Hoppa yfir valmynd
23. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Velferð barna

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, fjallaði um helstu verkefni sem varða málefni barna og unnið hefur verið að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að undanförnu í ávarpi sem hún flutti á ráðstefnu velferðarnefndar Alþýðusambands Íslands sem haldið var í dag. Í ávarpi hennar kom fram að raunaukning fjárframlaga til verkefna á þessu sviði sem heyra undir ráðuneytið nemur um 45% frá tíð fyrri ríkisstjórnar, eða um 500 milljónum króna.

Ráðherra fjallaði um helstu efnisatriði þingsályktunar um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem hún lagði fyrir Alþingi fyrir rúmu ári, gerði grein fyrir stöðu verkefna sem áætlunin tekur til og sagði meðal annars: „Af auknu fé til einstakra verkefna má nefna aðgerðir til að stytta biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, aukinn stuðning við langveik börn, fjölbreyttari úrræði fyrir börn og ungmenni með hegðunar- og vímuefnavanda með áherslu á meðferð utan stofnana, auknar greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna og aukið fé til að sinna vímuvörnum. Rétt er að taka fram að aukin útgjöld vegna hækkunar barnabóta eru ekki reiknuð sem hluti af þeirri 500 milljóna króna aukningu sem ég hef rætt um hér.

Ég ítreka að nú hef ég einungis talað um fjármuni sem ráðstafað er af félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Önnur ráðuneyti hafa einnig sett fé til verkefna sem heyra undir aðgerðaáætlunina, svo sem til mennta- og heilbrigðismála. Nefni ég þar sérstaklega aukið fé til að stytta biðlista hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, niðurfellingu komugjalda barna á heilsugæslustöðvum og auknar barnabætur. Það er því óhætt að fullyrða að aldrei hefur meira fé verið varið til málefna barna en nú.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðuneytinu á ráðstefnu velferðarnefndarinnar



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum