Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 125/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 125/2016

Miðvikudaginn 11. janúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. apríl 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála frávísun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. mars 2016, á beiðni kæranda um endurupptöku örorkumats frá 5. desember 2008.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. júní 2007 til 30. nóvember 2008. Með örorkumati, dags. 5. desember 2008, var honum metinn örorkulífeyrir frá 1. desember 2008 til 31. október 2010 og hefur matið síðar verið framlengt. Með bréfi, dags. 10. maí 2015, óskaði kærandi endurupptöku örorkumatsins hjá Tryggingastofnun ríkisins. Beiðni hans þar um var synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júlí 2015. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti hana með úrskurði, dags. 4. nóvember 2015, sbr. mál nr. 204/2015. Kærandi lagði fram kvörtun, dags. 18. nóvember 2015, hjá umboðsmanni Alþingis vegna þessa. Í máli umboðsmanns nr. 8707/2015 var kvörtunin tekin til úrlausnar og í bréfi hans, dags. 28. desember 2015, kom fram að ekki var talið tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga um að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um endurupptöku. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku málsins á nýjan leik hjá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 28. febrúar 2016. Samhliða beiðninni lagði hann fram ýmis gögn frá árunum 1999 til 2007. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. mars 2016, var beiðni kæranda um endurupptöku örorkumatsins vísað frá á þeirri forsendu að sambærilegri beiðni hans hefði verið synjað með bréfi, dags. 9. júlí 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. apríl 2016. Með tölvupósti 8. apríl 2016 óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. maí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2016. Með tölvupósti, dags. 10. maí 2015, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með tölvupósti úrskurðarnefndar sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá beiðni hans um endurupptöku örorkumats frá 5. desember 2008 verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi hafi haft undir höndum ný gögn og röksemdir. Hann hafi krafist afturvirkra greiðslna frá árinu 2004 fram að þeim tíma sem hann hafi fengið endurhæfingarlífeyri sem hafi verið nokkrum misserum síðar. Stofnunin telji að engin ný gögn hafi komið fram en því sé kærandi algjörlega ósammála. Hann krefjist enn sem áður afturvirkra greiðslna frá árinu 2004 fram að þeim tíma sem hann hafi fengið endurhæfingarlífeyri sem hafi verið nokkru síðar.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að ekki séu komnir þrír mánuðir frá ósk um endurupptöku máls eins og stofnunin álíti. Kærandi miði við 28. desember 2015 þegar málinu hafi lokið hjá umboðsmanni Alþingis. Hann hafi sótt um endurupptöku hjá stofnuninni 28. febrúar 2016.

Tryggingastofnun ríkisins vilji meina að ekki séu veigamiklar ástæður fyrir hendi til að taka mál hans upp. Því sé hann algjörlega ósammála. Hann hafi komið með fjölmörg gögn þegar hann hafi óskað endurupptöku málsins 28. febrúar 2016 og þá hafi hann verið búinn að skila inn vottorði árið 2004 þegar hann hafi upphaflega óskað eftir endurhæfingarlífeyri. Því séu veigamikil gögn í málinu sem sanni veikindi hans fyrir árið 2007 og nýjar ástæður og rök fyrir hendi til að taka málið upp.

Kærandi mótmæli því að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi veitt Tryggingastofnun ríkisins aukafrest til andmæla en samkvæmt tölvupósti sem hann hafi fengið frá nefndinni hafi honum verið sagt að með frestinum væru meiri líkur á því að stofnunin væri að koma til móts við hann. Það hafi ekki orðið raunin. Hann sem aðili að málinu hafi átt að samþykkja þennan frest. Hann hafi því farið fram á að úrskurðarnefnd benti sér á þau lög sem liggi að baki fresti sem þessum og hvort rétt sé að ekki hafi átt að bera ákvörðun þar um undir kæranda.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að beiðni kæranda um endurupptöku hafi verið vísað frá þar sem sambærilegu erindi hafi verið synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júlí 2015.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um rétt aðila máls til að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 6. gr. sömu laga.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi notið endurhæfingarlífeyris frá 1. júní 2007 til 30. nóvember 2008. Með örorkumati frá 5. desember 2008 hafi honum verið metinn örorkulífeyrir frá 1. desember 2008 til 31. október 2010. Matið hafi síðar verið framlengt.

Kærandi hafi farið fram á með bréfi, dags. 10. maí 2015, að fá endurupptekið örorkumat aftur í tímann en ósk hans hafi verið synjað með bréfi, dags. 9. júlí 2015, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem meira en ár hafi verið liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað hafi verið endurupptöku á, auk þess sem krafan hafi hugsanlega verið fyrnd.

Kærandi hafi kært synjun endurupptöku örorkumatsins en með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 204/2015 hafi ákvörðun stofnunarinnar þar um verið staðfest. Í úrskurðinum hafi eftirfarandi komið fram:

„Verður ekki séð af gögnum málsins að „veigamiklar ástæður mæli með því“ að beiðni kæranda um endurupptöku máls verði tekin til greina. Rétt þykir að árétta að þó að veigamiklar ástæður hefðu mælt með því að endurupptaka mál kæranda, þá hefði hann ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar bætur tvö ár aftur í tímann þar sem kærandi naut endurhæfingarlífeyris í átján mánuði, þ.e. frá 1. júní 2007 fram að þeim tíma er hann uppfyllti skilyrði staðals um hæsta örorkustig og átti þá rétt á greiðslu örorkulífeyris. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 getur einstaklingur ekki fengið bæði örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri greiddan á sama tíma. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að setja það sem skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur. Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007, er endurhæfingarlífeyrir greiddur þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Því var það mat Tryggingastofnunar að ekki væri tímabært að meta kæranda til örorku fyrr en með örorkumati þann 5. desember 2008.“

Úrskurðarnefndin hafi einnig vísað til þess að réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum, sbr. lög um fyrningu kröfuréttinda. Beiðni kæranda hafi borist sex og hálfu ári eftir að honum hafi verið tilkynnt niðurstaða stofnunarinnar.

Kærandi hafi á ný óskað eftir endurupptöku örorkumats hans með beiðni, dags. 28. febrúar 2016. Með vísan til þess sem að framan sé rakið um að erindinu hafi áður verið synjað og sú synjun staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi erindi kæranda verið vísað frá með bréfi, dags. 22. mars 2016, enda ekkert breyst frá fyrri ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar frávísun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um endurupptöku örorkumats, dags. 5. desember 2008.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. sömu greinar segir að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum, nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Tryggingastofnun ríkisins vísaði endurupptökubeiðni kæranda frá á þeirri forsendu að sambærilegri beiðni kæranda hefði verið synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júlí 2015. Byggt var á því að engar forsendur hefðu breyst frá þeirri ákvörðun. Úrskurðarnefnd telur að þrátt fyrir að sambærilegu erindi hafi áður verið synjað hafi stofnuninni borið að taka afstöðu til þess hvort skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga væri uppfyllt með hliðsjón af nýrri beiðni kæranda um endurupptöku og þeirra gagna sem henni fylgdu. Engar takmarkanir eru á því hversu oft er hægt að óska endurupptöku máls og ekki verður séð að neinir formannmarkar séu á endurupptökubeiðni kæranda sem gefa tilefni til frávísunar. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar um að vísa frá beiðni kæranda um endurupptöku felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnuar ríkisins til nýrrar meðferðar.

Í tölvupósti kæranda, dags. 10. maí 2015, til úrskurðarnefndar velferðarmála eru gerðar athugasemdir við að nefndin hafi veitt Tryggingastofnun ríkisins frest til þess að skila greinargerð í málinu.

Úrskurðarnefnd óskaði eftir greinargerð stofnunarinnar með tölvupósti 8. apríl 2016 og var þess óskað að hún myndi berast innan tveggja vikna. Með tölvupósti stofnunarinnar, dags. 26. apríl 2016, til úrskurðarnefndar var óskað eftir fresti til 29. apríl 2016 til þess að skila umbeðinni greinargerð. Frestbeiðni stofnunarinnar var samþykkt. Greinargerðin er dagsett 2. maí 2016 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2016. Að þessu virtu liggur fyrir að greinargerð stofnunarinnar var send kæranda til kynningar 25 dögum eftir að beiðni úrskurðarnefndar um greinargerðina var lögð fram. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál nema sérstakar ástæður hamli, og skal kærandi þá upplýstur um ástæður tafar og hvenær vænta megi úrskurðar. Með hliðsjón af þeim afgreiðslutíma sem úrskurðarnefndinni er markaður lögum samkvæmt til úrlausnar mála telur nefndin að ekki hafi verið úr hófi að veita umræddan frest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá endurupptökubeiðni A, er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum