Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2016 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samráð ESB vegna mengunar frá bílaumferð

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stendur nú fyrir samráði á tveimur sviðum vegna reglugerða um mengun frá bílaumferð. Annað samráðið fjallar um hvernig eigi að setja evrópskar reglur um að fylgjast með og miðla upplýsingum um eyðslu flutningabíla og rútubíla og mengun frá þeim. Hitt snýr að endurskoðun tveggja  reglugerða þar sem sett eru markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá einkabílum og sendibílum og settir fram staðlar þar um.

Samráð um losun gróðurhúsalofttegunda frá flutningabílum og rútum

Samráðið um hvernig setja eigi reglur á sviði eldsneytiseyðslu flutningabíla og rútubíla stendur til 28. október 2016.

Rekja má um 19% af losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins til flutninga á vegum. Um fjórðungur af því er frá flutningabílum þótt þeir séu aðeins um 5% af öllum ökutækjum innan ríkja sambandsins. Reiknað er með að þetta hlutfall muni hækka. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að um þessi ökutæki gildi svipaðar reglur og um léttari ökutæki þá eru engar sérstakar reglur um eldsneytisnýtingu þeirra né um hvernig fylgjast eigi með og skjalfæra megnun frá þeim eins og er til um léttari ökutæki.

Samráð um endurskoðun reglugerða um mengun frá einkabílum og sendibílum

Samráðið um endurskoðun reglugerða 443/2009 og 510/2011 um mengun frá einkabílum og sendibílum er undir yfirskriftinni Communication on a European Strategy for low-emission mobility eða stefna um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Samráðið stendur til 28. október 2016.

Ofangreindar reglugerðir hafa haft mikil áhrif en á grundvelli þeirra hefur komið fram margs konar tæknibúnaður til að draga úr eyðslu bifreiða á eldsneyti. Í febrúar 2015 var tilkynnt að þær yrðu endurskoðaðar og settir fram nýir staðlar og ný markmið um samdrátt í losun sem stefnt skyldi að eftir 2020. Þetta var síðan gert að hluta af áætlun sambandsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira