferlinu á grundvelli aldurs. Samkvæmt því var um beina mismunun að ræða sem er óheimil, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018. Kemur þá til skoðunar hvort mismununin hafi verið réttlætanleg, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018, þannig að unnt hafi verið að færa fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði og að ekki hafi verið gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná því markmiði.
  32. Kærði hefur réttlætt ákvörðun sína um að taka ekki viðtal við þá sem myndu njóta kjarasamningsbundins kennsluafsláttar í vinnumati, þ.m.t. þá sem voru 60 ára, með vísan til fjárhagslegra sjónarmiða. Vísar hann til þess að rektor hafi borið að hafa fjárhagslega skilvirkni að leiðarljósi, sbr. ákvæði laga nr. 123/2015 og laga nr. 70/1996, og á þeim forsendum hafi kennarar með skerta kennsluskyldu samkvæmt gildandi kjarasamningi einfaldlega ekki komið til greina í umrætt starf enda myndi slík ráðning í raun fela í sér íþyngjandi kostnað fyrir kærða. Færi slíkur starfsmaður vel yfir 130% starfshlutfall en óheimilt væri að ráða opinbera starfsmenn í slíkt starfshlutfall. Þá yrði að greiða 25% kennslumagnsins í yfirvinnu ef viðkomandi á annað borð myndi vilja taka að sér svo mikla kennslu en ekki hefði komið til greina að ráða fleiri en einn starfsmann. Að auki hefur kærði vísað til þess að hann hafi reynt að ráða yngra fólk til skólans til að tryggja að í skólanum starfi kennarar á öllum aldri.
  33. Ekki verður séð að ákvæði fyrrnefndra laga nr. 123/2015 um opinber fjármál og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins færi málefnaleg rök fyrir mismunun á grundvelli aldurs við ráðningu í starf. Þau fjárhagslegu sjónarmið, sem tengjast eins og áður segir rekstri tiltekinnar ríkisstofnunar, geta ekki ein og sér réttlætt slíka mismunun, þ.e. að eldri umsækjendur komi ekki til álita í kennarastarf hjá kærða með vísan til þess að þeir séu dýrari starfsmenn en þeir umsækjendur sem yngri eru. Hér ber að hafa í huga að mælt er fyrir um kennsluafslátt í kjarasamningum sem gilda með almennum hætti um ráðningu kennara og kærði er bundinn af. Í ljósi þess getur kærði ekki byggt á því að um þrönga fjárhagsstöðu hafi verið að ræða, ekki síst vegna aldurs og menntunarstigs kennara við skólann, og að ráðuneytið fylgist með rekstri skólans. Tekið skal fram að með þessu er hins vegar ekki tekin afstaða til þess hvort að í hinum samningsbundna kennsluafslætti felist í raun mismunun á grundvelli aldurs.
  34. Getur kærði ekki heldur vísað til þess að hann hafi reynt að ráða yngra fólk til starfa til að tryggja að í skólanum starfi kennarar á öllum aldri. Þótt ekki sé útilokað að heimilt sé að beita almennum aðgerðum til að mynda á grundvelli stefnu í atvinnumálum sem styðja við að ákveðnir hópar nái að fóta sig á vinnumarkaði, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018, er ekki unnt að fallast á eins hér stóð á, að það hafi verið lögmætt að ráða yngri starfsmann á kostnað eldri umsækjanda. Því hafi verið gengið lengra en efni stóðu til. Hér ber að hafa í huga að ekki hafði verið lagt mat á hæfni umsækjenda í hið auglýsta starf þegar ákvörðunin var tekin um að útiloka kæranda og aðra sem væru með aldurstengdan samningsbundinn kennsluafslátt og því ekki ljóst hverjir væru taldir hæfastir til að gegna því.
  35. Eins og áður er rakið voru þeir umsækjendur sem nutu samningsbundins kennsluafsláttar samkvæmt kjarasamningi útilokaðir við ráðningarferlið hjá kærða. Var aldur þessara umsækjenda því notaður gegn þeim og fengu þeir aðra meðferð en yngri umsækjendur sem nutu ekki þessa kennsluafsláttar. Eins og áður segir var ólögmætt og þar með óheimilt að byggja á aldri við málsmeðferðina eða leggja slíkt sjónarmið til grundvallar við val á umsækjendum í ráðningarferlinu. Þá verður að telja að ekki hafi verið færð málefnaleg rök fyrir þessari málsmeðferð, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018. Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að telja að málsmeðferðin sem lá til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu í starf kennara í lýðræðisvitund og siðferði hafi verið andstæð lögum nr. 86/2018. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018.
  36. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að ákvörðun kærða um ráðningu í umrætt starf hafi falið í sér mismunun gagnvart kæranda á grundvelli aldurs hans, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Menntaskólinn við Sund, braut gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við ráðningu í starf kennara í lýðræðisvitund og siðferði sem auglýst var í júní 2020.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum