Hoppa yfir valmynd
28. mars 2006 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með utanríkisráðherra Þýskalands

Geir H. Haarde ásamt Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands í Berlín í dag
Geir H. Haarde ásamt Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands í Berlín í dag

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 021

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands í þýska utanríkisráðuneytinu í Berlín.

Í upphafi fundar spurðist þýski ráðherrann utanríkisráðherra fyrir um þá stöðu sem komin er upp í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Gerði utanríkisráðherra ítarlega grein fyrir því máli, aðdraganda þess og fyrirhuguðum viðræðum.

Þá ræddu ráðherrarnir Evrópumál, þ.m.t. EES málefni og þróun Evrópusamabandsins. Einnig var farið yfir tvíhliða samskipti Íslands og Þýskalands sem eru með miklum ágætum. Utanríkisráðherra hvatti til þess að áfram yrðu skoðaðar leiðir til að ýta undir fjárfestingu til beggja átta m.a. á vettvangi árlegra tvíhliða viðskiptaviðræðna milli landanna sem næst eru fyrirhugaðar í júní. Rætt var um möguleika á að auka ferðamennsku milli landanna, en hátt í fjörutíu þúsund þýskir ferðamenn sækja Íslands árlega heim. Þá ræddu ráðherrarnir vaxandi menningartengsl landanna en sem kunnugt er var fyrir nokkrum mánuðum efnt til viðamikillar menningarkynningar í Köln sem var mjög fjölsótt og hlaut jákvæða umfjöllun víða í þýskum fjölmiðlum.

Ráðherrarnir ræddu ennfremur málefni Sameinuðu þjóðanna og nauðsynlegar umbætur í starfsemi þeirra. Íslendingar hafa sem kunnugt er lýst yfir stuðningi við að Þýskaland fái fast sæti í Öryggisráðinu. Þýski ráðherrann lýsti jákvæðri afstöðu til framboðs Íslands til ráðsins en Þjóðverjar hafa ekki tekið endanlega afstöðu til þess máls.

Þýski ráðherrann gerði ítarlega grein fyrir afstöðu Þýskalands til þróunar mála í Íran en Þjóðverjar hafa beitt sér mjög í samningaviðræðum við írönsk stjórnvöld síðustu mánuði.

Utanríkisráðherra vígir í dag nýjan sendiherrabústað sendiráðs Íslands í Berlín. Bústaðurinn mun jafnframt gegna hlutverki menningarmiðstöðvar fyrir íslenska samtímamenningu og listir en mikill áhugi er á íslenskri menningu í Þýskalandi. Þá verður hægt að efna til kynninga í bústaðnum bæði á sviði menningarmála og á sviði ferðamála og viðskipta. Húsið var hannað, að undangenginni samkeppni, af arkitektunum Hjördísi Sigurgísladóttur og Dennis Jóhannessyni og í húsinu eru húsgögn og listmunir eftir íslenska hönnuði og listamenn. Sérstök kynning er á verkum Erró og mun hún standa út þetta ár þegar kynning á öðrum samtímamyndlistamanni hefst.

Á morgun á ráðherra m.a. fund með formanni utanríkismálanefndar þýska sambandsþingsins og heldur fyrirlestur um utanríkismál í boði þýsku utanríkismálastofnunarinnar "Deutsche Gesellschaft für Auswärtige Politik".



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum