Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 567/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 567/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110018

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. nóvember 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2018, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að sér verði veitt ótímabundið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 58. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk veitt dvalarleyfi á Íslandi fyrir maka Íslendings þann 27. febrúar 2014 með gildistíma til 26. febrúar 2015. Kærandi fékk það leyfi endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 26. febrúar 2018. Þann 12. janúar 2018 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2018, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 8. nóvember 2018 og kærandi kærði ákvörðunina þann sama dag til kærunefndar útlendingamála. Þann 6. desember sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar reifaði stofnunin þau skilyrði sem væru fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal þeirra skilyrða væri að umsækjandi sýndi að framfærsla hans hefði verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laganna. Þegar trygg framfærsla sé metin þá styðjist stofnunin við lágmarksframfærslustuðul velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Líkt og fram komi í b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga teljist greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga ekki til tryggrar framfærslu. Samkvæmt framlögðum gögnum hafi verið ljóst að tekjur kæranda og maka hennar samkvæmt skattaframtölum næðu ekki lágmarksframfærslu og því uppfyllti kærandi ekki skilyrði ákvæðis b-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna um trygga framfærslu á dvalartíma sínum, þ.e. síðustu fjögur ár. Breytti þar engu þótt kærandi hafi náð lágmarksframfærslu árið 2018 enda þurfi skilyrðið um trygga framfærslu að vera uppfyllt öll árin.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé fjárfestir og hafi fjárfest í fyrirtækjum hérlendis frá komu sinni til Íslands. Þá hafi hún einnig fjárfest í fyrirtækjum erlendis, s.s. í Bretlandi. Einnig hafi hún nýlega gert ráðningarsamning við ferðaskrifstofu, sem hún sé jafnframt 50% hluthafi í. Kærandi byggir á því að hún uppfylli skilyrði 58. gr. laga um útlendinga og að stofnunin hafi við ákvörðunartöku ekki gætt lögmætisreglunnar, málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga, jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga, andmælareglu 13. gr. sömu laga og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Reifar kærandi næst málsástæður sínar fyrir því að hún uppfylli öll skilyrði um veitingu ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 58. gr. laga um útlendinga.

Byggir kærandi á því að framfærsla hennar hafi alltaf verið trygg og hafi sú staðreynd ekki breyst. Í fyrsta lagi vísar hún til þess að hvorki hún né eiginmaður hennar hafi þegið framfærslu frá sveitarfélagi sínu sl. 4 ár. Í öðru lagi vísar hún til þess að hún eigi nægar innistæður á bankareikningum sínum hérlendis og erlendis eins og fyrirliggjandi gögn sýni. Bendir kærandi á að í hvert skipti sem dvalarleyfi hennar hafi verið útgefið og endurnýjað hafi hún þurft að uppfylla skilyrði a-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga um trygga framfærslu og hafi hún sýnt fram á slíkt með framlagningu gagna yfir eigið fé bæði hérlendis og erlendis. Ekki sé að finna nákvæma skilgreiningu á tryggri framfærslu í skilningi b-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna í ákvæðinu sjálfu eða í lögskýringargögnum en fyrirliggjandi gögn um fjárhagsstöðu hennar sýni fram á að hún hafi verið með og sé með trygga framfærslu í skilningi b-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna.

Tekur kærandi fram að hún hafi verið með skráð lögheimili á Íslandi síðan 5. desember 2013 og hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann [...] 2013. Hafi kærandi dvalið hér á landi samfellt sl. 5. ár. Uppfylli hún því skilyrði b-liðar 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá uppfylli kærandi skilyrði c-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna um íslenskunámskeið og eigi engin ólokin mál í refsivörslukerfinu eða til meðferðar sem leitt geti til brottvísunar, sbr. d- og e-lið 1. mgr. 58. gr. laganna. Að framangreindu virtu uppfylli hún öll skilyrði 58. gr. laga um útlendinga um veitingu ótímabundins dvalarleyfis. Óskar kærandi eftir því að kærunefndin bæti úr töfum og öðrum ágöllum á málsmeðferð Útlendingastofnunar með því að leggja heildstætt mat á umsókn hennar og leggi fyrir stofnunina að veita henni dvalarleyfi hér á landi í stað þess að leggja fyrir stofnunina að taka málið til efnismeðferðar á ný.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sýna fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Í a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að í undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá kröfu um skilyrði vegna framfærslu, sbr. b-lið 1. mgr., ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í athugasemdum við 58. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því er síðar varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að í 2. mgr. 58. gr. sé í a-lið gert ráð fyrir sams konar undanþágu og í 56. gr. laganna um framfærslu á umsóknartíma ef sýnt er að slíkt ástand sé tímabundið. Í lögskýringargögnum með 56. gr. laganna segir m.a. að samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins geti ráðherra með reglugerð sett nánari reglur um framfærslu, þ.m.t. um hvað teljist trygg framfærsla, við hvaða upphæðir skuli miða, en þær skuli þó aldrei vera lægri en lágmarksframfærsla sveitarfélaga kveði á um, hvernig framfærslu skuli háttað, svo og í hvaða tilvikum heimilt sé að víkja frá reglunum. Ráðherra hefur ekki úfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla.

Samkvæmt skattframtali árið 2015, vegna tekna árið 2014, gaf maki kæranda upp launatekjur erlendis frá að fjárhæð [...] kr. en kærandi [...] kr. í fjármagnstekjur. Tekjur hjónanna voru því samtals [...] kr. fyrir árið 2014. Samkvæmt skattframtali árið 2016, vegna tekna árið 2015, gaf maki kæranda upp launatekjur erlendis frá að fjárhæð [...] kr. en kærandi [...] kr. í fjármagnstekjur. Tekjur hjónanna voru því samtals [...] kr. fyrir árið 2015. Samkvæmt skattframtali 2017, vegna tekna árið 2016, gaf maki maki kæranda upp launatekjur erlendis frá að fjárhæð [...] kr. en kærandi [...] kr. í fjármagnstekjur. Tekjur hjónanna voru því samtals [...] kr. fyrir árið 2016. Auk framangreinds lagði kærandi fram staðfest bankayfirlit tveggja gjaldeyrisreikninga í Íslandsbanka, dags. 12. janúar 2018. Samanlagt eru reikningarnir samtals að fjárhæð [...] kr. miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands þann 12. janúar 2018. Þá er í gögnum sem kærunefnd barst frá kæranda þann 6. desember sl., reikningsyfirlit frá Íslandsbanka vegna eiginmanns kæranda, með innistæðu að fjárhæð [...] kr. og reikningsyfirlit kæranda frá [...] sem tilgreinir fjárhæð upp á [...] evrur.

Þar sem ráðherra hefur ekki útfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla í skilningi b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, líkt og hann hefur heimild til skv. 4. mgr. 56. gr. laganna, telur kærunefnd að ekki sé unnt við mat á tryggri framfærslu að miða við ákveðna fasta lágmarksupphæð, s.s. lágmarksviðmið sveitarfélaga, heldur þurfi að fara fram heildstætt mat á því hvort framfærsla útlendings hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. fyrrgreint ákvæði. Við slíkt mat beri m.a. að skoða hvort útlendingur hafi notið félagslegrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi og hversu stór hluti af framfærslu útlendings sú aðstoð hafi verið. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa kærandi og maki hennar ekki notið félagslegrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum. Þá hefur kærandi lagt fram gögn um innistæður á bankabókum erlendis vegna áranna 2014-2017. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar, eftir heildstæða skoðun á gögnum málsins, að framfærsla kæranda hafi verið trygg á dvalartíma hennar og að hún geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð óskaði kærandi sérstaklega eftir því að kærunefnd tæki afstöðu til veitingar ótímabundins dvalarleyfis á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga í stað þess að vísa málinu til nýrrar meðferðar til Útlendingastofnunar. Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Þótt fallast megi á það með kæranda að töf hafi verið á meðferð umsóknar kæranda hjá Útlendingastofnun er það mat kærunefndar að réttaröryggi hennar sé betur tryggt með því að stofnunin taki afstöðu til annarra skilyrða 58. gr. laganna, sem eftir atvikum getur þá sætt endurskoðun hjá kærunefnd. Þykir því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s application.

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum