Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rekstur Keflavíkurflugvallar ohf. undirbúinn

Undirbúningur að rekstri Keflavíkurflugvallar ohf. sem tekur við rekstri Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um næstu áramót gengur vel. Fer hann annars vegar fram á vegum stjórnar félagsins og hins vegar stýrihóps samgönguráðuneytisins.

Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur var ráðinn forstjóri nýja félagsins og tók hann til starfa snemma í október. Frá stofnun félagsins á liðnu sumri hafa bæði stjórn félagsins og stýrihópur, sem samgönguráðuneytið skipaði, borið ábyrgð á undirbúningi að rekstri félagsins. Á vegum stýrihópsins voru skipaðir sex starfshópar sem hver um sig hefur undirbúið ákveðin svið rekstrarins svo sem ýmislegt er varðar stofnun félagsins, stofnefnahagsreikning, starfsmannamál, skipulagsmál, um samskipti við utanríkisráðuneytið og hernaðaryfirvöld og um verkefni félagsins, svo sem flugleiðsögumál.


Flugleiðsaga til Flugstoða

Meðal þess sem ákveðið hefur verið er að flugleiðsaga flytjist frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli til Flugstoða ohf. Þá munu starfsmenn lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli sem annast hafa öryggisgæslu flytjast til hins nýja félags en aðrir hópar sem starfað hafa hjá Flugmálastjórn og Flugstöðinni færast til Keflavíkurflugvallar ohf.

Í stýrihópinn voru valdir fulltrúar frá þeim sem hafa forræði málsins, afl til framkvæmda og stærstu áhrifaaðila. Jafnframt var miðað við að í hópnum væri þekking á nauðsynlegustu sviðum svo sem lögfræði, flugtæknimálum og rekstrarmálum. Stýrihópinn skipa:

1. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis.
2. Jón Gunnarsson, stjórnarformaður FLE og Keflavíkurflugvallar ohf.
3. Karl Alvarsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu.
4. Friðfinnur Skaftason, starfsmaður í samgönguráðuneytinu.
5. Elín Árnadóttir, forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf.
6. Stefán Thordersen, flugvallarstjóri Keflavíkurflugvallar.
7. Björn Óli Hauksson, forstjóri Keflavíkurflugvallar ofh.

Starfshóparnir sex eru á sama hátt skipaðir sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum svo sem frá samgönguráðuneyti, fjármálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti, fulltrúum stéttarfélaga og sveitarfélaga á Suðurnesjum og fyrirtækjanna sem sameinuðust í Keflavíkurflugvelli ohf. Hóparnir hafa fundað reglulega síðustu mánuði og eru sumir hverjir komnir á leiðarenda með verkefni sín en aðrir eiga ólokið nokkrum verkefnum.

Stýrihópurinn hefur haldið fundi með starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli og í Leifsstöð og starfshóparnir hafa haft samráð við ýmsa aðila í tenglsum við vinnu sína. Þá hefur samgönguráðherra meðal annars átt sérstakan fund með flugumferðarstjórum vegna fyrirhugaðs flutnings þeirra til Flugstoða.

Stofnfundur Keflavíkurflugvallar ohf. var haldinn 26. júní. Stjórn félagsins skipa: Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Pétur J. Eiríksson. Varamenn eru: Eysteinn Eyjólfsson, Guðlaug Finnsdóttir, Jón Norðfjörð, Björk Guðjónsdóttir og Magnea Guðmundsdóttir.

Sem fyrr segir tekur nýja félagið formlega við rekstrinum um áramótin.


 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira