Hoppa yfir valmynd
3. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Minnkandi vímuefnanotkun meðal 10. bekkinga

Hlutfall íslenskra nemenda í 10. bekk sem reykja daglega hefur lækkað um nær helming á 12 árum, úr 21% árið 1995 niður í 11% árið 2007. Á sama tíma hefur hlutfall 10. bekkinga sem hafa orðið drukknir um ævina lækkað úr 64% árið 1995 í 42% árið 2007. Þá hefur haldið áfram að draga úr hassneyslu ungmenna eftir umtalsverða aukningu frá 1995 til 1999. Í dag segjast 9,4% 10. bekkinga hafa reykt hass um ævina sem er svipað hlutfall og árið 1995 þegar 9,8% sögðust hafa reykt hass.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD) sem kynnt var á fundi Lýðheilsustöðvar í gær. Á fundinum kom meðal annars fram að skýringu á minnkandi reykingum ungmenna má rekja til aukins aðhalds stjórnvalda, skólastjórnenda og foreldra, til forvarnarstarfs á vegum ýmissa aðila og loks til þess að dregið hefur úr áfengisneyslu þessa hóps, en vitað er að margir reykja fyrstu sígarettuna undir áhrifum áfengis.

„Niðurstaða ESPAD rannsóknarinnar sýnir að við erum að ná góðum árangri í forvörnum á Íslandi. Forvarnarstarf hvort sem það er á vegum opinberra aðila, foreldra, unglinga eða grasrótarsamtaka er að skila sér“ segir Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra. Hún segir ástæðu til að „hrósa“ íslenskum ungmennum sem upp til hópa sýna ábyrga hegðun og sem í auknum mæli neyta hvorki áfengs né tóbaks.

ESPAD rannsóknin er samstarfsverkefni fræðimanna í rúmlega 40 Evrópulöndum sem fram fer á fjögurra ára fresti og hefur Ísland tekið þátt í rannsókninni frá upphafi árið 1995. Hér á landi er rannsókninni stýrt af Þóroddi Bjarnasyni prófessor við Háskólann á Akureyri í samvinnu við Lýðheilsustofnun. Um 82% nemenda sem voru í 10. bekk í grunnskóla svöruðu könnuninni þegar hún var lögð fyrir í febrúar og mars síðast liðnum.

Úthlutað úr Forvarnarsjóði

Þann góða árangur sem ESPAD rannsóknin staðfestir má meðal annars rekja til þess ágæta starfs sem Forvarnarsjóður styrkir. Á fundi Lýðheilsustöðvar var greint frá úthlutunum úr Forvarnasjóði í ár. Lýðheilsustöð hefur umsjón með sjóðnum og úthlutunum úr honum, að fengnu áliti áfengis- og vímuvarnaráðs og samþykki heilbrigðismálaráðherra. Auglýst var eftir umsóknum úr sjóðnum í janúar sl. og barst alls 101 umsókn að upphæð 143.693.508 kr. Í ár var úthlutað úr Forvarnasjóði 58.240.000 kr. til 63ja verkefna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum