Hoppa yfir valmynd
4. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 421-2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 421/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070050

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. júlí 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Japan (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júlí 2019, um að synja henni um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af gögnum máls má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna náms þann 9. september 2015 með gildistíma til 15. febrúar 2016. Kærandi fékk leyfið endurnýjað í þrjú skipti, það síðasta með gildistíma til 15. febrúar 2019. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 15. nóvember 2017 en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 8. mars 2018. Kærandi sótti að nýju um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 7. janúar 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júlí 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 10. júlí sl. Kærandi kærði ákvörðunina þann 22. júlí 2019 til kærunefndar útlendingamála. Frekari gögn bárust frá Útlendingastofnun vegna málsins þann 2. september 2019.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi uppfyllti ekki það skilyrði b-liðar 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga að hafa fengið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Var umsókn hennar um dvalarleyfi því synjað. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom jafnframt fram að kærandi hefði ekki lengur heimild til dvalar hér á landi. Henni var veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Af gögnum máls má ráða að kærandi fari fram á að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Í tölvupósti frá kæranda sem barst kærunefnd kemur m.a. fram að kærandi eigi í samskiptum við Vinnumálastofnun vegna máls síns. Engin frekari gögn bárust frá kæranda.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 61. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Af ákvæðinu er ljóst að ákveðin verkaskipting er milli Útlendingastofnunar annars vegar og Vinnumálastofnunar hins vegar. Er hlutverk Útlendingastofnunar m.a. fólgið í því að kanna hvort skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis samkvæmt umsókn þar að lútandi séu fyrir hendi í samræmi við ákvæði laga um útlendinga á meðan Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, þ.m.t. hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði kæranda um atvinnuleyfi þann 26. júní 2019. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að þeirri ákvörðun hafi verið hnekkt. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt upplýsingum sem bárust kærunefndinni frá Útlendingastofnun hefur kærandi fengið útgefið dvalarleyfi vegna náms með gildistíma til 15. júlí 2020. Hefur kærandi því heimild til dvalar hér á landi. Af því leiðir að ekki er ástæða til að leggja fyrir kæranda að yfirgefa landið eins og gert var í ákvörðun Útlendingastofnunar. 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

  

Anna Tryggvadóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum