Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2008 Innviðaráðuneytið

Drög að endurskoðaðri reglugerð um skoðun ökutækja til umsagnar

Drög að endurskoðaðri reglugerð um skoðun ökutækja eru nú til umsagnar á vef samgönguráðuneytis. Frestur til að skila umsögnum um ofangreind reglugerðardrög er til 14. nóvember og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Með breytingum sem gerðar voru á umferðarlögum nr. 50/1987 á Alþingi síðastliðið vor kemur til framkvæmda ákvæði um að innheimta vegi gjald af þeim sem vanrækja að færa ökutæki til skoðunar. Því var nauðsynlegt að endurskoða núgildandi reglugerð nr. 378/1998 og eru helstu breytingarnar sem hér segir:

Lagt verður á gjald, vanrækslugjald, ef ökutæki er ekki fært til skoðunar á tilskildum tíma í samræmi við ákvæði 67. grein umferðarlaga.
Gert er ráð fyrir að skoðunartíðni ökutækja breytist þannig að nú verður ökutæki skoðað fyrst á fjórða ári frá skráningu og síðan á tveggja ára fresti. Þetta er í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um skoðanir ökutækja frá árinu 1996. Árlega verða skoðaðar stærri bifreiðar og bifreiðar sem notaðar eru í atvinnuskyni.
Gert er ráð fyrir að skoðuð verði öll ökutæki nema dráttarvélar og torfærutæki. Þannig bætast hjólhýsi og tjaldvagnar við þau ökutæki sem nú eru skoðunarskyld.
Skerpt er á reglum um vegaskoðun stærri ökutækja en í henni felst að fram fari skipulagt eftirlit skoðunarmanns á vegum út í samvinnu við lögreglu.
Bætt er inn nýrri tegund skoðunar, skráningarskoðun sem fram fer áður en ökutæki er skráð.
Mikilvæg breyting frá núgildandi reglugerð er að nú er þess ekki krafist að skoðunarstofur séu faggiltar. Ekkert er því til fyrirstöðu að eigendur fái faggildingu á starfsemi sína en samkvæmt reglugerðinni er það ekki lagaskylda. Þess í stað skal skoðunarstofa uppfylla viðeigandi ákvæði í reglugerðum settum samkvæmt umferðarlögum en við mat á því hvort skoðunarstofa uppfylli kröfur skal hafa staðalinn ÍST EN ISO/IEC 17020:2004, utan 4. kafla hans til hliðsjónar.
Gert er ráð fyrir að skoðun á ökurita geti farið fram við reglubundna skoðun ökutækis.

Um síðustu áramót voru skráð ökutæki hér á landi 258.009, þar af voru 25.128 óskoðuð eða tæplega 10% af heildarökutækjafjölda landsmanna. Þetta er með öllu óviðunandi ástand út frá umferðaröryggissjónarmiðum en skilvirk úrræði hefur til þessa skort til eftirfylgd með því að óskoðuð ökutæki séu færð til skoðunar. Með þessum breytingu á lögunum og reglugerðinni má vænta þess að óskoðuðum ökutækjum í umferð muni fækki verulega og að þetta fyrirkomulag muni almennt leiða til aukins umferðaröryggis.


Drög að reglugerð um skoðun ökutækja.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum