Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 553/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 553/2022

Miðvikudaginn 1. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 28. nóvember 2022, kærði B lögfræðingur, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2022 um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 4. júlí 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, 7. október 2022, var samþykkt að greiða kæranda uppbót til bifreiðakaupa en með bréfi, dags. 18. október 2022, var kæranda synjað um styrk til bifreiðakaupa. Með beiðni þann 15. nóvember 2022 óskaði kærandi eftir því að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja henni um styrk til bifreiðakaupa yrði endurskoðuð. Með tölvubréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að stofnunin teldi ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun og að hún skyldi standa óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. desember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru að kærð sé synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt [7. gr. reglugerðar nr. 905/2021].

Kærandi hafi sótt um styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 4. júlí 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um styrk hafi verið synjað. Þessari ákvörðun Tryggingastofnunar hafi kærandi mótmælt með tölvupósti þann 17. nóvember 2022. Tölvupóstur hafi svo borist kæranda þann 23. nóvember 2022 þar sem hún hafi verið upplýst um að fyrri ákvörðun stæði.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hafi ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sem hafi tekið gildi 1. september 2021. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar sé líkamleg hreyfihömlun skilgreind á þann hátt að um sé að ræða sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða annað sambærilegt.

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og til dæmis noti tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Ágreiningur þessa máls lúti að því hvort kærandi uppfylli tilgreind skilyrði. Að mati Tryggingastofnunar uppfylli kærandi ekki skilyrði reglugerðar þar sem hún sé ekki í hjólastól og/eða noti tvær hækjur en samkvæmt Tryggingastofnun sé það skilyrði fyrir veitingu styrksins. Við mat stofnunarinnar á hreyfihömlun hafi legið fyrir vottorð C heimilislæknis, dags. 30. júní 2022. Í vottorðinu segi svo um lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda:

„Saga um máttarminnkun í X líkamshelming í kjölfar heilablæðingar við X ára aldur sem og skerta sjón, mígreni og höfuðverki einnig í kjölfarið öryrki í kjölfarið.

Verkjuð í X hné. Rannsóknir benda til seronegativs arthritis. Einnig læsingar og smellir, fór í hnéspeglun fyrir ca ári og ekki verið nein betrun í kjölfarið. Göngugeta viðvarandi skert, notar hækju við stigagang vegna máttleysis, fær sára verki í hnén eftir göngu á jafnsléttu u.þ.b. 50 metra. Er einnig með astma og mæðist verulega við gang.

Hjartsláttaróþægindi og aukaslög, skert þrek nýverið. Áreynslupróf eitthvað minnkað þrek og vægar ST-breytingar. Holter sýndi mjög mikið af aukaslögum. “

Við mat á göngugetu haki svo umræddur læknir við að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að hún verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Varðandi hjálpartæki þá haki sami læknir við að hún notist hvorki við hjólastól né tvær hækjur en haki þar við „annað.“ Í rökstuðningi skrifi læknirinn að kærandi notist við gigtarhækju við tröppugang en að hún sé annars án hjálpartækja en gönguþrek sé skert.

Samkvæmt tölvupósti frá Tryggingastofnun þann 23. nóvember 2022 telji stofnunin að þó svo að dæmi 7. gr. reglugerðar um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða séu ekki eiginleg skilyrði fyrir veitingu styrks samkvæmt greininni þá búi dæmin til viðmið til grundvallar mati á styrkveitingu og að viðkomandi umsækjandi uppfylli ekki það viðmið að öllu leyti þar sem gigtarhækja við tröppugang sé ekki sambærilegt hjálpartæki og hjólastóll eða tvær hækjur.

Ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð kveði á um fjárhagsleg réttindi til handa hreyfihömluðum einstaklingum vegna bifreiðakaupa þar sem nauðsyn bifreiðar fyrir viðkomandi einstakling sé gert að skilyrði. Því sé mikilvægt að Tryggingastofnun, sem taki umsóknir til skoðunar, meti málin einstaklingsbundið með tilliti til allra aðstæðna. Samkvæmt meginreglunni um skyldubundið mat beri stjórnvaldi að meta með einstaklingsbundnum hætti þegar lög geri ráð fyrir slíku. Með því að setja slíka verklagsreglu sé Tryggingastofnun að breyta efni lagaákvæðisins sem mæli fyrir um hið lögbundna mat sem fram þurfi að fara af þeirra hálfu, en það brjóti í bága við formþátt lögmætisreglunnar, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 19. desember 2008 í máli nr. 5328/2008.

Samkvæmt því sem að framan sé rakið telji kærandi að hún uppfylli þau skilyrði laga og reglugerða sem settar séu með stoð í lögum um styrk til bifreiðakaupa.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla á umsókn um styrk vegna bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, sbr. ákvörðun Tryggingastofnunar frá 18. október 2022.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerðinni skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Við matið skuli einkum litið til eftirfarandi atriða:

„1.  Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.

2.    Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.

3.    Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.

4.    Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.“

Í 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerðinni. Þá sé heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Í 1. og 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vanti líkamshluta, til dæmis að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi. Ákvæði 1. mgr. gildi einnig um framfærendur hreyfihamlaðra barna sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þá skuli sýna fram á þörf fyrir bifreið til að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjónustu innan heilbrigðiskerfisins eða í skóla. Einnig komi fram í 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar að fjárhæð styrks sé 1.440.000 kr.

Í 9. gr. reglugerðarinnar sé svo að finna ákvæði er varði versnun á sjúkdómsástandi. Fram komi að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót vegna 6. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geti þó aldrei verið hærri en samtals 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.

Kærandi hafi sótt um styrk/uppbót samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 4. júlí 2022.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um styrk til bifreiðakaupa hafi verið synjað. Í bréfi Tryggingastofnunar komi fram að samkvæmt reglugerð þurfi einstaklingur að vera verulega hreyfihamlaður og vera bundinn hjólastól og/eða nota tvær hækjur að staðaldri til að eiga rétt á bílastyrk.

Kærandi hafi síðan óskað eftir frekari rökstuðningi og hafi því erindi verið svarað með tölvupósti, dags. 15. nóvember 2022, og svo með nánari útskýringum, dags. 23. nóvember 2022.

Í svari Tryggingastofnunar sé vikið að því að þó að í 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða komi ekki beinlínis fram eiginleg skilyrði fyrir veitingu styrks þá búi dæmin til viðmið til grundvallar mati á styrkveitingu. Þá komi fram að kærandi uppfylli ekki það viðmið að öllu leyti þar sem gigtarhækja við tröppugang sé ekki sambærilegt hjálpartæki og hjólastóll eða tvær hækjur. Einnig komi fram í svarbréfi stofnunarinnar að göngugeta kæranda sé minni en 400 metrar samkvæmt læknisvottorði og að slík hreyfihömlun sé grundvöllur uppbótar vegna kaupa á bifreið samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar.

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og til dæmis noti tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 905/2021 séu síðan tiltekin þau skilyrði sem meta eigi við ákvörðun um uppbót og styrki vegna bifreiða. Meta þurfi hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna. Einkum sé litið til þess að viðkomandi þurfi á bifreið að halda til að komast ferða sinna, til vinnu, skóla eða til reglubundinnar endurhæfingar eða læknismeðferðar.

Með umsókn, dags. 10. september 2022, hafi kærandi sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar, auk þess að sækja um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa. Einnig hafi verið merkt við á umsókn að óskað væri eftir endurskoðun á fyrra hreyfihömlunarmati þar sem versnun á færni væri til staðar hjá umsækjanda.

Skilyrði séu uppfyllt fyrir veitingu uppbótar vegna kaupa og reksturs bifreiðar á þeim forsendum að göngugeta sé undir 400 metrum. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 30. júní 2022, auk eldri gagna hjá Tryggingastofnun.

Í fyrrgreindu læknisvottorði komi fram að máttarminnkun sé í X hlið líkamans í kjölfar heilablæðingar við X ára aldur sem og skert sjón og mígreni, auk höfuðverkja sem einnig hafi fylgt og að kærandi hafi orðið öryrki í kjölfarið. Í vottorðinu komi fram að hún sé verkjuð í X hné og rannsóknir bendi til seronegativs. Einnig komi fram læsingar og smellir. Hún hafi farið í hnéliðspeglun fyrir um ári og ekki hafi komið fram nein betrun í kjölfarið. Göngugeta sé viðvarandi skert og notist kærandi við hækju við stigagang vegna máttleysis og einnig fái hún sára verki í hnén eftir göngu á jafnsléttu eftir um það bil 50 metra. Í læknisvottorði komi einnig fram að hún sé með astma og mæðist verulega við gang. Kærandi hafi hjartsláttaróþægindi, aukaslög og skert þrek. Áreynslupróf hafi sýnt eitthvað minnkað þrek og vægar ST- breytingar, auk þess sem hjartsláttarrafritun (Holter) hafi sýnt mjög mikið af aukaslögum.

Við mat á göngugetu komi fram í læknisvottorði að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Varðandi hjálpartæki sem umsækjandi noti sé hvorki merkt við á læknisvottorði að umsækjandi noti hjólastól né tvær hækjur heldur sé merkt við annað á vottorðinu. Í rökstuðningi fyrir notkun hjálpartækis komi fram í læknisvottorði að umsækjandi notist við gigtarhækju við tröppugang og að gönguþrek sé skert. Í mati læknis á batahorfum komi fram að ekki sé útlit fyrir neinn bata.

Við yfirferð málsins hafi réttur kæranda til styrks samkvæmt 7 gr. reglugerðarinnar verið skoðaður. Þegar veittur sé styrkur samkvæmt 7. gr. þurfi skilyrði að vera til staðar um að umsækjandi sé verulegar hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri. Engar upplýsingar hafi verið í læknisvottorði eða öðrum gögnum varðandi hjálpartæki til gangs aðrar en þær að umsækjandi notist við gigtarhækju við tröppugang.

Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar en ekki styrks samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar. Eftir að farið hafi verið yfir gögn málsins sé ekki hægt að sjá að kærandi sé verulega hreyfihömluð í þeim skilningi sem lagður sé í 7. gr. reglugerðarinnar, þ.e. sé sambærilega hreyfihömluð og einstaklingur sem sé bundinn hjólastól eða þurfi tvær hækjur.

Samkvæmt ofangreindum upplýsingum hafi skilyrði um hreyfihömlun verið talin uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks samkvæmt 7. gr. Ekki hafi heldur verið talið að um frekari versnun á færni hjá kæranda væri að ræða sem gæfi til kynna að styrkur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar ætti við.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. október 2022, vegna umsóknar um bifreiðakaup hafi kæranda verið tilkynnt að hreyfihömlun hafi verið metin á grundvelli fyrirliggjandi læknisvottorðs. Samkvæmt því sé göngugeta kæranda að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu af völdum fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða sambærilegra sjúkdóma. Forsendur séu því til staðar til þess að fá greidda uppbót vegna kaupa á bifreið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig komi fram að gildistími hreyfihömlunarmats sé frá 1. janúar 2005 og sé varanlegt.

Í fyrrgreindu bréfi Tryggingastofnunar komi fram að fjárhæð uppbótar sé 360.000 kr. og geti verið greidd á tímabilinu 1. október 2022 til 30. september 2023, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Af kæru megi ráða að kærandi sé fyrst og fremst að gera athugasemdir við fjárhæð uppbótarinnar en ekki við hreyfihömlunarmatið sem slíkt. Tryggingastofnun vilji því taka fram að fjárhæð uppbótar samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé bundin við 360.000 kr. Einu undantekninguna á því sé að finna í 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, en þar komi fram að heimilt sé að veita þeim sem séu að kaupa bifreið í fyrsta sinn 720.000 kr. uppbót til bifreiðakaupa.

Það eigi ekki við í tilfelli kæranda, sbr. yfirlit yfir bifreiðaeign hennar, og þar af leiðandi sé eingöngu heimilt að greiða henni 360.000 kr.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við almannatryggingalög, reglugerð nr. 905/2021, sambærileg ákvæði fyrri reglugerða nr. 170/2009 og nr. 752/2002 og í samræmi við fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 297/2017.

Eftir að farið hafi verið yfir mál kæranda telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[…]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er líkamleg hreyfihömlun skilgreind á eftirfarandi máta:

„Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“

Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa að fyrir liggi mat sem staðfesti hreyfihömlun. 

Þá er í 7. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Svohljóðandi er 1. mgr. þeirrar greinar:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.“

Í máli þessu liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hefur samþykkt að forsendur séu til staðar til þess að fá greidda uppbót vegna kaupa á bifreið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Til skoðunar kemur hvort skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar um að einstaklingur þurfi að vera verulega hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir af orðalagi reglugerðarákvæðisins að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrðið um að teljast verulega hreyfihamlaður beri að horfa til þess hvort viðkomandi sé bundinn hjólastól og/eða þurfi að notast við tvær hækjur að staðaldri. Upptalning á hjálpartækjum er þannig tiltekin í dæmaskyni til skýringar á því hvað átt sé við með verulegri hreyfihömlun. Sú túlkun er einnig í samræmi við orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en þar er veiting styrks til bifreiðakaupa ekki bundin því skilyrði að umsækjandi þurfi að nýta sér hjálpartæki. Það er því ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir hins vegar af orðalagi reglugerðarákvæðisins að viðkomandi verði að vera hreyfihamlaður til jafns við þá sem hafa þörf fyrir framangreind hjálpartæki að staðaldri.

Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun séu uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Fyrir liggur læknisvottorð C, dags. 30. júní 2022, þar sem fram koma eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Arthrosis, unspecified

Arthrosis, unspecified

Máttleysi

Liðverkir

Asthma bronchiale

Hjartsláttaróþægindi“

Í lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda segir í læknisvottorðinu:

„Saga um máttarminnkun í X líkamshelming í kjölfar heilablæðingar við X ára aldur sem og skerta sjón, migreni og höfuðverki einig í kjölfarið

Öryrki í kjölfarið.

Verkjuð í X hné.

Rannsóknir benda til seronegativs arthritis.

Einnig læsingar og smellir , fór í hnéliðspelgun fyirr ca ári og ekki verið nein betun í kjölfarið. göngugeta viðarandi skert, notar gigtarhækju við stiga-gang vegna mátleysis, fær sára verki í hnén eftir göngu á jafnsléttu u.þ.m. 50 metra.

Bæklunarlæknar hafa ráðlagt liðbandaspelkur til verkjastillingar og stuðnings.

Er einnig með Astma og mæðist verulega við gang.

hjartsláttaróþægindi og aukaslög , skert þrek nýverið Áreynslupróf eitthvað minnkað þrek og vægar ST-breytingar. Holter sýndi mjög mikið af aukaslögum.“

Þá er merkt við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Merkt er við „annað“ um hjálpartæki sem kærandi noti að staðaldri og í rökstuðningi fyrir hjálpartækjanotkun segir í vottorðinu:

„notast við gigtrarhækju við tröppugang annars án hjálpartækja en gönguþrek skert.“

Í mati á batahorfum kæranda segir í vottorðinu:

„ekki útlit fyrir neinn bata.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi búi við skerta göngugetu. Af fyrrgreindu læknisvottorði C má ráða að kærandi notist við gigtarhækju við tröppugang en sé annars án hjálpartækja. Þá er tekið fram að gönguþrek kæranda sé skert. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af sjúkdómsástandi kæranda að hún sé hreyfihömluð til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um verulega hreyfihömlun.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2022 um að synja kæranda um styrk til kaupa á bifreið er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum