Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2001 Heilbrigðisráðuneytið

13. - 19. janúar 2001

Fréttapistill vikunnar
13. - 19. janúar 2001


Ráðherra á sjúkrahúsi

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var í fyrrakvöld, 17. janúar, lögð inn á hjartadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi til rannsóknar vegna brjóstóþæginda. Búist er við að hún verði á sjúkrahúsinu fram á, eða fram yfir helgi. Hjartalæknirinn sem annast ráðherra er Uggi Agnarsson.

Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis fjallar um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar
Fyrri umræðu umfrumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar lauk í gær, en heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á miðvikudaginn.Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis hóf umfjöllun um frumvarpið strax að þingfundi loknum. Í morgun kom til fundar við nefndina starfshópur sá sem ríkisstjórnin kallaði saman til að fara yfir dóminn og leggja fram tillögur um viðbrögð. Einnig komu á fund nefndarinnar fræðimenn í lögfræði, þ.á.m. prófessorar í lögfræði við Háskóla Íslands, og fleiri hafa verið kallaðir til, til að fara yfir málið. Búist er við því að heilbrigðis- og trygginganefnd ljúki störfum um eða eftir helgina og þá fer frumvarpið til annarrar umræðu á Alþingi.

Yfir 30 umsóknir um styrki til gæðaverkefna
Frestur til að sækja um styrki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til gæðaverkefna rann út 3. desember sl. Alls bárust 33 umsóknir víða að af landinu, frá heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og úr stjórnsýslunni, fyrir hátt í 20 milljónir króna. Sótt er um til fjölbreyttra verkefna, s.s. á klínísku sviði, vegna gæðahandbóka, staðlagerðar, fræðslu- og umbótastarfs o.fl. Styrkir til gæðaverkefna eru veittir í samræmi við áætlun ráðuneytisins í gæðamálum og eru samtals tvær milljónir króna til ráðstöfunar. Á fundi gæðaráðs 18. janúar var ákveðið að ganga endanlega frá úthlutunum styrkjanna 1. febrúar nk.

Yfirlýsing vegna ummæla Lyfjafræðingafélagsins um S-merkt lyf
Í kjölfar mótmæla Lyfjafræðingafélags Íslands vegna S-merktra lyfja hafa heilbrigðisráðuneytið, Lyfjastofnun og Tryggingastofnun ríkisins sent frá sér yfirlýsingu til skýringar málsins. Með reglugerðarbreytingu sem gerð var um áramótin hættir Tryggingastofnun greiðsluþátttöku í S-merktum lyfjum og verður fjármagn flutt til viðkomandi sjúkrahúsa þar sem ákvörðun um meðferð er tekin. Sjúkrahúsin sem um ræðir (aðallega LSH og FSA) munu gera þjónustusamning við apótek um afhendingu lyfjanna til sjúklinga. Á það jafnt við um sjúkrahúsapótek og önnur apótek. Í yfirlýsingunni segir: ,,Ekki verður séð að þetta mismuni sjúklingum og munu hagsmunir sjúklinga hafðir að leiðarljósi við alla framkvæmd. Fullur skilningur er á því, að upp geta komið tilvik, þar sem sjúklingur þarf á S-merktu lyfi að halda utan sjúkrahúss. Öll slík tilvik verða skoðuð, metin og leyst."
Sjá yfirlýsingu í heild>

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
19. janúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum