Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 470/2023 Úrskurður

 

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 30. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi 

úrskurður nr. 470/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23080021

 

Endurtekin umsókn og beiðni um frestun réttaráhrifa í máli […]

 

I. Málsatvik

Hinn 28. apríl 2023 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Íran, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 2. maí 2023. Hinn 8. maí 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 338/2023, dags. 1. júní 2023, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Hinn 7. ágúst 2023 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda, ásamt fylgigögnum, og beiðni um frestun réttaráhrifa á meðan umsókn hans er til meðferðar, skv. 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga.

Kærandi byggir umsókn sína á grundvelli 35. gr. a. laga laga um útlendinga nr. 80/2016.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann óski eftir endurtekinni umsókn samkvæmt 35. gr. a. laga um útlendinga þar sem nýjar upplýsingar séu fram komnar í máli hans. Þá gerir kærandi kröfu um frestun réttaráhrifa, sbr. 3. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga. Ný frumgögn hafi komið fram sem styðji mál hans og gefi tilefni til að mál hans verði tekið til skoðunar á ný. Kærandi óttist mjög að vera sendur til Íran þar sem hann hafi sætt hótunum og óttist um líf sitt þar. Kærandi geti ekki farið neitt þar sem hann þori ekki til Íran vegna hótana af hálfu yfirvalda, en eina landið sem hann geti dvalið í á grundvelli vegabréfsáritunar sé Úkraína. Augljóst sé að hann geti ekki farið þangað. Þá stundaði kærandi hér nám en hafi orðið að hætta því. Í máli kæranda hafi trúverðugleiki gagna hans verið dreginn í efa og hafi hann nú aflað sér gagna beint frá Íran sem styðji mál hans. Kærandi óski eftir því að umsókn hans verði endurtekin á grundvelli þeirra gagna. Hér sé um verulega breytingu hvað viðkemur umsókn kæranda um alþjóðlega vernd að ræða þar sem hann hafi átt í erfiðleikum með að nálgast gögn frá heimaríki sínu. Hann hafi nú gögn undir höndum sem hann telji að taki af allan vafa um sannleiksgildi frásagnar hans. 

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

  1. Endurtekin umsókn samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.

Kærandi byggir á því að nýjar upplýsingar liggi fyrir í máli hans sem taki af allan vafa um sannleiksgildi frásagnar hans. 

Í tölvubréfi kæranda til kærunefndar, dags. 23. ágúst 2023, greindi kærandi frá því að hafa yfirgefið landið í samræmi við leiðbeiningar Útlendingastofnunar og væri nú staddur í Tyrklandi. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 24. ágúst 2023, var kærandi upplýstur um samkvæmt ákvæði 1. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga skyldi endurteknum umsóknum vísað frá ef umsækjandi væri ekki staddur á landinu. Var kæranda jafnframt gefið færi á að hafa uppi andmæli. Í svari kæranda sem barst kærunefnd sama dag kom fram að hann hefði yfirgefið Ísland af ótta við að verða vísað brott til Íran þar sem hann óttist um líf sitt. Kvaðst kærandi ósáttur við skort á leiðbeiningum Útlendingastofnunar, en hann hafi ekki verið meðvitaður um skilyrði 1. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga. 

Annað af skilyrðum þess að endurtekin umsókn samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a. skuli tekin til meðferðar er að umsækjandi sé staddur á landinu. Ekki er kveðið á um undanþágu frá því skilyrði og er það því ófrávíkjanlegt. Með vísan til þess er ekki heimilt að taka umsókn kæranda til meðferðar. 

Með vísan til framangreinds verður beiðni kæranda um endurtekna umsókn á grundvelli 35. gr. a. laga um útlendinga vísað frá kærunefnd útlendingamála.

  1. Krafa um frestun réttaráhrifa samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga

Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endurskoðunar á og frestar hún ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd.

Þar sem endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá kærunefnd er ekki ástæðu til fallast á beiðni um fresta réttaráhrifum á meðan umsóknin er til meðferðar. Að framangreindu virtu er beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá.

beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa er hafnað.

 

The appellant‘s subsequent application is dismissed

The appellant‘s request for suspension of legal affects is refused.

 

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir, settur varaformaður.

 

 

 

 

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta