Hoppa yfir valmynd
26. júní 2018 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Forgangsmarkmið Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samþykkt

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að forgangsraða 65 af 169 undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna við innleiðingu þeirra á Íslandi. Þá samþykkti ríkisstjórnin einnig að opnuð verði samráðsgátt á vef Stjórnarráðsins um Heimsmarkmiðin þar sem öllum verður frjálst að koma áherslum, verkefnum og hugmyndum sínum tengdum Heimsmarkmiðunum á framfæri til verkefnastjórnar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Er það gert til að tryggja gott samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnvalda og hagsmunaaðila um markmiðin, þar á meðal fyrirtækja, félagasamtaka, sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, nemenda og einstaklinga.

Stöðuskýrsla verkefnastjórnar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna var einnig kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í mars 2017 að skipuð yrði verkefnastjórn vegna innleiðingar Íslands á markmiðunum sem yrði meðal annars falið að rita skýrslu um stöðu Íslands gagnvart öllum markmiðunum á innlendum og erlendum vettvangi.

Heimsmarkmiðin 17 og undirmarkmiðin 169 eiga flest að einhverju leyti við um Ísland. Forgangsröðunin tekur mið af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar auk þess sem þeim markmiðum var forgangsraðað sem krefjast mestrar vinnu af hálfu stjórnvalda til að þeim megi ná fyrir árið 2030. Stjórnvöld stefna samt sem áður að því að öll markmið sem eiga við um Ísland náist fyrir árið 2030.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna í september 2015 og tóku gildi í byrjun árs 2016. Mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf eru fimm meginstef markmiðanna og með þeim er jafnframt lögð áhersla á allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar; hina félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira