Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 20/2005. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. júlí 2005

í máli nr. 20/2005:

Merking skiltagerð ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 21. júní 2005 kærir Merking skiltagerð ehf. þá ákvörðun Ríkiskaupa vegna Vegagerðarinnar að taka tilboðum frá BB skiltum ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. og hafna tilboði kæranda í rammasamningsútboði nr. 13826 auðkennt sem ,,Rammasamningsútboð á umferðarskiltum".

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að samningsgerð kærða við BB skilti ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. á grundvelli framangreindrar ákvörðunar verði stöðvuð. Í öðru lagi að felld verði úr gildi ákvörðun kærða um að taka tilboðum BB skilta ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. Í þriðja lagi að felld verði úr gildi ákvörðun kærða um að hafna tilboði kæranda og að taka það ekki til efnislegrar afgreiðslu. Í fjórða lagi að ákvörðun kærða verði breytt á þann veg að hafna tilboðum BB skilta ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. og taka tilboði kæranda. Í fimmta lagi að nefndin gefi upp álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda. Í sjötta lagi að nefndin ákveði að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíða hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Í apríl 2005 óskaði kærði fyrir hönd áskrifenda að rammasamningakerfi Ríkiskaupa á hverjum tíma eftir tilboðum í rammasamningsútboð fyrir umferðarskilti. Opnunartími tilboða var hinn 26. apríl 2005, kl. 11:00 og bárust tilboð frá fjórum fyrirtækjum. Með tölvupósti starfsmanns kærða til kæranda, dags. 29. apríl 2005, var þess óskað að fyrirtækið afhenti í samræmi við lið 1.1.12 í útboðslýsingu, sem ber heitið ,,Frekari upplýsingar á síðari stigum", endurskoðaða og áritaða ársreikninga síðustu þriggja ára hafi fyrirtækið verið starfandi á þeim tíma, yfirlýsingu frá aðalviðskiptabanka um skilvísi í viðskiptum og staðfestingu á að bjóðandi væri í skilum um opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur. Þess var óskað að gögnunum yrði skilað fyrir 4. maí 2005. Með tölvupósti, dags. 26. maí 2005, var kærða tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka tilboðum frá BB skiltum ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. Forsvarsmaður kæranda skrifaði starfmanni Vegagerðarinnar tölvupóst 27. maí 2005 og kemur þar fram að tilboði kæranda hafi verið hafnað vegna formgalla sem virðist stafa af því að viðbótarupplýsingum hafi ekki verið skilað innan tilsetts tíma. Í umræddum tölvupósti er rakin atburðarás frá því að tölvupóstur starfsmanns kærða, dags. 26. maí 2005, barst kæranda og farið fram á afstöðu Vegagerðarinnar til afgreiðslu kærða. Með tölvupósti, dags. 14. júní 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun kærða um að taka tilboðum frá BB skiltum ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. og hafna tilboði kæranda. Með bréfi, dags. 28. júní 2005, var svar við beiðni um rökstuðning sent kæranda og kemur þar fram að tilboði kæranda hafi verið vísað frá. Vísað er til þess að í gögnum frá Lánstrausti hafi komið fram að fyrirtækið skuldaði opinber gjöld og hafi í framhaldi af því verið óskað eftir staðfestingu frá öllum bjóðendum um að þeir væru í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsgreiðslur. Hafi allir bjóðendur nema kærandi skilað umbeðnum gögnum fyrir uppgefinn skilafrest. Tekið er fram að það að heimila kæranda að skila gögnum eftir að fresturinn rann út og veita honum lengri frest en öðrum bjóðendum hefði falið í sér brot á 11. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá er vísað til þess að á fyrirspurnartíma hafi komið skýrt fram að ætlast væri til þess að bjóðendur settu inn tilboðsfjárhæðir með afslætti á þar til gerða reiti á tilboðsblaði. Eftir að tilboð kæranda hafi verið lesið upp á opnunarfundi tilboða hafi fulltrúi kæranda bent á að upphæðir á tilboðsblaði væru ekki með afslætti og ættu því að lækka sem afslætti næmi. Er í rökstuðningnum tekið fram að óheimilt sé að breyta tilboðsverðum eftir að tilboð hafi verið opnuð og að fulltrúi kæranda hafi verið búinn að heyra verðtilboð annars bjóðanda. Auk þess sem tilboðsblaðið hafi ekki verið fyllt út í samræmi við kröfur útboðsgagna.

II.

Kærandi vísar til tölvupósts, dags. 27. maí 2005, sem forsvarsmaður fyrirtækisins sendi Vegagerðinni. Kemur þar fram að hinn 29. apríl hafi forsvarsmaðurinn verið í fríi og því ekki séð tölvupóst starfsmanns kærða, dags. 26. maí 2005, þar sem farið var fram á viðbótargögn fyrr en mánudaginn 2. maí. Hafi hann þá hafist handa við að afla nauðsynlegra gagna. Þriðjudaginn 3. maí hafi hann séð að óskað hafi verið eftir því að umræddum gögnum yrði skilað fyrir kvöldið 3. maí og hafi hann þá reynt að ná í viðkomandi starfsmann kærða en hann verið frá vinnu vegna veikinda. Daginn eftir hafi forsvarsmaðurinn náð í starfsmanninn sem hafi sagt að rétt hefði verið að skilja gögnin eftir í afgreiðslunni á skrifstofu kærða. Hafi forsvarsmaðurinn þá sagst ætla að koma með gögnin síðar um daginn en starfsmaðurinn ekki sagst vita hvort hann myndi taka við gögnunum þar sem þau kæmu of seint. Hafi forsvarsmaðurinn komið með umrædd gögn kl. 15:30 en starfsmaðurinn þá verið á fundi en verið væntanlegur fyrir lokun. Forsvarsmaðurinn hafi þá ætlað að skilja gögnin eftir í afgreiðslunni en verið sagt að starfsmaðurinn vildi taka við gögnunum persónulega og hafi kona í móttökunni sagst ætla að hringja í forsvarsmanninn um leið og starfsmaðurinn kæmi til vinnu en ekkert hafi heyrst frá honum. Vísað er til þess að 4. maí hafi verið frídagur, en að forsvarsmaðurinn hafi að morgni 5. maí komið með gögnin en þá hafi starfsmaðurinn neitað að taka við þeim án frekari skýringa. Hafi forsvarsmaðurinn tjáð starfsmanninum að þetta væri slæmt mál fyrir kærða þar sem ekki yrði hægt að semja við nokkurn aðila um þennan rammasamning með vísan til þeirra skilyrða sem er að finna í lið 1.2.1 í útboðsgögnum. Fullyrðir kærandi að enginn þeirra aðila sem samið hafi verið við uppfylli bæði þeirra skilyrða sem þar er gerð grein fyrir.

Kærandi byggir kröfu sína um stöðvun samningsgerðar á 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Hann vísar til þess að samkvæmt framangreindu séu verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim. Auk þess vísar hann til þess að fyrirtækin BB skilti ehf., Frank og Jói ehf. og Logoflex ehf. uppfylli ekki þau skilyrði sem krafa sé gerð um í lið 1.2.1 í útboðsgöngum.

III.

Að því er varðar kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar vísar kærði til þess að niðurstaða útboðsins hafi verið tilkynnt 26. maí 2005 og hafi þar með verið kominn á bindandi samningur á milli aðila sem ekki verði rift, sbr. lög um opinber innkaup og samningalög. Þar sem samningar séu komnir á komi krafa um stöðvun samningsgerðar ekki til skoðunar.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi ekki haft samband innan þess tímafrests sem tilgreindur var í tölvupósti kærða til kæranda, dags. 29. apríl 2005. Þá hafi hann ekki óskað eftir viðbótarfresti til að skila þeim gögnum sem óskað hafði verið eftir. Hafi á grundvelli jafnræðisreglu laga um opinber innkaup ekki verið heimilt að veita umræddum gögnum viðtöku eftir að tilsettur frestur var liðinn. Jafnframt tekur kærði fram að frásögn kæranda í tölvupósti, dags. 27. maí 2005, sé í mörgum atriðum ekki í samræmi við raunverulega atburðarás. Staðreyndin sé sú að kærandi hafi ekki afhent umbeðin gögn á tilskildum tíma og hafi tilboð hans því ekki komið til frekari skoðunar. Þá vísar kærði til þess að á opnunarfundi tilboða hafi fulltrúi kæranda bent á að það ætti að draga afsláttinn frá þeirra verðtilboði og hafi það verið bókað í fundargerð. Sé það skýrt brot á reglum um jafnræði og skýrt af lögum um opinber innkaup að ekki sé heimilt að breyta tilboðum eftir á með þessum hætti og hafi þessi athugasemd þar af leiðandi ekki verið tekin til greina.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að tilboð skuli samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Í 1. mgr. 83. gr. laganna kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í 3. mgr. sömu greinar segir að um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögunum, fari að öðru leyti eftir almennum reglum.

Í máli þessu liggur fyrir að kæranda var tilkynnt með tölvupósti, dags. 26. maí 2005, að ákveðið hefði verið að taka tilboðum frá BB skiltum ehf., Frank og Jóa ehf. og Logoflex ehf. Líta verður svo á að á því tímamarki hafi verið kominn á bindandi samningur milli kærða og þessara aðila. Brestur kærunefnd útboðsmála því heimild til að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hins kærða útboðs.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Merkingar skiltagerðar ehf., um stöðvun samningsgerðar vegna rammasamningsútboðs nr. 13826 auðkennt sem ,,Rammasamningsútboð á umferðarskiltum" er hafnað.

Reykjavík, 8. júlí 2005.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 8. júlí 2005.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum