Hoppa yfir valmynd
5. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Gefa verði hverju barni gott veganesti í vöggugjöf

Rúmlega helmingur allra barna í heiminum eru í áhættuhóp gagnvart átökum, fátækt eða kynjamismunun, segir í nýrri skýrslu alþjóðasamtakanna Save the Children (Barnaheilla). Í skýrslunni sem ber yfirskriftina – The Many Faces of Exclusion (Mörg andlit útskúfunar) – kemur fram að 1,2 milljarður barna hið minnsta standi frammi fyrir einhverri af þessum þremur ógnum, 153 milljónir standi andspænis þeim öllum.

„Verði ekki gripið til aðgerða fljótt náum við aldrei að uppfylla loforðið sem við gáfum fyrir þremur árum á þingi Sameinuðu þjóðanna árið 2015 að fyrir árið 2030 myndu öll börn lifa, læra og fá vernd,“ er haft eftir Helle Thorning-Schmidt framkvæmdastjóra Save the Children í yfirlýsingu. Hún bætir við að ríkisstjórnir geti og verði að gefa hverju barni gott veganesti í vöggugjöf.

Um það bil einn milljarður barna býr í löndum þar sem átök eru útbreidd. Um 240 milljónir barna búa á svæðum þar sem vopnaskak er viðvarandi og 575 milljónir stelpna búa í löndum þar sem þeim er kerfisbundið mismunað, að því er fram kemur í skýrslunni. Þriðjungur landanna sem kemur lakast út í skýrslunni er í Afríku og annað árið í röð er Níger í botnsætinu.

Í skýrslunni segir þó að framfarir í velferð barna megi sjá meðal 51% þjóða sunnan Sahara í Afríku og 47% meðal þjóða í Miðausturlöndum. Helle Thorning-Schmidt segir að hraða verði þróun velferðarmála fyrir börn og ljóst sé að lönd með svipaðar þjóðartekjur standi sig misvel í þessum málaflokki sem sýni að stefnumörkun, fjárútlát og pólitískar skuldbindingar geti haft mikið að segja.

Slóvenía og Singapúr deila eftir sætinu á lista Save the Children en norrænu þjóðirnar eru allar meðal tíu efstu, Ísland í 8. sæti, en athygli vekur að „stórveldin“ Bandaríkin, Rússland og Kína eru í 36., 37. og 40. sæti.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum