Hoppa yfir valmynd
12. september 2016 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2016

Mál nr. 1/2016

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

 

Setning í stöðu. Hæfnismat.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu auglýsti 10. september 2015 lausa stöðu aðalvarðstjóra hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með því að setja karl í stöðuna en hún taldi sig vera að minnsta kosti jafn hæfa og karlinn sem settur var. Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við mat á frammistöðu kæranda gagnvart öðrum umsækjendum um stöðuna og að ekki hefðu verið leiddar líkur að því að kæranda hefði verið mismunað með tilliti til kynferðis. Var því ekki um að ræða brot á lögum nr. 10/2008 við setningu í stöðu aðalvarðstjóra.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 12. september 2016 er tekið fyrir mál nr. 1/2016 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 2. Með kæru, dagsettri 29. mars 2016, kærði A ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að setja karl í stöðu aðalvarðstjóra hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 4. apríl 2016. Með bréfi kærða, dagsettu 18. apríl 2016, var óskað eftir viðbótarfresti til að skila greinargerð og var hann veittur með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dagsettu 19. apríl 2016. Með bréfi kærða, dagsettu 29. apríl 2016, var óskaði eftir frekari viðbótarfresti til að skila greinargerð og var veittur frestur til 6. maí 2016 með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 29. apríl 2016. Greinargerð kærða barst 9. maí 2016 með bréfi, dagsettu 6. maí 2016, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 9. maí 2016.

 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 20. maí 2016, með athugasemdum við greinargerð kærða sem var kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 3. júní 2016, og var kæranda gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 9. júní 2016.

 5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 6. Kærði auglýsti stöðu aðalvarðstjóra hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. september 2015. Í auglýsingunni kom fram að umsækjandi skyldi hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins og hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti tvö ár að loknu prófi, en það var tilgreind forsenda setningar í stöðu aðalvarðstjóra, sbr. 3. mgr. 14. gr. reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar, nr. 1051/2006. Helstu verkefni og ábyrgð aðalvarðstjóra væru dagleg stjórnun almennra vakta sinnar lögreglustöðvar og að tryggja að unnið væri í samræmi við stefnu, áherslur og markmið embættisins og stöðvarinnar. Hann væri aðstoðaryfirlögreglu-þjóni/stöðvarstjóra til aðstoðar og bæri ábyrgð gagnvart honum. Hann hefði eftirlit með því að reglum og fyrirmælum væri fylgt og að fjárhagslegur rekstur verkefna undir hans stjórn væri innan fjárheimilda. Viðfangsefni og ábyrgð aðalvarðstjórans væru í samræmi við reglugerð nr. 1051/2006. Í auglýsingunni kom jafnframt fram að æskilegt væri að umsækjendur hefðu stjórnunarreynslu. Einnig væri góð þekking á lögreglukerfinu (LÖKE) mikilvæg, ásamt getu til að vinna með rafrænar upplýsingar og hefðbundin skjöl. Aðrar hæfniskröfur voru: Góð færni í mannlegum samskiptum, þjónustulund, forystuhæfileikar sem meðal annars birtast í árangurs- og lausnamiðaðri stjórnun, nákvæmni í vinnubrögðum og góðir skipulagshæfileikar sem og frumkvæði og drifkraftur. Loks var tilgreint að þess væri vænst að umsækjendur hefðu reynslu af störfum þar sem reynt hefði á þessa eiginleika.

 7. Alls bárust 25 umsóknir, sjö umsóknir frá konum og 18 umsóknir frá körlum en þessir umsækjendur uppfylltu allir grundvallarskilyrðin. Kærði fór yfir umsóknargögn og raðaði umsækjendum eftir stafrófsröð, stöðu, starfsreynslu í árum, menntun og annarri reynslu og bar umsóknir saman á þeim grundvelli. Fyrsta mat á umsækjendum fór þannig fram að ráðningarnefnd valdi þá sem helst komu til greina á grundvelli upplýsinga í umsóknargögnum. Þeim tólf sem skoruðu hæst var boðið í ráðningarviðtal og að leysa í framhaldinu stjórnunartengd verkefni. Það voru níu karlar og þrjár konur og var kærandi meðal þeirra. Að loknu öðru mati voru þeir fimm umsækjendur sem fengu flest heildarstig skoðaðir betur, en kærandi var ekki meðal þeirra. Haft var í huga við lokamat að tveir þeirra náðu ekki ásættanlegum stigum fyrir löggæsluverkefnið. Með hliðsjón af heildarmati á þessum fimm umsækjendum var það mat lögreglustjóra að setja karl sem aðalvarðstjóra við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 8. Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um starfið með umsókn, dagsettri 28. september 2015. Með umsókninni fylgdu bæði ferilskrá og kynningarbréf þar sem fram hafi komið allar upplýsingar um starfsferil og nám, meðal annars að kærandi hefði hafið nám við Lögregluskólann haustið 1995 og lokið því vorið 1997. Áður hefði hún starfað sem sumarafleysingamaður hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1991 og sem fullmenntaður lögreglumaður hjá embættinu eftir útskrift á árinu 1997. Árin 2000–2007 hafi kærandi starfað sem varðstjóri í almennri deild hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli og verið sett aðalvarðstjóri árið 2002. Árin 2009–2013 hafi kærandi starfað fyrir Lögreglustjórann á Suðurnesjum bæði í almennri deild og sem hverfalögreglumaður. Á þessum árum hafi kærandi tekið þátt í að móta og stofna hverfalöggæslu í tveimur hverfum á Suðurnesjum. Frá árinu 2013 hafi kærandi starfað við stjórnsýslu hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum og séð til að mynda um leyfisveitingar og utanumhald á tölfræðigögnum, þ.m.t. afbrotatölfræði.

 9. Samhliða vinnu lauk kærandi ökukennaranámi, BA-prófi í stjórnmálafræði og MA-prófi í alþjóðasamskiptum með áherslu á opinbera stjórnsýslu. Auk þess sat kærandi fjöldann allan af námskeiðum og ráðstefnum, til að mynda skotstjórnunarnámskeið, námskeið á sviði landamæravörslu og námskeið á sviði rekstrar og fjármála.

 10. Með bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 20. janúar 2016, hafi kæranda verið tilkynnt að karl hefði verið settur í hina umræddu stöðu. Í framhaldi af því hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi frá embættinu sem barst með tölvupósti 3. febrúar 2016. Kærandi rakti meginefni rökstuðnings kærða, en að efni til er vísað til þess sem fram kemur í sjónarmiðum kærða.

 11. Kærandi telur að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við setningu í stöðu aðalvarðstjóra við embættið. Hún telur sig hafa verið að minnsta kosti jafn hæfa og þann sem settur var í stöðuna. Hefði því borið að setja kæranda í stöðuna í samræmi við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 og á grundvelli reglna ríkislögreglustjóra um skipun/setningu í embætti lögreglufulltrúa, aðalvarðstjóra, rannsóknarlögreglu-manns, varðstjóra og lögreglumanns, nr. 5/2012.

 12. Í rökstuðningi kærða hafi komið fram að kærandi hefði eftir fyrsta mat komist áfram í annað mat ásamt tólf öðrum, en hins vegar hafi sá sem settur var komið betur út úr seinna mati sem byggði á viðtölum og verkefnavinnu. Kærandi bendir á að samkvæmt niðurstöðu Hrd. 10. október 2002 (121/2002) skuli líta til auglýsingar um starfið sem ákveðna forsögn um það hvernig umsóknir skuli metnar. Hæfniskröfur, helstu verkefni og ábyrgð hafi verið raktar hér að framan og hafi kærandi uppfyllt þær allar eins og fram hefur komið. Auk þess hafi kærandi verið með meiri reynslu og kunnáttu hvað varðar fjárhagslegan rekstur, en hún hafi lokið námskeiðum í rekstri og stjórnun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þá hafi komið fram í auglýsingunni að konur væru sérstaklega hvattar til að sækja um vegna ójafns kynjahlutfalls innan lögreglunnar.

 13. Kærandi vekur athygli á því að í fyrsta mati hafi hún aðeins fengið eitt stig af fjórum mögulegum vegna stjórnunarreynslu, þ.e. eins og hún hafi aðeins stjórnað vöktum í tvö til þrjú ár. Þetta mat embættisins fáist ekki staðist þar sem kærandi hafi starfað sem varðstjóri við embætti lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli árin 2000–2002, hafi verið sett aðalvarðstjóri árið 2002, sett varðstjóri á tímabilinu 2003–2007 og aftur 2009–2013. Þá bendir kærandi á að starf varðstjóra sé skilgreint þannig í stofnanasamningi Landssambands lögreglumanna, ríkislögreglustjórans, Lögreglu-skóla ríkisins, Lögreglustjórans í Reykjavík og allra sýslumanna: „Starfið felst í stjórnun og/eða verkstjórn og umsjón ákveðinna verkefna sjálfstætt og/eða undir stjórn annarra. Á fámennisstöðum getur falist í starfinu kostnaðareftirlit og viðvarandi verkefnastjórnun. Starfsmanni getur verið falið að koma fram út á við fyrir hönd embættis.“

 14. Kærandi telur miðað við þessa skilgreiningu að hún hafi átt, samkvæmt forsendum kærða við mat á hæfnisþáttum í umsókn, að skora mun hærra fyrir stjórnunarreynslu, en þar hafi hún fengið eins og áður sagði eitt stig af fjórum mögulegum þrátt fyrir að hafa gegnt stöðu varðstjóra í meira en tíu ár, sem ætti að gefa a.m.k. þrjú stig. Þá hefðu hæfnisstig kæranda átt að fara úr 235 stigum í 275. Einnig bendir kærandi á að sú aðferð kærða að draga frá eitt stig sé stjórnunarreynsla eldri en fimm ára geti falið í sér dulda mismunun gagnvart konum. Þannig hafi orðið hlé á öflun starfsreynslu hjá kæranda á meðan hún var í fæðingarorlofi vegna tveggja barna á árunum 2006–2009. Regla eins og sú sem kærði hafi beitt með þessum hætti geti þannig valdið því að hæfar konur sem séu að vinna sig upp í starfi nái ekki í gegnum umsóknarferlið.

 15. Þá bendir kærandi einnig á að það verkefni sem hún hafi sinnt árin 2009–2013 hafi falið í sér mikla reynslu á þeim sviðum sem nýtast í starfi aðalvarðstjóra þar sem verkefni við að koma upp hverfalögreglu í ákveðnum hlutum starfssvæðisins falli einnig undir stjórnunarreynslu. Kærandi hafi séð um að koma þessum verkefnum á fót og séð um öll samskipti og tengsl við stofnanir og aðra sem að málunum komu. Því hefði kærandi í raun átt að fá fleiri stig en sá sem settur var.

 16. Enn fremur gerir kærandi athugasemdir við síðari hluta matsferlisins. Þar hafi verið lagður fyrir listi með 20 spurningum þar sem metin hafi verið samskiptafærni, frumkvæði, áhugi, stjórnunarhæfni, sjálfsöryggi/forysta, þjónustulund og sýn og einnig þekking á umdæminu og starfinu, auk þess sem taka átti tillit til þess sem kallað er „operatív stjórnunarreynsla“. Kærandi gerir athugasemdir við hluta þeirra forsendna sem þarna voru lagðar til grundvallar. Þannig hafi í auglýsingunni um starfið hvorki verið gerð grein fyrir því að þekking á umdæmi og staðháttum gæti verið ráðandi þáttur í því hver yrði settur í stöðuna né að horft yrði til operatívrar stjórnunarreynslu. Með því að setja slíka þætti inn í forsendur og mat á hæfni sé verið að mismuna umsækjendum eftir búsetu, en slíkt verði tæpast talið forsvaranlegt við mat á hæfni umsækjenda til að gegna stöðu aðalvarðstjóra.

 17. Að virtum gögnum málsins sé ljóst að það sé ekki marktækur munur á því hvernig kærandi skoraði í seinni hluta ferlisins samanborið við þann sem var settur. Kærandi mótmælir því að svo lítill munur verði talinn hafa úrslitaáhrif við mat á hæfni kæranda til að gegna starfinu.

 18. Þá bendir kærandi sömuleiðis á að hefðu stigin úr fyrsta og öðru mati verið lögð saman hefði hún átt að fá 601 stig (275 + 326), en sá sem settur var í stöðuna hefði átt að fá 621 stig (240 + 381). Verði að telja að slíkur munur sé óverulegur enda aðeins um 3,3% stiga mun að ræða.

 19. Enn fremur sé ljóst af gögnum málsins þegar skoðaðir séu þeir „plúsar“ sem umsækjendum hafi verið gefnir sé það í atriðunum operatív stjórnunarreynsla og þekking á staðháttum, sem sá sem settur var í stöðuna hafi skorað hærra en kærandi. Það sé því fyrst og fremst þegar horft sé til atriða sem ekki voru tiltekin í auglýsingunni, sem viðkomandi sé talinn hafa forskot á kæranda. Rökstuðningur sem byggist á slíkri aðferðafræði sé ekki lögmætur og fái ekki staðist. Þegar málið sé skoðað hlutlægt og í heild þá séu ekki forsendur til að skilja á milli við mat á hæfni.

 20. Kærandi hafi þannig í raun verið að minnsta kosti jafn hæf og sá sem settur var í stöðuna auk þess sem kærandi hafi aukna þekkingu á fjármálum og rekstri og lengri stjórnunarreynslu. Því hafi borið að setja kæranda í stöðuna í samræmi við ákvæði jafnréttislaga.

 21. Kærandi ítrekar að rökstuðningi kærða sé verulega ábótavant þar sem fyrst og fremst hafi verið vísað til aðgerðastjórnunar og staðháttaþekkingar sem úrslitaþátta varðandi valið á einstaklingi í stöðuna, sem eins og áður sagði hafi ekki verið gerð krafa um í auglýsingu. Þá hefði átt að meta umsækjendur heildstætt út frá hvoru mati fyrir sig. Ákvörðun kærða hafi því ekki verið byggð á málefnalegum, gildum og löglegum sjónarmiðum samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar. Þá hafi verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 18. gr. jafnréttislaga.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 22. Í greinargerð kærða er greint frá því að um mitt ár 2015 hafi verið ráðist í endurskipulagningu hjá embættinu. Tilgangur breytinganna hafi meðal annars verið að bregðast við nýjum áskorunum, svo sem alþjóðavæðingu, örri tækniþróun og breyttri samfélagsgerð auk fjölgunar ferðamanna. Einn þáttur endurskipulagningar-innar hafi verið að sameina mannafla tveggja stöðva í mið- og austurhluta borgarinnar í eina öfluga stöð. Þá hafi stærri viðburðir orðið æ algengari á síðastliðnum árum í þessum hluta höfuðborgarsvæðisins, svo sem menningarnótt, fótboltaleikir, tónlistarhátíðir og mótmæli borgara af ýmsum stærðargráðum, en mikilvægt sé að lögregla bregðist við af þekkingu og fumleysi í öllum framangreindum aðstæðum. Á nýrri stöð séu hátt í 50 lögreglumenn á sólarhringsvöktum í almennri löggæslu undir stjórn aðalvarðstjóra. Samhliða endurskipulagningunni hafi ráðningarþörf verið metin og í kjölfarið ákveðið að auglýsa stöðu aðalvarðstjóra til að fara fyrir almennu löggæslunni á nýrri lögreglustöð.

 23. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sé veitingarvaldshafinn og fari með stjórnun embættisins. Hann hafi falið ráðningarnefnd að skilgreina ráðningarferlið, matsgrundvöll og forsendur fyrir mati á hæfni umsækjenda, meta umsækjendur og velja þá sem helst kæmu til greina í stöðu aðalvarðstjóra. Nefndina hafi skipað yfirlögregluþjónn, lögfræðingur og starfsmannastjóri, sem öll hafi góða þekkingu á starfsemi embættisins, hlutverki og verkefnum aðalvarðstjóra og kröfum sem gerðar séu til stjórnenda í lögreglu. Skipan nefndarinnar hafi uppfyllt jafnréttissjónarmið.

 24. Ráðningarnefndin hafi gert ráðningaráætlun og gátlista sem hafi verið leiðbeinandi fyrir ráðningarferlið. Starfsgreining hafi verið unnin og hæfniskröfur (menntun, reynsla, þekking, færni, geta og eiginleikar) fyrir starfið skilgreindar. Fyrirliggjandi starfslýsing hafi verið yfirfarin og hafi hún uppfyllt starfs- og hæfnisgreininguna auk þess að taka mið af stefnu, áherslum og markmiðum kærða og af reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar, nr. 1051/2006.

 25. Í ráðningaráætlun hafi verið gert ráð fyrir tvíþættu mati. Fyrst skyldi greina hjá umsækjendum aukna menntun, stjórnunarreynslu og aðra reynslu. Þeir sem best kæmu út úr því mati ættu kost á að fara í viðtal og vinna verkefni, og þær niðurstöður skyldu ráða úrslitum um endanlegt val. Ef mjótt yrði á munum skyldi horfa til styðjandi þátta, svo sem viðmóts í viðtali. Þessi nálgun hafi að mati ráðningarnefndar verið málefnaleg og ekki fallin til útilokunar.

 26. Ráðningarnefndin hafi ákveðið fyrirfram matskvarða fyrir fyrsta mat, sem og spurningar og matskvarða fyrir viðtölin og verkefnin, þ.e. annað mat, og hafi verið leitast við að áætlun um mat og matskvarða væri málefnaleg og til þess fallin að finna hæfasta umsækjandann.

 27. Í ráðningarferlinu hafi verið um að ræða mat á menntun og reynslu umsækjenda samkvæmt matsramma, þ.e. fyrsta mat. Í matsrammanum hafi verið tekið mið af því að reynsla í árum segði ekki endilega til um hæfni viðkomandi til að gegna umræddu starfi. Hið sama hafi gilt um menntun, en lögreglan geri til dæmis ekki kröfu um háskólamenntun, hins vegar sé aukin menntun á háskólastigi mikilvæg í flóknu samfélagi nútímans að mati lögreglustjóra og nefndarinnar. Aukin menntun og reynsla gefi umsækjendum ákveðið forskot en ekki sé samasemmerki milli þess og að vera sá stjórnandi sem sóst sé eftir. Þeim sem hafi verið valdir í fyrsta mati hafi því verið boðið í annað mat, þ.e. ráðningarviðtal og til að leysa úr verkefnum á sviði stjórnunar í löggæslu og mannauðsmálum, með það að leiðarljósi að meta frekar hæfni viðkomandi umsækjanda.

 28. Ráðningarviðtalið hafi átt að fara fram á grundvelli staðlaðs spurningalista til að tryggja jafnræði og að allir fengju sama tækifæri til að tjá sig. Spurningarnar hafi meðal annars miðað að því að leggja mat á viðbrögð umsækjenda við tilteknar aðstæður, þ.e. hæfni- og hegðunartengdar spurningar. Þessi leið hafi verið valin vegna þess að viðtöl sem beinast að hegðun í starfi í tilteknum aðstæðum í þátíð séu talin hafa allt að 55% forspárgildi fyrir hegðun í starfi í framtíð. Hefðbundið viðtal sé talið hafa mun minna forspárgildi, allt niður í 10%, en í slíku viðtali segi umsækjandi frekar það sem hann haldi að spyrjandinn sækist eftir að heyra. Eftir viðtal hafi umsækjendur átt að vinna sjálfstætt og í einrúmi að úrlausn verkefnanna og allir fengið jafn langan tíma til þess og við sambærilegar aðstæður. Talið var að úrlausnir verkefnanna myndu gefa ráðningarnefnd nokkuð skýra mynd af færni og þekkingu umsækjenda á umræddum sviðum. Úrlausnir hafi verið nafnlausar og metnar af reyndum stjórnendum/sérfræðingum. Nefndin hafi leitast við að horfa til jafnréttissjónarmiða í undirbúningi, svo sem við val á spurningum, verkefnum og matsramma í öllum þáttum.

 29. Þegar undirbúningsferli lauk hafi staðan verið auglýst 10. september 2015, með umsóknarfresti til 28. september 2015, til setningar til níu mánaða, með skipun í huga að reynslutíma loknum.

 30. Kærði greinir frá því að umsækjendur um stöðu aðalvarðstjórans hafi verið 25, þ.e. 18 karlar og sjö konur, og hafi öll starfað sem lögreglumenn í meira en tvö ár. Þau hafi öll uppfyllt grundvallarhæfisskilyrði, en í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglunnar hafi legið fyrir að mikilvægt væri að huga sérstaklega að kynjasjónarmiðum. Kærði bendir á að í auglýsingu hafi hvorki verið gerð krafa um aukna menntun né krafist tiltekinnar stjórnunarreynslu, svo sem árafjölda við stjórnun, en hún hafi hins vegar verið talin æskileg. Aukin menntun og stjórnunarreynsla hafi því ekki getað verið grundvallarforsenda hjá valnefnd fyrir endanlegu vali. Við val í stöðuna skyldi hafa í huga jafnréttis- og framkvæmdaáætlun ríkislögreglustjóra og jafnréttislög ef umsækjendur væru metnir jafnhæfir.

 31. Í fyrsta mati hafi ráðningarnefnd valið þá umsækjendur sem helst kæmu til greina. Það val hafi verið á grundvelli upplýsinga í umsóknargögnum. Eftirfarandi þættir hafi verið skoðaðir og hverjum þætti gefið ákveðið vægi: Aukin menntun 15% (mest hægt að fá 45 stig), reynsla af lögreglustörfum 25% (mest hægt að fá 75 stig), stjórnunarreynsla 20% (mest hægt að fá 80 stig), tölvufærni 15% (mest hægt að fá 30 stig), tungumálakunnátta 10% (mest hægt að fá 20 stig) og önnur reynsla 15% (mest hægt að fá 45 stig). Þeim tólf sem hafi skorað hæst í fyrsta mati, þ.e. þremur konum og níu körlum með samtals 200 stig eða fleiri af 295 mögulegum, hafi verið boðið í ráðningarviðtal og að leysa í framhaldinu stjórnunartengd verkefni.

 32. Í tengslum við aukna menntun bendir kærði á að lögreglunámið sé enn ekki komið á háskólastig. Mikill fjöldi lögreglumanna hafi engu að síður aflað sér slíkrar menntunar, sumir á sviði sem nýtist vel í lögreglu en aðrir á óskyldu sviði. Margir lögreglumenn hafi sótt ýmis starfsþróunarnámskeið hjá Lögregluskólanum, þ.e. fagtengd námskeið og á sviði stjórnunar. Krafa til stjórnenda í lögreglu geti ekki verið háskólanám á meðan það sé ekki skylda, engu að síður þurfi að meta aukna menntun. Ráðningarnefnd hafi ákveðið að meta aukna menntun upp að ákveðnu marki, í ljósi framangreinds, þannig hafi mest verið hægt að fá þrjú stig sem umreiknuð út frá 15% vægi hafi getað orðið 45 stig.

 33. Hvað varði stjórnunarreynslu bendir kærði á að í matsramma sem hafi verið skilgreindur fyrir mat á umsækjendum komi meðal annars fram að dregið sé frá fyrir stjórnunarreynslu sem ekki sé ný af nálinni, þ.e. eldri en fimm ára. Ráðningarnefnd hafi litið svo á að fersk reynsla af stjórnun væri mikilvæg fyrir umræddan stjórnanda, að hann hafi „puttann á púlsinum“ og hafi nýlega reynslu af stjórnun en mikið hafi reynt á stjórnendur í lögreglu, meðal annars vegna örrar þróunar og breytinga. Einnig hafi þótt eðlilegt að horfa fyrst og fremst til reynslu af stjórnun á vöktum, sbr. auglýsingu, umfram stjórnun verkefna enda sé stjórnun fólks umtalsverður hluti af verkefnum aðalvarðstjóra sem fari með stjórnun allt að 50 manns. Stigin hafi flest getað orðið fjögur, umreiknuð út frá 20% vægi, samtals 80 stig.

 34. Tólf umsækjendur hafi haft þá menntun og reynslu sem þótti nauðsynleg og þótt nokkrir hafi haft lengri reynslu og/eða meiri menntun hafi það ekki verið þáttur sem skera átti úr um endanlegt val. Kærandi hafi verið í hópi þessara tólf umsækjenda.

 35. Sá sem hafi verið valinn til að gegna stöðunni hafi fengið 240 stig ásamt einum öðrum umsækjanda en kærandi fengið 235 stig. Tveir aðrir umsækjendur hafi verið metnir hærra en þeir fyrrgreindu, með 260 og 280 stig. Kærandi og sá sem settur var í stöðuna hafi því verið sem næst jöfn að stigum eftir fyrsta mat, en á þeim hafi verið fimm stiga munur.

 36. Ráðningarviðtalið hafi verið annar tveggja þátta í öðru mati, en hinn úrlausn verkefna. Í viðtali hafi verið leitast við að tengja svör umsækjenda við þau viðmið sem nefndin hafi verið sammála um að endurspegluðu hæfustu umsækjendurna. Ráðningarviðtöl við umsækjendurna tólf hafi farið fram á tímabilinu 19.–25. nóvember 2015. Í tölvupósti þann 18. nóvember hafi öllum tólf umsækjendunum verið sagt frá fyrirkomulaginu, þ.e. að viðtalið tæki rúma tvo tíma, af því færi ein klukkustund í viðtal og svo yrði lagt fyrir verkefni um stjórnun sem skyldi unnið á staðnum og án hjálpargagna. Tilgangurinn með verkefnunum hafi verið að greina í úrlausnum þekkingu og færni við forgangsröðun mikilvægra áfanga í flóknum stjórnunarverkefnum sem komi á borð aðalvarðstjóra.

 37. Ráðningarnefnd hafi tekið viðtölin en í ráðningarviðtali hafi verið notaður staðlaður spurningarammi, þ.e. listi með 20 spurningum til að kanna eftirfarandi þætti: Áhuga og skilning á starfinu, reynslu og hegðunar- og aðstæðutengdar spurningar til að kanna persónubundna þætti sem krafist hafi verið í auglýsingu um stöðuna. Einkunn hafi verið gefin í ráðningarviðtalinu á fimm stiga kvarða en spurningarnar hafi haft jafnt vægi.

 38. Að athuguðu máli hafi spurning um fjármál ekki verið höfð með í matinu. Spurningin hafi beinst að því að fá fram hvernig og hvers vegna umsækjandi teldi sig í stakk búinn til að takast á við það verkefni að mönnun væri innan fjárheimilda. Í viðtalinu hafi áherslan hins vegar orðið á þekkingu á fjármálum og rekstri í stað þess að beinast að því að fá fram árangursríka reynslu af því að manna vaktir innan fjárheimilda. Þeir umsækjendur sem höfðu einhverja menntun eða reynslu á sviði rekstrar höfðu fengið stig í fyrsta mati, ýmist innan mats á menntun eða annarri reynslu. Þá hafi ráðningarnefnd talið að henni hefði ekki tekist nægilega vel að fylgja spurningunni eftir. Því hafi verið ákveðið að horfa til þessa þáttar þegar kæmi að lokamati, þ.e. sem styðjandi þáttar. Í tilefni af kærunni hafi verið ákveðið að skoða áhrif breytingarinnar fyrir kæranda, en það hafi haft óveruleg áhrif á stigamun á henni og þeim sem var settur í stöðuna. Kærði minnir á að spurningin hafi aðeins verið ein af 20 sem allar hafi haft jafnt vægi.

 39. Í samandregnu heildarmati hafi hver nefndarmaður metið heildstætt þá þætti sem viðtalið náði til, þ.e. samskiptafærni, frumkvæði og drifkraft, nákvæmni og skipulag, forystu, þjónustulund, fjármál, sýn og þekkingu á staðháttum. Þessi niðurstaða hafi endurspeglað vel niðurstöður í spurningalistanum og gefið að mati nefndarmanna skýrari sýn á hæfni umsækjenda í framangreindum þáttum. Þegar niðurstöður skráningar hafi legið fyrir hafi verið kominn grundvöllur fyrir málefnalega umræðu og rökstuðning þar sem matsmönnum hafi þótt mikið bera í milli. Að loknum umræðum um nokkur atriði hafi matsmenn verið sammála um niðurstöðuna í flestum þáttum. Þar sem matsmenn hafi enn greint á eftir umræðu, hafi meðaltal ráðið stigagjöf. Úr þessum hluta ráðningarferlisins, þ.e. viðtalinu, hafi kærandi fengið 3,78 stig en sá sem var settur í stöðuna hafi fengið 4,11 stig.

 40. Í nokkrum viðtölum hafi spurningum verið beint til umsækjanda sem ekki hafði verið beint til annarra. Því hafi verið brugðið á það ráð að senda öllum umsækjendunum tólf viðbótarspurningar til að tryggja að ráðningarnefndin hefði sambærilegar upplýsingar frá þeim öllum. Upplýsingar hafi borist frá öllum en í ljós komið að þær hafi ekki haft áhrif á matið sem þá lá fyrir.

 41. Verkefni hafi verið lögð fyrir strax í kjölfar viðtals. Ákvörðun um matsþætti hafi legið fyrir áður en verkefni voru lögð fyrir og hafi mat á úrlausnum löggæsluverkefnisins verið í höndum yfirlögregluþjóns, aðstoðarlögreglustjóra og stöðvarstjóra á lögreglustöð. Mat á úrlausnum mannauðsverkefnisins hafi verið í höndum sérfræðings á mannauðsdeild og starfsmannastjóra. Úrlausnir verkefna umsækjenda hafi verið nafnlausar til að gæta hlutleysis.

 42. Úrlausnir verkefnanna hafi ekki verið jafn afgerandi góðar og niðurstaða viðtalanna. Í löggæsluverkefninu hafi einn umsækjandi náð þremur og hálfu stigi af fimm mögulegum, sá sem var settur hafi fengið þrjú stig ásamt þremur öðrum. Kærandi hafi verið í hópi fimm umsækjenda sem hafi fengið tvö og hálft stig og tveir umsækjendur hafi fengið tvö stig. Það hafi verið mat þeirra sem mátu úrlausnir verkefnisins að með því að skora þrjú stig hafi aðalvarðstjóraefni sýnt fram á ásættanlega þekkingu á forgangsverkefnum og faglegum viðbrögðum í aðstæðum sem verkefnið fjallaði um. Í mannauðsstjórnunarverkefninu hafi þrír umsækjendur náð fjórum stigum af fimm mögulegum. Sá sem var settur í stöðuna hafi verið í þessum hópi. Ásamt kæranda hafi sjö umsækjendur fengið þrjú stig og tveir umsækjendur tvö stig. Það hafi verið mat þeirra sem mátu úrlausnir verkefnisins að með því að skora þrjú stig hafi aðalvarðstjóraefni sýnt fram á ásættanlega þekkingu á faglegum viðbrögðum í aðstæðum sem verkefnið fjallaði um. Með fjórum stigum hafi umsækjandi sýnt góða þekkingu.

 43. Heildarstigafjöldi úr þessum þáttum hafi sýnt að umsækjendur hafi verið nokkuð jafnir að stigum en mest hafi verið hægt að fá 500 stig. Niðurstaða í samandregnu heildarmati hafi endurspeglað niðurstöðu viðtals og gilt 50% á móti mati á úrlausnum stjórnunartengdu verkefnanna tveggja sem hafi gilt 25% hvort.

 44. Kærði greinir frá því að þá hafi verið ákveðið að skoða betur þá fimm umsækjendur sem hafi fengið flest heildarstig í þessari röð: 381, 375, 364, 353 og 333. Kærandi hafi ekki verið í þeim hópi. Að teknu tilliti til þess að þrjú stig þóttu ásættanleg niðurstaða í löggæsluverkefninu hafi það verið mat nefndarmanna að þrír umsækjendur hafi staðið öðrum framar á því sviði (lokastigin 381, 364, 353). Þrír umsækjendur úr fimm manna hópnum hafi fengið ásættanleg stig fyrir verkefni á sviði mannauðsstjórnunar og tveir fengið fjögur stig sem teljist góður árangur. Með heildarmat í huga hafi verið ákveðið skoða heildstætt þau fimm sem hafi fengið flest heildarstig en hafa í huga við lokamat að tvö þeirra hafi ekki náð ásættanlegum stigum fyrir löggæsluverkefnið, þ.e. þremur stigum.

 45. Stigamunur á þeim umsækjendum sem hafi skorað hæst hafi verið lítill. Mikilvægir styðjandi þættir hafi greint á milli.

 46. Í fyrsta lagi var um að ræða þátt er laut að stjórnun aðgerða á vettvangi („operatívri stjórnunarreynslu“). Að mati ráðningarnefndar yrði ekki horft fram hjá því að reynsla umsækjenda af stjórnun í stærri aðgerðum á sviði löggæslu sé mikilvæg fyrir aðalvarðstjóra á lögreglustöð, ekki síst á nýrri stöð þar sem allt að 50 manns starfi á sólarhringsvöktum. Í starfslýsingu sem hafi verið aðgengileg umsækjendum segi meðal annars að aðalvarðstjóri stjórni lögregluaðgerðum á vettvangi við meiriháttar og/eða vandasamar aðgerðir þar sem hærra settur yfirmaður sé ekki á staðnum. Til frekari skýringar sé átt við margvíslegt neyðarástand og umfangsmiklar lögregluaðgerðir sem kalli á sérhæfða úrlausn og skipulagða stjórnun. Um sé að ræða ástand sem kalli á samnýtingu mismunandi starfseininga, oft komi fleiri en eitt lögreglulið að málum og jafnvel sé stór hluti lögreglunnar að störfum við úrlausn tiltekins verkefnis. Við slíkar aðstæður sé þörf á samræmdu skipulagi og nauðsynlegt að grípa til sérhæfðrar aðgerðastjórnunar, stjórntækis þar sem stjórnunin skiptist í mismunandi hlutverk eða verkþætti. Sé aðgerðasveit, sem aðgerða- og skipulagsdeild haldi utan um, kölluð út í ófyrirséð umfangsmikil verkefni, komi það í hlut aðalvarðstjóra að skipuleggja, stýra og fylgja eftir, að minnsta kosti þar til aðgerðasveit tekur við stjórninni. Í flestum tilvikum taki einhvern tíma að kalla út þann mannafla sem talinn sé nauðsynlegur við úrlausn verkefnisins en mikilvægt sé að upphaflegt viðbragð aðalvarðstjórans skili tilætluðum árangri. Þá skipti máli að aðalvarðstjórinn hafi reynslu, kunnáttu og færni til að leiða verkefnið farsællega. Í stærri aðgerðum sem séu fyrirséðar, svo sem menningarnótt, stýri aðgerða- og skipulagsdeild verkefninu frá upphafi.

 47. Í öðru lagi hafi verið kallað eftir umsögnum til að fá upplýsingar frá núverandi eða fyrri yfirmanni um dæmigerða frammistöðu viðkomandi, bæði í samskiptum og verkefnum.

 48. Í þriðja lagi hafi staðháttaþekking skipt máli, slík þekking sé afar mikilvæg í starfi aðalvarðstjóra og undirbúi fagleg viðbrögð þegar bregðast þurfi skjótt við. Við slíkar aðstæður þurfi aðalvarðstjórinn að geta leiðbeint lögreglumönnum vegna alvarlegra atburða og vandasamra lögregluaðgerða.

 49. Í fjórða lagi hafi fjármál verið einn af mikilvægum styðjandi þáttum. Ráðningarnefnd hafi talið að ekki væri viðeigandi að taka tillit til niðurstöðu í spurningu 15 í viðtalinu í lokaniðurstöðu viðtals heldur nýta sem styðjandi þátt í lokin.

 50. Í fimmta og síðasta lagi hafi viðmót skipt máli, en mikilvægt sé að ráðningarnefnd upplifi viðbrögð og viðmót umsækjenda í viðtalinu þannig að það sé styðjandi við væntingar um góð og uppbyggileg samskipti og samstarf yfirmanns við samstarfsmenn á vinnustað.

 51. Mat á þessum þáttum hafi verið þannig að gefinn hafi verið einn plús fyrir gott, tveir plúsar fyrir mjög gott og mínus fyrir takmarkandi.

 52. Það er mat kærða að nálgun ráðningarnefndar við mat á hæfni umsækjenda til að gegna stöðu aðalvarðstjóra hafi gefið allgóða mynd af reynslu þeirra, þekkingu og hæfni. Niðurstaðan hafi verið eftirfarandi fyrir umsækjendurna fimm og kæranda:

 53. Umsækjandi með 381 stig hafi náð ásættanlegum stigafjölda í verkefnum á sviði stjórnunar í löggæslu og góðum árangri á sviði stjórnunar í mannauðsmálum, haft töluverða operatíva stjórnunarreynslu, góða staðháttaþekkingu, fengið mjög góða umsögn, komið mjög vel fyrir í viðtali og metinn hafa fullnægjandi þekkingu á fjármálum. Hann hafi þannig fengið níu plúsa.

 54. Umsækjandi með 375 stig hafi ekki náð ásættanlegum stigafjölda í verkefni á sviði stjórnunar í löggæslu en góðum árangri í verkefni á sviði stjórnunar mannauðsmála, vantað operatíva stjórnunarreynslu og staðháttaþekkingu, fengið mjög góða umsögn, komið mjög vel fyrir í viðtali og metinn hafa fullnægjandi þekkingu á fjármálum. Sá umsækjandi hafi fengið fimm plúsa.

 55. Umsækjandi með 364 stig hafi náð ásættanlegum stigafjölda í verkefnum á sviði stjórnunar í löggæslu og mannauðsmálum en vantað operatíva stjórnunarreynslu, haft nokkra staðháttaþekkingu, fengið mjög góða umsögn, komið mjög vel fyrir í viðtali og metinn hafa fullnægjandi þekkingu á fjármálum. Þannig hafi sá umsækjandi fengið sex plúsa.

 56. Umsækjandi með 353 stig hafi náð ásættanlegum stigafjölda í verkefnum á sviði stjórnunar í löggæslu og mannauðsmálum, með mikla operatíva stjórnunarreynslu, góða staðháttaþekkingu, fengið góða umsögn, komið vel fyrir í viðtali og metinn hafa fullnægjandi þekkingu á fjármálum. Það hafi gefið honum sjö og hálfan plús.

 57. Umsækjandi með 333 stig hafi ekki náð ásættanlegum stigafjölda í verkefni á sviði stjórnunar í löggæslu en ásættanlegum í verkefni á sviði stjórnunar í mannauðsmálum, vantað operatíva stjórnunarreynslu, haft góða staðháttaþekkingu, fengið mjög góða umsögn, komið vel fyrir í viðtali og metinn hafa mjög góða þekkingu á fjármálum. Sá umsækjandi hafi þannig fengið sjö plúsa.

 58. Að öllu virtu hafi það verið mat ráðningarnefndar og lögreglustjóra að valið stæði milli þeirra sem voru með heildarstigin 381 og 353 og hafi þeir haft forskot á aðra í fimm manna hópnum.

 59. Sá sem hafi verið settur í stöðuna, með heildarstigin 381, hafi skorað í fyrsta mati 240 stig ásamt öðrum umsækjanda og hafi þeir í því mati verið í þriðja til fjórða sæti. Tveir umsækjendur hafi skorað hærra í fyrsta mati á lengri stjórnunarreynslu og árum í starfi með 260 og 280 stig, annar þeirra hafi verið sá sem fékk heildarstigin 353. Sá hafi bæði haft meiri menntun en sá sem var settur og búið að lengri reynslu á sviði stjórnunar á vöktum auk þess að hafa leyst af aðalvarðstjóra. Sú reynsla hafi verið metin í fyrsta mati en að því loknu hafi verið ljóst að báðir hafi haft þá menntun og reynslu sem hafi þótt nauðsynleg og þótt sá fyrrnefndi hafi haft lengri reynslu og stjórnunarreynslu og meiri menntun hafi sá þáttur ekki átt að skera úr um endanlegt val. Val á þeim sem settur var hafi byggst á því að hann hafi fengið fleiri stig í viðtali, átt betri úrlausn í mannauðstjórnunarverkefninu, fengið afdráttarlausari umsögn um góða samskiptafærni og stjórnun og fengið hærra mat ráðningarnefndar fyrir viðmót en hafi verið jafn hinum í öðrum styðjandi þáttum.

 60. Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat kærða að setja þann sem settur var sem aðalvarðstjóra við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

 61. Til stuðnings því að umrædd setning hafi ekki farið gegn lögum nr. 10/2008 bendir kærði á 4. mgr. 26. gr. laganna og athugasemdir um ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna, sem og þá þætti sem taldir séu upp í 5. mgr. ákvæðisins. Einnig vísar kærði til þess sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008 um að ljá verði veitingarvaldshafa ákveðið svigrúm við mat á vægi einstakra þátta og mat á málefnalegum sjónarmiðum og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum.

 62. Kærði bendir jafnframt á að heildstætt mat hafi farið fram á umsækjendum. Allir umsækjendur hafi verið metnir kerfisbundið, farið hafi verið ítarlega yfir umsóknargögn, gætt jafnræðis, umsækjendur hafi fengið sömu stöðluðu spurningar og verkefni og jafn langan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærði hafi metið það svo að vegna eðlis starfsins væri hægt að meta á grundvelli einstakra þátta þá fimm umsækjendur sem hafi verið vel hæfir. Veitingarvaldshafi skuli velja hæfasta umsækjandann út frá málefnalegum og gildum sjónarmiðum. Hann þurfi að sýna fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram. Það hafi verið mat ráðningarnefndar og lögreglustjóra að valferlið við ráðningu aðalvarðstjórans hafi uppfyllt öll skilyrði.

 63. Kærði andmælir rökum kæranda og greinir frá því að í kæru sinni hafi kærandi bent á að ef beitt hefði verið þeirri aðferð að stig úr fyrsta og öðru mati hefðu verið lögð saman hefði munur á henni og þeim sem fékk stöðuna verið óverulegur eða rúm 3%. Því svarar kærði þannig að ráðningarferlið hafi ekki verið byggt upp með þeim hætti heldur hafi fyrsta mat verið notað til að greina þá hæfustu í hópnum og bjóða þeim í viðtal þar sem þeir stæðu jafnir að vígi, enda allir vel hæfir og hafi kærandi verið í þeim hópi. Þessi aðferð sé gjarnan notuð við ráðningar en tryggja þurfi skynsemi og skilvirkni í málsmeðferð ráðningarferlis. Tímafrekasti þátturinn sé viðtölin. Eigi að taka alla í viðtöl þegar umsækjendur séu margir sé skilvirknisjónarmiðs ekki gætt. Með því að fækka í hópnum sé aukið á skilvirknina en beita þurfi málefnalegum aðferðum við það og á sama tíma þurfi að gæta að jafnræði, þ.e. að allir fari í gegnum sams konar fyrsta mat. Rökin fyrir því hverjir fari áfram byggi á því hverjir séu hæfastir eftir fyrsta mat. Kærði hafi fylgt upphaflegri ráðningaráætlun, greint þá sem voru hæfastir út frá matsramma, fylgt áætluninni og metið bæði aðferðina og niðurstöðuna málefnalega og forsvaranlega.

 64. Í öðru lagi hafi kærandi bent á að hún hafi haft meiri reynslu og kunnáttu hvað varði fjárhagslegan rekstur, en hún hafi lokið námskeiðum í rekstri og stjórnun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Kærði bendir á að rekstrarþekking og
  -reynsla hafi verið góður kostur en ekki krafa. Þeir umsækjendur, og kærandi í þeim hópi, sem hafi haft menntun og/eða reynslu á sviði rekstrar hafi fengið stig í fyrsta mati, ýmist innan mats á menntun eins og við hafi átt í tilviki kæranda eða sem aðra reynslu. Aukið mat fyrir þennan þátt hafi ekki komið til álita. Verkefni aðalvarðstjóra á sviði fjármála lúti einkum að því að manna vaktir innan fjárheimilda og samþykkja reikninga. Ákveðið hafi verið að huga frekar að þessum þætti þegar kæmi að lokamati, þ.e. sem styðjandi þáttar.

 65. Í þriðja lagi hafi kærandi bent á að í auglýsingu hafi konur sérstaklega verið hvattar til að sækja um vegna ójafns kynjahlutfalls innan lögreglunnar. Kærði áréttar að þrátt fyrir að slík hvatning sé höfð í auglýsingu hafi hún ekki aðra þýðingu en þá að gefa til kynna að stofnun fylgi áætlun í jafnréttismálum og að jafnréttisjónarmið séu viðhöfð við stöðuveitingu. Eftir sem áður gildi að valinn sé hæfasti umsækjandinn hverju sinni. Standi val milli tveggja jafn hæfra, karls og konu, skuli velja það kynið sem á halli. Á það hafi ekki reynt í umræddu ráðningarferli þar sem sá er settur var í stöðuna hafi verið metinn hæfari.

 66. Í fjórða lagi hafi kærandi gagnrýnt skor fyrir stjórnun og bent á að í fyrsta mati hafi hún aðeins fengið eitt stig af fjórum mögulegum vegna stjórnunarreynslu. Hún hafi talið að sú aðferð kærða, að draga frá eitt stig ef stjórnunarreynsla sé eldri en fimm ár, geti falið í sér dulda mismunun gagnvart konum. Kærði bendir á að í auglýsingu hafi komið fram að æskilegt væri að umsækjendur hefðu stjórnunarreynslu en það hafi ekki verið gerð krafa um tilgreindan árafjölda í reynslu af stjórnun. Það sé mat kærða að sú aðferðafræði sem hér hafi verið beitt, þ.e. að draga frá eitt stig ef stjórnunarreynsla var eldri en fimm ára, hafi frekar lagt grundvöll að jafnræði umsækjenda. Með þeirri aðferð hafi fleiri hæfir umsækjendur fengið tækifæri til verða metnir samkvæmt heildarmati en ef byggt hefði verið á árafjölda í starfi og starfsreynslu. Í þessu sambandi vekur kærði athygli á því að margir umsækjendur hafi haft sjö til 30 ára starfsreynslu í lögreglu. Í hópi þeirra umsækjenda sem voru valdir í viðtal hafi átta varðstjórar verið með áralanga starfsreynslu. Allir þessir aðilar hafi þurft að lúta sömu reglu þegar mat á stjórnunarreynslu hafi farið fram. Kærði fellst ekki á það með kæranda að hér hafi verið sett regla sem sérstaklega hafi átt að útiloka annað kynið frá umsóknarferlinu þar sem þrjár hæfar konur hafi verið boðaðar í ráðningarviðtal. Kærði metur það enn fremur svo að nýleg stjórnunar-reynsla skili hagkvæmari árangurs- og lausnamiðaðri stjórnun. Með þessari aðferðafræði hafi verið leitast við að gefa þeim sem búa hvorki yfir árafjölda í starfi né hafa langa stjórnunarreynslu tækifæri til að verða metnir eftir öllum hæfnisþáttum í ráðningarferlinu. Einnig sé leitast við að jafna kynjahlutföll innan stofnunarinnar en þessi nálgun hafi gefið hæfum konum og körlum sem uppfylltu lögbundin hæfisskilyrði tækifæri til þess að fara í gegnum allt ráðningarferlið.

 67. Varðandi ábendingu kæranda vegna hlés á öflun á starfsreynslu tekur kærði fram að embættið hafi einungis verið að sinna rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Á grundvelli lagaskyldu sem felist í ákvæðinu geti verið þörf á að kalla eftir frekari gögnum eða upplýsingum sem geti varpað ljósi á tiltekin atriði sem ekki komi nægjanlega fram í umsókn og fylgigögnum.

 68. Kærandi hafi talið sig hafa leitt líkur að því að hún hefði fengið fleiri stig í fyrsta mati ef matsramminn hefði verið annar. Kærði bendir á að með stigafjölda yfir 200 stigum hafi allir umsækjendur verið jafnir þegar kom að viðtölum, verkefnum og lokamati. Þá hafi tveir umsækjendur skorað 260 og 280 stig í fyrsta mati. Þeir hafi staðið jafnir öðrum þegar kom að viðtali og verkefnum. Sá sem var valinn hafi fengið 240 stig í fyrsta mati.

 69. Kærði getur ekki fallist á að matsrammi vegna stjórnunar hafi verið til þess fallinn að sía konur frá og dulin leið til að mismuna konum. Leiðin að framgangi kvenna sé að styrkja þær og efla en ekki að lækka viðmið. Yfirlit yfir verkefni og aðgerðir hjá kærða á grundvelli jafnréttisáætlunar, sem snúi að því að efla konur til starfa á öllum sviðum lögreglu, meðal annars á grundvelli tilmæla innanríkisráðuneytis til kærða, dagsettra 16. júlí 2015, lýsi því.

 70. Í fimmta lagi hafi kærandi talið að verkefni sem hún sinnti árin 2009–2013 við að koma upp hverfalöggæslu hafi falið í sér mikla reynslu sem nýtist í starfi aðalvarðstjóra og falli einnig undir stjórnunarreynslu. Kærði telur að auglýsing um starf aðalvarðstjóra hafi endurspeglað í öllum meginatriðum þær kröfur sem gerðar hafi verið til umsækjenda. Kærði telur jafnframt að með auglýsingu um stöðu aðalvarðstjóra hafi umsækjendur átt að geta gert sér grein fyrir hvers eðlis starfið sé, hvaða lágmarkshæfis- og hæfniskröfur umsækjendur þurfi að uppfylla, hvaða meginsjónarmiðum verði fylgt við val úr hópi umsækjenda og hvaða þýðingu þessi atriði hafi við mat á umsóknum þeirra. Í auglýsingu hafi komið fram hver væru helstu verkefni og ábyrgð aðalvarðstjóra en einnig að hlutverk hans væri að tryggja að unnið væri í samræmi við stefnu, áherslur og markmið kærða. Þannig hafi auglýsingin verið ákveðin, gagnorð og sett fram af hlutlægni. Jafnframt því hafi umsækjendum verið bent á að unnt væri að nálgast starfslýsingu fyrir stöðuna hjá mannauðsdeild embættisins.

 71. Kærði bendir á að meginreglan sé að vinnuveitandi ákveði hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar, svo sem menntun, starfsreynsla, hæfni og eftir atvikum aðrir persónulegir eiginleikar. Kærði fái ekki séð að þessi nálgun sé ómálefnaleg eða fari gegn reglum jafnréttislaga enda hljóti mat á hæfni umsækjenda til að sinna verkefnum aðalvarðstjórans meðal annars að ráðast af faglegu mati á eiginleikum og hæfileikum sem best nýtast í starfi. Ekki verði horft fram hjá því að reynsla umsækjenda af stjórnun mannskaps á vöktum sé mikilvæg en það sé í samræmi við auglýsingu.

 72. Kærði vefengir ekki að kærandi hafi aflað sér stjórnunarreynslu sem hverfislögreglumaður og stjórnandi innleiðingar á hverfalöggæslu. Sú reynsla hafi verið metin sérstaklega í fyrsta mati sem hluti af annarri reynslu; litið hafi verið til hennar sem verkefnastjórnunar. Þessi nálgun hafi verið í samræmi við mat á reynslu reyndra rannsóknarlögreglumanna sem stjórni rannsóknum. Reynsla sem kærði hafi metið eftirsóknarverða fyrir umrætt starf hafi verið reynsla af stjórnun vakta þar sem fara þarf fyrir og leiða hóp lögreglumanna og iðulega þurfi að bregðast við óvæntum og flóknum verkefnum og skipa mönnum hratt og örugglega til verka.

 73. Í sjötta lagi hafi kærandi talið sér mismunað á grundvelli þekkingar á umdæmi og staðháttum sem ekki hafi verið auglýst krafa, auk þess hafi hún gagnrýnt að lagt hafi verið út frá sjónarmiðinu operatív stjórnunarreynsla. Hafi hún talið að með því að setja slíka þætti inn í forsendur og mat á hæfni væri verið að mismuna umsækjendum eftir búsetu. Kærði bendir á að ljá verði veitingarvaldshafa ákveðið svigrúm við mat á vægi einstakra þátta og mat á málefnalegum sjónarmiðum og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum. Kærði telur umrædd sjónarmið bæði málefnaleg og fagleg og grundvallast á þörfum embættisins. Ekki verði horft fram hjá því að bæði góð staðháttaþekking og reynsla af operatívri stjórnun sé afar mikilvæg og gagnleg í umræddu starfi.

 74. Kærði upplýsir að þegar niðurstöður viðtala og verkefna hafi legið fyrir hafi mátt sjá að niðurstöður þess sem settur var voru hærri en kæranda:

  Kærandi Sá sem settur var
  Viðtal 3,78 4,11
  Verkefni 1 2,50 3,00
  Verkefni 2 3,00 4,00

 75. Ljóst hafi verið að umsækjendahópurinn um stöðuna hafi verið sterkur, Eftir viðtöl og úrlausn verkefna hafi stig fimm efstu, og kæranda til samanburðar, verið þannig:

    1 2 3 4 5 Kærandi
  Viðtal 4,11 4,25 4,28 4,06 3,92 3,78
  Verkefni 1 3,00 2,50 3,00 3,00 2,50 2,50
  Verkefni 2 4,00 4,00 3,00 3,00 3,00 3,00
    381 375 364 353 333 326

 76. Í lokasamanburði á þessum umsækjendum hafi að mati kærða ekki verið unnt að horfa fram hjá því að reynsla umsækjenda af stjórnun í stærri aðgerðum á sviði löggæslu sé mikilvæg fyrir aðalvarðstjóra á lögreglustöð. Í auglýsingu hafi komið fram að leitað væri eftir aðila sem býr yfir forystuhæfileikum, árangurs- og lausnamiðaðri stjórnun og hafi góða skipulagshæfileika en í starfslýsingu sé kveðið á um að aðalvarðstjóri stjórni lögregluaðgerðum á vettvangi við meiriháttar og/eða vandasamar aðgerðir þar sem hærra settur yfirmaður sé ekki á staðnum. Að mati kærða er málefnalegt að leggja út frá þessum sjónarmiðum við mat á hæfni umsækjenda.

 77. Kærði bendir á að jafnréttissjónarmið komi ekki til skoðunar nema tveir umsækjendur séu jafn hæfir. Eins og rakið hefur verið hafi ekki verið svo í umræddu tilviki. Sá er settur var hafi komið betur út úr viðtali en kærandi og fengið fleiri stig í báðum stjórnunartengdu verkefnunum en ná hafi þurft þremur stigum svo ásættanlegt teldist. Auk þess hafi hann búið yfir reynslu umfram kæranda sem nýtist með beinum hætti í umræddu starfi.

 78. Hægt hafi verið að fá 500 stig út úr öðru mati en niðurstaða úr því mati hafi sagt til um hvaða umsækjendur kæmu helst til greina. Hlutfallslegur árangur miðað við 500 möguleg stig hafi verið sá að kærandi hafi verið með 65% árangur en sá sem settur var með 75% árangur.

 79. Þegar horft hafi verið til þess hverjir náðu ásættanlegum árangri í löggæsluverkefninu hafi þrír umsækjendur staðið eftir. Hlutfallslegur munur á frammistöðu allra samkvæmt stigum hafi að öðru leyti verið óverulegur. Í ljós hafi komið að tveir umsækjendur höfðu ekki reynslu af operatívri stjórnun og höfðu takmarkandi staðháttaþekkingu en einn umsækjandi hafði ekki heldur náð þremur stigum sem hafi þótt ásættanleg niðurstaða fyrir löggæsluverkefnið. Valið hafi því staðið milli þess sem settur var og annars umsækjanda.

 80. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærða að valinn hafi verið hæfasti umsækjandinn út frá málefnalegum og gildum sjónarmiðum eftir heildstæðan samanburð á umsækjendum. Það er mat kærða að embættið hafi ekki brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við setningu í stöðu aðalvarðstjóra.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 81. Kærandi gerir athugasemdir við að kærði virðist hafa ákveðið meðan á umsóknarferlinu stóð að gera kröfur um svokallaða operatíva reynslu og staðháttaþekkingu. Þessir þættir hafi að minnsta kosti verið tilgreindir meðal þeirra atriða sem ráðið hafi miklu við val á því hver hlaut stöðuna, en séu ekki tilgreindir í auglýsingunni um starfið. Að setja operatíva reynslu sem skilyrði við ráðningu í stöðu aðalvarðstjóra geri konum erfitt fyrir að ná framgangi í starfi og sækja um stjórnendastöður innan lögreglu þar sem fyrir liggi að það sé hærra hlutfall karla en kvenna sem gegni stjórnunarstöðum innan lögreglu. Þetta feli óhjákvæmilega í sér að karlar skori almennt hærra í mati sem byggist á þessum sjónarmiðum en konur.

 82. Þá hafi endurskipulagning verið tilgreind ástæða fyrir hinni nýju stöðu aðalvarðstjóra í greinargerð kærða, meðal annars til að bregðast við nýjum áskorunum, svo sem alþjóðavæðingu, örri tækniþróun og breyttri samfélagsgerð auk fjölgunar ferðamanna. Í þessu sambandi vísar kærandi til þess að hún hafi víðtæka þekkingu og reynslu á þessum sviðum, sé með MA-gráðu í alþjóðasamskiptum þar sem lokaritgerðin fjallaði um Schengen-samstarfið, framkvæmd landamæraeftirlits og baráttu gegn alþjóðaglæpastarfsemi. Þá vísar kærandi einnig til þess að hún sé með BA-próf í stjórnmálafræði þar sem lokaritgerðin hafi fjallað um það hvort borgaralegt öryggi hefði aukist með inngöngu Íslands í Schengen.

 83. Kærði hafi vísað til þess að aðalvarðstjóri þurfi að hafa þekkingu og reynslu varðandi stærri viðburði. Þar vísar kærandi til þess að hún sé stjórnmálafræðingur og hafi sem slík þekkingu á samfélagsgerð og þeim aðstæðum sem geti verið rót slíkra aðgerða. Þá hafi kærandi komið að áætlanagerð vegna tónlistarhátíðar, meðal annars varðandi löggæslukostnað og samskipti við slökkvilið, öryggisgæslu og tónleikahaldara. Kærandi þekki því vel til slíkra samkoma og umgerðar þeirra. Í greinargerð hafi einnig verið vísað til þess að aðalvarðstjóri þurfi að hafa getu til að bregðast við af þekkingu og fumleysi í öllum framangreindum aðstæðum, en kærandi bendir á að hún hafi um árabil starfað á Keflavíkurflugvelli og tekið þátt í aðgerðum vegna sprengjuhótana í flugvélum og í sjálfri flugstöðinni og hafi því góða reynslu og þekkingu varðandi þau atriði sem þarna hafi verið vísað til.

 84. Þá gerir kærandi athugasemdir við þá nálgun kærða að setja fram staðlaðan spurningalista og við þau verkefni sem valin hafi verið til úrlausnar. Við úrlausn verkefnanna virðist hafa verið miðað við notkun vinnu- eða verkferla sem viðhafðir séu hjá embættinu. Þetta hafi þau áhrif að þeir sem hafi ekki starfað hjá embættinu og þekki ekki þá verkferla sem þar séu viðhafðir standi hallari fæti en þeir sem hafi starfað hjá embættinu í einhvern tíma. Þá bendir kærandi á að hún hafi ekki fengið að sjá verkefnaúrlausnina eða hvernig hún hafi verið metin.

 85. Kærandi bendir á að hún hafi mjög góða þekkingu og reynslu af fjármálastjórnun, hafi lagt stund á nám á þessu sviði, rekið einkafyrirtæki um árabil og hluti af starfsskyldum hennar í núverandi starfi varði fjármálaumsýslu. Í gögnum málsins hafi hins vegar komið fram að sá sem settur var í stöðuna hafi svarað spurningum um fjármálaþekkingu á þann veg að hann hefði reynslu af því að reka heimili á launum lögreglumanns. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við það að kærði hafi við meðferð málsins ekki metið reynslu hennar og þekkingu á sviði fjármála til neinna stiga í ferlinu. Sú ákvörðun virðist hafa verið tekin eftir að svör umsækjenda hafi legið fyrir og ferlinu þannig breytt á miðri leið. Slíkt verði ekki talið málefnalegt, sérstaklega þegar það hafi þau áhrif að draga úr vægi þekkingar og reynslu konu sem sótti um yfirmannsstöðu í starfstétt þar sem konur séu í miklum minnihluta meðal stjórnenda.

 86. Fram hafi komið hjá kærða að stjórnunarreynsla hafi gilt 20% en jafnframt að dregið væri frá vegna stjórnunarreynslu sem ekki væri „fersk“. Ekki verði séð að það sé málefnalegt að horfa fram hjá þeirri stjórnunarreynslu og þekkingu sem kærandi hafi aflað sér, þó hennar hafi að hluta til verið aflað utan þess tímaramma sem embættið hafi notað sem viðmið í málinu. Bendir kærandi á að þessi framsetning sé líklegri til að bitna á konum en körlum því konur séu líklegri en karlar til að gera hlé á störfum sínum, til dæmis vegna fæðingar barna.

 87. Í greinargerð kærða hafi því verið lýst að í löggæsluverkefninu hafi verið gefin mest fimm stig, en ákveðið að þrjú stig væru fullnægjandi. Kærandi varpar fram þeirri spurningu á hvaða forsendum þetta hafi verið gert og hvernig þessi kvarði og stigagjöf hafi verið ákveðin.

 88. Þá gerir kærandi athugasemdir við það að reynsla hennar við að setja upp hverfalöggæslu hafi verið metin með svipuðum hætti og störf rannsóknarlögreglumanna. Það er mat kæranda að uppsetning verkefnis hverfalöggæslu sé mun umfangsmeiri og veiti betri skilning og þekkingu sem nýtist í starfi aðalvarðstjóra en þetta mat hafi gert ráð fyrir. Þá vísar kærandi til þess að áður en hún tók sér hlé frá störfum vegna barneigna hafi hún starfað sem varðstjóri, verið staðgengill aðalvarðstjóra og síðar aðalvarðstjóri í almennri deild lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Þessi störf hafi falið í sér stjórnun vakta, að leiða hóp lögreglumanna og veitt reynslu í því að bregðast við óvæntum og flóknum verkefnum og skipa mönnum hratt og örugglega til verka, sem séu þau atriði sem kærði hafi vísað til sem mikilvægra þátta við val á aðalvarðstjóra.

 89. Kærandi telur að þrátt fyrir að vinnuveitanda sé gefið ákveðið svigrúm til að meta vægi einstakra þátta í umsóknum verði það ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum þar sem fullt tillit sé tekið til reglna stjórnsýsluréttarins um jafnræði og ákvæða laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 90. Í tengslum við kröfu um operatíva reynslu og staðháttaþekkingu bendir kærði á að fyrrnefnda krafan hafi ekki komið til álita við fyrsta mat. Aftur á móti hafi þótt eðlilegt að horfa til þessa þegar að því kom að velja milli fimm efstu. Vitað sé að það halli mjög á konur í stöðum aðalvarðstjóra en kærði hafi á verkefnaáætlun að styðja við konur til að öðlast reynslu sambærilega þeirri sem karlar hafi af operatívri reynslu, svo sem með því að tryggja jafnt hlutfall karla og kvenna í þjálfunarstöðum. Konur fái þjálfun í aðgerðasveitum, svo sem með vistaskiptum, til að leitast við að veita þeim jöfn tækifæri til að takast á við slík verkefni.

 91. Kærði vefengir ekki þekkingu og reynslu kæranda við að takast á við nýjar áskoranir á sviði löggæslu, enda slíkt metið í fyrsta mati þannig að hún var í hópi þeirra tólf sem helst hafi komið til greina í stöðuna og hafi því verið boðið í annað mat. Niðurstaða úr þeim hluta ráðningarferlisins hafi ráðið úrslitum. Það sé rétt að endurskipulagning hjá kærða hafi meðal annars leitt til sameiningar tveggja lögreglustöðva í eina stóra og fjölmenna stöð. Því hafi þótt mikilvægt að horfa til nýlegrar reynslu af stjórnun mannafla í löggæslu.

 92. Kærði vefengir ekki þekkingu kæranda og reynslu hennar af utanumhaldi um mikilvæga stjórnsýslutengda þætti og utanumhald ýmissa verkþátta sem tilheyri stórum viðburðum, en hafi metið það svo að slík reynsla væri aðeins einn hluti af stærri mynd. Til viðbótar væri mikilvægt fyrir aðalvarðstjóra að búa yfir nýlegri reynslu af skipulagningu lögregluaðgerða, skipan lögreglumanna til verka á vettvangi og reynslu af að fylgja eftir framkvæmd aðgerða og væri slík reynsla eftirsóknarverð. Það er mat kærða að reynsla þess sem settur var í stöðuna á þessu sviði sé meiri en kæranda.

 93. Kærði fái ekki séð að athugasemdir kæranda varðandi staðlaðan spurningalista og mat á verkefnum eigi rétt á sér. Tilgangur með stöðluðum spurningalista hafi verið að tryggja að allir sætu við sama borð. Það að einhverjir umsækjendur starfi eða hafi starfað hjá kærða geti vart átt að rýra möguleika þeirra á stöðunni enda sé kappkostað að starfsmenn sinni starfsþróun sem best til þess að geta á hverjum tíma lagt sem mest af mörkum fyrir starfsemina. Í upphafi viðtals hafi umsækjendum verið sagt frá því allir fengju sömu spurningarnar til þess að tryggja samræmi. Í undantekningartilvikum hafi verið um að ræða umorðun þar sem það hafi þótt brýnt. Í nokkrum viðtölum hafi valnefnd dýpkað svar við nokkrum spurningum með því að spyrja nánar þar sem það hafi þótt mikilvægt til að fá sem besta sýn á umsækjandann. Þar sem þetta hafi verið gert hafi viðbótarspurningu verið haldið til haga og strax í kjölfar viðtala hafi öllum umsækjendum verið sendur listi yfir þessar viðbótarspurningar og þeim gefinn kostur á að svara, sem allir hafi gert.

 94. Eftir viðtal hafi umsækjendur fengið verkefni til úrlausnar og allir fengið jafnlangan tíma til þess og við sambærilegar aðstæður. Verkefnin hafi verið þess eðlis að þau hefðu getað komið upp hjá hvaða embætti sem er. Miðað hafi verið við að úrlausnir löggæsluverkefnisins væru á grundvelli almenns verklags í lögreglu. Matsrammi hafi verið ákveðinn fyrir viðtöl og fyrirlögn verkefna og hafi verið á fimm stiga kvarða eins og í viðtalinu. Hann var þessi: Eitt stig = ófullnægjandi; tvö stig = slakt, ekkert rangt en lítið á beini; þrjú stig = nægjanlegt en vantar dýpt og ómarkvisst; fjögur stig = gott, markvisst, efnislega rétt, nokkuð heildstætt og nákvæmt; fimm stig = framúrskarandi, tekur vel á öllum þáttum, skynsamleg nálgun og efnislega rétt, heildstætt og nákvæmt. Að mati sérfræðinganna sem ákváðu kvarðann og sáu um matið hafi enginn umsækjendanna skilað úrlausn upp á einkunnina fjórir eða fimm en hæsta einkunn var þrjú og hálft stig. Samkvæmt fimm stiga kvarðanum hafi einkunnin þrír verið merki um nægjanlega frammistöðu. Kærandi hafi fengið tvö og hálft stig en sá sem var settur í stöðuna fengið þrjú stig.

 95. Hvað varðar kröfur til úrlausna mannauðsverkefnisins hafi verið miðað við að í úrlausnum kæmi fram þekking á því hvernig nálgast skyldi eineltismál. Eðlilegt hafi þótt að umsækjendur um starf aðalvarðstjóra sem leiðir hóp vaktavinnufólks hefðu einhverja þekkingu á, eða að minnsta kosti hugmyndir um, hvernig nálgast bæri slík verkefni. Öllum lögreglumönnum eigi að vera kunnugt um aðgerðaáætlun ríkislögreglustjóra á þessu sviði og leiðbeiningar á lögregluvefnum um nálgun þegar um meint einelti sé að ræða. Ætlað hafi verið að úrlausnir verkefnanna gæfu ráðningarnefnd nokkuð skýra mynd af færni og þekkingu umsækjenda á umræddum sviðum. Úrlausnir hafi verið nafnlausar þegar þær voru færðar þeim sem mátu þær, en um hafi verið að ræða reynda stjórnendur/sérfræðinga. Nefndin hafi leitast við að horfa til jafnréttissjónarmiða í undirbúningi, svo sem við val á spurningum, verkefnum og matsramma í öllum þáttum án tillits til mögulegra sérstakra verkferla hjá kærða um þessi verkefni. Úrlausnir hafi sem fyrr verið metnar á fimm stiga kvarða. Bestu úrlausnirnar hafi verið metnar til fjögurra stiga; kærandi hafi fengið þrjú stig og sá sem var settur í stöðuna hafi fengið fjögur stig ásamt tveimur öðrum. Kærði meti það svo að athugasemd kæranda eigi ekki við rök að styðjast.

 96. Kærði bendir á að á meðal auglýstra verkefna aðalvarðstjórans hafi verið að rekstur verkefna undir hans stjórn væri innan fjárheimilda en ekki hafi verið krafist sérstakrar aukinnar menntunar eða skilgreindrar reynslu af rekstri. Kærandi hafi lagt áherslu á rekstrarreynslu sína og þekkingu og talið að hún hafi ekki verið metin sem skyldi í ferlinu og það hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Þekking kæranda á þessu sviði hafi hins vegar verið metin í fyrsta mati og minnir kærði á að þangað komin hafi hún og sá sem var settur í stöðuna staðið nánast jöfn að stigum og farið því bæði í gegnum annað mat sem hafi skorið úr um hverjir helst kæmu til greina, en þá hafi sá sem var settur í stöðuna staðið kæranda nokkuð framar. Spurningin um fjármál hafi verið ein af 20 spurningum sem allar hafi haft jafnt vægi. Kærandi hafi skorað hærra í þessari spurningu en sá sem var settur í stöðuna en munurinn hafi verið óverulegur og ekki hreyft lokaniðurstöðu, hvorki fyrir hana né aðra. Nóta úr viðtali við þann sem var settur í stöðuna breyti heldur engu fyrir niðurstöðuna. Hér ítrekar kærði að spurningin hafi beinst að því að fá fram hvernig og hvers vegna umsækjandi teldi sig í stakk búinn til að takast á við það verkefni að mönnun væri innan fjárheimilda. Í viðtalinu hafi áherslan orðið á þekkingu á fjármálum og rekstri í stað þess að beinast að því sem máli skipti. Það hafi beinlínis verið röng nálgun, miðað við þær kröfur sem starfið geri, og að athuguðu máli hafi spurning um fjármál því ekki verið höfð með í matinu. Þá minnir kærði á að aukin menntun í fyrsta mati hafi getað gefið mest þrjú stig og haft 15% vægi. Kærandi hafi fengið fullt hús stiga eða þrjú stig en sá sem var settur í stöðuna hafi fengið tvö stig. Kærandi sé með tvær háskólagráður og nám á nokkrum sviðum, þar með talið rekstrarnám, en sá sem var settur með eina háskólagráðu. Það sé rétt að kærandi sé með meiri aukna menntun en sá sem var settur en ekki hafi verið gerð krafa um hana og ekki hægt að meta hana umfram það sem lagt hafi verið upp með. Að mati kærða var ekki um það að ræða að nálguninni hafi verið breytt á miðri leið. Mat á þekkingu kæranda hvað varðar rekstrarkunnáttu hafi farið fram í fyrsta mati og hafi þar verið metið til eins stigs af þremur mögulegum fyrir menntun.

 97. Kærandi hafi talið ómálefnalegt að horfa fram hjá stjórnunarreynslu sem aflað var utan tímaramma sem embættið hafi sett sem viðmið. Kærði greinir frá því að reynsla hafi verið metin í fyrsta mati. Reynsla af störfum í lögreglu gilti 25% og gaf mest þrjú stig. Kærandi hafi verið í hópi þeirra sem fékk fullt hús stiga og skipti ekki máli hvort hlé hafi orðið á öflunar hennar vegna barneigna. Stjórnunarreynsla hafi einnig verið metin í fyrsta mati og horft til reynslu af stjórnun fólks á vöktum sem sé starfsumhverfi auglýsta starfsins; hún hafi gilt 20% og mest verið hægt að fá þrjú stig. Kærandi hafi fengið eitt stig en sá sem var settur í stöðuna fengið tvö stig, til jafns við nokkra aðra umsækjendur, þar á meðal tvær konur. Kærandi hafi verið við stjórnun vakta á árunum 2000–2006 en stjórnunarverkefni hennar síðustu árin hafi einkum verið á sviði hverfalöggæslu og á sviði stjórnsýsluverkefna. Mat kærða er að í síbreytilegu starfsumhverfi aðalvarðstjórans hvað varði löggæsluverkefnin á vöktunum skipti máli að hafa nýlega reynslu af stjórnun fólks í því umhverfi.

 98. Í öðru mati sem var sjálfstætt mat hafi kærandi verið í sjöunda til áttunda sæti en niðurstöður fyrsta mats hafi ekki haft áhrif á það.

 99. Þá ítrekar kærði að í hópi þeirra tólf sem hafi fengið 200 stig eða fleiri og verið boðið til ráðningarviðtala og að leysa verkefni, hafi verið tveir umsækjendur með mikla aukna menntun og með langa reynslu af stjórnun vakta, þ.m.t. sem settir aðalvarðstjórar fyrir fjölmennum vöktum. Stig þeirra eftir fyrsta mat hafi verið 260 og 280 stig. Embættinu sé ljóst að margir hafi gert nánast ráð fyrir að annar hvor þeirra fengi stöðuna. Þeir hafi hins vegar setið við sama borð og aðrir eftir fyrsta mat, unnið verkefnin og farið í gegnum annað mat en sá sem var settur í stöðuna eftir það ferli hafði fengið 240 stig í fyrsta mati, sambærilegt við niðurstöðu á mati kæranda.

 100. Kærandi hafi jafnframt talið að þekking á staðháttum hafi haft mikið vægi í mati og verið til þess fallin að umsækjendur sem ekki starfi hjá kærða hafi átt litla möguleika á að fá stöðuna. Kærði bendir á að þegar niðurstöður annars mats lágu fyrir hafi verið ljóst að margir voru vel hæfir til að gegna stöðunni. Það hafi verið valnefndar að leggja mat á hverjir væru hæfastir og þá hafi þurft að horfa til fleiri þátta en aðeins tölulegra niðurstaðna. Einn þessara styðjandi þátta hafi verið staðháttaþekking en kærði telji það bæði málefnalegt og faglegt sjónarmið og grundvallast á þörfum embættisins. Kærði telji mikilvægt að aðalvarðstjóri sem stýri aðgerðum frá stjórnstöð hafi góða þekkingu á staðháttum þegar hann leiðbeini lögreglumönnum á vettvangi. Ljóst sé að sá sem var settur í stöðuna hafi haft umtalsvert forskot á kæranda að þessu leyti.

 101. Kærandi hafi talið að sú leið sem var farin í mati á umsækjendum í umræddu ráðningarferli feli í sér mismunun gagnvart konum. Kærði bendir í því skyni á að við skipulagningu á ráðningarferlinu og val á viðmiðum fyrir mat hafi verið leitast við að gæta að því að konur hefðu jöfn tækifæri á við karla.

 102. Hvað varði reynslu kæranda af því að setja upp hverfalöggæslu sem verkefnastjórnun greini kærði frá því að hann hafi metið reynslu hennar þannig að hún nýttist að sjálfsögðu sem aðalvarðstjóri við að skipuleggja, hrinda í framkvæmd verkefnum og fylgja þeim eftir. Þessi reynsla hafi ekki verið metin á sama grundvelli og reynsla varðstjóra af því að stjórna fólki á vakt sem kærði mat mikilvægari fyrir umrætt starf. Stjórnunarreynsla kæranda af stjórnun vakta hafi einkum verið í starfi á Keflavíkurflugvelli og sé frá því fyrir 2007. Þegar kærandi hafi komið aftur til starfa 2009 eftir fæðingarorlof og nám hafi hún þróast í starfi á sviði stjórnunar sérverkefna þó stöðuheitið væri varðstjóri. Kærði ítrekar að hann hafi meðal annars lagt til grundvallar í sínu mati sínu að nýleg reynsla af stjórnun lögreglumanna í aðgerðum og á vettvangi vegi þyngra en eldri reynsla. Kærði telur að jafnræðis hafi verið gætt í mati á reynslu umsækjenda.

 103. Að öllu virtu sé það niðurstaða kærða að tekið hafi verið tillit reglna og laga um jafnræði, jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna í ráðningarferlinu.

  NIÐURSTAÐA

 104. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

 105. Staða aðalvarðstjóra við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var auglýst 10. september 2015. Skyldi sett í stöðuna til reynslu í níu mánuði með skipun í huga að reynslutíma loknum. Í auglýsingu kom fram að umsækjandi skyldi hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins og hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti tvö ár að loknu prófi. Helstu verkefni og ábyrgð aðalvarðstjóra væru dagleg stjórnun almennra vakta lögreglustöðvar og að tryggja að unnið væri í samræmi við stefnu, áherslur og markmið embættisins og stöðvarinnar. Hann væri aðstoðaryfirlögregluþjóni/stöðvarstjóra til aðstoðar og bæri ábyrgð gagnvart honum. Hann hefði eftirlit með því að reglum og fyrirmælum væri fylgt og að fjárhagslegur rekstur verkefna undir hans stjórn væri innan fjárheimilda. Þá var tekið fram að viðfangsefni og ábyrgð aðalvarðstjóra væru í samræmi við reglugerð nr. 1051/2006. Í auglýsingunni kom jafnframt fram að æskilegt væri að umsækjendur hefðu stjórnunarreynslu og að góð þekking á lögreglukerfinu LÖKE væri mikilvæg ásamt getu til að vinna með rafrænar upplýsingar og hefðbundin skjöl. Aðrar hæfniskröfur voru: Góð færni í mannlegum samskiptum, þjónustulund, forystuhæfileikar sem meðal annars birtast í árangurs- og lausnamiðaðri stjórnun, nákvæmni í vinnubrögðum og góðir skipulagshæfileikar sem og frumkvæði og drifkraftur. Loks var tilgreint að þess væri vænst að umsækjendur hefðu reynslu af störfum þar sem reynt hefði á þessa eiginleika. Umsækjendur um stöðuna voru 25 talsins, 18 karlar og sjö konur.

 106. Í samræmi við ráðningaráætlun, sem dagsett er í september 2015, voru umsóknir metnar á grundvelli upplýsinga í umsóknargögnum þar sem tekið var tillit til aukinnar menntunar, reynslu af lögreglustörfum, stjórnunarreynslu, tölvufærni, tungumálakunnáttu og annarrar reynslu. Þeim umsækjendum sem skoruðu hæst í þessu mati var boðið í ráðningarviðtal og að leysa tvö stjórnunartengd verkefni. Kærandi var í hópi þessara tólf umsækjenda en hún hafði hlotið 235 stig og sá er settur var í stöðuna 240 stig. Sá umsækjandi er hafði skorað hæst hlaut 280 stig. Umsóknir þeirra fimm er skoruðu hæst í öðrum hluta valferlisins voru svo teknar til sérstakrar skoðunar en við val milli þeirra var tekið tillit til reynslu af stjórnun lögregluaðgerða á vettvangi („operatívrar stjórnunarreynslu“), umsagna, staðháttaþekkingar, þekkingar á fjármálum og viðmóts. Sá er settur var í stöðuna skoraði hæst í þessum síðasta hluta valferlisins. Kærandi var ekki meðal þeirra fimm umsækjenda sem komu þannig til lokamats.

 107. Athugasemdir kæranda lúta í megindráttum að því að stjórnunarreynsla hennar og aukin menntun hafi ekki verið metin sem skyldi, að tekið hafi verið tillit til reynslu við stjórnun lögregluaðgerða á vettvangi og til staðháttaþekkingar án þess að krafa til þessara þátta hafi verið tilgreind í umsókn, að stuðst hafi verið við staðlaðan spurningalista og að í því mati er byggði á viðtölum og verkefnum hafi að engu leyti verið tekið tillit til niðurstaðna í fyrra matinu, sem eins og áður segir byggði meðal annars á reynslu af lögreglustörfum og aukinni menntun sem kærandi hafi skorað hátt í. Jafnframt telur kærandi að við úrlausn verkefnanna hafi verið miðað við notkun vinnu- eða verkferla sem viðhafðir eru hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

 108. Almennt verður að ætla veitingarvaldshafa nokkuð svigrúm við val málefnalegra aðferða til að greina hæfni umsækjenda. Í því tilviki sem hér um ræðir fór það mat er réði úrslitum um hvort kærandi kom til álita í lokaþætti matsferlisins fram á grundvelli viðtals og á grundvelli tveggja verkefna. Að mati kærunefndar endurspegla verkefnin, er lögð voru fyrir umsækjendur, hæfni til starfsins sem gerður var áskilnaður um í umsókn og kemur fram í reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar, nr. 1051/2006, þ.e. stjórnun á vettvangi og mannauðsstjórnun. Kröfur til úrlausna löggæsluverkefnisins voru á grundvelli almenns verklags í lögreglu og kröfur til úrlausna mannauðsverkefnisins voru í samræmi við aðgerðaáætlun ríkislögreglustjóra í tilefni af ásökunum um einelti á vinnustað. Gerir kærunefnd ekki athugasemdir við þennan þátt í matsferlinu.

 109. Spurningar í viðtali voru málefnalegar og almennt til þess fallnar að greina milli umsækjenda hvað hæfni varðar. Kærunefnd tekur fram að í því mati sem fram fór milli þeirra fimm umsækjenda er skoruðu hæst í viðtali og verkefnum er ekki ljóst hvernig staðháttaþekking var metin en bendir jafnframt á að þetta atriði hafði þó hvorki úrslitaþýðingu um það hvort kærandi var meðal þeirra er borin voru saman í lokaþætti matsferlisins né gat það haft úrslitaþýðingu fyrir kæranda hefði hún verið meðal þeirra er þar voru borin saman. Vegna athugasemda kæranda við að ekki hafi verið tekið tillit til stjórnunarreynslu umsækjenda er var eldri en fimm ára tekur nefndin fram að stjórnunarreynsla var ekki meðal þeirra þátta er metnir voru í viðtali eða verkefnum og réð því ekki úrslitum um það hvort kærandi var meðal þeirra er bornir voru saman í lokamati.

 110. Með vísan til þess er að framan segir fellst kærunefnd á það með kærða að ekki hafi verið beitt ómálefnalegum sjónarmiðum við mat á frammistöðu kæranda gagnvart öðrum umsækjendum um stöðuna og að ekki hafi verið leiddar líkur að því að kæranda hafi verið mismunað með tilliti til kynferðis. Setning í stöðu aðalvarðstjóra umrætt sinn braut því ekki gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Setning í stöðu aðalvarðstjóra við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. febrúar 2016 braut ekki gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira